01.09.2012
Ég býð Skagstrendinga velkomna á hitaveitudaga á Skagaströnd. Eins og flestum er kunnugt var ákvörðun tekin um hitaveitu til Skagastrandar í lok síðasta árs. Aðdragandi þess var nokkuð langur eins og fram kom á kynningafundum 1. febrúar sl. og ástæðulaust að fjalla um hann hér.
Staðan í verkefninu er núna sú að verið er að leggja stofnæð frá Reykjum til Blönduóss og er sá áfangi á áætlun, en gert ráð fyrir að honum ljúki í haust. Dælustöð við Blönduós hefur verið byggð og verið er að undirbúa samning um frágang búnaðar í henni. Þverun á Blöndu er í skoðun í samstarfi við Blönduósbæ og Vegagerðina og samningar eru í farvatninu við landeigendur á milli Blönduóss og Skagastrandar. Þá er verið að ljúka við hönnun á dreifikerfinu á Skagaströnd.
Næsta vor hefst lagning stofnlagnar frá Blönduósi til Skagastrandar og er gert ráð fyrir að þeim áfanga ljúki þá um haustið. Á sama tíma verður hafist handa við lagningu dreifikerfisins á Skagaströnd, sem einnig er gert ráð fyrir að ljúki um haustið.
Íbúar munu því geta tengst veitunni haustið 2013, ef allar áætlanir ganga eftir.
Kostnaður íbúa er mismikill og ræðst af því hve miklu þarf að breyta innanhúss. Það verkefni er ekki á vegum RARIK, en hins vegar veitir ríkið stofnstyrki til nýrra hitaveitna sem að hluta til renna til íbúanna. Þegar ákveðið var að fara í veituna um síðustu áramót námu stofnstyrkir til nýrra hitaveitna 8 ára rafhitaniðurgreiðslum, en nú hefur lögum verið breytt og nema þeir nú 12 ára rafhitaniðurgreiðslum. Við hönnun og arðsemismat veitunnar var gert ráð fyrir stofnstyrk sem næmi 8 ára niðurgreiðslum og að 65% hans færi til veitunnar en 35% til íbúanna. Er það í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast við stofnun nýrra hitaveitna.
RARIK hefur hins vegar ákveðið að vegna hærri stofnstyrks muni hann skiptist jafnt á milli íbúa og veitu. Það þýðir, ásamt breytingu á viðmiðun í 12 ár, að í stað þess að íbúar í þéttbýlinu fái að meðaltali um 250 þúsund kr. í stofnstyrk fá þeir nú að meðaltali um 550 þúsund kr. til að greiða tengigjald og til að breyta húsnæði sínu. Sú upphæð miðast við núverandi fjárveitingu í þennan málaflokk.
Tengigjald RARIK er skv. núverandi gjaldskrá um 250 þúsund fyrir venjulegt íbúðarhús í þéttbýli. RARIK fær til sín stofnstyrkinn þegar Orkustofnun hefur fengið staðfestingu á að viðkomandi hafi tengst hitaveitunni og sér um skiptingu hans milli íbúa og veitu. RARIK hefur ákveðið að bjóða upp á að fjármagna tengigjaldið fyrir þá sem njóta stofnstyrks, svo þeir þurfi ekki að leggja út fyrir tengigjaldinu á meðan beðið er eftir greiðslu á styrknum. Þegar hann berst fá íbúar í hendur mismun styrksins og tengigjaldsins, eða sem nemur að meðaltali um 300 þúsund kr. til almennra heimila í þéttbýlinu á Skagaströnd.
Á hitaveitudögum á Skagaströnd eru aðilar frá RARIK, Sveitarfélaginu, Orkustofnun, Landsbankanum og Félagi pípulagningameistara, auk þess sem bæði Danfoss og BYKO kynna vörur sínar. Allir þessir aðilar munu reyna að svara spurningum íbúa eins og kostur er. RARIK veitir upplýsingar um veituna og væntanleg áhrif á húshitunarkostnað, tengigjaldið, stöðu verkefnisins o.fl. Orkustofnun mun kynna reglur um stofnstyrki sem veittir eru til nýrra hitaveitna, hvenær og hvernig þeir er afhentir, auk þess að gefa upplýsingar um áætlaða upphæð miðað við núverandi fjárveitingu.
Sveitarfélagið mun kynna þær skyldur sem byggingareglugerð setur á íbúa við breytinga á húsnæði og annað sem snýr að því. Fulltrúi Félags pípulagningameistara mun veita ráðgjöf og Landsbankinn mun kynna fjármögnunarmöguleika vegna breytinga á húsum. Þá munu Danfoss og Byko kynna vörur sínar
Ég vona að á þessum hitaveitudögum fái íbúar á Skagaströnd svör við þeim spurningum sem á þeim brenna vegna þessa mikla verkefnis í sveitarfélaginu og býð þá velkomna á hitaveitudaga.
Tryggvi Þór Haraldsson
31.08.2012
Fyrri haustgöngur í Spákonufellsborg fara fram föstudaginn 7. september 2012. Seinni haustgöngur fara fram föstudaginn 14. september 2012 og eftirleitir verða 21. september 2012.
Gangnaforingi og réttarstjóri í Fellsrétt er Rögnvaldur Ottósson.
Í fyrri og seinni haustgöngum verður farið fram Hrafndal og fram í Ármót, vestur Brandaskarð með hreppagirðingu að norðan. Spákonufellsborg að sunnanverðu að Hrafná og rekið til Fellsréttar.
Skorað er á fjáreigendur að mæta til réttar og hirða búfénað sinn.
Sveitarstjóri
30.08.2012
BALLETT fyrir byrjendur meðAndreu
6. -10.bekkur
Frá 3. sept. verða æfingar
á mánudögum, kl. 14:30-15:30 og miðvikudögum, kl. 15:00-16:00
(Tímasetningar breytast eftir sundið)
Verð:8.000 kr. f. 10 kest.
Kennt verður í gamla frystihúsinu (kaffistofunni)
Komið með vatnsbrúsa, ballettskó og fimleikabol eða sokka, leggings og bol.
Mættu 5 mínútum fyrir tímann – tilbúin til að dansa
Fleiri upplýsingar: archeatham@gmail.com, 616-9404
30.08.2012
Leikfimi
með Andreu og Höllu Karen
Zumba, jóga, pilates, circuit training
Þrír tímar í viku = 21 skipti og kostar 20.000 kr
Þann 4. september er að fara af stað leikfimi með Andreu og Höllu Karen sem stendur til 18. október.
Leikfimin verður í íþróttahúsi Skagastrandar á þriðjudögum kl. 18:00-19:00,
miðvikudögum kl:19:00-20:00 (miðvikudagstíminn breytist kannski) og fimmtudögum kl: 17:00-18:00.
Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að mæta15 mínútum fyrir fyrsta tímann þriðjudaginn 4. september.
Greiða verður fyrir námskeiðið fyrir 6. september.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
Andrea og Halla Karen
28.08.2012
HITAVEITUDAGAR
Opið hús og kynning á væntanlegri hitaveitu verður í Íþróttahúsinu föstudag 31. ágúst frá 14-18 og laugardag 1. september frá 10-16.
Komið og fræðist þar sem ýmsir sérfræðingar í hitaveitumálum sitja fyrir svörum.
Sveitarfélagið Skagaströnd RARIK
21.08.2012
Við verðum með kaffihlaðborð laugardaginn 25 ágúst. Kl. 15 – 18 (aðeins opið á þessum tíma þennan dag) Kaffihlaðborðið kostar 1.500 krónur fyrir 14 ára
og eldri, 1.000 krónur fyrir 7-13 ára og
frítt fyrir 6 ára og yngri. Verið velkomin.
A.T.H Þetta er síðasti opnunardagur sumarsins Og vil ég þakka kærlega fyrir góðar mótökur. Kær kveðja Áslaug Ott
16.08.2012
Laugardaginn 18. ágúst kl 17.00, á Kántrýdögum, verður frumsýnd heimildarmyndin
„Sumar á Skagaströnd“
í félagsheimilinu Fellsborg.
Frumsýning myndarinnar er öllum opin og íbúum á Skagaströnd og gestum Kántrýdaga boðið að koma og njóta sýningarinnar.
Myndin var unnin á árunum 2008-2011. Í henni er skoðað hvernig atvinnumálum á staðnum er háttað í víðu samhengi og horft til hátækni og menningar. Í myndinni er fjallað um kántrýtónlist, NES listamiðstöð, Spákonuhof, BioPol og fylgst með fjölbreyttu lista- og mannlífi á Kántrýdögum.
Gerð myndarinnar var styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra og unnin í samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd.
Höfundur myndarinnar er Halldór Árni Sveinsson
16.08.2012
Tómstunda- og menningarmálanefnd hefur ákveðið að veita viðurkenningu fyrir best/skemmtilegast/frumlegast /fallegast skreyttu götuna um Kántrýdaga.
Nokkrir smekkvísir listamenn í Nes listamiðstöð hafa tekið að sér að úrskurða um ágæti skreytinga í götum og munu meta skreytingamál á föstudagskvöldi og laugardegi.
Tilkynnt verður um niðurstöðu og viðurkenning veitt á fjölskylduskemmtun á laugardagskvöldi.
Tómstunda og menningarmálanefnd
15.08.2012
Laugardaginn 18. ágúst klukkan 10:00 verður lagt af stað í Þórdísargöngu á Spákonufell. Mæting er við golfskálann að Háagerði .
Fararstjóri verður göngugarpurinn Halldór Ólafsson og mun hann segja sögur af Þórdísi spákonu og öðru skemmtilegu.
Að lokinni göngu verður boðið uppá kaffihlaðborð í golfskálanum sem er innifalið í þátttökugjaldi sem er kr. 2.500.-
Frítt fyrir yngri en 16 ára.
Upplýsingar í síma 861 5089
Menningarfélagið Spákonuarfur
14.08.2012
Á Kántrýdögum opnar Árni Geir Ingvarsson ljósmyndasýninguna "Mannlíf á Skagaströnd". Eins og nafnið bendir til verða þar sýndar myndir úr hinu daglega lífi á Skagaströnd en Árni Geir hefur verið með vakandi auga linsunnar á atburðum og augnablikum mannlífsins. Hann er reyndar ekki einn um myndirnar því Herdís Jakobsdóttir kona hans og dóttirin Ásdís Birta eiga einnig hlut í sýningunni.
Ljósmyndasýingin verður í íþróttahúsinu og sýningartími á Kántrýdögum:
Föstudaginn 17. ágúst kl. 18:00 - 20:00
Laugardaginn 18. ágúst kl. 13:00 - 18:00
Sunnudaginn 19. ágúst kl. 13:00 - 17:00