19.02.2009
Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni á Skagaströnd vilja sem fyrr ná til Húnvetninga og bjóða því upp á opið hús laugardaginn 21. febrúar kl. 13:00 að Fjörubraut 8.
Á því tæpa ári sem liðið er frá því að Nes-Listamiðstöðin tók til starfa hafa listamennirnir nokkrum sinnum boðið upp á opið hús. Alltaf hefur fjöldi fólks komið í heimsókn og notið þess að fræðast um hin ólíku listform sem unnið er að.
Á vegum listamiðstöðvarinnar eru sjö listamenn í febrúar. Þeir eru Natalia Black frá Slóvakíu, Lucas Gervilla frá Brasilíu, Michele Horrigan frá Írlandi, Ben Kingsley og Jessica Langley frá Bandaríkjunum, Sean Linch og Lucy Mckenna frá Írlandi.
19.02.2009
Auglýst hefur verið eftir umsóknum um stuðning frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Til greina koma verkefni sem unnin eru í samvinnu tveggja eða fleiri aðila og er sérstaklega hvatt til uppbyggingar samstarfs í anda klasa.
Verkefnin lúta að öðru hvoru:
Rannsóknum og menntun
Menningu og ferðaþjónustu
Umsóknir sendist fyrir 15. mars nk. til Vaxtarsamnings Norðurlands vestra, Faxatorgi 1, 550 Sauðárkróki.
Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar er að finna á vef SSNV, www.ssnv.is og hjá starfsmanni sjóðsins, Hjördísi Gísladóttur, Faxatorgi 1 á Sauðárkróki. Síminn hjá henni er 455 7931 og 893 8277.
17.02.2009
Á degi leikskólanna þann 6. febrúar síðast liðinn var opnuð listsýning Leikskólans Barnabóls í Landsbankanum á Skagaströnd. Við það tækifæri sungu börnin fyrir gesti og gangandi.
Sýningin í ár fjallar um kúrekana á sléttunni og má sjá hesta og kúreka í hinum ýmsu gerðum og marga með frábæran útbúnað.
Undanfarin ár hafa slíkar sýningar verið haldnar í bankanum og þær fjallað um ýmislegt úr nánasta umhverfi eins og t.d. fjallið okkar, Spákonufell, hrafninn, styttur bæjarins og fleira. Allt starfsmönnum og getsum til mikillar ánægju.
Landsbankinn býður alla hjartanlega velkomna í Landsbankann að skoða sýninguna.
17.02.2009
Síðasta laugardag viðraði vel til skíðaferða og Skagstrendingar gripu tækifærið og fjölmenntu á skíðasvæðið í Tindastóli.
Hér eru nokkrar myndir sem Ingibergur Guðmundsson tók af unga fólkinu sem ber sig svo fagmannlega.
Þess má að auki geta að daglegar rútuferðir eru alla laugardaga frá Skagaströnd á Tindastól.
Skíðasvæðið er opið um helgar frá 11 til 17 en 14 til 19 virka daga.
17.02.2009
Árdís Indriðadóttir og Davíð Bragi Björgvinsson sigruðu í spurningakeppninni Drekktu betur sem haldin var síðasta föstudag.
Þetta er í annað sinn sem þau sigra og mætti eflaust álykta sem svo að uppeldið hjá Árdísi hafi gagnast Davíð vel, en hann er sem kunnugt er sonur hennar.
Fjölmenni var sem fyrr í Kántrýbæ. Stjórnandi var Elva Dröfn Árnadóttir, kennari.
Meðfylgjandi myndir tók Ingibergur Guðmundsson.
05.02.2009
Einn listamanna í Nes-listamiðstöð, Ben Kinsley, hefur tekið sérstaka Panorama mynd af Skagaströnd á góðum vetrardegi. Myndin er tekin með sérstakri tækni þannig að hún er samansett úr 300 myndum þannig að mögulegt er að fá mjög skýra nærmynd af flestu sem fram kemur á myndinni.
Myndina má nálgast hér.
05.02.2009
Sveitarstjórn Skagastrandar hefur ákveðið að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 25 þús kr. skólaárið 2008-2009. Styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð.
Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 27. febrúar 2009.
Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd.
Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á www.skagastrond.is
Umsókn
Reglur
Skagaströnd, 4. febrúar 2009.
Fyrir hönd sveitarstjórnar
Sveitarstjóri
04.02.2009
Á föstudaginn 6. febrúar er dagur stærðfræðinnar. Af því tilefni verður efnt til stærðfræðikeppni innan Höfðaskóla í samstarfi við Lionsklúbb Skagastrandar.
Lögð verður ein þraut fyrir hvert aldursstig, þ.e. keppt er í 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Þrautirnar má finna vef Höfðaskóla.
Lausnum skal skila á kennararstofuna í síðasta lagi fimmtudaginn 5. febrúar kl. 16:00. Nauðsynlegt er að merkja lausnirnar með nafni.
Dregið verður úr réttum lausnum á degi stærðfræðinnar og hljóta sigurvegarar að launum smá glaðning.
Allir nemendur eru hvattir til að taka þátt og senda inn sína lausn.
04.02.2009
Fjárhagsáætlun Skagastrandar fyrir árið 2009 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 27. janúar.
Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu rekstraráætlunar upp á rúmar 4 milljónir króna.
Minnihlutinn benti á að í áætluninni væri gert ráð fyrir því að nota allar fjármagnstekjur sveitarfélagsins til þess að standa undir rekstri eða 69 af þeim 73 milljónum króna sem áætlaðar eru á árinu. Til að standa undir afborgunum og framkvæmdum á árinu þyrfti því að ganga á sjóðseign sveitarfélagsins.
Minnihlutinn taldi því brýnna en áður að ráðast í hagræðingaraðgerðir vegna hættu á hallarekstri frekar en að skerða þjónustu sveitarfélagsins síðar. Enn fremur benti minnihlutinn á að endurskoða þyrfti áætlunina á vordögum.
Meirihlutinn sagðist gera sér grein fyrir gjörbreyttu landslagi og að flest öll sveitarfélög landsins yrðu að endurskoða fjárhagsáætlun sína á vordögum. Í fjárhagsáætlun 2009 væri ekki dregið úr neinni grunnþjónustu, laun ekki lækkuð og gjaldskrárhækkunum haldið í algjöru lágmarki. Fjárfestingar á árinu væru áætlaðar um 35 milljónir og miðast flestar við að vera vinnuaflsfrekar. Staða Sveitarfélagsins Skagastrandar væri sterk til að takast á við þá erfiðu tíma sem óhjákvæmilega væru framundan.
Að því loknu var áætlunin samþykkt samhljóða.
04.02.2009
Sveitarstjórnin ályktaði eftirfarandi um sameiningar heilbrigðisstofnana á fundi sínum 27. janúar:
Sveitarstjórn Skagastrandar lýsir áhyggjum yfir því að heilbrigðisráðherra hafði ekki meira samráð en raun bar vitni við heimamenn um þær breytingar sem kynntar hafa verið á starfsemi heilbrigðisstofnana víða um land. Mjög brýnt er að sú grunnþjónusta sem verið hefur í A-Húnavatnssýslu skerðist ekki frá því sem verði hefur. Sveitarstjórn krefst þess að heilbrigðisyfirvöld tryggi að svo verði ekki.
Nú er bara spurning hvort núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, breyti þeirri ákvörðun en eins og flestir vita hvaði fyrrverandi ráðherra áður ákveðið að sameina stofnanirnar á Blönduósi og Sauðárkróki undir eina stofnun.