22.12.2003
Nýlega afhenti stjórn Sjúkrasjóðs Höfðakaupstaðar
heilsugæslunni á Skagaströnd nýtt tæki að gjöf. Tækið
er Lazer-tæki; Thor DD Lazer Therapy Unit, sem nýtist
vel við verkjameðferð, einkum fyrir gigtarsjúklinga.
Sjúkrasjóður Höfðakaupstaðar var stofnaður 1947 innan
kvenfélagsins Eining á Skagaströnd.Hefur sjóðurinn
verið iðinn við að gefa ýmis konar tæki til
heilsugæslunnar frá stofnun hans. Meðal annars eru
nánst öll tæki sem notuð eru á heilsugæslunni til
þjálfunar og endurhæfingar tilkomin sem gjafir frá
sjóðnum. Einnig hefur sjóðurinn gefið nokkuð af
tækjum í sjúkrabíl Rauðakrossdeildarinnar á
Skagaströnd í gegnum árin. Aðal tekjulind
Sjúkrasjóðsins er sala minningarkorta en þess utan
hafa konurnar sem starfa fyrir hann fengið styrki frá
fyrirtækjum og einstaklingum.
Að þessu sinni fékk heilsugæslan lazertæki frá
sjóðnum en að sögn Angelu Berthold sjúkraþjálfara
nýtist tækið vel við verkjameðferð, til húðlækninga og
svo hefur það örvandi áhrif á frumumyndun og er því
græðandi. Þá er ótalinn sá kostur tækisins að hafa
bólgueyðandi áhrif því að meðferð með því hefur örvandi
áhrif á blóðstreymi til bólginna vöðva. Angela þakkaði
kvenfélaginu og Sjúkrasjóðnum fyrir gjöfina og segist
nú þegar hafa reynslu fyrir að tækið nýtist vel á
heilsugæslunni.
ÓB.
13.12.2003
Slökkvilið Skagastrandar og björgunarsveitin Strönd
voru kölluð út um kl 14 í dag, laugardaginn 13. des. þar
sem í ljós hafði komið að hraðfiskibáturinn Þórunn Ósk
var hálffullur af sjó og talin veruleg hætta á að hann
sykki ef ekki væri við brugðið. Var dælt upp úr bátnum
og gekk það allt greiðlega. Síðastliðna nótt var
hvassviðri og mældist vindhraði á Skagastrandarhöfn
20 m/sek og mesti vindur í hviðum 28-30 m/sek. Ekki
er vitað fyrir víst hvort veðrið var ástæða þess að
báturinn fylltist af sjó eða hvort aðrar ástæður voru til
þess.
12.12.2003
Í byrjun desember fóru börnin á Barnabóli í heimsókn í
Hólaneskirkju til Magnúsar sem heitir „prestur“ eins og
eitt barnið sagði.
Magnús sagði börnunum frá kertunum í kirkjunni og
fékk aðstoð nokkurra barna við að kveikja á þeim. Svo
var sungið og hlustað á jólaguðspjallið en Gabriel
erkiengil og úlfurinn voru Magnúsi til aðstoðar við
frásögnina. Allir voru prúðir, sátu kyrrir og hlustuðu.
Helga Bergsdóttir
12.12.2003
Leikskólanum berast góðar gjafir þessa dagana því
Foreldrafélag Barnabóls hefur tekið upp budduna rétt
einu sinni. Fjórir stórir bílar, fjögur teikniborð,
gúmmímottur undir rólurnar og fjórar dúkkur komu upp
úr kössunum að þessu sinni.
Börnin eru himinlifandi yfir gjöfunum og eru þegar búin
að skýra dúkkurnar, en þær heita Jón Oddur, Jón
Bjarni, Sigrún og svo er það hún Felicia því hún er frá
útlöndum og heitir útlensku nafni. Þessi „útlönd“ heita
Afríka á landakortinu.
Foreldrafélagið fær bestu þakkir frá börnum og
starfsfólki fyrir þessar góðu gjafir.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
09.12.2003
Á aðventustund í Hólaneskirkju, þann 7. desember sl.,
var kirkjunni formlega færð Guðbrandsbiblía að gjöf.
Gefandi er Aðalheiður Þorleifsdóttir, búsett á Akureyri,
móðir Péturs Eggertssonar forstöðumanns
Dvalarheimilisins Sæborgar á Skagaströnd. Biblían er
ljósprentað eintak nr. 312 af þeim 500 eintökum sem
ljósprentuð voru veturinn 1956-57. Hún er ljósprentuð
eftir frumútgáfu sem Guðbrandur Þorláksson (f. á
Staðarbakka í Miðfirði 1542; d. 1627) Hólabiskup gaf
Knappstaðakirkju í Fljótum skömmu eftir að hann hafði
látið prenta, árið 1584, 500 eintök af hinni svokölluðu
Guðbrandsbiblíu, þ.e. fyrstu útgáfu Biblíunnar á
íslenskri tungu. Sú Biblía er kennd við Guðbrand
sökum þess að hann stóð fyrir því í orði og verki að láta
prenta hana er hann sat á biskupsstóli á Hólum árin
1571-1627. Hann þýddi m.a. sjálfur stóran hluta af
Gamla testamentinu en notaði þýðingu Odds
Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, auk þess sem
hann keypti prentsmiðju frá Breiðabólstað í Vesturhópi
og flutti heim að Hólum í Hjaltadal til þess að geta
fullkomnað verkið.
Af framsögðu þarf ekki að undra að
fræðimenn séu flestir á þeirri skoðun að útgáfa
Guðbrandsbiblíu sé eitthvert mesta stórvirki íslenskrar
menningarsögu og eru Skagstrendingar afar þakklátir
og ánægðir að hafa fengið til varðveislu ljósprentað
eintak af þessu mikla menningarlega verðmæti.
M.M.
08.12.2003
Nýbyggð upptökubraut fyrir smábáta var tekin í notkun í
dag mánudaginni 8. desember þegar Bylgja RE 77 var
dregin á land um brautina. Brautin var byggð núna í
vetur og er unnin í samstarfi Skagastrandarhafnar og
Siglingastofnunar. Með tilkomu hennar batnar aðstaða
eigenda smábáta til mikilla muna þar sem miklu
öruggara og þægilegra verður að sjósetja og taka á
land báta í vögnum. Um er að ræða 15 m langa og 5 m
breiða steypta braut sem var byggð af Trésmiðju Helga
Gunnarssonar. Samhliða byggingu hennar var gengið
frá fyllingu og grjótvörn á svæðinu kringum brautina.
Það verk ásamt fyllingu undir brautina var unnið af þeim
Víðimelsbræðrum, Jóni og Sveini Árnasonum sem voru
verktakar við sjóvarnir á Skagaströnd og Blönduósi
05.12.2003
Laugardaginn 29. nóvember síðastliðinn, var
hefðbundinn piparkökudagur á leikskólanum. Börnin
komu með foreldrum sínum og systkinum, skáru út
kökur úr deiginu sem hún Ásthildur í eldhúsinu var búin
að útbúa fyrir alla. Einhverjir tóku líka ömmur og afa
með sér, en margar ömmur hafa bakað mikið um
dagana og eru ráðagóðar í bakstrinum.
Stundum verður þó minna úr deiginu en efni standa til,
því sumt ratar beina leið í magann áður en það verður
að köku. En það sem kemur út úr ofninum er svo
skreytt fagurlega, með gulu, rauðu og grænum glassúr.
Þessi glassúr á það þó stundum til að þykkna og
festast í skeiðinni eða á pinnanum. Þá er eina ráðið að
sleikja þetta bara almennilega af og halda svo áfram að
skeyta.
Inn á milli fá svo mömmur og pabbar, afa og ömmur
kaffisopa og börnin djús og jólalögin eru spiluð til að
koma öllum í gott jólaskap.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
04.12.2003
Föstudaginn 28. nóvember var árshátíð Höfðaskóla
haldin í Fellsborg fyrir fullu húsi.Árshátíðin tókst með
eindæmum vel og stóðu allir nemendur sig með sóma.
1. bekkur var með apasöng, 2. bekkur söng lag úr
Grease, 3. bekkur flutti Karnival dýranna, 4. bekkur
sýndi leikritið um Mjallhvíti í endurbættri útgáfu, 5.
bekkur var með Kennara-Idol, 6. bekkur sýndi þátt úr
Survivor, 7. bekkur var með Bachelor atriði og
nemendur 8.- 10. bekkja fluttu frumsamið leikrit sem
hét Stefnumótið. Þá voru kennararnir með atriðið
Minkurinn í hænsnakofanum. Hljómsveitin VIÐ sá um
tónlistarflutning fyrir 2. bekk og unglingana, ásamt því
að spila nokkur lög í lok árshátíðarinnar og á ballinu.
Tertuhappdrætti var á milli atriða. Logi Vígþórsson
stjórnaði dansi fyrri hluta diskóteksins og mæltist það
vel fyrir hjá öllum. Skólafélagið Rán sá um skreytingar
með aðstoð húsvarðar Fellsborgar. Þetta var hin besta
skemmtun og fóru allir þreyttir en ánægðir heim um
kvöldið.
Fréttin með myndum er á heimasíðu skólans
http://hofdaskoli.skagastrond.is/
04.12.2003
Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni
fimmtudaginn 4. desember kl 17.30.
Samkomulag hefur tekist við jólasveinafélagið um að
jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber
starfstími þeirra
hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga.
Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp
jólalögin.
Sveitarstjóri.