Bréf til gjaldenda fasteignagjalda

Greiðsla fasteignagjalda Ágætu fasteignaeigendur Við álagningu fasteignagjalda 2011 var ákveðið að draga úr pappírsnotkun með því að senda einungis prentaða greiðsluseðla til þeirra sem þess óska. Fyrsti gjalddagi álagningar var þó sendur út með hefðbundnum hætti og gert ráð fyrir að þeir sem óska eftir útprentuðum greiðsluseðlum notuðu tímann til að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins. Annar gjalddagi fasteignagjalda sem er 1. mars hefur verið sendur út á prentuðum seðlum til þeirra sem þess óskuðu. Eindagi gjaldanna er 31. mars og því er enn tími til að óska eftir útprentuðum greiðsluseðlum. Skorað er á þá sem ekki hafa aðgang að rafrænum greiðslum að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 455 2700. Skagaströnd, 1. mars 2011 Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Skagstrendingar leita að kökum í Nesi listamiðstöð

Í gærkvöldi, sunnudagskvöld, opnaði Aimée Xenou sýningu í Nesi listamiðstöð undir nafninu „Innflutningur á fjölskyldu - annar hluti“. Eins og felst í nafninu var þetta seinni hluti gjörnings. fyrri hlutinn var í Hólaneskirkju fyrir réttum hálfum mánuði. Á annað hundrað manns sótti sýninguna í gær og koma þar margt til. Gjörningar geta verið áhugaverðir og skemmtilegir. Hitt er ekki verra að í seinni hlutanum var öllum Skagstrendingum boðið að koma og snæða köku sem merkt var nafni hvers og eins þeirra. Aimée Xenou er listamannsnafn þýsku konunnar Ninette Rothmüller. Hún hefur dvalið í Nesi listamiðstöð frá því í lok nóvember á síðasta ári. Undanfarin 20 ár hefur hún ferðast mikið á milli landa, víða staldrað við, þó hvergi lengur en sex mánuði. Segja að hún hafi öll þessi ár hvergi átt heima. Og þó - ef til vill er réttara að segja að hún hafi átt alls staðar heima. Fjölskylda Ninette hefur aðstoðað hana hér á landi. Bróðir hennar orgelleikarinn Björn Rothmüller kom alla leið frá Þýskalandi til að leika á kirkjuorgelið og vera viðstaddur fyrri hluta gjörningsins. Svo hélt hann aftur til síns heima. Nú hafa foreldar hennar heimsótt Skagaströnd, þau Heike og Joschi Rothmüller, og hafa tekið virkan þátt í framkvæmd gjörningsins. „Hvernig er að vera alltaf útum allt og skilja ekki tungumálin,“ spurði Katla, nemandi við Höfðaskóla á Skagaströnd. Ninette fannst þetta góð spurning og tók Kötlu bókstaflega á orðinu. Hún gekk því á milli manna og fékk Skagstrendinga sem hún hitti á förnum vegi til að kenna sér eitt orð í íslensku. Þýðingu orðsins mátti hins vegar aðeins segja í táknmáli eða á íslensku og þangað til Ninette skildi það. Þannig safnaði hún saman á þriðja hundrað orðum sem hún reyndi að tileinka sér. Ninette fékk síðan Arnþrúði Jónsdóttur, táknmálstúlk, til að útskýra orðin á myndbandi. Þá bjó Ninette til tungumálaþraut sem var hluti af sagnaskúptúr sýningar hennar í Bjarmanesi. Og alla síðustu viku hafa Skagstrendingar lagt leið sína þangað til að reyna að ráða í þessi íslensku orð á sem þeir kenndu listamanninum. Dæminu hafði í þetta sinn verið snúið við því nú voru þau komin á táknmál og því heimamanna að geta upp á þýðingunni. Þann tíma sem Ninette hefur verið hér á Skagaströnd hefur henni fundist bæjarbúar hafi eiginlega tekið sig í fóstur og jafnvel alið önn fyrir sér. Í gær endurgreiddi hún greiðann, ef svo má segja. Hún og Heike móðir hennar buðu upp á einstaka köku sem fjölskylda hennar hefur alltaf bakað þegar hún hefur komið saman. Þessa köku gáfu þær Skagstrendingum í þakklætisskyni fyrir að hafa fóstrað hana í alla þessa mánuði.  Kökunum var raðað á borð. Undir hverri þeirra var servétta sem á var ritað nafn þess Skagstrendings sem átti kökuna. Verst var að þeim var ekki raðað í stafrófsröð og þurftu margir að leita lengi til að finna sína. Gestir fögnuðu listamanninum og foreldrum hennar og þökkuðu henni kærlega fyrir skemmtilega viðkynningu. Finnst áreiðanlega flestum að margir góðir og skemmtilegir listamenn hafi rekið á fjörur þeirra síðan Nes listamiðstöðin tók til starfa. Aimée Xenou eða Ninette Rothmüller verður áreiðanlega með þeim eftirminnilegustu. Meðfylgjandi myndir tók Signý Ósk Richter og Ingibergur Guðmundsson.

Vetrarleikar í Tindastól

Fjölskylduhátíð verður dagana 25. - 27. febrúar 2011 á skíðasvæðinu í Tindastól. Þar verður sett upp ævintýrabraut og fleira. Þá verður Vetrarleikabrenna á föstudagskvöldinu og  kvöldvaka á laugardeginum í reiðhöll Skagfirðinga.  Föstudagskvöld 25. febrúar kl. 18:00 Safnast saman við íþróttahúsið og gengið í skrúðgöngu að kirkjunni. Setning Vetrarleikanna, Vetrarleikabrenna, söngur og samvera. Laugardagur  26. febrúar Skíðasvæðið í Tindastól – Ævintýrabraut Vetrarleikanna kl. 11:00  Fyrirkomulag kynnt og skráning  kl. 11.30  Ævintýrabrautin opnar kl. 13.30  Hádegishlé                                                                                                     kl. 14:00  Ævintýraleikarnir halda áfram                                                                 kl. 15:30  Ævintýraferð út í óvissuna. kl. 10:00 – 12:00  og 13:00 – 15:00  Námskeið í Carvingskíðun með Jóhanni Bæring Gunnarssyni skíðakennara. Námskeiðsgjald 6000 kr. kl. 16:30  Sund og afslöppun á Sauðárkróki  kl. 18:00  Pizzahlaðborð fyrir Skagstrendinga á Mælifelli. Kostar 800 kr. á grunnskólabarn/1400 kr. á fullorðinn.            kl. 19:30 Kvöldvaka í reiðhöllinni Svaðastöðum.   Á kvöldvökunni verða dregnir út fjöldi glæsilegra vinninga og því þarf að halda vel utan um númerin sem úthlutað er við skráningu á leikana.  Sunnudagur 27. febrúar kl. 11:30  Skíðaleikar                 Samhliðasvig  - Brettaþraut.                Grín og glens                 Foreldrar og börn keppa hvort við annnað                                             Þátttökugjald 1500 kr á mann fyrir 4 ára og eldri (lyftugjöld ekki innifalin). Landsbankinn á Skagaströnd ætlar að borga þátttökugjaldið fyrir börn á Skagaströnd 4ra – 16 ára. Umf. Fram verður með rútuferðir á leikana bæði laugardag og sunnudag og eru ferðirnar þátttakendum að kostnaðarlausu.  Lagt verður af stað kl.10.00  báða dagana (frá Fellsborg) og farið heim að lokinni dagskrá (eftir kvöldvökuna á laugardagskvöldið).  Börn fædd 1999 og síðar þurfa að vera í umsjón einhvers fullorðins í ferðinni.  En við viljum benda á að leikarnir eru hugsaðir sem fjölskylduhátíð og ekki þarf að vera á skíðum til þess að geta tekið þátt í dagskránni.  Tökum þátt í frábærri skemmtun og eigum góða helgi saman.   Frekari upplýsingar má einnig finna á heimasíðu Tindastóls, www.tindastoll.is og hjá Elvu, Dísu eða Róberti.

Verkefnastyrkir til menningarstarfs

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra.   Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á árinu 2011, með umsóknarfresti til og með 15. mars og 15. september.   Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: Efling atvinnustarfsemi, þekkingar og fræðslu á sviði menningar og lista. Efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu. Nýsköpun og þróun menningarstarfs og menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningarstarfi   Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Skilyrði er að viðkomandi sýni fram á mótframlag.   Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar Úthlutunarreglur 2011 á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð.   Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur.   Umsóknir vegna fyrri úthlutunar ársins 2011 skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545  Skagaströnd, eigi síðar en 15. mars 2011. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.   Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is. Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi, getur aðstoðað Skagstrendinga við gerð umsókna. Síminn er 455 2700 og netfangið radgjafi@skagastrond.i.

Hanna og Eiríkur spyrlar á Drekktu betur

Hið eðla ektapar Jóhanna Sigurjónsdóttir og Eiríkur Lýðsson eru hæstráðendur til sjós á lands í spurningakeppninni skemmtilegu Drekktu betur. Annað þeirra spyr og hitt dæmir. Spurningarnar hafa þau sjálf samið, enda sjálfstætt og dullllegt fólk, og má búast við miklu fjöri og látum enda hafa þau lofað öllu fögru. Þau ætla að spyrja um allt mögulegt sem þau hafa einhverja þekkingu á. Halda sig frekar á heimaslóðum, ekki spyrja um Icesave, Elvis eða stjórlagaþing og helst af öllu að plata dálítið þátttakendur. Skagstrendingar og aðrir sem kunna eitthvað fyrir sér eru hvattir til að mæta og taka þátt í frábærri skemmtun.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 24. febrúar 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Greinargerð um umhverfismál 2. Gjaldskrár 3. Áætlun um frágang urðunarstaðar a) Bréf UST, dags. 7. febrúar 2011. b) Drög að lokunaráætlun 4. Bréf: a) Tónlistarfólks, dags. 11. febrúar 2011. b) Nes listamiðstöðvar, dags. 18. febrúar 2011. c) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags 9. febrúar 2011. d) Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, dags. 9. febrúar 2011. e) UMFÍ, dags. 28. janúar 2011. f) SSNV, dags. 2. febrúar 2011. g) Umhverfisráðuneytisins, dags. 31. janúar 2011. 5. Fundargerðir: a) Skipulags- og byggingarnefndar. 23.02.2011 b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 28.01.2011 c) Stjórnar Norðurár bs. 9.12.2010 d) Stjórnar Norðurár bs. 30.12.2010 e) Stjórnar Norðurár bs. 6.01.2011 f) Starfshóps um sameiningu sv.félaga, 14.01.2011 g) Stjórnar SSKS, 15.02.2011 h) Stjórnar SSNV, 4.02.2011 i) Stjórnar SSNV, 8.02.2011 j) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 28.01.2011 6. Önnur mál Sveitarstjóri

Námskeið í verkefnastjórnun

Námskeið um uppbyggingu verkefna og fyrirtækja í skapandi greinum á Norðurlandi vestra verður haldið 31. mars, 1. og 2. apríl á Sauðárkróki. Þátttakendur gefst kostur sækja námskeiðið á grundvelli verkefnis sem þeir vilja vinna að og er gert ráð fyrir virkri þátttöku þeirra á námskeiðinu. Leiðbeinandi er Ása Richardsdóttir, B.A. í alþjóðasamskiptum og með diplóma í menningarstjórnun. Fjallað verður um hugmyndavinnu og skipulagningu verkefna, fjármögnun, markaðssetningu, alþjóðlega tengslamyndun og samstarf. Námsefni er fléttað saman við verkefni þátttakenda og þau þróuð í samstarfi námskeiðshópsins og leiðbeinanda. Eins og áður sagði verður námskeiði haldið á Sauðárkróki, fimmtudaginn 31. mars kl. 14 -18, föstudaginn 1. apríl, kl. 10 - 6, laugardaginn 2. apríl, kl. 10-14. Námskeiðið er 20 kennslustundir. Verðið 15:000 kr. Upplýsingar í síma 455-6010 og á heimasíðu Farskólans: www.farskolinn.is. Skráningar skal senda á netfangið Rannveig@farskolinn.is Umsóknarfrestur er til 3. mars. Til athugunar: Við skráningu þurfa þátttakendur að senda neðangreindar upplýsingar: Nafn, netfang, síma, stofnun/fyrirtæki/félag og svara eftirfarandi spurningum.  1. Hvert er verkefnið þitt og á hvaða sviði skapandi greina er það? ( hámark 50 orð)  2. Verði verkefnið að veruleika, hver verður lokaútkoma þess? (hámark 70 orð) Leiðbeinandinn, Ása Richardsdóttir, hefur unnið í menningu, listum og fjölmiðlum í 25 ár, framleitt, leitt og skapað fjölmörg verkefni og viðburði. Hún hefur kennt menningarstjórnun frá 2001, bæði í háskólum hér heima og erlendis Hún hefur veitt stofnunum, félögum og hópum ráðgjöf, sérstaklega á svið alþjóðlegs samstarfs. Hún var framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins 2002 - 2010 og þar áður stofnandi Kaffileikhússins sem og starfsmaður RÚV - sjónvarps í 6 ár, með háskólanámi. Hún er með BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Kent í Kantaraborg, diplóma í menningarstjórnun frá Fondation Marcel Hicter í Brussel og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er nú forseti Leiklistarsambandsins og vinnur sjálfstætt að verkefnum og rannsóknum.

5.360 kg af konum á hafnarvigtinni

Morgunblaðið segir frá því í dag að 5.360 kíló af kvenfólki hafi vigtað sig í einu hóp á hafnarvoginni á Skagaströnd vegna átaks sem nú stendur yfir hjá konum í bænum. Meðaltalið er því tæp 77 kg sem út af fyrir sig er nú ekki svo ýkja mikið. Í frétt Óla Benna segir eftirfarandi:  „70 konur eru skráðar á námskeiðið „Á réttri leið – bætt heilsa, betri líðan“ en það mun standa yfir í tíu vikur undir leiðsögn fjögurra kvenna á Skagaströnd. Nálægt 40% kvenna á aldrinum 18 ára og eldri, búsettra á Skaga- strönd, eru með í fjölbreyttu átaki til að bæta heilsu sína og líðan. Konurnar fjórar sem leiða hópinn eru iðjuþjálfi, Pilates- og jógakennari, hjúkrunarfræðingur og þroskaþjálfi. Konurnar mæta í alls konar leikfimi þrjá daga í viku og fá auk þess ýmsa fræðslu um hollt og gott mataræði og margt annað sem stuðlar að bættri heilsu og meiri lífsfyllingu. Þannig hafa konurnar hist á „smökkunarkvöldi“ þar sem þær skiptust á uppskriftum að hollusturéttum og smökkuðu hver hjá annarri. Meðal markmiða kvennanna með átakinu er að grenna sig og styrkja og því mættu þær á hafnarvogina til að vita hvað hópurinn væri þungur samanlagt í upphafi átaksins. Ætlunin er að vigta hópinn aftur undir lok námskeiðsins til að sjá hvaða árangri konurnar hafa náð í sameiningu. Hópurinn hefur náð samningi við Samkaupsverslunina á staðnum um að veita þátttakendum 10% afslátt af grænmeti og ávöxtum næstu tíu vikur og ætti það að ýta enn frekar undir að góð- ur árangur náist í baráttunni við aukakílóin.“

Kertanámskeið í Kvennaskólanum

Helga Björg Jónasardóttir, www.vaxandi.is, mun halda námskeið í kertagerð n.k. laugardag 26. febrúar í Kvennaskólanum á Blönduósi á vegum Textílsetursins.   Kertagerð er auðveld og skemmtileg. Lítinn búnað þarf til, annað en það sem finnst í hverju eldhúsi. Eftir eitt byrjendanámskeiði er hver og einn fær um að halda áfram heima og búa til sín eigin kerti. Kennarinn kemur með öll áhöld og efni sem þarf fyrir námskeiðið.   Námskeiðið er í eldhúsi Kvennaskólans í kjallara og stendur frá kl. 14-18. (tími ekki alveg staðfestur en námskeiðið er 4 klst. eða 6 kennslustundir.)   Námskeiðið kostar 8.500 kr. Efni er innifalið. Aðeins 12 nemendur komast að.   Nemendur taki með sér svuntu, inniskó, nesti og lítinn kassa eða poka fyrir afurðirnar. Nánari upplýsingar og skráning: www.textilsetur.is og í gsm. 894-9030.

Listsýning í kjallaranum á Bjarmanesi

Í gær opnaði Aimée Xenou listamaður hjá Nesi listamiðstöð athyglisverða sýningu í kjallaranum í Bjarmanesi.  Sýningin er gagnvirk, þ.e. áhorfendum stendur til boða að taka þátt í henni, og hafa því bæði börn og fullorðnir gaman að því að skoða hana. Einnig er getraun í gangi sem allir geta tekið þátt í og eru verðlaun í boði fyrir þann sem tekst best að leysa þrautina. Opið er alla vikuna frá klukkan 14 til 19.