22.07.2005
Tillaga að deiliskipulagi Ægisgrund, Skagaströnd; lóðir opinberra bygginga.
Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, tillögu að deiliskipulagi Ægisgrund Skagaströnd, lóðir opinberra bygginga.
Á lóð Ægisgrundar 2-12 hafa verið íbúðir aldraðra og verður þar engin breyting á. Á lóð Ægisgrundar 14 hefur verið starfrækt dvalarheimili aldraðra og verður áfram, en að auki mun heilsugæslustöð flytja starfsemi sína í viðbygginu sem fyrirhuguð er.
Í tillögunni er markaður byggingarreitur fyrir viðbyggingu, lóðarmörk dregin, grein gerð fyrir bílastæðum og byggingarskilmálar settir fram.
Tillöguuppdrættir munu liggja frammi í skrifstofum Höfðahrepps, Túnbraut 1-3 á Skagaströnd til miðvikudagsins 10. ágúst 2005.
Athugasemdum skal skila á skrifstofu Höfðahrepps fyrir kl. 16.00 miðvikudaginn 24. ágúst 2005 og skulu þær vera skriflegar. Þeir sem ekki gera athugasemd innan þessa frests teljast samþykkir tillögunni.
18.07.2005
Hér eru loksins myndir frá Goggamóti í frjálsum íþróttum í Mosfellsbæ, KB bankamóti í knattspyrnu í Borgarnesi og Bikarkeppni FRÍ 2 deild í frjálsum á Sauðárkróki. Skagstrendingar áttu þar fulltrúa helgina 24/6 – 26/6 sem allir stóðu sig með miklum sóma.
Stefán Velemir tók þátt í Goggamótinu í Mosfellsbæ sem haldið var í 15 sinn. Því miður fannst ekki mynd af Stefáni en á myndinni sjáum við aðra keppendur frá USAH og þjálfarann Steinunni Huldu Magnúsdóttur við keppni í spjótkasti.
Sæþór, Alex Már, Elías Kristinn og Guðjón Páll kepptu sem Hvöt í 5 flokki í Borgarnesi. Með þeim voru tveir strákar frá Blönduósi og einn úr sveitinni og Ólafur Benediktsson þjálfari Hvatar. Glöggir menn sjá hins vegar að strákarnir eru í búningum Umf. Fram. Þessir strákar gerðu sér lítið fyrir og gerðu eitt jafntefli en unnu 5 leiki og þar með sinn flokk í mótinu.
Á myndinni frá mótinu á Sauðárkróki má sjá Sigurrós Ósk, Elna, Laufey Inga, og Kristján Heiðmar með Sunnu Gestsdóttur. Sunna keppti fyrir USAH í nokkrum greinum en okkar fólk fór til að læra og þau voru starfsmenn við ýmsar greinar á mótinu.
Skagstrendingar geta verið stoltir af þessum ungu fulltrúum sínum á íþróttavellinum.
Íþróttafulltrúi Höfðahrepps
07.07.2005
Í Námsstofunni er ekkert sumarfrí. Í gær 6. júlí var kynning á kjarasamningi sjúkraliða í fjarfundabúnaði Námsstofunnar. Þar mættu 6 sjúkraliðar.
Þessa dagana er Þóra Ágústsdóttir í Álaborg í Danmörku að vinna að lokaverkefni sínu við háskólann þar. Verkefnið er á sviði Evrópufræði og fjallar um hvers vegna Ísland hefur ekki sótt um aðild að ESB. Síðan er hún væntanleg aftur hingað í Námsstofuna í áframhaldandi vinnu við verkefnið.
Karen Lind Gunnarsdóttir er í B.A. námi við Háskólann á Akureyri í sálfræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Hún notar aðstöðuna í Námsstofunni til að vinna úr rannsókn sem kallast “Félagslegt umhverfi Evrópubúa”. Hún tekur viðtöl á Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga og vinnur síðan úr sínum gögnum í Námsstofunni.
Hildur Inga Rúnarsdóttir er að ljúka cand.theol við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hún er að skrifa kandidatsritgerð í Nýja testamenntisfræðum til 10 eininga sem er rannsókn á frumheimild: Rómverjabréfið 12:9-13 út frá félags- og menningarsögulegri aðferðafræði.
Guðlaug Grétarsdóttir er í sumarönn við Háskólann á Akureyri í “Vísindasmiðju” og “Margmiðlun”. Hún er að vinna verkefnavinnu í þessum áföngum ásamt því að undirbúa B.Ed. ritgerð sína.
Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan.
Júlí 2005
Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd
Hjálmur Sigurðsson
S: 8440985