29.07.2009
Lokað verður fyrir vatnið fimmtudaginn 30. júlí frá kl. 10 og fram eftir degi.
Gildir fyrir útbæinn en þó er hugsanlegt að loka þurfi fyrir allan bæinn.
Upplýsingar í síma 861 4267.
28.07.2009
Kántrýdagar verða haldnir á Skagaströnd 14. til 16. ágúst næstkomandi. Dagskráin er óðum að taka á sig rétta mynd. Mikið er spurt um hana og þess vegna er réttast að birta hana eins og hún lítur út í dag. Lesendur verða þó að muna eftir því að hún getur breyst nokkuð fram að hátíðinni.
FÖSTUDAGUR
18:00 19:00 Lokadagur í Smábæ á Kofavöllum
17:00 Ljósmyndasýning Helenu, Bjarmanes
17:00 20:00 Solitude, myndlistasýning í Gamla kaup
19:00 Skotið úr fallbyssunni
19:00 21:00 Hoppukastalar við íþróttahús
19:00 20:00 Hátíðartjald, kántrýsúpa
20:00 22:00 Árnes, spáð í spil, bolla og lesið í lófa
20:00 22:00 Hátíðartjald, dagskrá
22:00 23:00 Varðeldur og söngur
23:00 Bjarmanes; Madam Klingenberg
23:00 3:00 Kántrýbær; ball Lausir og liðugir
LAUGARDAGUR
10:00 Þórdísarganga á Spákonufell
11:00 13:00 Dorgveiðikeppi á hafnarbryggjunni
12:00 Skotið úr fallbyssunni
13:00 20:00 Hoppukastalar við íþróttahús
13:00 16:00 Veltibíllinn
14:00 16:00 Ljósmyndasýning Helenu, Bjarmanes
15:00 17:00 Árnes, spáð í spil, bolla og lesið í lófa
15:30 17:00 Hátíðartjald, barna og fjölskylduskemmtun
17:00 18:00 Tónlist á hátíðarsvæði
18:00 20:30 Útigrill, frumlegasti klæðnaður/útbúnaður
20:00 22:00 Spákonutjald; Spáð í spil, bolla og lófa
20:30 23:00 Hátíðartjald, skemmtidagskrá
21:00 Bjarmanes; Blústónleikar, Angela og Fannar
22:00 Bjarmanes; Úlpubandið
23:00 3:00 Kántrýbær; Dansleikur, Ingó og veðurguðir
SUNNUDAGUR
12:00 Skotið úr fallbyssunni
13:30 14:30 Gospelmessa í hátíðartjaldi
14:00 16:00 Ljósmyndasýning Helenu, Bjarmanes
14:00 17:00 Bjarmanes; Kaffihlaðborð, Angela syngur
25.07.2009
Háagerðisvöllur á Skagaströnd kom mér mjög á óvart er ég sá hann fyrst árið 2002, er ég vann að bók minni, Golfhringur um Íslandi. Hér er um að ræða mjög heilsteyptan golfvöll sem var í mjög góðu ástandi síðast þegar ég sá hann. Upphaf hans er fremur óvenjulegt, par 3-hola þar sem flötin sést ekki frá teig (sjá mynd), en einhverra hluta vegna fellur hún í kramið.
Þetta segir golfvallahönnuðurinn Edwin Roald Rögnvaldsson í viðtali við mbl.is. Hann er jafnframt höfundur bókarinnar Golfhringur um Ísland sem kom út árið 2002.
Edwin segir að 18 holu vellir hér á landi séu um 14 talsins. Þeim hafi heldur verið að fjölga nokkuð síðustu árum, aðallega með stækkun valla sem fyrir voru. Ef litið er á velli í þessum flokki og horft til gæða eða náttúrlegs umhverfis segir hann að Vestmannaeyjavöllurinn sé alltaf í nokkrum sérflokki í sínum huga.
„Umhverfið er auðvitað einstakt. Hann er líka oftast í mjög góðu standi enda fljótur til á vorin og Eyjamenn staðið sig vel í að halda honum við.“
Edwin segist þó fyrir sitt leyti ekki síður vera hrifinn af minni völlunum. „Að ýmsu leyti eru það okkar bestu golfvellir enda þótt klúbbarnir séu oft á tíðunum með litla peninga og vanti jafnvel tæki til að annast þá, en í grunninn eru þarna margir áhugaverðustu vellirnir og leynast á hinum ólíklegustu stöðum.“
Verkefnin hér á landi hafa verið af ýmsum toga, endurhönnun valla eða brauta, stækkanir og fleira af því tagi. „Golfvöllur er aldrei „tilbúinn“ í vissum skilningi því að hann er lifandi vistkerfi, ert alltaf að breytast og svo breytast forsendur, til dæmis vegna fjölgunar í klúbbunum. Þannig að það er búinn að vera rosalegur kraftur í þessu, ekki síst úti á landi. Strax eftir bankahrun auglýsti ég að ég væri tilbúinn að gefa þessum smærri klúbbum 100 vinnutíma á þessu ári og fékk mikil viðbrögð. Eitthvað um 20 aðilar sóttu um og ég hef verið mikið á ferðinni bæði vestur og norður. Marga þessara valla hafði ég ekki séð frá því að ég gaf út Golfhringinn um Íslands 2002. Það var bara mjög gaman að sjá hvað hafði gerst á þessum sjö árum og hvað mikill hugur er í mönnum.
Eins og áður segir er einn af þeim tíu golfvöllum sem Edwin nefnir er Háagerðisvöllur við Skagaströnd. Það er engin tilviljun og þarf ekki heldur neina sérfræðinga til að njóta þess að leika golf á þessum skemmtilega velli.
23.07.2009
Í Nesi listamiðstöð á Skagastönd dvöldu þrettán listamenn í júlí. Þeir verða með opið hús föstudaginn 24. júlí frá kl 20:00 – 22:00 og er öllum boðið að líta inn.
Þar verður hægt að skoða það sem listamennirnir hafa verið að vinna að og spjalla við þau og aðra um verkin.
Þeir sem sýna verk sín að þessu sinni eru:
Bernadette Reiter
Adriane Wacholz
Kreh Mellick
Ashley Lamb
Hanneriina Moisseinen
Mia Damberg
Bodil Steinsund
Christopher Garcia
Reinhard Buch
Hiroko Tanahashi
Caroline Kent
Jennie Moran
Til sýnis verða málverk, teikningar, hljóðverk, keramik, vídeóverk, myndir frá súkkulaðiskúlptúr vinnslu og fleira.
Einnig verða verk nokkurra barna til sýnis en þau Bodil Steinsund og Christopher Garcia héldu leirlistanámskeið í mánuðinum þar sem börnin unnu með álfa og landvætti.
Á sama tíma er sýningin SOLITUDE, opin í nýjum sýningarsal Ness í Gamla kaupfélaginu. Myndlistarsýningin, er sett upp af Nesi Listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas og er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Listamennirnir unnu allir út frá ljóðum skálda frá þessum löndum og íslensku skáldin sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason.
Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni.
Verkin á sýningunni eru afkvæmi spurninga á borð við: ,,Er draumastaður mannsins ennþá til, þar sem hann getur notið einveru, unaðar og hvíldar?“ og ,,Hvernig geta listir stuðlað að meðvitaðri umgengni við náttúruna?“
Sýningin er opin um helgar frá kl. 13:00 – 17:00 og virka daga eftir samkomulagi í síma 663-3757 og stendur til 30. ágúst.
Þessi glæsilega myndlistarsýning er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli.
21.07.2009
Gestabók hefur verið komið fyrir í Spákonufellshöfða. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að kanna fjölda þeirra sem leggja leið sína um Höfðann.
Á vegum Sveitarfélagsins Skagastrandar og samtakanna The Wild North er í gangi rannsókn á áhrifum ferðaþjónustu á villt dýra- og fuglalíf sem og að vekja áhuga ferðamanna á ósnortinni náttúru.
Náttúrustofa Norðurlands Vestra hefur tekið að sér að rannsaka fuglalífið í Höfðanum og annast Þórdís Bragadóttir, líffræðingur, um framkvæmdina.
Ekki er einfalt að telja ferðamenn í Spákonufellshöfða og er því talið ódýrast og hagkvæmast að hafa gestabók staðsetta á áberandi stað og hvetja fólk til að rita nafn sitt í hana. Við botn Vækilvíkur hefur því verið komið fyrir litlum kassa og er gestabókin í honum.
Þar er einnig könnun á vegum The Wild North um umhverfis- og nátturuverndarmál. Hún er liður í að afla upplýsinga um viðhorf ferðafólks til friðaðra svæða og sjálfbærrar ferðamennsku. Náttúrutengd ferðaþjónusta er ein af markmiðum The Wild North og tilgangurinn að fjölga ferðamönnum sem áhuga hafa á því að skoða fugla- og dýralíf í ósnortnu umhverfi.
Vaxtarsamningur Norðurlands Vestra hefur styrkt framkvæmd rannsóknarinnar og annarrar svipaðrar tengdum selaskoðunum á Vatnsnesi.
10.07.2009
Myndlistarsýningin SOLITUDE - Landslag í umróti er sett upp af Nes listamiðstöð á Skagaströnd í samvinnu við Neues Kunsthaus Ahrenshoop og Kunstlerhaus Lukas. Þetta er samsýning listamanna frá Íslandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Listamennirnir unnu allir út frá ljóðum skálda í löndum sínum. Þau íslensku sem listamennirnir leggja út frá eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason.
Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Jeannette Castioni.
Verkin á sýningunni eru afkvæmi spurninga á borð við: „Er draumastaður mannsins ennþá til, þar sem hann getur notið einveru, unaðar og hvíldar?“ og „Hvernig geta listir stuðlað að meðvitaðri umgengni við náttúruna?“
Sýningunni frá Ahrenshoop í Norðaustur Þýslandi fylgir vegleg sýningarskrá.
Opnun sýningarinnar verður laugardaginn 11. júní kl 15:00 í Gamla kaupfélaginu á Skagaströnd og framinn verður gjörningur kl. 15:30.
Sýningin er opin um helgar frá kl. 13 – 17 og virka daga eftir samkomulagi í síma 452 2816 og stendur til 30. ágúst.
Hin glæsilega myndlistarsýning er styrkt af Menningarráði Norðurlands
vestra, Fisk Seafood á Sauðárkróki og Minningarsjóði um hjónin frá Garði
og Vindhæli.
10.07.2009
Menningarfélagið Spákonuarfur ehf. á Skagaströnd hefur tekið á leigu Árnes,elsta húsið á Skagaströnd. Það var fyrir skömmu tekið formlega í notkun en sveitarfélagið hefur frá árinu 2007 unnið að endurbyggingu þess.
Fjöldi bæjarbúa skoðuðu húsið á opnunardeginum og er engu líkar en það sé tímavél sem stillt er á árið 1920. Allt innanstokks miðast við fyrri hluta síðustu aldar og eru ýmsir húsmunir komnir af Sjóminja- og sögusafni Skagastrandar og Byggðasafninu á Reykjum.
Spákonuarfur leigir Árnes til þriggja ára og hyggst meðal annars nýta sér húsið fyrir Spástofu sem er hluti af starfsemi fyrirtækisins. Auk þess er gert ráð fyrir að húsið verði til sýnis og einnig notað til sýningarhalds.
Árnes var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni sem hafði átt verslun á Skagaströnd um langt árabil. Frá upphafi hafa eigendur hússins einungis verið fjórir.
Árnes hefur umtalsvert menningar- sögulegt gildi. Það er gott dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrra hluta 20 aldar og er fallega staðsett á svæði sem sveitarstjórn hefur skilgreint sem safnasvæði.
Árnes er dæmigert timburhús frá fyrri hluta síðustu aldara og hið eina þessarar gerðar í bænum sem mögulegt var að varðveita. Innréttingar eru að mestu upprunalegar sem enn frekar eykur gildi hússins.
Sveitarfélagið Skagaströnd keypti það 2007 til að láta gera það upp í upprunalega mynd. Frá upphafi var gert ráð fyrir að húsið verði notað til sýningar og leitast hefur verið við að búa til sannfærandi mynd af heimili sem nútímafólk myndi telja afar gamaldags.
09.07.2009
Skógræktarfélag Skagastrandar
Fundur verður haldinn um endurvakningu Skógræktarfélags Skagastrandar mánudaginn 13. júlí nk. kl. 20.00 í Skíðaskálanum.
Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands mætir á fundinn og fer yfir félagsmálefni, árangur og störf í skógrækt.
Rætt verður um skógrækt og ræktunarmöguleika á Skagaströnd.
Allir áhugamenn velkomnir.
Undirbúningsnefndin.
08.07.2009
Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu boðar til kynningar skv. 1. mgr. 13. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. Kynningin verður á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi mánudaginn 6. júlí 2009.
Gerð er tillaga um eftirfarandi breytingar á svæðisskipulaginu.
Landbúnaðarsvæði í landi Sölvabakka í Blönduósbæ breytt í sorpförgunar- og efnistökusvæði.
Landbúnaðarsvæði og opnu svæði til sérstakra nota í landi Hnjúka austan við Blönduós er breytt í iðnaðarog athafnasvæði
Landbúnaðarsvæði á Öxl II í Húnavatnshreppi breytt í verslunar- og þjónustusvæði og opið svæði til sérstakra nota.
Lögformleg auglýsing breytingartillögunnar verður jafnframt til sýnis frá 6. júlí 2009 til 4. ágúst 2009 og á eftirfarandi stöðum; Skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3, skrifstofu Skagabyggðar, Örlygsstöðum 2, Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, í Reykjavík og á heimasíðum sveitarfélaganna. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 18. ágúst 2009.
Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu
07.07.2009
Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu auglýsir skv. 1. mgr. 14. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. tillögu að breytingu á svæðisskipulagi á jörðunum Sölvabakka í Blönduósbæ, Hnjúkum í
Blönduósbæ og Öxl II í Húnavatnshreppi.
Gerð er tillaga um eftirfarandi breytingar á svæðisskipulaginu:
Landbúnaðarsvæði í landi Sölvabakka breytt í sorpförgunar- og efnistökusvæði.
Landbúnaðarsvæði og opnu svæði til sérstakra nota austan við Blönduós breytt í iðnaðar- og athafnasvæði
Landbúnaðarsvæði á Öxl II í Húnavatnshreppi breytt í verslunar- og þjónustusvæði og opið svæði til sérstakra nota.
Breytingartillagan, greinargerð og umhverfisskýrsla verður til sýnis á eftirfarandi stöðum; Skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, 541 Blönduósi, skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduós, skrifstofu sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd, skrifstofu Skagabyggðar, Örlygsstöðum 2, 545 Skagaströnd og á Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík frá 6. júlí 2009 til 4. ágúst 2009.
Tillagan er einnig til sýnis hér á skagastrond.is. Þarna er að finna kort af því svæðí sem um er rætt og einnig umhverfisskýrslu vegna breytinganna.
Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna.
Frestur til þess að skila inn athugasemdum rennur út þriðjudaginn 18. ágúst 2009. Skila skal athugasemdum á þeim stöðum sem gögnin eru til sýnis og eru nefndir hér að ofan og skulu þær vera skriflegar.
Þeir sem ekki gera athugasemdir viðbreytingartillöguna fyrir tilskilinn frest teljast samþykkir henni.
Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur Húnavatnssýslu