Fréttir

Opið hús hjá Nes Listamiðstöð

Nes Artist Residency Skagaströnd Opið hús @ Nes Listamiðstöð október Opið hús! sunnudagur 29 kl. 15.00 - 17.00 On a lazy Sunday afternoon....sway our way and catch some artists sharing : projects about Skagaströnd, music and performance ideas, novel extracts, and more! Sjáumst þarna þá ! Copyright © 2017 Nes Listamiðstöð Ehf. All rights reserved. You are receiving this email because you have subscribed to our newsletter or given us your email so we can keep in touch :) How nice! Our mailing address is: Nes Artist Residency Fjörubraut 8 545 Skagaströnd http:\\neslist.is You can update your preferences or unsubscribe from this list. Close

Auglýsing um kjörfund

Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd, vegna kosninga til Alþingis, fer fram 28. október 2017 í Fellsborg og hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 22.00 Kjörstjórn

Mynd vikunnar

Jóhanna Jónasdóttir 100 ára "Ég finn svo sem engan mun á mér frá í gær", svarar Jóhanna spurningunni um hvernig það sé að vera orðin 100 ára. Jóhanna, sem býr á dvalarheimilinu Sæborg, er heilsuhraust og hefur alltaf verið. Sem dæmi um það má segja sögu af því þegar hún fór í augnaðgerð á níræðisaldri. Hjúkrunarkonan sem var að undirbúa Jóhönnu fyrir aðgerðina spurði hana hvaða lyf hún tæki. Jóhanna sagðist ekki vera að taka nein lyf og hefði aldrei gert það. Hjúkkan þráspurði Jóhönnu um þetta og nefndi hinar ýmsu lyfjategundir sem Jóhanna þvertók fyrir að nota. Þá gafst hjúkkan upp og kallaði Gísla, son Jóhönnu, á eintal og bað hann að segja sér hvaða lyf mamma hans tæki;"... því hún mamma þín vill ekki segja mér það". Gísli sagði konunni að þetta væri bara rétt hjá mömmu sinni hún tæki engin lyf og hefði aldrei gert. Jóhanna fæddist á Fjalli í þáverandi Vindhælishreppi 15. október 1917 og ólst þar upp. Hún giftist Angantý Jónssyni (og Guðrúnar frá Lundi - syni) og fóru þau að búa á Mallandi á Skaga þar sem foreldrar hans bjuggu. Þaðan fluttu þau svo að Fjalli og bjuggu þar. Þegar bærinn brann ofan af þeim fluttu þau til Skagastrandar. Þau eignuðust þrjár dætur, tvíburana Guðrúnu og Sigurbjörgu (d.10.9.1997) og Bylgju áður en þau skildu. Jóhanna flutti síðan suður á land, bjó þar í nokkur ár og eignaðist eina dóttur í viðbót, Dagný Hannesdóttur. Heim kom hún svo aftur til Skagastrandar þar sem hún hefur átt heima alla tíð síðan. Hér eignaðist hún sitt yngsta barn, drenginn Gísla Snorrason. Jóhanna vann verkakvennavinnu alla tíð eftir heimkomuna, lengst af í frystihúsinu. Þar stóð hún við að snyrta og pakka fiski þar til frystihúsinu var lokað. Þá var Jóhanna farin að nálgast áttrætt. Jóhanna minnist vinnunnar í frystihúsinu með gleði . "Ég væri þarna enn ef þeir hefðu ekki lokað", sagði þessi kankvísa og hressa samferðakona okkar á 100 ára afmælisdegi sínum.

Potluck

Potluck Dinner @ Nes Potluck með október Nes listamenn! fimmtudagur 19 október kl. 18.30 – 20.30 Fjörubraut 8 Komið og deilið máltíð með listamönnunum okkar. Allir velkomnir!

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Erlingur Hugi Kristvinsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi fimmtudaginn 26.október 2017. Tímapantanir í síma 455-4100 milli kl 08:00 og 16:00.

Kjörskrá liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins

Kjörskrá vegna Alþingiskosninga þann 28. október 2017 liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 18. október til kjördags. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 23. september 2017. Athygli er vakin á því að kjósendur geta einnig kannað á vefnum kosning.is hvar þeir eru á kjörskrá. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Tónleikar í Tunnunni Unglingahljómsveit leikur á skemmtun í Tunnunnni. Líklega er þetta hljómsveit sem kallaðist Tíglar. Frá vinstri: Steindór Haraldsson á bassa, Reynir Sigurðsson á trommur, Bergur Þórðarson á gítar, Hjörtur Guðbjartsson á gítar. Myndin er tekin einhverntíma á árunum 1963 - 1968. Til gamans má geta þess að þessar fallegu peysur voru prjónaðar af Jóhönnu hans Adda (Jóhanna Sigurjónsdóttir d. 15.12.1990) eins og hún var alltaf kölluð. Allar hljómsveitir á þessum tíma voru í hljómsveitar búning og þetta var okkar. Þetta voru gífurlega þétt prjónaðar flíkur og lítil loftræsting í gömlu tunnunni þess vegna átti ég í vandræðum með að komast úr peysunni er heim kom. Litirnir höfðu fært sig úr peysunni yfir á búkinn og leit skinnið út líkt og að ég væri með nýtt tattú á skrokknum. En þetta fór af með góðum skammti af grænsápu. (Sent inn af Reyni Sigurðssyni frá Þórsmörk)

SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi Vestra

SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi Vestra 09. 10. 2017 SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Hjartaheill, Samtökum lungnasjúklinga og Samtökum sykursjúkra bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs. Boðið verður upp á heilsufarsmælingar á Norðurlandi Vestra 16.-18. október: Mánudagur 16. október 2017 kl. 09–12 Hvammstangi, heilsugæslan, Nestún 1 kl. 14–17 Blönduós, heilsugæslan, Flúðabakka 2 Þriðjudagur 17. október 2017 kl. 10–11 Hofsós, heilsugæslan, Suðurbraut 15 kl. 14–16 Skagaströnd, heilsugæslan, Ægisgrund 16 Miðvikudagur 18. október 2017 kl. 08–15 Sauðárkrókur, heilsugæslan, Sauðárhæðum Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis að vera laus við sjúkdóma og örorku. Fyrir einstaklinginn skiptir heilsan öllu. Langvinnir sjúkdómar valda næstum 9 af hverjum 10 dauðsföllum í okkar heimshluta, og tengjast þeir flestir lífsstíl. Forvarnir eru eina skilvirka leiðin til að stemma stigu við þessu. Að forða einum einstaklingi frá tíu ára sjúkdómsferli eða ótímabærum dauða skilar samfélaginu yfir 70 milljón króna sparnaði mælt í vergri landsframleiðslu á mann. Heilbrigði er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið Til þess að kortleggja hvar aðgerða er þörf í forvarnamálum er samhliða mælingum á blóðgildum lögð fyrir könnun um heilsufar og lífsstíl sem tekur á helstu áhrifaþáttum langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma. SÍBS Líf og heilsa má þannig nota til að meta stöðuna í hverju sveitarfélagi, stofnun eða vinnustað fyrir sig. Um leið hlýtur hver einstaklingur innsýn í hvað betur megi fara í eigin heilsu og lífsstíl.

Mynd vikunnar

Heyflutningar með H 34 H 34 með stóran heyfarm. H 34 var í eigu Gunnars Helgasonar (d. 19.10.2007) vörubílstjóra sem átti marga bíla með þessu númeri. Áður en núverandi tækni við heyverkun var þekkt þurfti að þurrka heyið á túni og flytja það síðan heim í hlöðu áður en haustaði of mikið að með öllum sínum rigningum og lægðagangi. Þá var heyið gjarnan flutt á vörubíl að hlöðunni og því svo mokað inn með hvíslum. Þá var nóg að gera fyrir börn og unglinga að troða niður heyið, þjappa því saman í hlöðunni, til að koma sem mestu fyrir þar. Það af heyinu sem ekki komst inn í hlöðu var síðan sett í fúlgu við hlöðuna og það þótti mikil kúnst að hlaða fúlguna rétt svo hún verði sig sem best í rigningu. Í þeim tilgangi var oft breiddur strigi eða segl ofan á hana þannig að vatnið rann út af fúlgunni en ekki inn í heyið.

Starfsmaður óskast í bókasafn

Umsjónarmaður bókasafns: Laust er til umsóknar 25% framtíðarstarf umsjónarmanns Bókasafns Skagastrandar. Leitað er eftir skipulögðum einstaklingi með ríka þjónustulund og jákvæða framkomu til að sinna afgreiðslu og umsjón með bókasafninu frá og með 1. nóvember 2017. Góð tölvukunnátta er æskileg. Opunartími safnsins er: mánudaga kl 16-19 miðvikudaga kl 15-17 fimmtudaga kl 15-17 Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags. Umsóknarfrestur er til 15. október 2017. Nánari upplýsingar gefur sveitarstjóri. Sími: 455 2700 á skrifstofutíma. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar og hægt að sækja þau á vef sveitarfélagsins www.skagastrond.is . Umsóknir má senda í tölvupósti á netfangið: skagastrond@skagastrond.is Sveitarstjóri