Byggðastofnun úthlutar styrkjum vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar

Fjögur verkefni á Skagaströnd fengu styrk Byggðastofnun hefur gengið frá styrkveitingum og hlutafjárframlögum vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar 2008 og 2009. Við mat á umsóknum var einkum tekið tillit til hlutfalls starfa í veiðum og vinnslu á viðkomandi svæði, nýsköpunargildis, gæða og mögulegs árangurs verkefna auk fjölda starfa sem þeim er ætlað að skapa. Fjögur verkefni á Skagaströnd fengu styrki að þessu sinni. BioPol ehf. hlaut 4,4 milljónir til vöruþróunar kollagers/gelatíns, Vélaverkstæði Skagastrandar ehf. hlaut 3,0 milljónir til markaðssetningar og vöruþróunar á vettlinga- og stígvélaþurrkarar, Listamiðstöðin Nes hlaut 1,3 milljónir til uppbyggingar alþjóðlegrar listamiðstöðvar á Skagaströnd og Fiskverkunin Dropi ehf. hlaut 1,365 milljónir til markaðssetningar á sjóstangaveiði. Alls voru 200 milljónir til úthlutunar, 100 milljónir fyrir hvort ár og alls bárust 253 umsóknir samtals að fjárhæð 1.528 milljón króna. Alls hlutu 69 verkefni styrk að þessu sinni en auk þess eru nokkrar umsóknir enn til skoðunar. Heimild: huni.is

Sjómannadagurinn á Skagaströnd

Á laugardaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur eins og fyrri ár með skemmtilegri dagskrá. Björgunarsveitin sem annast hátíðarhöldin ákvað að sleppa frægum skemmtikröftum að sunnan í þetta skiptið og endurvekja frekar gamla stemningu. Því verður mikið úrval af leikjum á plani sem almenningur tekur þátt í. Kaffisalan verður í félagsheimilinu Fellsborg í stað Höfðaskóla. Kaffisalan skiptir miklu máli í fjáröflun Björgunarsveitarinnar á sjómannadaginn og því vonast bjögunarsveitarmenn eftir góðri aðsókn í kaffið og meðlætið Dagskrá sjómannadagsins er ekki síst skemmtileg þegar við tökum sjálf þátt í atriðum. Þeir sem undirbúa dagskráratriði vonast því eftir að félagsmönnum vel tekið í leit þeirra að fólki í leiki og dagskráratriði. Dagskrá: Kl. 10:30 Skrúðganga frá höfninni til kirkju. Fjölmennum í skrúðgönguna til að halda við skemmtilegri hefð og gefa sjómannadeginum hátíðlegan blæ. Kl. 11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju. Kór sjómanna syngur við athöfnina. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki týndra sjómanna til að heiðra minningu þeirra. Kl. 13:15 Skemmtisigling. Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín. Kl. 14:00 Skemmtun á hafnarhúsplani. Kappróður – leikir Kl. 15:30 Kaffisala í Fellsborg Leikir fyrir krakkana á fótboltavelli Kl. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg. Hljómsveitin Bermuda leikur fyrir dansi ATH Því frábæra fólki sem tóku að sér að baka fyrir kaffisöluna er bent á að skila bakkelsi í félagsheimilið kl. 12:00 á laugardag. Góða skemmtun Björgunarsveitin Strönd

LOGOS-Lestrargreining

Umsjónarmenn sérkennslu grunnskólanna í Húnavatnssýslum og sérkennari Grunnskólans á Borðeyri eru um þessar mundir að læra að nota nýtt greiningartæki í lestri. Greiningartækið heitir LOGOS og er eftir Torleiv Høien einn þekktasta og virtasta sérfræðing á þessu sviði. Fyrri dagur námskeiðsins var haldinn 14. þ.m. á Laugarbakka farið yfir hugmyndir að baki prófinu og kennurunum kennt að leggja prófið fyrir. Nú þurfa kennararnir að æfa fyrirlögn og mæta síðan á seinni dag námskeiðsins í haust þar sem farið verður yfir túlkanir á niðurstöðum greininga. Mynd: nemendur og leiðbeinendur

Kynningarfundur

Spákonuhof og Nes-listamiðstöð boða til sameiginlegs kynningarfundar þriðjudaginn 13. maí kl. 19:30 í Fellsborg. Allir eru velkomnir. Nes-listamiðstöð Listamiðstöðin rekur gestavinnustofur fyrir innlenda og erlenda listamenn, stuðlar að skapandi andrúmslofti, sýningarhaldi og kennslu í listum. Nú þegar eru nær því öll pláss fullbókuð til áramóta og fjölmargar pantanir komnar langt fram á næsta ár. Spákonuhof Verið er að byggja upp Spákonuhof á Skagaströnd. Í starfseminni verður lögð áhersla á eftirfarandi: · Sápdómshof · Þórdísarstofu · Þórdísargöngur · Rannsókna- og fræðasetur · Spáráðstefnu · Spádómshátíð Sigurður Sigurðarson markaðsráðgjafi, Skagastrandar

Styrktartónleikar fyrir Jón Gunnar og fjölskyldu

Fimmtudaginn 15. maí n.k. verða haldnir styrktartónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd til styrktar Jóni Gunnari Einarssyni og fjölskyldu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og er aðgangseyrir 1.500 krónur. Fram koma ýmsir tónlistarmenn sem allir gefa vinnu sína og munu allir peningar sem inn koma renna óskiptir til fjölskyldunnar. Þeir sem ekki komast á tónleikana en vilja styrkja Jón Gunnar og fjölskyldu er bent á söfnunarreikninginn 0160-26-61400, kt: 290483-3799. Eins og flestum er kunnugt slasaðist Jóns Gunnars Einarssonar mjög alvarlega á mótorhjóli þann 12. apríl sl. Jón Gunnar og eiginkona hans Guðrún eiga tvö ung börn og þriðja barnið er á leiðinni. Vonast fjölskyldan og vinir að sem flestir taki höndum saman og leggi þeim lið til að styrkja og styðja Jón og fjölskyldu hans í þessari baráttu. Jón Gunnar er nú á bata vegi og fer að fara á Grensás í endurhæfingu en verður lengi frá vinnu.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 13. maí 2008 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: 1. Samstarf sveitarfélaga í A-Hún 2. Ársreikningur 2007. 3. Bréf: a) Óbyggðanefndar, dags. 23. apríl 2008. b) Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, dags. 16. apríl 2008. c) Stéttarfélagsins Samstöðu, dags. 28. apríl 2008. d) Knattspyrnudeild Hvatar, 25. apríl 2008. e) Iceland Photo Agency –IPA, dags. 11. apríl 2008. f) Félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 11. apríl 2008. g) Félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 2. maí 2008. 4. Fundargerðir a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 15. apríl 2008. b) Stjórnar Sambands ísl. sv.fél. 25. apríl 2008. 5. Önnur mál Sveitarstjóri

Frá Tónlistarskólanum!

Skólaslit og afhending prófskírteina fer fram í Hólaneskirkju á Skagaströnd laugardaginn 24. maí n.k. kl:1400 Fram koma nemendur sem hafa lokið stigsprófum og nemendur 10. bekkja sem kveðja skólann. Allir velkomnir. Innritun fyrir næsta skólaár fer fram dagana 19.-21. maí n.k. á Blönduósi og Skagaströnd frá kl: 16-18 alla dagana. Á Húnavöllum verður innritað föstudaginn 30.maí við skólaslit Húnavallaskóla. Skólastjóri

Breyttur fundartími íbúafundar

Breyttur fundartími íbúafundar Af óviðráðanlegum ástæðum hefur fundartíma íbúafundar sem auglýstur var sl mánudag um aðalskipulag verið breytt. ÍBÚAFUNDUR um aðalskipulag fyrir sveitarfélagið Skagaströnd verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg miðvikudaginn 7. maí n.k. kl 17:00 Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Undirbúningur sjómannadagshátíðarhalda

Björgunarsveitin Strönd leitar eftir fólki til að taka þátt í undirbúningi og vinnu á sjómannadagsskemmtuninni sem fram fer 31. maí 2008. Áhugasamir aðilar eru hvattir til að gefa sig fram hjá fulltrúum björgunarsveitarinnar. Einnig er hægt að hafa samband við s. 894 4006. Stöndum öll saman um að gera góð hátíðarhöld á sjómannadaginn enn betri. Reynir og Bjarni.

Umsvif í Kántrýbæ

Laugardagskvöldið 3. maí verður dúndrandi stuð í Kántrýbæ því þá mun hljómsveitin UMSVIF halda uppi fjörinu og leika fyrir dansi frá kl 23. Meiri umsvif, meira fjör í Kántrýbæ. www.umsvif.com