27.03.2009
Prjóntækni og prjónahönnun í Kvennaskólanum Blönduósi
Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, textílhönnuður og fyrrv. ritstjóri Lopa og bands. (sjá myndirnar af sýnishornum af hennar hönnun)
Þetta er mjög skemmtilegt námskeið hentar vel bæði byrjendum og þeim sem eru vanar að prjóna. Linda hefur mörgu að miðla svo allir geta nýtt sér reynslu hennar og þekkingu.
-Kenndar verða ýmsar aðferðir við uppfit, stroff, útaukningar og -affellingar.
-Kennt verður að reikna út prjónfestu og reikna út stærðir. Kynnt verður myndprjón (Kaffe Fasset prjón) og rósaleppaprjón.
-Leiðbeiningar við litaval og litameðferð.
Hvernig er hugmynd færð yfir í flík – prjónahönnun kynnt með myndum og sýnishornum.
Ef þú átt flík sem þú hefur ekki getað klárað og vantar leiðbeiningar, er tilvalið að nýta sér þetta námskeið.
Föstud. og laugardag 3. og 4. apríl.
(föstud. kl. 13 - 19, laug. kl. 9.30 - 16.30, 18 kennslust.)
Síðdegiskaffi föstudag og hádegisverður laugardag innifalinn.
Efni innifalið. Verð 19.800-.
Textílsetur Íslands
Árbraut 31
540 Blönduós
s.452-4300 894-9030
textilsetur@simnet.is
www.textilsetur.is
25.03.2009
Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni á Skagaströnd verða með opið hús föstudaginn 27. mars frá kl. 17 til 19. Listamennirnir hafa flestir dvalið og starfað á Skagaströnd í einn mánuð í senn og nú í lok mars hlakka þeir til að fá Skagstrendinga, Blönduósinga og aðra áhugasama í heimsókn og sýna þeim verk sín.
Vinnustofurnar eru að Fjörubraut 8 á Skagaströnd.
Listamenn mánaðarins eru:
Lucy McKenna, myndlistarkona frá Írlandi
Nadege Druzkowski, listmálari frá Frakklandi
Lucas Gervilla, videolistamaður frá Brasilíu
Julieta do Vale, ljósmyndari frá Portúgal
Noemi Romao, textíllistakona og hönnuður frá Ítalíu
Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, skúlptúrlistakona
Mie Olise Kjærgård, listmálari frá Danmörku
Marie Brett & Nick Piper , myndlistarmenn frá Írlandi
Einnig verður opnuð sýning kl. 18:00 í gamla frystihúsinu við Einbúastíg. Listamennirnir sem þar sýna eru Írarnir Marie Brett og Nick Piper. Um er að ræða listræna innsetningu þar sem efniviðurinn er sandur og fyrirmyndin sótt í völundarhús af ýmsu tagi.
Þessi fallega mynd er eftir Mie Olise Kjærgård. Myndin hangir uppi ásamt fleirum í Nes-listamiðstöð. Auk hennar er fjöldi áhugaverðra verka.
Kántrýbær
Þegar búið er að njóta sýninganna er áreiðanlega komið að kvöldmat. Þá er tilvalið að koma við í Kántrýbæ en þar er m.a. þetta tilboð:
Hamborgari, franskar og ½ lítri kók á aðeins 790 kr. Hamborgaratilboð fyrir fjóra: 2.690 kr
20.03.2009
Nú er síðasti dagur sameiginlega söfnunarátaks Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar.
Einkunnarorð söfnunarinnar eru Stöndum saman og rennur söfnunarféð óskert til verkefna innanlands til að sinna brýnni þörf á erfiðum tímum.
Um er að ræða símasöfnun þar sem hringt er í eitt númer 90 15 100 og þá dragast 100 krónur frá næsta símreikning.
Samtökin leggja áherslu á að hafa upphæðina þetta lága til að allir geti lagt sitt að mörkum og lagt átakinu lið burtséð frá efnum og aðstæðum hvers og eins.
Stöndum saman og gefum öll í söfnunina
hundraðkall á haus.
Skagastrandardeild RKÍ
19.03.2009
Í ellefta sinn verður spurningakeppnin Drekktu betur haldin á föstudaginn og verður leikurinn sem fyrr háður í Kántrýbæ og hefst hann kl. 21:30.
Það er Dagný M. Sigmarsdóttir, borinn og barnfæddur Skagstrendingur, starfsmaður Spákonuarfs sem verður hæstráðandi til sjós og lands.
Gera má fastlega ráð fyrir því að hún spyrji eitthvað úr fornum sögum og þjóðsögum og líkur benda til að þar komi einkum hún Þórdís spákona við sögu.
Aftur á móti er hún Dadda ekki fædd í gær og hana kann því að gruna að við hin ætlum nú aldeilis að koma undirbúin til leiks. Er þá ekki betra að lesa nákvæmlega allt sem fyrirfinnst um Dísu spákonu? Eða spyr hún kannski ekkert um neitt sem tengist Spákonusetri og lætur sér duga veraldlegri mál, kvaðratrót, ljósár, þyngdarkraftinn á Mars, ljóstillífun og kjarnasamruna?
... úff. Það er þó bót í máli að þjónustan í Kántrýbæ er ágæt, bjórinn góður, kaffið fínt, rauða og hvíta vínið ljúffengt og kókið ku vera afar hressandi. Svo er líka alltaf gaman að hitta aðra og skemmta sér í góðra vina hóp eina kvöldstund.
19.03.2009
Skaggagleði verður haldin í Húnabúð í Skeifunni í Reykjavík laugardaginn 21. mars. Húsið verður opnað kl. 22:00 en ballið byrjar kl. 23:00.
Miðaverð er 1.500 spesíur og hljómsveitin Janus frá Skagasrönd mun halda fólki við efnið. Hin landsfræga hljómsveit Jójó mun leika nokkur létt lög.
Aðgangseyri er aðeins hægt að greiða með peningum er hraðbanki er til staðar í húsinu.
Allir Skaggar velkomnir og ekkert aldurshámark
17.03.2009
Leður- og roðvinna: Signý Ormarsdóttir, fatahönnuður og menningarfulltrúi Egilsstöðum.
Námskeið fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Unnið með leður og roð, gert gleraugnahulstur og taska eða sýnishorn af mismunandi tækni. Föstud. og laugardag 3. og 4. apríl.
Prjóntækni og prjónahönnun: Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, textílhönnuður og frv. ritstjóri Lopa og bands.
Kenndar verða ýmsar aðferðir við uppfit, stroff, útaukningar og affellingar. Kennt verður að reikna út prjónfestu og reikna út stærðir. Kynnt verður myndprjón (Kaffe Fasset prjón) og rósaleppaprjón. Hvernig er hugmynd færð yfir í flík – prjónahönnun kynnt með myndum og sýnishornum. Föstud. og laugardag 3. og 4. apríl.
Þæfing: Sigrún Helga Indriðadóttir, handverksmaður Stórhóli.
Grunntækni í þæfingu með fjölbreyttum verkefnum; flöt -, hol - og þrívíddar þæfing. Notuð er íslensk ull, en kynnt er merínóullin og silkitrefjar, einnig torf og puntfax, íhlutir; horn, bein eða tré. Laugard. og sunnud. 18. og 19. apríl.
Námskeiðin eru á vegum Textílseturs Íslands og kennsla fer fram í Kvennaskólanum, Árbraut 31, Blönduósi.
Námskeiðin eru ætluð handverksfólki og öllum áhugasömum um handverk og heimilisiðnað.
Nánar á heimasíðu: www.textilsetur.is og í síma 894-9030
Prjónakaffi apríl
miðvikudaginn 15. apríl kl. 20.00
Quiltbúðin - hannyrða- og föndurverslun á Akureyri kynnir vöru sína og þjónustu.
12.03.2009
Boðað er til almenns íbúafundar í Fellsborg 18. mars n.k. kl. 17 um tillögur að aðalskipulagi og Staðardagskrá 21 . Kynnt verða drög að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild, þéttbýli á Skagaströnd og matslýsing aðalskipulagsins. Ennfremur verða kynntar tillögur að málaflokkum Staðardagskrár og verkefnum innan þeirra (sjá nánar um hvað Staðardagskrá 21 er hér fyrir neðan).
Ráðgjafar frá Landmótun og Staðardagskrá 21 gera grein fyrir tillögum og taka á móti athugasemdum.
Aðal tilgangur fundarins verður að leita eftir ábendingum og athugasemdum, gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sem snerta aðalskipulagið.
Jafnframt er leitað eftir hugmyndum íbúa um verkefni sem falla undir Staðardagskrá 21 og stuðla að sjálfbærri þrjún samfélagsins.
Íbúar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á samfélagið og þróun þess.
Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Fellsborg miðvikudaginn 18. mars kl. 17:00.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri
Nánar um Staðardagskrá 21
Staðardagskrá 21 (Local Agenda 21) er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992. Nánar tiltekið er hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.
Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun.
Staðardagskrá 21 er ekki einkamál sveitarstjórna. Samkvæmt samþykkt Ríóráðstefnunnar ber að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Staðardagskrá 21 er nefnilega áætlun alls samfélagsins.
Vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar 1. útgáfa hennar hefur verið lögð fram og samþykkt í sveitarstjórn. Með samþykkt sveitarstjórnar er Staðardagskráin orðin að formlegu stefnumótunarplaggi, og þar með er kominn tími til að hrinda henni í framkvæmd. Auk heldur þarf Staðardagskráin að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal, og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli.
Á haustmánuðum 1998 hófu íslensk sveitarfélög skipulagt starf við gerð Staðardagskrár 21.
Eftirfarandi fimm atriði hafa verið skilgreind sem meginþættir eða vegvísar fyrir Staðardagskrárstarfið:
Heildarsýn og þverfagleg hugsun
Virk þátttaka íbúanna
Hringrásarviðhorf
Tillit til hnattrænna sjónarmiða
Áhersla á langtímaáætlanir
Sjá nánar á vef Samands íslenskra sveitarfélaga,
http://www.samband.is/template1.asp?id=746&
12.03.2009
Árshátíð Höfðaskóla verður haldin í Fellsborg föstudaginn 13. mars 2009 og hefst kl. 19:30.
Dagskrá:
Skemmtiatriði frá öllum bekkjum
Diskótek
Aðgangseyrir:
Fullorðnir: 1000 kr.
Grunnsk.nem: 600 kr.
Frítt fyrir 3. barn og fleiri frá heimili
Tertuhappdrætti – aðgöngumiðar fullorðinna eru úmeraðir.
Boðið upp á gæslu fyrir yngstu börnin meðan á skemmtiatriðum stendur.
Verið velkomin.
Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla
11.03.2009
Sveitarfélagið Skagaströnd og SSNV atvinnuþróun bjóða til "súpufundar" um atvinnumál, aðstoð og ráðgjöf sem fyrirtækjum og frumkvöðlum stendur til boða.
Tilgangurinn er að kynna þau "verkfæri" sem nota má að ráða til að efla rekstur fyrirtækja sinna eða byggja upp ný.
Fundurinn verður haldinn í Bjarmanesi fimmtudaginn 12. mars kl. 12 til 13. Dagskráin verður sem hér segir og eru dagskrárliðir aðeins fimm mínútur hver að undanskildum umræðum:
Uppbygging á Skagaströnd: Halldór Ólafsson formaður atvinnumálanefndar
Sótt á markað: Sigurður Sigurðarson, markaðs- og atvinnuráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Atvinnuþróun: Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri SSNV
Stuðningur við sérstök verkefni: Líney Árnadóttir, forstöðukona Vinnumálastofnunar á Skagaströnd
Vaxtarsamningur: Hjördís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vaxtarsamningsins Norðurlands vestra
Menningarráð: Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi Norðurlands vestra
Fyrirspurnir og umræður
Á fundinum verðu dreift hagnýtum upplýsingum sem byggðar eru á erindunum
11.03.2009
Byggðastofnun og ráðuneyti menntamála og iðnaðar (í samstarfi við vaxtarsamningana) gangast þessa dagana fyrir kynningum á möguleikum í Evrópusamstarfi.
Kynningarnar eru haldnar á nokkurm stöðum um landið, og miðvikudaginn 18. mars er komið að Norðurlandi vestra. Þá munu fulltrúar evrópskra samstarfsáætlana og þjónustuskrifstofa standa fyrir kynningu á styrkja- og samstarfsmöguleikum á vegum evrópskra áætlana.
Kynningin fer fram í bóknámshúsi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, kl. 10 – 13. Þetta er kjörið tækifæri fyrir einstaklinga, skóla, fyrirtæki, stofnanir og samtök að kynna sér möguleika til samstarfs á flestum sviðum menntunar, menningar og atvinnulífs.
Dagskráin hefst með sameiginlegum kynningum áætlananna, og sagt verður frá nokkrum verkefnum hér af Norðurlandi vestra. Að því búnu munu fulltrúar einstakra áætlana verða til viðtals, allt fram til kl. 13.
Við sama tækifæri munu fulltrúar eftirtalinna aðila innan stoðkerfisins kynna starfsemi sinna stofnana stuttlega, og þá möguleika sem í henni felast:
· Impra á Nýsköpunarmiðstöð
· Vinnumálastofnun
· SSNV atvinnuþróun
· Menningarráð Norðurlands vestra
· Vaxtarsamningur Norðurlands vestra.
Allir velkomnir!