21.12.2007
Sú meinlega villa slæddist í viðburðadagatalið okkar að Kántrýbær hefði opið á nýársnótt og Jonni og Birkir myndu halda uppi tónlist. Þessi dagskrárliður var fyrir ári síðan og er Copy - Paste villa.
Ekki er á þessari stund vitað hvað Jonni og Birkir muni gera á nýársnótt en þó er ákveðið að þeir verði ekki í Kántrýbæ enda bærinn lokaður.
Beðist er velvirðingar á þessum mistökum í viðburðadagatali.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár, hvar sem þið verðið.
20.12.2007
Viðburðadagatal Skagastrandar
Yfir jólahátíðina 2007
Sunnudagur 23.des.
Þorláksmessa.
Kl. 11:30-13.30 Skötuveisla í Fellsborg í boði Fisk-Seafood.
Kl. 14-16 Jólasveinar bera út jólapóstinn.
(móttaka á pósti 22. des. í skólanum kl.18:00-20:00
Mánudagur 24. des
Aðfangadagur.
Kl. 16:00 Barnahelgistund í Hólaneskirkju.
Kl. 23:00 Aftansöngur í Hólaneskirkju.
Þriðjudagur 25. des
Jóladagur.
Kl. 14:00 Jólamessa í Hofskirkju.
Miðvikudagur 26.des.
Annar í jólum.
Kl. 00:00 Dansleikur í Kántrýbæ, Ulrik leikur fyrir dansi.
Föstudagur 28.des.
Kl. 17:00 Jólatrésskemmtun í Fellsborg.
Kl 20:00 Samkórinn Björk heldur tónleika í kirkjunni. Á tónleikunum koma einnig
fram söngnemar í Tónlistaskóla A-Hún.
Kl. 18:00-22:00 Flugeldasala Bj. Strandar og Umf. Fram í
áhaldahúsi Skagastrandar.
Laugardagur 29.des.
Kl. 16:00-22:00 Flugeldasala Bj. Strandar og Umf. Fram í
áhaldahúsi Skagastrandar.
Kl. 21:00 Jólagleði skagstrendinga í Kántrýbæ.
(Ýmsir listamenn koma fram. Aðgangseyrir 0 kr.)
Sunnudagur 30.des.
Kl. 16:00-23:00 Flugeldasala Bj. Strandar og Umf. Fram í áhaldahúsi Skagastrandar .
Mánudagur 31.des.
Gamlársdagur.
Kl. 11:00-15:00 Flugeldasala Bj. Strandar og Umf. Fram í áhaldahúsi Skagastrandar.
Kl. 20.30 Blysför frá Fellsborg að brennustæði – Brenna við Vetrarbraut.
04.12.2007
Það er fastur liður í jólahaldinu á Skagaströnd að kveikja á jólatré á svonefndu Hnappstaðatúni í miðbænum. Í ár kom úr Kjarnaskógi frekar lítið og rýrt jólatré og var það sett upp á sínum stað. Bæjarbúar létu óánægju sína strax í ljós við bæjaryfirvöld, um að jólatréð væri rýrt og vildu fá stærra tré. Sú rödd náði eyrum sveitarstjórnar sem brást hart við og útvegaði annað og veglegra jólatré sem enn er eftir að setja upp.
Þegar þessir atburðir spurðust út meðal æskunnar á Skagaströnd að fjarlægja ætti litla tréð brugðu börnin á það ráð að standa vörð um það. Þau Aldís Embla Björnsdóttir, 10 ára, og Egill Örn Ingibergsson, 9 ára, stóðu fyrir undirskriftasöfnun meðal krakkanna í skólanum og færðu oddvitanum Adolf H. Berndsen bænarskjalið.
Í bréfinu stóð: "Jólatré jólatré. Við vorkennum litla horaða jólatrénu og viljum ekki láta henda því, þess vegna langar okkur að láta færa það yfir á hinn helminginn á Hnappstaðatúni."
Að sögn Adolfs H. Berndsen mun verða orðið við óskum barnanna og litla horaða jólatréð fær að njóta jólanna í miðbænum, börnunum til ómældrar gleði. Heimild: Morgunblaðið
30.11.2007
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að Sjávarlíftækisetrið á Skagaströnd fái tuttugu milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári en breytingartillögur meirihluta nefndarinnar voru lagðar fyrir Alþingi í dag. Einnig er lagt til að Heimskautagerðið á Raufarhöfn fái tuttugu milljónir króna svo og samvinnuverkefni sem Verið á Sauðárkróki, Matís og Háskólinn á Hólum standa að.
Þá er lagt er til að framlag ríkisins til Háskólans á Akureyri hækki um 75 milljónir króna og verði þá tæpar sextán hundruð milljónir og að framlög til Fjölbrautarskóla Norðlands vestra hækki um fimmtán milljónir og verði þá um 340 milljónir króna.
Hvalamiðstöðin á Húsavík fær tíu milljónir svo og Gásir í Eyjafirði, lifandi miðaldakaupstaður. Þá fær Landsmót UMFÍ á Akureyri fimmtán milljónir og átta milljónir eru eyrnamerktar svifryksmæli á Akureyri. Dimmuborgarstofa, Spákonuhof á Skagaströnd, Örnefnafélagið Snókur á Siglufirði, fjölnota menningarhús í Grímsey og Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi fá svo fimm milljónir hvert og Jarðskálftasetrið á Kópaskeri fær sex milljónir svo eitthvað sé nefnt. Heimild: ruv.is
Höf. rzg
Tekið af vefsíðunni www.huni.is
26.11.2007
Íbúafundur
verður haldinn í Fellsborg
mánudaginn 26. nóvember nk. kl 20.00
Á fundinum mun sveitarstjórn kynna áherslur sínar og stöðu sveitarfélagsins. Að lokinni kynningu á er gert ráð fyrir að þátttakendum verði skipt í hópa sem ræði þá málaflokka sem helst verða til umfjöllunar.
Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðu
um málefni samfélagsins.
Sveitarstjóri
21.11.2007
Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Veiðimálastofnunar og BioPol ehf Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði, fiskavistfræði, auðlindanýtingar, sjávarlíftækni og tengdra sviða.
Veiðimálastofnun og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd hafa ákveðið að leggja saman krafta sína hvað varðar rannsóknir tengdar hafinu, auðlindum sjávar og ósasvæðum fallvatna. Samstarfssamningur því til staðfestingar var undirritaður mánudaginn 19. nóvember.
Meginmarkmið samningsins er að efla með rannsóknasamstarfi, þekkingu og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, sjávarlíffræði, fiskavistfræði og auðlindanýtingar bæði ferskvatns og sjávarstofna. Sérstaklega er í því ljósi horft til rannsókna á strand- og ósasvæðum við Húnaflóa og í Skagafirði.
Að undanförnu hafa BioPol ehf og Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki ásamt Háskólanum á Akureyri verið að skilgreina og fjármagna sameiginlega ný rannsóknaverkefni. Rannsóknir á hrognkelsum og mikilvægi ósasvæða fyrir viðkomu fiskseiða í Húnaflóa og Skagafirði fara af stað nú í vor með sameiginlegri aðkomu allra þessara aðila.
BioPol ehf. var stofnað í júlí á þessu ári og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á afurðum líftækni úr sjávarlífverum og fræðsla á þessum sviðum. Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar hefur haft aðsetur í Skagafirði frá 1984 og sinnt rannsóknum á lífríki í ám og vötnum ásamt ráðgjöf um nýtingu fiskistofna. Þá hefur deildin unnið að rannsóknum á lífríki ósasvæða vatnsfalla um land allt undanfarin ár þar sem mætast bæði ferskvatns og sjávartegundir. Eitt stærsta verkefnið á því sviði eru rannsóknir á landnámi og nýtingarmöguleikum nýrrar kolategundar við Ísland, ósakola, sem lifir bæði í sjó og fersku vatni.
Samstarfssamningurinn var undirritaður á skrifstofu BioPol ehf á Skagaströnd. Viðstaddir voru starfsfólk Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og stjórn BioPol ehf.
Samninginn undirrituðu fyrir hönd Veiðmálastofnunar, Sigurður Guðjónsson forstjóri og Bjarni Jónsson deildarstjóri Norðurlandsdeildar en fyrir BioPol ehf. Adolf H. Berndsen, stjórnarformaður, og Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri.
Frekari upplýsingar gefa:
Halldór Ólafsson
framkvæmdstjóri BioPol ehf
S. 452-2977, 8967977
Bjarni Jónsson
Deildarstjóri norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar
S: 580-6300, 8947479
09.11.2007
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar mánudaginn 12. nóvember 2007 á skrifstofu hreppsins kl 800.
Dagskrá:
Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2007.
Bréf:
a) Kolbjörns Kværum, Ringerike kommune, 12. október 2007.
b) Sigurðar Jóhannssonar fh. Vilko, 17. október 2007.
c) Skipulagsstofnunar, 8. október 2007.
d) Starfsfólks Landsskrifstofu Sd21, 29. október 2007.
e) Sjúkraflutningamanna á Skagaströnd.
Fundargerðir:
a) Atvinnu- og menningarmálanefndar, 25.10.2007.
b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 4.10.2007.
c) Héraðsnefndar, 3.10.2007.
d) Samráðshóps um verkefni héraðsnefndar, 29.10.2007.
e) Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 25.10.2007.
f) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. 28.09.2007.
g) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfél. 19.10.2007.
Önnur mál
Sveitarstjóri
06.11.2007
Fréttatilkynning 6. nóvember 2007
Samstarf milli Íslendinga og Skota í sjávarlíftækni
BioPol ehf. á Skagaströnd semur við Skota
Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli Íslendinga og Skota um menntun, vísindi og rannsóknir í sjávarlíftækni. Að samningnum standa sjávarlíftæknifyrirtækið BioPol ehf. á Skagaströnd, Háskólinn á Akureyri og The Scottish Association for Marine Science.
Búist er við miklum árangri af samstarfi BioPol ehf, Háskólans á Akureyri og The Scottish Association for Marine Science, en viljayfirlýsing um margþætt samstarf var undirrituð á dögunum. Samkvæmt yfirlýsingunni er meðal annars ætlunin að stunda sameiginlegar rannsóknir, skiptast á starfsfólki, rannsóknargögnum og öðrum upplýsingum. Þá verður staðið fyrir styttri akademískum námsleiðum, ýmis konar námskeiðum og fundum. Síðast en ekki síst munu námsmenn eiga þess kost að stunda nám og rannsóknir hjá báðum fyrirtækjum.
BioPol ehf. hóf starfsemi í september á þessu ári og er markmiðið að stunda rannsóknir á lífríki sjávar, m.a. í Húnaflóa, rannsóknum í líftækni, nýsköpun og markaðssetningu á líftækniafurðum úr sjávarlífverum og fræðsla á háskólastigi í tengslum við þessar rannsóknir.
Strax í upphafi var ákveðið að leita út fyrir landsteinanna að samstarfsaðilum og fljótlega varð The Scottish Association for Marine Science (SAMS) fyrir valinu, en fyrirtækið er staðsett í Oban, litlum bæ á vesturströnd Skotlands. Fyrirtækið er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur hvað lengst lagt fyrir sig rannsóknir í sjávarlífræði. SAMS hefur stundað rannsóknir á landgrunni Skotlands og í Norður-Íshafinu og leggur áherslu á að skoða þær breytingar sem orðið hafa í norðurhöfum. Til viðbótar þessu hafa samtökin boðið upp á háskólanámskeið í haffræði og þjálfað stúdenta í rannsóknaraðferðum.
Viljayfirlýsingin var undirrituð í höfuðstöðvum SAMS í Oban í Skotalandi. Viðstaddir voru fulltrúar beggja fyrirtækja, Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Alp Mehmet breski sendiherrann á Íslandi og Þorsteinn Gunnarsson háskólarektor.
Ætlunin er að leita eftir fjármögnum á verkefnum hér á landi, í Skotlandi og hjá Evrópusambandinu. Samstarfsaðilar fyrir hönd Biopol ehf. verður Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri og fyrir Háskólann á Akureyri Hjörleifur Einarsson, prófessor.
Gildistími samningsins er fimm ár og er ætlunin að endurskoða hann og framlengja verði góður árangur af samstarfinu.
Samninginn undirrituðu fyrir hönd SAMS, Graham Simmield prófessor, fyrir BioPol ehf. Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri, og fyrir hönd Háskólans á Akureyri Þorsteinn Gunnarsson.
Frekari upplýsingar gefur:
Halldór Ólafsson
framkvæmdastjóri BioPol ehf
S. 452-2977 og 896-7977
Mynd:
Meðfylgjandi er mynd sem tekin var við undirritun samningsins. Á myndinni eru eftirtaldir, frá vinstri talið: Alp Mehmet, sendiherra Breta á Íslandi, Þorsteinn Gunnarsson, rektor H.A, Graham Shimmield, framkvæmdastjóri SAMS, Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.
30.10.2007
Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í fyrsta sinn menningarstyrkjum við athöfn í Hóladómkirkju föstudaginn 26. okt. sl.
Það var með undirritun þriggja ára menningarsamnings milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ráðuneyta mennta- og ferðamála fyrr á þessu ári að grundvöllur skapaðist til þess að veita verkefnastyrki til þeirra einstaklinga, félaga eða fyrirtækja sem sinna menningarstarfi á svæðinu. Í framhaldi af samningnum var menningarfulltrúi ráðinn til starfa og auglýst eftir styrkumsóknum.
Ráðinu bárust alls 50 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum í styrki. Fjörutíu og ein umsókn hlaut styrk og alls var úthlutað 17.650 þús. kr. Hæstu styrkir námu einni milljón króna en þeir lægstu voru eitt hundrað þúsund. Þau verkefni sem hlutu styrk voru mjög fjölbreytt, s.s. frumsamið leikrit, tónleikar, sögusýningar, varðveisla menningararfsins, ráðstefnur og útgáfustarfsemi.
Í ávarpi formanns Menningarráðs, Guðrúnar Helgadóttur, kom fram að þessi úthlutun markaði mikilvægan áfanga í menningarstarfi á Norðurlandi vestra og greinilegt væri að á Norðurlandi vestra starfaði öflugur hópur fólks að listum, fræðum og menningartengdri ferðaþjónustu. Guðrún telur að ein helsta atvinnuháttabreyting samtímans sé að mikilvægið færist frá framleiðslu efnislegra gæða í föstu formi yfir í framleiðslu á gæðum sem ekki er beint hægt að festa hönd á. Má þar nefna hluti eins og góð þjónusta, tilkomumikil leiksýning, hrífandi mynd, ljóð sem snertir tilfinningar, ímynd vöru og lag sem vekur minningar.
Við athöfnina sungu fjórar söngkonur úr Húnaþingi vestra við undirleik Guðmundar Helgasonar, Sólveig S. Einarsdóttir lék á orgel og Þórhallur Barðason söng. Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga tók til máls fyrir hönd styrkhafa og þakkaði veitta styrki sem hún sagði án efa verða til eflingar menningarlífi á svæðinu.
Eftirtaldir umsækjendur hlutu styrk að upphæð ein milljón:
Áhugahópur um styttu af ferjumanninum - Gerð bronsstyttu af Jóni Ósmann.
Sveitasetrið Gauksmýri – Hrafnaþing, uppsetning sýningar um íslenska hrafninn.
Grettistak – Útgáfa bókar með myndum Halldórs Péturssonar af atburðum í Grettis sögu.
Héraðsskjalasafn Skagfirðinga – Gerð stafræns ljósmyndasafns.
Karlakórinn Heimir – Dagskrá um Stefán Íslandi.
Ópera Skagafjarðar – La Traviata – tónleikar – upptaka – myndband.
Spákonuarfur – Gerð leikþáttar um Þórdísi spákonu o.fl.
Textílsetur Íslands, Blönduósi – Norrænt textílþing og sýning.
Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á næsta ári með umsóknarfresti til 15. mars og 15. september.
Meðfylgjandi eru þrjár ljósmyndir – Ljósm.: Pétur Jónsson. Myndtextar:
Mynd 1: Guðrún Helgadóttir, formaður menningarráðs, afhendir styrkhöfum viðurkenningu.
Mynd 2: Styrkhafar Menningarstyrks Norðurlands vestra
Mynd 3: Menningarráð Norðurlands vestra og menningarfulltrúi
26.10.2007
Guðmundur Jónsson mun halda tónleika í Kántrýbæ, næstkomandi þriðjudagskvöld, 30. október 2007.
Tónleikarnir hefjast kl 21 og aðgangseyrir er kr.1.500,-
Eins og flestir vita er Guðmundur nýbúinn að gefa út þriðja diskinn (Fuður) í trílógíunni Japl, Jaml og Fuður.