Mynd vikunnar

Kvenfélagskonur úr kvenfélaginu Einingu sáu um veitingar í kveðjuveislu séra Péturs Þ. Ingjaldssonar (d. 1.6.1996) í nóvember 1982 í Fellsborg. Á myndinni eru þær sem báru hitann og þungann af framreiðslunni í veislunni. Frá vinstri standandi: Erla Valdimarsdóttir (d. 29.9.2008), Anna Skaftadóttir, Halldóra Þorláksdóttir, Aðalheiður Guðmundsdóttir (d. 24.9.2011) og Ása Jóhannsdóttir. Sitjandi eru Helga Ottósdóttir vinstra megin og Birna Blöndal hægra megin. Allar þessar konur tóku virkan þátt í starfi kvenfélagsins Einingar.

Matjurtagarðar á Tótutúni

Matjurtagarðarnir á Tótutúni hafa verið tættir og eru tilbúnir til notkunar. Garðarnir hafa verið lagaðir og er vonast til að þeir afvatni sig betur en undanfarin ár. Afnot af görðunum er öllum heimil og þarf ekki að leita heimildar til þess en fólk beðið að setja skýr mörk um þann reit sem sett er niður í. Sveitarstjóri

Vinnuskóli á Skagaströnd

Vinnuskóli Skagastrandar hefst þriðjudaginn 3. júní 2014. Nemendur sem eru skráðir í vinnuskólann mæti við áhaldahús kl 9.00. Skráning í Vinnuskóla Skagastrandar fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins. Sérstök athygli er vakin á að störf í vinnuskóla verða einungis fyrir nemendur sem eru að ljúka 8., 9. og 10. bekk. Með tilvísun í reglugerð um vinnu barna og unglinga er einungis heimilt að ráða 13 ára og eldri til starfa í vinnuskólum. Því takmarkast ráðning í vinnuskóla við fyrrgreind aldursmörk. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. Sveitarstjóri

Hugleiðingar um atvinnumál á Skagaströnd

Á síðastliðnum 10 árum hefur samfélag á Skagaströnd gengið í gengum mjög miklar formbreytingar á atvinnulífi, kannski ætti tala um hamfarir. Hér voru starfandi tvær litlar fiskvinnslur og ein öflugasta rækjuvinnsla á landinu. Gera má ráð fyrir að þessi starfsemi hafi beint og óbeint veitt í það minnsta 70-100 manns atvinnu. Fyrir tíu árum má jafnframt með góðu segja að hér verið starfandi tveir opinberir starfsmenn þ.e. prestur og hjúkrunarfræðingur. Hvernig er staðan í dag? Öll landsvinnsla á sjávarafurðum hefur lagst af í kjölfar samþjöppunar í sjávarútvegi en um 5-7 manns keyra til vinnu í fiskvinnslu á Sauðárkróki. Með mikilli baráttu hefur hins vegar tekist að fjölga opinberum störfum á Skagaströnd. Nægir þar að nefna Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og BioPol ehf. Væntanlega eru nú á Skagaströnd um 30 opinberir starfsmenn sem telst vera töluvert hátt hlutfall miðað við stærð bæjarfélags. Slíkar umbreytingar eiga sér ekki stað án þess að jafnframt verði breytingar á íbúasamsetningu og því miður hefur landsbyggðin verið látin borga að fullu fyrir hagræðingu og samþjöppun í sjávarútvegi. Neikvæð íbúaþróun er þess vegna alls ekki aðeins bundin við Skagaströnd heldur hefur átt sér stað víðast á landsbyggðinni. Við skulum heldur ekki gleyma að tilkoma þessara stafa frá hinu opinbera hefur átt sér stað yfir tímabil þar sem íslenska ríkið hefur gengið í gegnum efnahagshrun og þurft að standa fyrir blóðugum niðurskurði á flestum vígstöðvum. Sveitarstjórnarmenn hafa því haust eftir haust þurft að eyða ómældum tíma í að standa vörð um þessi störf við gerð fjárlaga. Fólk sér sjaldnast mikið af þessari vinnu. Það var til dæmis brugðist hart við þegar eftirfarandi frétt birtist á www.visir.is 16. desember 2013: Blóðugur niðurskurður er framundan hjá Vinnumálastofnun á næsta ári. Svo gæti farið að starfsemi stofnunarinnar á Skagaströnd verði lögð niður sem yrði reiðarslag fyrir sveitarfélagið að sögn sveitarstjóra. Þeir sem minna mega sín eru niðurlægðir og á þeim níðst segir formaður stéttarfélags í almannaþjónustu. Rúmlega 20 manns starfa hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd. Verði af niðurskurði munu um 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna. Það samsvarar ef 6.000 manns í Reykjavík myndu missa vinnuna. Hvernig endaði þessi slagur? Heldur fólk að það sé ekki mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að búa yfir reynslu þegar tekist er á um slíka hluti? Haldið þið að geti skipt máli að vera með þokkalegar tengingar við stjórnmálamenn og jafnvel fólk við ríkisstjórnarborðið þegar svona átök fara fram? Hverjum treystið þið til þess að tala ykkar máli þegar kemur að slíku? Skagastrandarlistinn hefur ekki trú á töfralausnum í atvinnumálum enda væri þá búið að framkvæma þær lausnir fyrir löngu. Við höfum trú á fólkinu sem hér býr og finnst best ef frumkvæðið kemur frá ykkur íbúunum. Okkar stefnumið eru einföld og skýr: Nýstofnaður Atvinnuþróunarsjóður Skagastrandar verði hvatning til nýsköpunar Halda áfram baráttu fyrir opinberum störfum á Skagaströnd Hvetja/styðja einstaklinga og fyrirtæki sem eru á staðnum Markviss uppbygging ferðaþjónustu, m.a. aukning gistirýmis Samstarf við nágrannasveitarfélög og stjórnvöld um uppbyggingu atvinnu á svæðinu Kynningarátak á kostum Skagastrandar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki Fólki á Skagastrandarlistanum er jafnframt ljóst að um Skagastrandarhöfn hefur á undanförnum árum farið umtalsvert magn af ferskum fiski sem ætti að vera hægt að nota sem grunn ef áhugasamir aðilar vildu hefja á ný vinnslu á sjávarafurðum á Skagaströnd. Skagastrandarlistinn munum áfram reyna að beita sér í þeim efnum. Veitið Skagastrandarlistanum umboð í komandi kosningum til að hrinda góðum atvinnumálum í framkvæmd í samstarfi við ykkur. Þá vegnar okkur vel. Halldór Gunnar Ólafsson

Húnavatnshreppur varðar leið til enn betra skólastarfs

Við skólaslit Húnavallaskóla mánudaginn 26. maí kynnti Þóra Sverrisdóttir, oddviti nýja skólastefnu Húnavatnshrepps. Haustið 2013 hefst markviss vinna við gerð stefnunnar og voru þau Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri og Sigríður B. Aadnegard, skólastjóri fengin til að stýra verkinu. Allir íbúar sveitarfélagsins áttu kost á að segja sitt og láta til sín taka. Skólastefnan er vegvísir skólastarfs Húnavatnshrepps og vísar til þeirra áherslna sem Húnavatnshreppur vill að séu vörður skólastarfs sveitarfélagsins. Skólastefnan skal taka mið af þeim gildum sem allir aðilar skólasamfélagsins vilja að einkenni skólastarfið sem og þeim áherslum sem lög og aðalnámskrár segja fyrir um. Stefnan markar framtíðarsýn Húnavatnshrepps í skólamálum og á erindi til alls samfélagsins. Með gerð skólastefnunnar er fyrst og fremst verið að gera sýnilegar þær áherslur og vinnulag sem aðilar skólasamfélags alls vilja að sé ríkjandi í starfi skólanna í sveitarfélaginu. Með skólastefnunni er einnig verið að uppfylla lagaleg skyldu sveitarfélagsins. Í skólastefnunni er sérstök áhersla lögð á að skólinn sé hjarta byggðarlagsins og því mikilvægt að góð samskipti og gagnkvæm virðing ríki á milli skólans og samfélagsins í heild. Áherslur skólastarfs Húnavallaskóla endurspegla skólastefnu sveitarfélagsins, lög, reglugerðir og námskrár. Kveðja Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri Sigríður B. Aadnegard, Skólastjóri

Hvers vegna bauð ég mig fram?

Þegar hugmynd um að bjóða mig fram undir merkjum Skagastrandarlistans kom upp í kollinn á mér hugsaði ég málið í nokkra daga og ákvað í framhaldinu að henda mér út í djúpu laugina. Ég sé alls ekki eftir því. Frá því að ég var lítil hef ég litið á Skagaströnd sem mitt „heim“. Hér hef ég starfað síðan 2008 og búið síðan í byrjun árs 2012. Eftir flutninginn hugsaði ég, af hverju var ég ekki löngu flutt hingað? Hér slær hjartað, hérna er mitt „heim“ og á Skagaströnd vil ég búa þar til ég er orðin gömul og grá. Til þess að það sé mögulegt þarf að tryggja atvinnuöryggi. Óöryggi í atvinnumálum er ekki aðlaðandi fyrir neinn og allra síst ungt fólk með börn. Við þurftum að leita leiða til styrkingar atvinnulífs hvort sem um er að ræða nýsköpun eða stuðning við núverandi atvinnurekendur. Mennta- og uppeldismál eru mér ofarlega í huga. Gæði þeirra eru alger forsenda fyrir því að samfélag eins og okkar dafni og sé aðlaðandi fyrir barnafjölskyldur. Við þurfum að tryggja að skóli og leikskóli veiti bestu menntun sem völ er á. Jafnframt þarf aðbúnaður skólastarfs að vera til fyrirmyndar. Halda þarf áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á sl. árum en jafnframt er mikilvægt að stöðugt sé unnið að endurbótum á starfinu og umhverfi þess. Ég bauð mig fram til að geta lagt mitt lóð á vogarskálar samfélagsins. Ég vil gera enn betur og halda áfram að gera bæinn okkar betri. Ég er sannfærð um að gott má alltaf bæta. H-listinn Skagastrandarlistinn leitar nú eftir umboði til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Veitið okkur umboð til uppbyggingar og traust til að hlúa betur að samfélginu okkar á komandi kjörtímabili. Stöndum saman í að gera samfélagið okkar enn betra. Sjáumst sem flest hress og kát á kjörstað X-H Árný Sesselja Gísladóttir

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar föstudaginn 30. maí 2014 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: Leiðrétting sveitarstjórnar á kjörskrá, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 5/1998. Sveitarstjóri

ÚTGÁFUKYNNING

Á síðustu dögum hafa komið út tvö rit tengd Austur-Húnavatnssýslu: FRÁ FJÖRU TIL FJALLS - Kynningarbæklingur um A-Hún. sem kemur út á vegum Ferðamálafélags A-Hún. Bæklingurinn er tæpar 50 síður í A5 broti og inniheldur upplýsingar til ferðamanna um sýsluna, auk auglýsinga frá aðilum í ferðaþjónustu. HÚNAVAKA 2014 – Ársrit USAH sem nú kemur út í 54. sinn. Ritið er tæpar 300 bls. að stærð og inniheldur margvíslegan fróðleik, s.s. viðtöl, frásagnir, kveðskap, fréttir o.fl. ÚTGÁFUKYNNING - Á morgun, uppstigningardag, verður haldinn sameiginlegur kynningarfundur á kynningarbæklingnum og Húnavökuritinu. Fundurinn verður í Eyvindarstofu á Blönduósi, kl. 17:30 og stendur í ca. hálftíma. Boðið verður upp á kaffi og kleinur. Við viljum hvetja þig til að mæta og fjalla í framhaldinu um þessi rit sem bæði stuðla að því að styrkja A-Hún. Með bestu kveðjum. Ferðamálafélag A-Hún. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga

Kjörfundur

Kjörfundur vegna sveitastjórnarkosninga í Sveitarfélaginu Skagaströnd verður í Höfðaskóla á Skagaströnd 31.maí 2014. Kjörfundur hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 22:00 Talning atkvæða hefst um kl. 22:45, á kjörstað. Kjörstjórn.

Hvað ert þú þakklát/ur fyrir?

Það er líflegt í litla bænum mínum núna, sjómannadagur og kosningar framundan og bærinn hreinlega iðar af tilhlökkun og spenningi. Það eru ekki margar vikur síðan ég sat og kvartaði yfir því að fólk skartaði orði eins og íbúalýðræði, án þess að hafa nokkurn raunverulegan áhuga á taka þátt og varla áhuga á að kynna sér málin. Þetta get ég ekki sagt í dag. Á vinnustöðum, kaffistofum og á netheimum takast menn á um ýmis málefni og oft skapast fjörugar og skemmtilegar umræður. En þó ekki alltaf. Stundum verð ég hrygg við lestur netmiðla, stundum tapa ég gleðinni eitt andartak og stundum verð ég hreinlega þung á sálinni og svartsýn. Sem betur fer bý ég að því að hafa kynnst 12 spora starfi og eitt stærsta verkefnið sem ég tókst á við þar, var að taka ábyrgð á eigin líðan og upplifun. Mér líkar vel við flesta en þó ekki alla og flestir eru mér góðir en þó ekki allir. Hvort ég læt það skipta mig máli er mitt val. Ég ber ein ábyrgð á viðbrögðum mínum. Enginn annar en ég ber ábyrgð á því hvernig ég kem fram við annað fólk. Annað verkefni í sporastarfinu var hreinlega að breyta því hvernig ég horfi á heiminn. Í stað þess að einblína á þætti sem ekki eru í lagi þá finnst mér gott að fara með æðruleysisbænina og hafa hana bak við eyrað í öllum athöfnum daglegs lífs. Einbeita mér síðan að því sem er gott í kringum mig og þakka fyrir það. Ég er ekki fullnuma í fræðunum, langt því frá, en vonandi þó á réttri leið. Fyrir hvað er ég þakklát í dag? Það er ansi margt: Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér og alist upp að miklu leyti. Ég er þakklát fyrir son minn og allt sem hann hefur kennt mér og gefið af sér. Ég er þakklát fyrir það gæfuspor að flytja hingað fyrir tveimur árum. Ég er þakklát fyrir allt það góða fólk sem hér býr og bauð okkur mæðginin velkomin aftur heim. Ég er þakklát fyrir öll brosin og glaðværðina sem mætir mér hvert sem ég fer, þó það sé bara út að ruslatunnu. Ég er þakklát fyrir vinnustaðinn minn. Fólkið sem þar starfar við hlið mér og fólkið sem ég þjónusta. Ég er þakklát fyrir ódýru íbúðina sem ég leigi af Sveitarfélaginu. Ég er þakklát fyrir hitaveituna sem gerir það að verkum að ég get staðið undir sjóðheitri bununni eins lengi og ég þarf. Það er gott eftir góðan sundsprett í köldum sjónum. Ég er þakklát fyrir vöruúrvalið í búðinni og þjónustuna sem ég fæ þar daglega. Ég er þakklát fyrir náttúrufegurðina, fuglasönginn og fagra fjallasýn, sama í hvaða átt er litið. Þessa dagana er ég jafnframt þakklát fyrir góða hópinn sem skipar H-listann, Skagastrandarlistann. Þakklát fyrir þá gleði og bjartsýni sem einkennir þennan samstillta hóp. Þakklát fyrir að þarna er fólk sem hlustar og er tilbúið að gera enn betur. Þakklát fyrir að þarna er fólk sem ég treysti og fyrir traustið sem mér er sýnt. Ef velgengni þín vegur salt og vonin er að flaksa. Þú skalt elska og þakka allt það sem á að vaxa. Höf. Hallgrímur Óskarsson Ég hlakka til að sjá ykkur vonandi öll á laugardaginn! Á kjörstað, í skrúðgöngu, sjómannamessu, skemmtisiglingu, á Hafnarhúsplaninu, í sjómannadagskaffi, við talningu atkvæða eða á dansleik í Fellsborg. Kjósum eftir hjartanu og höfum í huga að hvernig sem þessar kosningar fara, þá ætlum við að búa hér áfram saman í sátt og samlyndi. Kærar kveðjur til ykkar allra X-H Sigurlaug Lára Ingimundardóttir