30.11.2012
Nú er aðventan er byrja og búið að skreyta jólatréð.
Af þessu tilefni ætlum við að bjóða uppá smákökur og kaffi í Landsbankanum á Skagaströnd mánudaginn 3. des.
Verið velkomin til okkar.
Stelpurnar í Landsbankanum. J
30.11.2012
Jólatré - jólatré
Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni
föstudaginn 30. nóvember kl 17.00.
Vonast er til að nokkrir jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber starfstími þeirra hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga.
Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp jólalögin.
Sveitarstjóri.
30.11.2012
Fatamarkaði og smákökusölu Rauða krossins á Skagaströnd sem átti að vera fimmtudaginn 22. nóvember og var frestað vegna veðurs, verður haldinn mánudaginn 3. desember frá kl. 17:00-19:00. Ný sending af fötum.
Vonumst til að sjá sem flesta.
Stjórnin
27.11.2012
Eins og fram kemur í sorphirðudagatali fyrir Skagaströnd http://skagastrond.is/sorphirda2012.pdf er næsti sorphirðudagur fimmtudaginn 29. nóvember. Húseigendur er því minntir á að moka frá ruslatunnum sínum og sjá til þess að þær séu aðgengilegar fyrir sorphirðufólk.
Sveitarstjóri
27.11.2012
Heil og sæl
Þá er loksins komið að hinni langþráðu vetrarsamkomu Garginu sem einkennist af söng og gleði nemenda og annarra viðstaddra.
Gera má ráð fyrir að um salinn ómi helstu gleði- og hamingjusöngvar sem þekkjast á þessum hluta landsins.
Er það einlæg ósk okkar að sem flestir gefi sér tóm til að mæta.
Gleðin hefst í Fellsborg kl 18:00 þriðjudaginn 4. desember.
Léttar veitingar verða í boði.
Aðgangseyrir er 500 kr
Skólafélagið Rán
21.11.2012
Fatamarkaði og smákökusölu Rauða krossins á Skagaströnd sem átti að vera á morgun, fimmtudaginn 22. nóvember, hefur verið frestað til mánudagsins 3. desember frá kl. 17:00-19:00.
Stjórnin
21.11.2012
Af gefnu tilefni og þar sem tvísýnt er með veður á morgun, viljum við koma eftirfarandi skilaboðum til foreldra:
Að fella niður kennslu er neyðarúrræði. Ef veður er svo slæmt að foreldrar telji það varhugavert börnum sínum þá er þeim að sjálfsögðu heimilt að halda þeim heima þótt engin tilkynning hafi komið um að kennsla falli niður.
Við minnum á að börn eru á ábyrgð foreldra í og úr skóla. Tilkynna þarf um forföll vegna veðurs eins og önnur.
Kveðja,
Stjórnendur
21.11.2012
Miðvikudagur 21. nóvember kl 14.00
Snjómokstir verður hætt fram til kl 16.30 í dag. Þá verða helstu leiðir mokaðar til að fólk komist heim úr vinnu og reynt að halda opnu til kl 17.30. Verkstjóri áhaldahúss mun fylgjast með ástandi og aðstoða eftir föngum þá sem nauðsynlega þurfa að komast um. Símanúmer hans er 861 4267
Sveitarstjóri
21.11.2012
Eftir hvassviðri síðastliðinnar nætur eru miklir skaflar komnir og víða orðinn svo mikill snjór að ekki verður átt við mokstur á nokkrum götum fyrr en veðurhorfur eru orðnar betri en lítur út fyrir næsta sólarhring. Meðfylgjandi mynd er tekin af spákorti www.belgingur.is og ber nokkuð saman við spár www.vedur.is . Samkvæmt þessum spám má reikna með norðaustan hvössum vindi og skafrenningi en einnig nokkurri úrkomu í kvöld og nótt og fram á morgundaginn.
Veðurspá gildir miðvikudaginn 21. nóvember 2012 kl 21:00
Sveitarfélagið hefur ákveðnar reglur um hvaða götur hafa forgang um opnun. Er þar um að ræða helstu þjónustu- og öryggisleiðir.
Í forgangsröð eru eftirtaldar leiðir:
· Oddagata frá Vallarbraut að Fellsbraut og hreinsað frá dyrum slökkvistöðvar og RKÍ húsi fyrir sjúkrabíl
· Fellsbraut frá efsta húsi að gatnamótum Oddagötu.
· Oddagata og Strandgata öll. (Við mestu snjóa, hjáleið við Hafnarhús og meðfram Mjölskemmu)
· Norðurbraut frá Fellsbraut að gatnamótum við Bogabraut
· Gata upp að leikskóla og Ægisgrund að Dvalar og hjúkrunarheimilinu Sæborg.
· Bogabraut frá Oddagötu að gatnamótum Norðurbrautar
Aðrar götur eru svo opnaðar og hreinsaðar eftir því hvernig snjóa leggur og hvernig snjómokstur vinnst en leitast við að „gera fært“ eftir þeim þannig að sem flestir komist leiðar sinnar þar til mögulegt verður að „hreinsa“ þær.
Tekið skal fram að við veðuraðstæður eins og nú eru getur fyrrgreind forgangsröð að einhverju leyti raskast og reikna má með að einungis hluti þessara leiða haldist opin yfir daginn.
Á óveðursdögum verður reynt að halda opnu fram til kl 17 en sá fyrirvari hafður að mokstri verður hætt ef hann er tilgangslaus vegna dimmviðris og þess að snjór sest í jafnóðum.
Fólk er eindregið hvatt til að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu.
Sveitarstjóri
19.11.2012
Við fjölskyldan viljum þakka fyrir ómetanlegan stuðning sem við höfum fundið fyrir síðan litli stubburinn okkar hann Guðjón Óli fór í aðgerð þann 26. mars og varð fyrir súrefnisskorti sem svo leiddi til alvarlegs heilaskaða.
Leiðin frá aðgerðinni afdrifaríku hefur verið löng, erfið og oft á tíðum virst algerlega ófær. En þegar á reynir er gott að eiga góða að! Og höfum við fjölskyldan svo sannarlega fengið að kynnast því.
Í kjölfar aðgerðarinnar hefur fólk fylkst okkur að baki og styrkt okkur og stutt í gegnum ófæra skafla og ógnvænlegar hafsins öldur en það ber vissulega að þakka.
Foreldrar, systkini, aðrir ættingjar, vinir, nágrannar, sveitungar, samstarfsfélagar og hreinlega aragrúi af góðu fólki hefur sýnt okkur endalausa velvild og hlýjann hug. Góðar kveðjur hafa borist víðsvegar að úr heiminum og er samstaðan að okkar baki hreint út sagt ótrúleg, það sýndi sig eftirminnilega nú 10. nóvember þegar haldinn var samstöðuskemmtun í Félagsheimilinu á Blönduósi fyrir fullu húsi og rúmlega það af tilstuðlan vina, ættingja, umf. Hvatar og annara velunnara. Samhugurinn sem þar var, var reyndar það mikill að engin orð fá því lýst, eða eins og einn góður maður sagði við okkur „Það hefði verið hægt að sameina Austur húnavatnssýsluna eins og hún leggur sig og meira að segja við Vestur sýsluna líka“ Og það finnst okkur segja meir en mörg orð.
Hvað sem öðru líður, þá erum við fjölskyldan afskaplega þakklát fyrir alla þá aðstoð og velvild sem okkur hefur verið sýnd á þessum erfiðu tímum.
Við viljum hér með þakka öllum þeim sem stutt hafa við bakið á okkur og þá þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við skipulagningu og framkvæmd á samstöðuskemmtuninni þann 10 nóvember síðastliðinn. Þessi dagur rennur okkur aldrei úr minni.
Með kærum kveðjum og innilegu þakklæti,
Þórdís Erla, Jón Örn og synir.