01.07.2014
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 2. júlí 2014 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
Grunnskóli:
Starfsmannahald skólaárið 2014-2015
Erindi um stuðningsfulltrúa
Hjallastefna
Önnur mál
Sveitarstjóri
27.06.2014
Sveitarfélagið Skagaströnd óskar eftir flokksstjóra tímabundið í júlí og fyrstu viku ágúst við vinnuskólann og afleysingu í áhaldahúsi. Nánari upplýsingar veitir Árni Geir í síma 8614267
Sveitarstjóri
27.06.2014
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) auglýsa eftir framkvæmdastjóra. SSNV er þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og sér um mikilvæga sameiginlega málaflokka og hagsmunamál sveitarfélaga á starfssvæðinu. Verkefni SSNV eru fjölbreytt og snúa að hagsmunum svæðisins, atvinnuþróun og rekstri sameiginlegra verkefna sveitarfélaganna sem að því standa.
Leitað er eftir einstaklingi sem getur unnið sjálfstætt, sýnir frumkvæði og hefur góða hæfileika í mannlegum samskiptum. Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði og æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu á sveitarstjórnarmálum og rekstri. Höfuðstöðvar SSNV eru á Hvammstanga.
Áhugasamir umsækjendur skulu senda inn umsókn fyrir 7. júlí til:
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Höfðabraut 6
530 Hvammstangi
Merkt: „Framkvæmdastjóri“
Nánari upplýsingar um starfið veitir Bjarni Jónsson formaður SSNV í síma 8947479
26.06.2014
Gísl
Leikárið 1979 - 1980 setti Leikklúbbur Skagastrandar á svið
leikritið Gísl í leikstjórn Ragnhildar Steingrímsdóttur (d. 25.6.2009).
Þetta var fjölmenn sýning og vel heppnuð, sem var sýnd í
Fellsborg og nágrannabyggðunum ásamt því að farið var með
verkið suður á land og það sýnt í félagsheimili Seltjarnarness.
Á myndinni eru leikarar og starfsfólk sýningarinnar eftir æfingu í
Fellsborg.
Fremsta röð frá vinstri: Viggó Brynjólfsson, Ardís Ólöf Arelíusdóttir,
Magnús B. Jónsson, Ragnhildur Steingrímsdóttir leikstjóri,
Guðmundur Haukur Sigurðsson og Gunnar Benónýsson
(d. 29. 7.2003).
Næsta röð frá vinstri: Árni Geir Ingvarsson, Elín Njálsdóttir og
Bjarnhildur Sigurðardóttir.
Þriðja röð frá vinstri: Lárus Ægir Guðmundsson, Einar Helgason,
Rúnar Loftsson, Hjörtur Guðbjartsson, Ólafur Bernódusson,
Ingibergur Guðmundsson og Bernódus Ólafsson.
Fjórða röð frá vinstri: Hallveig Ingimarsdóttir og Guðbjörg Viggósdóttir.
Þar fyrir ofan frá vinstri: Birna Blöndal, Hjörtur Guðmundsson og
Hallbjörn Hjartarson.
23.06.2014
Lionsfélagar með mökum sínum
Þessi mynd sýnir hátíðafund Lionsklúbbs Skagastrandar (eldri) í
Skátaskálanum. Hér hafa félagarnir boðið mökum sínum eða
vinkonum með sér á fund.
Við háborðið sitja frá vinstri: Ole Aamundsen (d.?), Margrét
Jóhannesdóttir, Guðmundur Kr. Guðnason (d. 21.11.1988),
Helga Berndsen, Anna H. Aspar (d. 1.9.1999), Bernódus Ólafsson
(d. 18.9.1996), Þórarinn Björnsson (d. 24.5.1985),
Guðríður Bergsdóttir (d. 10.6.1996), Þórey Jónsdóttir (d. 29.12.1966)
og Þórður Jónsson (d. 25.12.2010).
Standandi frá vinstri eru: Skafti Fanndal Jónasson (d. 2.9.2006),
Jón Pálsson, Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir (d. 13.7.2003),
Hörður Ragnarsson, Sveinn Ingólfsson, Helga Jóhannesdóttir,
Aðalbjörg Hafsteinsdóttir, Þorgerður Guðmundsdóttir (d. 24.4.2008),
Björgvin Jónsson (d. 21.12.1998), Þorfinnur Bjarnason (d. 6.11.2005),
Hulda Pálsdóttir, Dómhildur Jónsdóttir (d. 18.10.2012),
Pétur Þ. Ingjaldsson (d. 1.6.1996), Jóna Guðjónsdóttir,
Páll Þorfinnsson (d. 1.9.1993), Edda Pálsdóttir,
Páll Jónsson (d. 19.7.1979), Ástmar Ingvarsson (d. 10.10.1977)
og Jóhanna Sigurjónsdóttir (d. 15.12.1990).
Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en það hefur sennilega
verið einhverntíma á árunum 1960 - 1965.
21.06.2014
Á mánudagskvöld 23. júní, kvöldið fyrir Jónsmessunótt, klukkan 20:30 verður opnuð ný göngubrú yfir Hrafná og í kjölfarið verður haldin Jónsmessubrenna á fjörukambinum innan við brúna í landi Árbakka.
Jónsmessunótt er nótt kynjavera og galdra því þá eru skilin milli raunheima og kynjaheima óskýr og jafnvel opin sumsstaðar. Því væri tilvalið að koma með óskir og fyrirbænir á miðum til þess að senda með logagöldrum til vera sem gætu jafnvel orðið við þeim.
Ef þið hafið ekki trú á svoleiðis væri tilvalið að skrifa einhverja fordóma á miða og brenna þá til ösku – svona í anda Pollapönkarana.
Spákonur úr Spákonuhofinu mæta á svæðið og hver veit hvað gerist þá.....
Svo er nú bara alltaf gaman að hittast, kveikja í kesti og jafnvel syngja nokkur lög. Kassagítarar og hverskonar hljóðfæri eru líka sérstaklega velkomin.
Ungmennafélagið Fram Sveitarfélagið Skagaströnd
20.06.2014
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 24. júní 2014 kl 1600 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
Kosning oddvita og varaoddvita
Skýrsla kjörstjórnar um sveitarstjórnarkosningar 2014
Kosning í nefndir sveitarfélagsins
(skv. 40. gr. samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar)
Ráðning sveitarstjóra
Siðareglur sveitarstjórnar
Stuðningur við framboð til sveitarstjórnar
Grunnskóli:
Ráðning skólastjóra
Erindi um stuðningsfulltrúa
Skýrsla um frístundaver
Vinabæjamót – dagskrá
Bréf:
Tónlistarskóla Akureyrar, dags. 16. júní 2014
Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 28. maí 2014
Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 12. júní 2014
Skákfélagsins Hróksins, dags.11. júní 2014
Þjóðskrár Íslands, dags. 13. júní 2014
Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 12. júní 2014
Fundargerðir:
Skipulags- og byggingarnefndar, 22.05.2014
Stjórnar Félags og skólaþjónustu A-Hún, 12.06.2014
Stjórnar Norðurár bs, 15.05.2014
Stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga, 15.05.2014
Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 16.05.2014
Önnur mál
Sveitarstjóri
20.06.2014
Drew Krasner heldur tónleika sunnudaginn 22. júní, kl 18.00 í Hólaneskirkju.
Jasspíanistinn og saxófónleikarinn Drew Krasner, Nes listamiðstöð og Hólaneskirkja bjóða þér á einleikstónleika Drew Krasner í kirkjunni. Aðgangur ókeypis.
Fögnum Jónsmessunni. Allir velkomnir
Drew Krasner, - Nes listamiðstöð, - Hólaneskirkja
20.06.2014
Ljósuganga fer fram dagana 4.-6. júlí næstkomandi en gangan er gengin í minningu Guðrúnar Teitsdóttur ljósmóður sem útskrifaðist úr Ljósmæðraskólanum árið 1914 og á því 100 ára ljósmóðurafmæli í ár. Konur tengdar Guðrúnu og fjölskyldu hennar ætla að heiðra minningu hennar með því að ganga sömu leið og hún gekk eftir að hún lauk „Yfirsetukvennaskólanum“.
Guðrún ljósa gekk frá Borgarnesi að Grænumýrartungu, sem er fyrsti bær norðan Holtavörðuheiðar, í hríð og lélegu skyggni í pilsi og dönskum skóm fyrir 100 árum síðan. En þangað var hún sótt á hesti. Áfangastaður var heimili hennar, Kringla í Austur-Húnavatnssýslu.
Fyrsta dagleið, föstudaginn 4. júlí.
Mæting er kl. 08.00 og ganga hefst kl. 08.30.
Gengið verður frá Borgarnesi að Bifröst, alls 35 km.
Önnur dagleið, laugardaginn 5.júlí.
Ganga hefst kl. 08.30
Gengið er frá Bifröst að Fornahvammi, alls 27 km.
Þriðja og síðasta dagleið, sunnudaginn 6. júlí.
Ganga hefst kl. 08.30
Gengið frá Fornahvammi að Grænumýrartungu, alls 25 km.
Öllum konum, ungum sem öldnum, er velkomið að ganga með. Hægt er að koma inn í gönguna hvenær sem er og ganga hluta úr leið – allt eftir því sem hverjum og einum hentar best. Hvert spor skiptir máli.
Í tilefni af göngunni ætla göngufarar að safna áheitum. Áheit göngunnar munu renna óskipt til LÍF, styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans. Hægt er að leggja inn upphæð að eigin vali inn á eftirfarandi reikning og merkja innleggið Ljósuganga. Áheit verða notuð til góðs í nafni Guðrúnar Teitsdóttur.
Bankanúmer 515-14-411000, kennitala 501209-1040.
Einnig er hægt að hringja í síma 907 1115 og styrkja verkefnið um 1.500 kr.
Hægt er að skrá sig í gönguna á netfangið ljosuganga@gmail.com.
20.06.2014
Það sem af er sumri má segja að aðstæður til golfiðkunar hafi verið mjög góðar, hlýindi og frekar lygnt. Háagerðisvöllur kom þokkalega undan vetri þrátt fyrir að kal hafi verið með meira móti.
Síðustu vikurnar hefur verið unnið að endurbótum á Háagerðisvelli. Lagt var malarlag á planið við klúbbhúsið og áhaldageymsluna. Verið er að setja niður nýja rotþró og frárennslislagnir. Flötin á braut 5 var endurmótuð og nýtt gras lagt á hana, auk þess sem næsta umhverfi flatarinnar var endurbætt. Þökurnar koma frá Suðurlandi og er grasið sérstakt „golfvallargras“. Sorphreinsun Vilhelms hefur unnið að öllum þessum verkefnum . Félagar í golfklúbbnum hafa einnig unnið að þökulagningunni.
Þessa dagana er boðið upp á golfkennslu fyrir íbúa Skagastrandar. Kennari er Hulda Birna Baldursdóttir. Áhugasamir eru hvattir til að mæta á golfvöllinn og reyna sig við þessa skemmtilegu og áhugaverðu íþrótt.
Golfklúbbur Skagastrandar