30.12.2011
Fréttatilkynning
Sveitarfélagið Skagaströnd og Rarik hafa gert samning um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Samningurinn sem var undirritaður 30. desember 2011 felur í sér að sveitarfélagið greiðir fast gjald til Rarik sem mun leggja stofnæð og dreifiveitu um byggðina á Skagaströnd og tengingu við hitaveitu Blönduóss. Með framlagi sveitarfélags og sérstöku framlagi á fjárlögum ríkisins hefur arðsemi af veitunni verið tryggð.
Þegar framkvæmdum lýkur verður um að ræða eina veitu með veitusvæði sem nái yfir það svæði sem hitaveitan á Blönduósi gerir nú ásamt því sem við bætist með lagningu hitaveitunnar til Skagastrandar. Þar af leiðandi verður ein gjaldskrá fyrir allt veitusvæðið.
Rarik hefur þegar boðið út efni til veitunnar og mun í framhaldi af gerð samningsins staðfesta pöntun á efni. Verklegar framkvæmdir verða boðnar út á nýju ári og munu skiptast í þrjá megin verkhluta: Lagningu nýrrar stofnæðar frá Reykjum að Blönduósi sem verði unnin á árinu 2012, lagningu stofnæðar frá Blönduósi til Skagastrandar á fyrri hluta árs 2013 og lagningu dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sumarið og haustið 2013. Gert er ráð fyrir að fyrstu hús munu tengjast haustið 2013 og að öll hús hafi möguleika á tengingu haustið 2014.
Samhliða lagningu hitaveitunnar hefur sveitarstjórn samið um að lagt verði pípukerfi fyrir ljósleiðara sem opni nýja möguleika í framtíðinni á flutningi stafrænna gagna fyrir heimili og fyrirtæki sem tengjast veitunni.
Sveitarstjórn Skagastrandar lítur á fyrirhugaða tengingu við hitaveitu sem mikið framfaraskref fyrir byggðina og að með því opnist ýmsir möguleikar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki auk þess áætlaða sparnaðar í orkukostnaði sem næst með nýtingu jarðvarma til húshitunar.
Sveitarstjórn er jafnframt fullljóst að í hverri húseign þarf að kosta nokkru til við umrædda breytingu og mun halda kynningarfund 5. janúar n.k. í Fellsborg kl 17.30 þar sem samningurinn og það sem af honum leiðir mun verða kynnt fyrir íbúum.
Sveitarstjórn Skagastrandar
28.12.2011
Eins og svo oft áður verður haldinn áramótadansleikur í Félagsheimilinu Blönduósi á nýársnótt frá klukkan 00:30 til 04:00. Að þessu sinni mun hinn sívinsæli Blönduósvinur Bjartmar Guðlaugsson heldur uppi fjörinu. Aldurstakmark er 16 ára.
26.12.2011
Jólasveinar einn og átta. Ofan koma úr fjöllunum......
Jólatrésskemmtun Lions
Jólabarnaballið verður haldið í Fellsborg annan jóladag
mánudaginn 26. desember nk. kl 15.00-16.30.
Á skemmtunina mæta jólasveinar sem eru að svipast um eftir kátum krökkum sem kunna að syngja og ganga í kringum jólatré.
Krakkar, mætum kát og hress á jólaball.
Engin aðgangseyrir nema gott jólaskap.
Lionsklúbbur Skagastrandar
23.12.2011
ÍÞRÓTTAHÚS SKAGASTRANDAR. VERÐUR OPIÐ.
23.des. 2011 08:00 – 12:00
27.des. 2011 08:00 – 20:00
28. des. 2011 08:00 – 20:00
29. des. 2011 08:00 - 20:00
30.des. 2011 08:00 – 12:00
Umsjónarmaður íþróttahúss.
23.12.2011
Í dag Þorláksmessu er opið í Djásnum og dúlleríi frá kl. 13-21
Er ekki tilvalið að kíkja í gamla kaupfélagskjallarann á Skagaströnd eftir skötuveisluna?
Djásn og dúllerí býður uppá handverk og hönnun úr heimabyggð.
Nærsveitamenn ekki síður en Skagstrendingar eru hjartanlega velkomnir.
Gleðileg jól.
23.12.2011
Vegna hátíðsdaga verður gámastöðin lokuð laugardagana 24. og 31. desember nk. en húsasorp verður tekið fimmtudaginn 29. desember.
Sérstaklega er minnt á að litaður jólapappír er ekki endurvinnanlegur og á að fara í almennt sorp.
Sveitarstjóri
20.12.2011
Allavega fyrir suma J
Sögustund í Spákonuhofinu Þriðjudaginn 20. des og miðvikudaginn 21. des kl. 17:00. Lesum jólasögur fyrir börn á öllum aldri. Enginn aðgangseyrir, bara að koma með jólaskapið og gleðina.
Litla sölubúðin okkar verður líka opin frá 17:00-19:00 ýmislegt á boðstólnum t.d. bækur, prjónavörur, jólaservíettur og jólalöberar með laufabrauðsmunstri, kerti, spil, sápur og fleira skemmtileg...og heitt á könnunni.
Spákonuhof.
20.12.2011
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 21. desember 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Álagningareglur útsvars og fasteignagjalda 2012
2. Fjárhagsáætlun 2012
3. Félags- og skólaþjónusta A-Hún
a) Fundargerð stjórnar 15. 12.2011
b) Fjárhagsáætlun 2012
4. Bréf
a) Íslandspósts, 1. desember 2011
b) UMFÍ, dags. 29. nóvember 2011
c) Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 2. desember 2011
d) Norðurár bs. dags. 2. desember 2011
5. Önnur mál.
Sveitarstjóri
16.12.2011
Tríóið Þúfnapex sem er skipað ungu fólki úr Skagafirði hefur að undanförnu haldið aðventutónleika við góðar undirtektir.
Mánudagskvöldið 19. desember n.k. verða þau með tónleika í Hólaneskirkju og hefjast þeir klukkan 20.30.
Þar munu þau flytja ljúf lög sem systkinin Elly og Vilhjálmur sungu sem og ýmis jólalög og verður um að ræða notalega og ljúfa kvöldstund.
Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um
hjónin frá Garði og Vindhæli.
Aðgangur ókeypis - allir velkomnir
09.12.2011
Út er komin bókin „Sjósókn frá Skagaströnd og Vélbátaskrá 1908-2010", sem Lárus Ægir Guðmundsson hefur unnið að undanfarin misseri. Í henni er skrá um alla vélbáta sem hafa átt heimahöfn á Skagaströnd frá árinu 1908, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur frá Danmörku og fram til 2010.
Í bókinni eru um 220 bátar og má sjá myndir af flestum þeirra ásamt upplýsingum um smíðaár, smíðaefni, stærð og vélargerð sem og eigendasögu og hvenær þeir voru keyptir eða seldir til og frá Skagaströnd.
Jafnframt er að finna fjölmargar frásagnir af ýmsum atburðum sem tengjast fyrrgreindum bátum eins og eftiminnilegar sjóferðir, strönd og slysfarir. Einnig stutt ágrip af útgerð báta frá Skagaströnd fyrr á öldum og greint frá helstu útgerðarfélögum síðustu áratugina. Þá er hér einnig að finna upplýsingar um bátasmíði fyrr og síðar og frásagir sjómanna eldri sem yngri varðandi margt sem upp kom í dagsins önn. Bókin er því svolítið ágrip af ýmsum þáttum sem tengjast útgerðarsögu Skagstrendinga í rúmleg heila öld.
„Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908-2010“ verður boðin til sölu á næstu dögum og kostar bókin 3000 kr.
Ef til vill er þetta hin ágætasta jólagjöf fyrir marga þá sem komið hafa nálægt sjávarútvegi á Skagaströnd og aðra þá sem kunna að hafa áhuga á sögulegum fróðleik um þetta efni.
Útgáfan er styrkt af Mennigarráði Norðurlands vestra