Skagastrandarlistinn býður fram til sveitarstjórnar

Skagastrandarlistinn samþykkti á fundi í Kántrýbæ 26. apríl sl. svohljóðandi framboðslista til sveitarstjórnakosninga 2010:   1.    Adolf H. Berndsen 2.    Halldór G. Ólafsson 3.    Péturína L. Jakobsdóttir 4.    Jón Ó. Sigurjónsson 5.    Jensína Lýðsdóttir 6.    Baldur Magnússon 7.    Valdimar J. Björnsson 8.    Svenný H. Hallbjörnsdóttir 9.    Björn Hallbjörnsson 10. Birna Sveinsdóttir Skagastrandarlistinn hefur boðið fram undir bókstafnum S frá árinu 1994 en nú hefur verið ákveðið að þar sem Samfylkingin hafi fengið þann bókstaf úthlutaðan á landsvísu verði Skagastrandarlistinn að velja annan listabókstaf. Ákveðið hefur verið að Skagastrandarlistinn bjóði fram undir bókstafnum H. Listinn heitir því H-listi, Skagastrandarlisti.

Fullkomin rannsóknarstofa BioPol opnuð

„Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.“ Þetta sagði Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. á Skagaströnd í ræðu sinni föstudaginn 23. apríl er fyrirtækið tók formlega í notkun nýja og fullkomna rannsóknarstofu.  Fjölmenni var við vígsluna enda mikið um að vera á Skagaströnd þennan dag. Haldin var ráðstefna á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands og kynnt var starfsemi Nes listamiðstöðvar og Spákonuarfs. Svar við breyttum aðstæðum „Sjósókn og fiskvinnsla eru þær atvinnugreinar sem íbúar Skagastrandar hafa að mestu reitt sig á til lífsviðurværis í gegnum aldirnar. En síldin hvarf, rækjan, skelfiskurinn og kvótar í flestum fisktegundum hafa degist saman. Allt hefur þetta haft áhrif á Skagaströnd með beinum eða óbeinum hætti.  Stofnun Sjávarlíftæknisetursins BioPol ehf. er að hluta til svar við breyttum aðstæðum. Við teljum nauðsynlegt að afla meiri upplýsinga um auðlindir sjávar og jafnframt að standa að nýsköpun sem gæti leitt af sér ný sóknarfæri hvað varðar atvinnusköpun. Þetta tvennt  er einmitt meðal þeirra stefnumiða sem fyrirtækinu er ætlað að starfa eftir.“ Ör vöxtur Starfsemi BioPol ehf. hefur verið nokkuð fjölbreytt. Hér má nefna nokkur dæmi:  Rannsóknir á hrognkelsum sem lúta bæði að atferli og líffræði tegunarinnar sem og nýjum nýtingarmöguleikum.   Rannsókn sem miðaði að útbreiðslu og líffræði beitukóngs í Húnaflóa. Rannsókn á fæðunámi sela er og vinna við vöktunarverkefni sem tengjast áhuga manna við Húnaflóa á kræklingarækt.  Einnig hefur félagið fengið styrk til að gera athugun á sýkingarástandi hörpudisks í Húnaflóa.  Ræktun og einangrun á smáþörungum úr sjó með framleiðslu á hágæða fiskiolíum og öðrum verðmætum efnum að markmiði.  Góður stuðningur stórnvalda „Við segjum hér að Einar Oddur heitinn Kristjánsson hafi fyrstur skotið þessari hugmynd að okkur á vordögum 2007,“ sagði Adolf Berndsen, stjórnarformaður BioPol ehf. í ræðu sinni.  „Jón Bjarnason var einnig mikill talsmaður þess að við horfðum til rannsóknarstarfsemi. Öflugur stuðningur Háskólans á Akureyri hefur skipt sköpum við uppbyggingu  BioPol frá upphafi. Rannsóknir og verkefni hafa frá byrjun miðast við öflugt samstarf við aðila innanlands sem erlendis.  Á engan er hallað að nefna sérstaklega Hjörleif Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri sem hefur frá upphafi verið lykilmaður í þessu verkefni með okkur. Þorsteinn Gunnarsson þáverandi rektor sýndi einnig þessari uppbyggingu góðan stuðning.   Þingmenn kjördæmisins með Einar Kristinn Guðfinnsson þáverandi sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar studdu á afgerandi hátt við hugmyndina, auk fleiri ráðherra.“ 

40% nemenda grunnskólans leika á hljóðfæri

Um 40% nemenda í Höfðaskóla, grunnskólanum á Skagaströnd, stunda líka nám í Tónlistarskólanum. Þetta er nokkuð hátt hlutfall og án efa með því hæsta sem gerist á landinu. Það verður því áreiðanlega mikið líf og fjör þegar Tónlistarskólinn heldur vortónleika sína, en það verður á miðvikudaginn 28. apríl kl. 17. Nemendur skólans leika á hljóðfæri sín í lúðrasveit, hljómsveitum, leika einleik eða spila með öðrum. Þetta er viðburður sem enginn má láta fram hjá sér fara enda eru allir velkomnir.

Þórdís spákona er loksins komin heim

Þórdís spákona hefur verið fjarri Skagaströnd um hríð, í um það bil eitt þúsund ár, en er nú loksins komin heim. Hún hefur tekið sér bólfestu í Gamla Kaupfélagshúsinu, að minnsta kosti í bili. Það er Spákonuarfur sem hefur látið búa til líkneskið af Þórdísi. Fyrirmynd Þórdísar er Jensína Lýðsdóttir sem lék hana í leikriti sem sýnt var í Fellsborg fyrir rúmu ári.  Líkneskið gerði Ernst Backman sem var frumkvöðull að stofnun Sögusafnsins í Perlunni í Reykjavík. 

Vel heppnaður hátíðisdagur Fræðaseturs á Skagaströnd

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók formlega til starfa á föstudaginn með opinni athöfn á loftinu í Kaupfélagshúsinu.  Fjöldi manns kom á opnunina, sem Lárus Ægir Guðmundsson stjórnaði af röggsemi.  Á samkomuna voru mættir ýmsir aðilar sem Fræðasetrið hefur hug á samstarfi við og má þar nefna fólk frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Tónlistarsafni Íslands, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvari  ehf. á Hvammstanga. Sömuleiðis mættu til leiks stjórnarmenn Fræðasetursins ásamt fólki frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ýmsum öðrum. Það er mikill stuðningur við starf og framtíðarsýn hins nýja Fræðaseturs að allt þetta fólk skuli hafa komið til að fagna þessum merka degi.   Ræðumenn sem tóku til máls í tilefni opnunar Fræðasetursins voru Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Lára Magnúsardóttir forstöðumaður setursins.  Fram kom í máli Láru að Elín Hannesdóttir hefur boðið Fræðasetrinu að þiggja að gjöf bókasafn eiginmanns hennar, Halldórs Bjarnasonar sagnfræðings sem lést í haust. Safnið telur um 3000 titla og vonar Lára að hægt verði að gera safninu sóma á Skagaströnd, enda myndi það bæta stöðu Fræðasetursins stórkostlega, þar sem vinnutæki sagnfræðinga eru bækur.  Hún kynnti að lokum Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur íslenskufræðing til leiks, en hún hefur verið ráðin verkefnisstjóri hjá Fræðasetrinu næstu þrjá mánuðina til að sinna sérstökum málum.  Síðan færðu Anna Agnarsdóttir, prófessor og forseti Sögufélags, og Eggert Þór Bernharðsson, deildarforseti sagnfræði- og heimspekideildar, setrinu bókagjafir frá Sögufélagi og Sagnfræðistofnun HÍ.   Gestum var síðan sýnd Nes listamiðstöðin og Árnes og heimamenn dönsuðu línudans við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir móttöku í Bjarmanesi var gengið til snæðings í Kántrýbæ, þar sem þriggja rétta, vel útilátin og afar bragðgóð máltíð var til sölu á góðu verði.   Á laugardeginum fór  fyrsta málþing Fræðasetursins fram en þar var fjallað um samskipti Íslands við erlend ríki og spurt hvernig sagnfræðin getur lagt sitt af mörkum við að taka afstöðu til spurninga eins og þeirrar hvort það sé Íslandi í hag að ganga í Evrópusambandið.   Tilefni þingsins, sem sveitarfélagið Skagaströnd skipulagði ásamt Fræðasetrinu með aðstoð frá SSNV, var meðal annars að í ár eru liðin 150 ár frá því Valtýr Guðmundsson fæddist á Skagaströnd.  Málþingið var opið öllum og það var nánast fullt hús í hinum fallegu húsakynnum í Bjarmanesi. Í lokin stýrði Ármann Jakobsson lektor í íslenskum bókmenntum umræðum.  Loks var ekið í rútu norður eftir Skaganum undir styrkri og skemmtilegri leiðsögn Magnúsar B. Jónssonar sveitarstjóra. Veðrið lék við gesti og heimamenn og þegar lagt var úr hlaði kl. 16:30 virtust gestir jafnánægðir með allan framgang mála og skipuleggjendur.

Menningarráð úthlutar sjö styrkjum til Skagstrandar

Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í gær, 22. apríl, 15,3 milljónum króna í verkefnastyrki. Umsóknarfrestur rann út þann 15. mars síðast liðinn og bárust 85 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum króna. Sex aðilar á Skagaströnd fengu styrki að þessu sinni. Sveitarfélagið Skagaströnd fékk 150.000 króna styrk til að halda ráðstefnu um sögu pólitískra samskipta Íslands við önnur ríki. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Fræðasetur Háskólans á Skagaströnd sem tekur til starfa í dag og er ráðstefnan haldin á morgun, 24. apríl. Tilefni ráðstefnunnar er að 150 ár eru liðin frá fæðingu Valtýs Guðmundssonar sem var merkur stjórnmálaleiðtogi um þarsíðustu aldamót. Skagaströnd fékk einnig 150.000 króna styrk til að halda ljósmyndasýningu utanhúss í sumar. Á síðasta ári stóð sveitarfélagið fyrir ljósmyndasýningu þar sem sýndar voru 50 árar gamlar myndir af síldarvinnslu á Skagaströnd. Sú sýning stendur enn og eru risastórar svart-hvítar ljósmyndir sýndar á húsgöflum víða um bæinn.  Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd fékk 200.000 króna styrk til að halda gospel tónleika. Elías Björn Arnason fékk 150.000 króna styrk til að gefa út geisladisk með undirleik við öll lög í sálmabók barnanna. Menningarfélagið Spákonuarfur fékk 150.000 króna styrk til að gefa út bók um sögu Þórdísar spákonu. Á meðfylgjandi mynd tekur Dagný M. Sigmarsdóttir við viðurkenningarskjali til staðfestingar á styrknum. Nes listamiðstöð fékk 100.000 króna styrk til að halda myndlistarsýningu. Loks fékk Sigurður Sigurðarson, áhugaljósmyndari, 100.000 króna styrk til að halda ljósmyndasýningu sem hann nefnir „Spákonufell, kringinn í hringum“.

Fólk vantar í sumarafleysingar

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í sumarafleysingar og tímabundna ráðningu til lengri tíma. Leitað er að starfsfólki með góða skipulagshæfni, leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Framhalds- eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR.   Helstu verkefni eru afgreiðsla umsókna um atvinnuleysistryggingar, almenn skrifstofustörf, símsvörun, upplýsingagjöf og þjónusta við atvinnuleitendur. Umsókn ásamt ferilskrá skal senda á netfangið liney.arnadottir@vmst.is fyrir 1. maí.  Frekari upplýsingar gefur Líney Árnadóttir forstöðukona í síma 860 2053 og á liney.arnadottir@vmst.is. 

Opnunar- og vígsluhátíð

Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf. og Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra bjóða til opnunar- og vígsluhátíðar á Skagaströnd föstudaginn 23. apríl, kl. 16:00. Dagskrá hefst kl 16:00 með móttöku í Kaupfélagshúsinu.   Í framhaldi af því verður gertum boðið upp á að skoða nýja rannsóknastofu BioPol ehf.  Jafnframt verður opið hús á nokkrum stöðum: Fræðasetrinu í Gamla Kaupfélagshúsinu Nesi listamiðstöð Spákonuarfi í Árnesi. Um kvöldið verður svo spurningakeppnin Drekktu betur í Kántrýbæ og hefst hún kl. 21:30.

Tilboð óskast í urðun á Sölvabakka

Verkfræðistofan Efla, f.h. Norðurár bs. óskar tilboða í verkið Urðunarstaður á Sölvabakka.  Helstu magntölur eru: Gröftur og tilfærsla jarðvegs 380.000 rúmmetrar. Dúkþéttingar 14.000 fermetrar. Lagnir 1.500 metrar. Vegfylling 15.000 rúmmetrar. Girðing 2.000 metrar. Útboðsgögn fást á skrifstofu Eflu hf. verkfræðistofu, Suðurlandsbraut 4a frá og með miðvikudeginum 21. apríl 2010 gegn greiðslu kr. 5.000 í peningum og skráningu á samskiptaaðila bjóðanda í útboði. Opnun tilboða verður 6. maí 2010, kl 14:00 í Ráðhúsi Skagafjarðar, Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki.  Fyrir hönd Norðurár bs. Efla verkfræðistofa Sími 412 6000 www.efla.is  efla@efla.is

Fræðasetrið opnað á Skagaströnd

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra í sagnfræði opnar formlega á Skagaströnd föstudaginn 23. apríl kl. 16. Á sama tíma opnar Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf. og vígir nýjar rannsóknarstofur kl. 16. Opnunarathöfn verður í salnum í Kaupfélagshúsinu 16:00 - 19:00. Opið hús: Í nýjum rannsóknarstofum Biopol og hjá Fræðasetrinu  Í Kaupfélagshúsinu Í Nesi listamiðstöð   Í Árnesi – elsta húsi bæjarins  Daginn eftir, 24. apríl, er fyrsta opna málþingi Fræðasetursins: „Nokkur brot úr sögu samskipta Íslands við erlend ríki – Til upprifjunar fyrir pólitíska umræðu“.  Boðið verður upp á ferð með leiðsögumanni í Kálfshamarsvík. Sætaferðir eru frá Reykjavík 23. apríl kl. 12 og  til Reykjavíkur 24. apríl kl. 16:30.  Þriggja rétta kvöldverður í Kántrýbæ á föstudagskvöldinu kostar kr. 4190. Nánar auglýst á ssnv.is og víðar.