Mynd vikunnar

Hnúfubakur. Í ágúst 1998 komu Ólafur Bernódusson og Guðmundur J. Björnsson í land á trillu sinni, Benna Ólafs, með hnúfubak í eftirdragi. Hvalinn höfðu þeir fundið dauðan á reki norður með landi. Hnúfubakurinn var ungkálfur - tarfur - um 10 metra langur. Hvalurinn var dreginn upp í fjöru til að rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun gætu skoðað hann og tekið úr honum sýni. Eftir sýnatöku og skoðun margra bæjarbúa var hvalurinn dreginn aftur út á haf og fargað þar. Á myndinni er Hafró fólkið, íklætt hlífðarbuxum, að undirbúa sýnatöku. Guðmundur J. Björnsson stendur við sporðinn í blárri peysu, aðrir eru óþekktir. Til gamans má geta þess að reður hvalsins var sendur til Reðursafns Íslands að ósk eiganda safnsins en hann ætlaði að hafa reðurinn þar til sýnis með öðrum slíkum líffærum af hinum ýmsu spendýrum. Myndina tók Magnús B. Jónsson.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Erlingur Hugi Kristvinsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi fimmtudaginn 14.apríl 2016. Tímapantanir í síma 455-4100 milli kl 08:00 og 16:00.

Ráðgjafi á sviði ferðamála

Davíð Jóhannsson, starfsmaður SSNV, verður á skrifstofu SSNV að Einbúastíg 2 á Skagaströnd á morgun, miðvikudaginn 30. mars, kl. 10:00-12:00. Fólk er hvatt til þess að nota sér þessa tíma og til að auðvelda skipulagningu er mælt með að bóka tíma með tölvupósti á david@ssnv.is eða símleiðis í 8422080.

Mynd vikunnar

Þessi mynd er úr safni hjónanna séra Péturs Þ. Ingjaldssonar (d.1.6.1996) og Dómhildar Jónsdóttur (d.18.10.2012). Á myndinni sér heim að Höskuldsstöðum í Vindhælishreppi. Bærinn og gamla kirkjan til hægri eru bæði horfin en nýja kirkjan, sem byrjað er að mála, var vígð 13. mars 1963 og er enn í notkun. Á hlaðinu hjá Höskuldsstöðum sér í prestsbílinn sem var af Austin gerð. Myndin var tekin 13. júlí 1959. Á sínum tíma var á Höskuldsstöðum höfuðkirkja og prestsetur en kirkjan á Spákonufelli var útkirkja eða annexía (reyndar frá kirkjunni á Hofi) þannig að presturinn á Höskuldsstöðum þjónaði í Spákonufellskirkju öfugt við það sem er í dag. Séra Pétur Ingjaldsson var settur prestur á Höskuldsstöðum en prestsetrið var ekki flutt til Skagastrandar fyrr en árið 1963 þegar séra Pétur og Dómhildur kona hans keyptu Höfða á Skagaströnd og fluttu þangað. Tilfærslan frá Höskuldsstöðum á Skagaströnd hafði reyndar verið samþykkt 10 árum áður eða 1953 eftir að málið hafði verið að velkjast í kerfinu allt frá árinu 1936. ( heimild "Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 - 2012" eftir Lárus Ægi Guðmundsson

Lagning ljósleiðara í Sveitarfélaginu Skagaströnd

Beiðni um upplýsingar Stefnt er að áframhaldandi lagningu ljósleiðara í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Gert er ráð fyrir að lögbýlum, íbúðar- og frístundahúsum í dreifbýlinu við Skagaströnd bjóðist að fá ljósleiðaratengingu. Um er að ræða húsin Laufás, Réttarholt, Sólvang, Ásholt, Ás, Litla Fell og frístundahúsið Snorraberg. Óskað er eftir viðbrögðum umræddra húseigenda ef þeir hafa ekki áhuga á ljósleiðaratengingu. Auglýst er eftir: A: Aðila eða aðilum sem innan þriggja ára hyggjast, á eigin forsendum, ráðast í lagningu og/eða rekstur ljósleiðararnets í sveitarfélaginu fyrir framangreindar eignir. eða B: Hæfum aðila eða aðilum til að taka að sér að leggja og /eða reka til framtíðar ljósleiðaranet í samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd, komi til þess að enginn svari lið A hér að ofan. Aðilar sem óska eftir stuðiningi munu þurfa að uppfylla tilteknar kröfur um fjarskiptaleyfi og fjárhagslegan styrk. Enn fremur að hafa reynslu af uppbyggingu og rekstri sambærilegra kerfa og sýna fram á raunhæfa verk- og rekstraráætlun. Áhugasamir aðilar skulu senda tilkynningu um fyrirætlanir sínar til Sveitarfélagsins Skagastrandar á netfangið magnus@skagastrond.is fyrir kl. 15:00 þann 4. apríl 2016. Í tilkynningunni skal koma fram nafn og kennitala aðila, aukupplýsinga um ofngreint eftir því sem við á. Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum og skýringum og skulu slíkar fyrirspurnir sendar á netfangið magnus@skagastrond.is Áhugakönnun þessi er ekki skuldbindandi, hvorki fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd né þá sem sýna verkefninu áhuga. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Íslandsmet. Þessi mynd var tekin af áhöfnum Arnars Hu-1 hinn 23. desember 1999. Þá hafði Arnar náð því takmarki, fyrstur íslenskra togara, að aflaverðmæti landaðs afla á árinu var komið yfir einn milljarð. Af þessu tilefni var drifið í myndatöku og á eftir bauð útgerðin upp á léttar veitingar um borð fyrir áhöfnina og aðstandendur þeirra. Á myndinni eru frá vinstri: Tryggvi Hlynsson, Bæring Skarphéðinsson, Guðmundur Andersson (nær), óþekktur (fjær), Ernst Berndsen, Ingvar Þór Jónsson, Ágúst Ómarsson, Hafsteinn Pálsson (fjær), Ingibjörg Skúladóttir (nær), Sigurjón Ingólfsson, Hólmgeir Kristmundsson, Valdimar Viggósson, Indriði Sigurðsson (nær), Hafþór Gylfason (fjær), Jónas Þorvaldsson, Óskar Kristinsson (nær), Einar Ásgeirsson (í miðið), Reynir Lýðsson (fjærst), Þröstur Árnason (fjær), Jóhannes Indriðason (nær), Einar Kristberg, Guðjón Guðjónsson, Guðmundur Finnbogason, Guðmundur Gunnlaugsson?, Björn Sigurðsson, Árni Ólafur Sigurðsson (nær), Þórarinn Eiðsson (d.14.6.2002) (fjær), Sævar Berg Ólafsson (nær), Jóhann Ásgeirsson (fjær), Slavko Velemir, Bjarni Ottósson, Gunnar Reynisson, óþekktur, Víðir? og Finnur Kristinsson. Eins og sjá má á borðanum voru aflaverðmætin orðin einn milljarður og 25 milljónir þennan dag. "Milljarðakassinn" er svo fyrir framan hópinn. Ef þú þekkir óþekktu mennina vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Opið hús hjá Dimension of sound

Við hjá Dimension of sound bjóðum öllum bæjarbúum og nærsveitamönnum sem hafa áhuga á að skoða vöruúrval okkar, að koma í heimsókn á Einbúastíg 1, mánudaginn 21. mars nk. frá kl. 12:00-18:00. Vonum að sjá sem flesta :) Kveðja Ævar og Kristján

Lisa Hälterlein sjúkraþjálfari

Lisa Hälterlein Löggiltur sjúkraþjálfari B.Sc. B.Sc. í sjúkraþjálfun University College Lillebælt 2013 Námskeið í sjúkraþjálfun: 2015 Nálastungu „AcuNova“ 2013 Sjúkraþjálfun á hestbaki 2013 Kinesiotape I Tímapantanir og fyrirspurnir í síma 778-3837 eða lisasjukrat@hotmail.com Flúðabakka 2, 540 Blönduósi og Ægisgrund 14, 545 Skagaströnd

Umsóknir um námsstyrki

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2016 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2015-2016 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 10. apríl 2016. Umsóknir sem berast eftir umsóknarfrest verða ekki teknar til greina. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Reglur um styrkina má finna hér. Umsókn um styrk má finna hér. Sveitarstjóri

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi

Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi var haldin 8. mars sl. og sá Húnavallaskóli um lokahátíðina að þessu sinni. Keppnin er tileinkuð Grími heitnum Gíslasyni, fréttaritara og fyrrum bónda frá Saurbæ í Vatnsdal. Markmið keppninnar er að glæða tilfinningu og metnað húnvetnskra grunnskólanema fyrir íslensku máli og framsögn. Magdalena Margrét Einarsdóttir íslenskukennari í Húnavallaskóla flutti ávarp og tveir nemendur úr Tónlistarskóla Austur Húnavatnssýslu komu fram. Guðbjörg Anna Pétursdóttir lék á saxafón og Hugrún Lilja Pétursdóttir á píanó. Þrír keppendur komu frá hverjum skóla þ.e. Blönduskóla, Húnavallskóla, Höfðaskóla, og Grunnskóla Húnaþings vestra. Forkeppni er haldin í hverjum skóla fyrir sig og mæta því þrír bestu úr hverjum skóla í lokakeppnina. Óhætt er að segja að allir keppendur hafi staðið sig vel og settu dómnefndina í talsverðan vanda, því erfitt var að velja úr. Dómarar voru að þessu sinni Baldur Sigurðsson, Benedikt Blöndal, Kolbrún Zophoníasdóttir og rithöfundarnir Gunnar Helgason og Arndís Þórarinsdóttir. Keppendur lásu brot úr skáldverki eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ljóð eftir Guðmund Böðvarsson og ljóð að eigin vali. Úrslit urðu þessi: Ólafur Halldórsson Höfðaskóla Hugrún Lilja Pétursdóttir Húnavallaskóla Víkingur Leon Þórðarson Blönduskóla Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn veittu peningaverðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun. Skólarnir gáfu Ljóðasafn eftir Stein Steinarr og Félag íslenskra bókaútgefenda gaf úrval úr ljóðum Guðmundar Böðvarssonar. Að lokum var farandskjöldur afhentur en skjöldurinn var gefinn af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Sá skóli sem hlýtur fyrsta sætið varðveitir skjöldinn fram að næstu keppni og kom það í hlut Höfðaskóla að þessu sinni.