02.06.2006
Árlegt Kvennahlaup ÍSÍ verður haldi á Skagaströnd sunnudaginn 11. júní.
Gengið/hlaupið verður frá tjaldstæðinu kl. 17:00
Allar konur geta tekið þátt í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ á sínum forsendum, óháð aldri og líkamlegri getu.
Skráning er í Söluskálanum, skráningargjald er kr. 1.000
Allir þátttakendur fá bol og verðlaunapening.
01.06.2006
Ágætu Skagstrendingar!
Nú vorar sem óðast eftir síðbúið vorhret og senn líður að sjómannadegi. Það er því kominn tími til að taka til hendinni og þrífa til eftir veturinn. Höfðahreppur býður þá þjónustu
að koma með bíl þriðjudaginn 6. júní nk.til að hreinsa upp rusl sem sett verður út fyrir lóðamörk.
Til að nota þá þjónustu þarf að hafa samband við
Ágúst í síma 899 0895 eða Þröst í síma 892 2933
fyrir hádegi á þriðjudag og greina frá hvaða rusl eigi að taka.
Sveitarstjóri
01.06.2006
Eftir að fréttir um að skrifstofustörf yrðu flutt norður í Húnavatnssýslur í byrjun árs 2006 ákváðu Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra og Héraðsnefnd Austur Húnvetninga að taka höndum saman og koma á fót námi sem undirbyggi fólk undir slík störf. Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra var fenginn til að skipuleggja námið og halda utan um það.
Vinnumálastofnun, Héraðsnefnd Austur Húnvetninga, Blönduóssbær og Höfðahreppur fjármögnuðu verkefnið með beinum fjárframlögum. Stéttarfélagið Samstaða koma einnig að verkefninu með einstaklingsstyrkjum til sinna félagsmanna. Í upphafi var tekin sú ákvörðun að þegar upp væri staðið þyrfti hver nemandi ekki að greiða nema 10.000 krónur úr eigin vasa.
Námið var 168 kennslustundir að lengd og kennt þrjú kvöld vikunnar, fjóra tíma í senn. Námsgreinar skiptust þannig: Sjálfsstyrking og samskipti 8 kennslustundir, tölvugreinar 84 kest., verslunarreikningur 28 kest., bókhald 36 kest., þjónusta við viðskiptavini 8 kest og gerð ferilskrár 4 kest. Kennsla fór fram í Höfðaskóla og Grunnskólanum á Blönduósi. Ekki var hægt að nýta Námsstofu Skagastrandar í þetta verkefni að þessu sinni vegna stærðar
hópsins.
Þeir nemendur sem stóðust kröfur um mætingu í tölvuhlutanum og próf í verslunarreikningi og bókfærslu fengu nám sitt metið til eininga við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Alls var námið metið til 8 eininga.
Kennarar voru heimamenn fyrir utan þjónustuþáttinn; hann kenndi Erla Björg Guðmundsdóttir frá Símey á Akureyri. Á Skagaströnd voru eftirtaldir kennarar; Björn Ingi Óskarsson, Sigurður Guðmundsson og Jensína Lýðsdóttir. Á Blönduósi voru kennarar; Ingibjörg María Aadnegard, Helgi Arnarson, Vilhjálmur Stefánsson og Kristján Blöndal. Líney Árnadóttir og Sigrún Þórisdóttur frá Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra kenndu samskipti og sjálfsstyrkingu og Líney sá um ferilskrána.
Þann 31. maí útskrifuðust 19 manns úr náminu á Skagaströnd við hátíðlega athöfn í Kaffi Viðvík. Á Blönduósi fór útskrift fram á kaffihúsinu Við Árbakkann og útskrifuðust 22 nemendur.