31.05.2007
Dagskrá sjómannadagsins
á Skagaströnd
helgina 2. - 3. júní 2007
Laugardagur 2. júní 2007
Kl. 10:30 Skrúðganga frá höfninni til kirkju.
Fjölmennum í skrúðgönguna til þess að halda þessari skemmtilegu hefð við og gefa þessum degi hátíðlegan blæ.
Kl. 11:00 Sjómennamessa í Hólaneskirkju.
Söngur í þessari athöfn er í höndum kórs sjómanna. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki drukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra.
kl. 13:15 Skemmtisigling
Foreldrar eru hvattir til þess að fjölmenna með börn sín.
Kl. 14:00 Skemmtun á hafnarhúsplani.
Kappróður - leikir
Kl. 15:30 Kaffisala í Höfðaskóla
Kl. 15:30 Hoppukastali á Hnappstaðatúni ( FRÍTT )
Kl. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg
Hljómsveitin Ulrik leikur fyrir dansi
Sunnudagur 3. júní 2007
Kl. 17:00 Bíó í Fellsborg
Miðaverð aðeins kr. 500
Góða skemmtun
30.05.2007
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veitir árlega einu fyrirtæki á starfssvæði samtakana hvatningarverðlaun. Að þessu sinni er það bátasmiðjan Siglufjarðar Seigur ehf á Siglufirði sem hlýtur verðlaunin vegna hugkvæmni og áræðis sem starfsmenn og stjórnendur hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins. Fyrirtækið Siglufjarðar Seigur ehf. var stofnað vorið 2005 af JE. vélaverkstæði ehf. á Siglufirði, Seiglu ehf. í Reykjavík og Siglufjarðarkaupstað. Stjórn félagsins skipa nú: Hrönn Ásgeirsdóttir, stjórnarformaður, Guðni Sigtryggsson, Pálína Pálsdóttir og Sverrir Bergsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðni Sigtryggsson. Fyrirtækið var stofnað í þeim tilgangi að byggja plast fiskibáta fyrir innlendan og erlendan markað. Í byrjun fullvann fyrirtækið bátsskrokka sem steyptir voru hjá Seiglu ehf. í Reykjavík og nú nýverið afhenti fyrirtækið 7. bátinn og 3. bátinn sem fyrirtækið byggir alfarið, þ.e. skipsskrokkurinn er steyptur hjá fyrirtækinu og báturinn fullgerður að öllu leyti. Fyrirtækið hefur selt einn af þessum bátum til Noregs. Framleiðsla þessi er í nánu samstarfi við JE vélaverkstæði ehf. og Rafbæ ehf. Hjá fyrirtækinu vinna nú fjórir sérþjálfaðir starfsmenn sem sótt hafa námskeið og hlotið mikla þjálfun í meðferð og vinnslu plastefna. Hjá JE. vélaverkstæði starfa járn- og tréiðnaðarmenn með mikla færni og reynslu í smíði eins og þessi verkefni krefjast. Rafbær ehf. hefur á að skipa rafvirkjum með mikla reynslu í skipaviðgerðum og nýsmíði. Þannig er samankomið einvala lið til að annast framkvæmdir sem þessar. Það er samdóma álit þeirra sem keypt hafa bát af fyrirtækinu svo og úttektar- og skoðunarmanna allra, að gæði og frágangur allur sé með því besta sem gerist. Stígandi hefur verið i framleiðslu fyrirtækisins og vonandi mun svo áfram verða. Það er markmið fyrirtækisins að smíða báta sem eru samkeppnishæfir í verði og gæðum á við það sem best gerist, bæði innanlands og utan, og tryggja viðskiptavinum sínum þjónustu sem uppfyllir þarfir þeirra og óskir eins og best er á kosið.
Verðlaunagrip hvatningarverðlaunana hannaði Fríða Björk Gylfadóttir, listamaður á Siglufirði. Fríða hefur haft opna vinnustofu og gallerí frá árinu 2003. Núverandi aðstaða Fríðu er að Túngötu 40a á Siglufirði.
Adolf H. Berndsen formaður SSNV afhenti hvatningarverðlaunin í húsakynnum Siglufjarðar Seigs þriðjudaginn 29. maí síðastliðinn.
Hvatningarverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.
30.05.2007
Krabbameinsfélag Austur-Húnavatnssýslu efndi til samkeppni í 8., 9. og 10. bekk í skólunum hér á svæðinu nú í vor um besta slagorðið á stuttermaboli. Í þeim átti að koma fram áróður gegn reykingum. Margar góðar hugmyndir voru sendar inn, og það voru einmitt tvær stúlkur úr Höfðaskóla sem unnu samkeppnina, þær Sólrún Ágústa og Laufey Inga í 9. bekk.
Þess má geta að allir þessir þrír bekkir eru reyklausir, og fá þeir sent viðurkenningarskjal með innilegum hamingjuóskum ásamt stuttermabolum með besta slagorðinu á.
24.05.2007
Þann 5. maí 2007 var Landsbankahlaupið endurvakið í tilefni 120 ára afmæli bankans. Þátttakendur og aðrir gestir létu kuldabola ekki hindra mætingu. Alls voru 40 börn á aldrinum 10 - 13 ára sem tóku þátt í hlaupinu. Öll stóðu þau sig vel, fengu verðlaunapening og smágjafir frá bankanum. Þau sem voru í þremur efstu í hverjum árgangi fengu þar að auki bikara.
Boðið var upp á grillaðar pylsur og þorsta svalað að hlaupi loknu. Heitt kaffi var vel þegið af þeim sem það vildu. "Afmælisbitinn" var vinsæll bæði hjá börnum og fullorðnum. Börnin fengu andlitsmálun, sum fengu fiðrildi, önnur ljón og enn önnur KLASSA merkið. Ekki var annað að sjá en að allir færu ánægðir heim, þrátt fyrir kuldahroll og nokkur hvít korn úr lofti. Að lokum minnum við á ljósmyndasýningu Barnabóls í bankanum.
16.05.2007
8. bekkur Höfðaskóla á Skagaströnd vann fyrstu verðlaun í evrópusamkeppni meðal reyklausra 7. og 8. bekkja, hlutu þau að launum Danmerkurferð fyrir bekkinn.
Þetta er áttunda árið sem Lýðheilsustöð tekur þátt í þessu evrópuverkefni.
Í ár voru 320 bekkir skráðir til leiks. Á skólaárinu voru dregnir út vinningar og það sem bekkirnir þurftu að gera til að vera með í útdrættinum var að staðfesta reykleysi sitt. Vinningar voru bakpokar og geisladiskar. Allir þátttakendur fengu senda litla gjöf sem í ár var pennaveski.
Til að eiga möguleika á að vinna til fyrstu verðlauna þurftu bekkirnir að senda inn áhugavert efni tengt tóbaksvörnum. Nánari útfærsla var ekki tilgreind til að þrengja ekki hugmyndir að verkefnum. Í ár, eins og áður, bárust mjög mörg vel unnin verkefni og var þriggja manna dómnefnd vandi á höndum að velja sigurvegara. Alls bárust 90 lokaverkefni og voru mörg frábærlega unnin, bæði hvað varðar hugmyndir og útfærslu.
Verkefni 8. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd var mjög viðamikið og er greinilegt að bæði var lagður mikill metnaður og heilmikið starf í alla þætti þess. Nánar um verðlaunaverkefnið er að finna á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.
http://www.lydheilsustod.is/reyklausbekkur/frettir/nr/2093
Gaman er að geta þess að Höfðaskóli hefur áður hlotið fyrstu verðlaun í þessari samkeppni, en það var fyrir 6 árum síðan.
Heimild Lýðheilsustöð
11.05.2007
Fermingarmessa verður í Hólaneskirkju sunnudaginn 13. maí nk. kl 11:00 þar sem 9 ungmenni verða fermd. Kirkjukór Hólaneskirkju syngur undir stjórn Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur organista. Andrea Björk Kristjánsdóttir leikur á þverflautu. Prestur er sr. Fjölnir Ásbjörnsson.
Fermd verða:
Alex Már Gunnarsson Suðurvegi 1 545 Skagaströnd
Brynjar Max Ólafsson Hólabraut 14 545 Skagaströnd
Elísabet Anna Einarsdóttir Þórshamri 545 Skagaströnd
Halla Björk Víðisdóttir Hólabraut 22 545 Skagaströnd
Kristbjörg Drífa Ragnheiðardóttir Suðurvegi 13 545 Skagaströnd
Lilja Bjarney Valdimarsdóttir Hólabraut 31 545 Skagaströnd
Sara Rut Fannarsdóttir Bogabraut 18 545 Skagaströnd
Silfá Sjöfn Árnadóttir Fellsbraut 15 545 Skagaströnd
Sonja Sif Ólafsdóttir Hólabraut 12 545 Skagast
11.05.2007
Hreppsnefnd Höfðahrepps samþykkti ársreikning sveitarfélagsins á fundi sínum 9. maí sl.
Rekstrarniðurstaða samstæðu ársreikningsins sýnir 67,2 milljóna króna jákvæða niðurstöðu en það er 28,5 milljónum króna betri niðurstaða en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartekjur samstæðu námu tæpum 350 milljónum króna og höfðu aukist um 17% milli ára. Skatttekjur sveitarsjóðs að meðtöldu framlagi jöfnunarsjóðs námu 240,9 milljónum og höfðu aukist um tæp 22% frá fyrra ári. Rekstrargjöld samstæðunnar námu 325 milljónum og höfðu lækkað lítillega frá fyrra ári. Handbært fé jókst um 83,8 milljónir milli ára eða um 14%. Skuldir og skuldbindingar námu 415,8 milljónum en þar af námu langtímaskuldir sveitarsjóðs 56,8 milljónum og lífeyrisskuldbindingar 71,8 milljónum. Í skýringum með ársreikningi kemur fram að laun og launatengd gjöld án breytinga á lífeyrisskuldbindingum námu 52,7% af rekstrartekjum og rekstrargjöld án fjármagnsliða námu 95,3% af rekstrartekjum. Rekstrartekjur samstæðu voru 655 þús á íbúa og rekstrargjöld 568 þús.
Þessi niðurstaða ársreiknings er ein sú besta í sögu sveitarfélagsins en fjármagnstekjur hafa afgerandi áhrif á afkomuna.
09.05.2007
Hreppsnefnd Höfðahrepps samþykkti á fundi sínum 9. maí sl. að gera skoðanakönnun á viðhorfi íbúa til þess að nafni sveitarfélagsins verði breytt og tekið upp nafnið Sveitarfélagið Skagaströnd sem nafn á sveitarfélaginu.
Áhugi hreppsnefndar á að breyta nafninu byggist á því sjónarmiði að nafn sveitarfélagsins verði samræmt nafni staðarins.
Samhliða kosningum til Alþingis verður því gerð skoðanakönnun meðal kjósenda þar sem spurt verður um viðhorf til að breyta nafni sveitarfélagsins úr Höfðahreppur í Sveitarfélagið Skagaströnd.
Nafnið Skagaströnd hefur um langt skeið verið nafn á verslunarstaðnum og þorpinu sem í dag er sveitarfélagið Höfðahreppur. Þótt það nafn hafi verið notað um sveitarfélagið síðan það var stofnað 1939 þá þykir hreppsnefnd það ekki hafa nægjanlega mikla samsvörun við nafnið á byggðinni og hefur oft valdið miskilningi um tengingu við hana. Hreppsnefnd þykir því við hæfi að kanna vilja íbúanna til að breyta nafninu og væntir þess að íbúar taki áskorun um að lýsa viðhorfum sínum með þátttöku í könnuninni.
Skagaströnd, 9. maí 2007.
Fyrir hönd hreppsnefndar
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri
08.05.2007
Skrifstofa atvinnuleysistrygginga var opnuð formlega á Skagaströnd á föstudag. Sex nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til skrifstofunnar en yfirmaður hennar er Líney Árnadóttir. Skrifstofan annast greiðslur atvinnuleysistrygginga en þjónusta við umsækjendur er sem fyrr hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar í hverju umdæmi.
Það var ákvörðun Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, að umsýsla atvinnuleysistrygginga yrði á Skagaströnd. Magnús ávarpaði viðstadda við formlega opnun skrifstofunnar og sagði það vera gleðiefni að fá tækifæri til að fjölga störfum á landsbyggðinni og renna styrkari stoðum undir atvinnulífið þar. Æskilegt væri að opinberar stofnanir staðsettu sem kostur væri ný verkefni afmarkaðra skipulagseininga á landsbyggðinni.
Reiknistofa Atvinnuleysistryggingasjóðs er til húsa að Túnbraut 1-3 á Skagaströnd. Símanúmer þar er 582-4900, faxnúmer 582-4920 og netfang postur@gs.vmst.is.
Heimild: mbl.is
04.05.2007
Nú um helgina (5.-6.maí) mun afródansarinn og trommarinn Cheick Bangoura halda námskeið á Skagaströnd. Þetta eru kraftmiklir tímar, fullir af rytma og hreyfingu.
Námskeiðin verða haldin í íþróttahúsinu á Skagaströnd og geta þátttakendur valið um hvort þeir læra dans, á trommur eða bæði.
Cheick Bangoura kemur frá Gíneu en hefur búið á Íslandi undanfarin átta ár og kennt Íslendingum að dilla sér í takt við afrískan trumbuslátt. Hann hefur haldið námskeið fyrir fólk á öllum aldri, bæði hérlendis og erlendis. Dansinn og tónlistin er tónlistin og dansinn í blóð borin enda er hann sonur eins þekktasta afródansara heims, Moustapha Bangoura. Cheick talar mjög góða íslensku.
Þetta er gott tækifæri til þess að skemmta sér og sleppa aðeins fram af sér beislinu um leið og þið lærið eitthvað nýtt.
Dansinn er skemmtilegur og kraftmikill og heitur trommuslátturinn tryggir ekta afríska stemningu. Það geta allir tekið þátt og miðar Cheick tímana við hópinn hverju sinni. Það þarf sko engar ballerínur til þess að dansa afró.
Trommutímarnir, þar sem kennt er á djembe (bongó) trommur eru ekki síður skemmtilegir. Cheick er afar fær trommuleikari og getur er eins og heil hljómsveit sé að spila þegar hann slær trommurnar. Farið verður í gegnum grunntakta í afrískri tónlist.
Námskeiðin verða á laugardag og sunnudag, eina og hálfa klukkustund í senn.
Verð á mann kr. 3500-
Nánari upplýsingar veitir Bergþóra í síma 844 0987