01.11.2010
Næsta spurningarkeppnin Drekktu betur verður föstudaginn 5. nóvember. Það verða þau Guðrún Elsa Helgadóttir og Arnar Viggósson sem semja spurningarnar og stjórna keppninni.
Að sjálfsögðu munu þau gera kvöldið að góðri skemmtun fyrir alla aldurshópa og því óhætt að hvetja fólk til að fjölmenna.
Að venju hefst keppnin klukkan hálf tíu og stendur væntanlega í um tvo tíma.
01.11.2010
Kántrýbær á Skagaströnd hefur um nokkurn tíma undirbúið stofnun Kántrýsafns. Safnið á fyrst og byggja á lífi og starfi kúrekans landsþekkta, Hallbjörns Hjartarsonar, sem oft er nefndur kántrýkóngur Íslands.
Nú hefur verið ákveðið að safnið verði opnað í byrjun sumars á næsta ári, stefnt er á afmælisdag Hallbjörns sem er 5. júní.
Björn Björnsson, leikmyndahönnuður, hefur unnið að hönnun sýningarinnar, en hann hefur mikla reynslu af sviðsetningu sýninga af þessu tagi. Nefna má Jöklasýninguna á Hornafirði, Saltfisksetrið í Grindavík og fleiri. Einnig vinnur útvarpskonan geðþekka, Margrét Blöndal, að því að safna efni um Hallbjörn í Sjónvarpinu og hjá Stöð2. Hún mun taka sjónvarpsviðtal við kúrekan eftir áramótin og kaflar úr því verða nýttir til safnsins.
Sem kunnugt er hefur Svenný, dóttir Hallbjörns, og maður hennar, Gunnar Halldórsson, rekið Kántrýbæ í mörg ár. Þau standa að undirbúningi safnsins og leita nú til almennings um myndir gamlar af Hallbirni, gamla Kantrýbæ, brunanum, nýja Kántrýbæ, byggingu hans, Kántrýhátíðum eða í raun öllu sem tengist kántrý á Skagaströnd.
Hægt er að senda myndir í pósti á Kántrýbæ á Skagaströnd, tölvupósti á kantry@kantry.is eða hringja í síma 869 1709.
Meðfylgjandi mynd er tekin á einni af fyrstu Kántrýhátíðunum á Skagaströnd.
01.11.2010
Guðmundur Björnsson og Ólafur Bernódusson voru sigurliðið í spurningakeppninni Drekktu betur sem fram fór á föstudagskvöldið síðasta. Þeir voru vel að sigrinum komnir, ferskir og hressir eftir rjúpnaveiði dagsins og án efa búnir að fá nóg í jólamatinn.
Á myndinni eru þeir félagar ásamt Signýju Ósk Richter sem var spyrill og hæstráðandi ásamt sínum ektamanni Ingibergi Guðmundssyni.
Hér eru spurningarar og svörin:
Spurningakeppnin Drekktu betur á Skagaströnd
Föstudaginn 29. október 2010
Spyrill: Signý Ó. Richter
Spurningar: Signý Ó. Richter og Ingibergur Guðmundsson
1. Óli og Jói eru fæddir sama dag, sama ár og af sömu foreldrum en eru ekki tvíburar, hvernig stendur á því?
2. Hver af þessum setningum er málfræðilega rétt miðað við kennslubækur í íslensku?
a. Ég hlakka til jólanna
b. Mig hlakkar til jólanna
c. Mér hlakkar til jólanna.
d. Mín hlakkar til jólanna.
3. Vatnajökull er stærsti jökullinn á Íslandi og reyndar í Evrópu. En hver er næststærsti jökull á Íslandi?
a. Eiríksjökull
b. Hofsjökull
c. Langjökull
d. Mýrdalsjökull
4. Þéttbýli – hvað heitir það? Sjá mynd.
5. Hvað heitir þessi jurt? Sjá mynd)
a. Geldingahnappur
b. Bláfjóla
c. Brönugras
d. Brúðarslör
e. Dúlludúskur
6. Spurt er um höfund þessa ljóðs:
Mér finnst það vera fólskugys
að fara niður til helvítis
og eyða aldri sínum
innan um brennu illan geim
ólíkan drottins sólarheim,
svo hrollir huga mínum.
Skötubarðvængjuð fjandafjöld
flaksast þar gegnum eilíft kvöld,
glórir í glóðir rauðar,
þar er ei nema eldur og ís,
allt í helvíti brennur og frýs,
Satan og sálir dauðar.
a. Jónas Hallgrímsson
b. Megas
c. Hannes Hafstein
d. Bubbi Mortens
e. Rúnar Kristjánsson
7. Á myndinni er hesturinn Kvistur frá Skagaströnd en hvar verður Landsmót hestamanna á næsta ári? (Sjá mynd)
8. Hvað heitir þessi þingkona? (Sjá mynd)
9. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið töluvert í fréttum undanfarið m.a. vegna tillagna um að stytta skólaárið. Hvað heitir hann ? (Sjá mynd)
10. Hvað heitir hljómsveitin?
11. Vísnagáta
Kúra þar í kríli smá
Kynstrin öll af líni
Ávexti má ávallt fá
Og einnig flösku af víni
Hvað heitir þessi hlutur sem ort er um ?
12. Hvað er upphaf og endir alls?
13. Þessi ungi drengur er í dag einn þekktasti íþróttamaður Íslendinga í handbolta. Hvað heitir hann ?
a. Logi Gunnarsson
b. Ólafur Guðmundsson
c. Guðjón Valur Sigurðsson
d. Aron Pálmarsson
14. Í fyrradag komu fram upplýsingar í fjölmiðlum um verðbólguna síðustu 12 mánuði. Hvað var hún mörg prósent ?
15. Hvaða leikari lék Ólaf Ragnar í kvikmyndinni Bjarnfreðarson ?
a. Pétur Jóhann Sigfússon
b. Jörundur Ragnarsson
c. Björn Thors
d. Ólafur Darri Ólafsson
16. Hvað hefur tekist að rækta margar eplategundir á Íslandi skv. frétt sjónvarpsins sl. miðvikudag?
a. 15
b. 40
c. 65
d. 100?
17. Árið 1056 varð Ísleifur Gissurarson fyrsti íslenski biskupinn og settist að í Skálholti. Norðlendingar vildu ekki sætta sig við það, þótti langt að fara til biskups og fyrsti biskupinn á Hólum var vígður árið 1106. Hvað hét hann ?
a. Jón Arason
b. Jón Vídalín
c. Jón Ögmundsson
d. Jón Hreggviðsson
18. Hvað heitir þessi hljómsveit?
19. Haraldur víðförli var ferðalangur mikill og gat sagt stórbrotnar sögur af ferðalögum sínum og þeim ævintýralegu stöðum sem hann hafði heimsótt. Haraldur þessi hafði sérlega gaman að því að leggja fyrir fólk hinar ýmsu gátur og þrautir og hljómaði ein uppáhalds gátan hans svona:
Einu sinni sem oftar var ég á ferðalagi þegar ég sá skyndilega að ég stóð um 100 metrum sunnan við gríðarstóran björn. Ég ákvað að ganga 100 metra í austur, sneri mér svo beint í norður og skaut. Björninn féll samstundis dauður niður og ég fór strax og gerði að þessum happafeng.
Ég spyr ykkur hins vegar: Hvernig var björninn sem ég skaut á litinn?
20. Frá hvaða íþróttafélagi er kvennaliðið sem vann Evrópumeistaratitil í
hópfimleikum um síðustu helgi ?
21. Á flestum skipum finna má
Fyllir sali ljóma
Oft í kollum kviknar á
Í kökum prýddum rjóma
Hvað heitir þessi hlutur sem ort er um ?
22. Hvað heitir þessi þingmaður?
23. Hver var leikstjóri kvikmyndarinnar Mýrin ?
a. Óskar Jónasson
b. Baltasar Kormákur
c. Ragnar Bragason
d. Guðný Halldórsdóttir
24. 12 verkamenn geta borið 12 poka af sementi frá sementsstæðunni að steypuhrærivélinn á 10 mínútum. Hve lengi væru 6 verkamenn að bera þessa 12 poka sömu leið?
25. Hvernig er hægt að aðskilja salt og pipar á einni til tveimur mínútum eftir að það er búið að blanda þeim saman ?
26. Þessi kona er fædd 4. október 1942. Faðir hennar var alþingismaður á sínum tíma. Konan er tvígift og á tvo syni. Hún lauk verslunarprófi árið 1960. Konan hefur starfað sem flugfreyja, á skrifstofu hjá Kassagerð Reykjavíkur, sem alþingismaður allt frá árinu 1978 og er núna ráðherra. Hver er þessi kona?
27. Nú er mikið rætt um trúboð í grunnskólum Reykjavíkur. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup lét prenta fyrstu biblíuna sem var á íslensku. Hvaða ár var Guðbrandsbiblían prentuð?
a. 1498
b. 1584
c. 1621
d. 1702
28. Hvaða jökull hefur þá sérstöðu á Íslandi að hann hefur ekki minnkað að flatarmáli á síðustu árum?
a. Drangajökull
b. Eiríksjökull
c. Snæfellsjökull
d. Mýrdalsjökull
29. Hvað heita hjónin, sem reka Kántrýbæ, fullu nafni ?
30. Hvað heitir þetta vatn?
Svör
1. Þeir eru annað hvort þríburar eða fjórburar eða ennþá fleiri fleirburar.
2. Ég hlakka til jólanna
3. Langjökull
4. Hofsós
5. Geldingahnappur
6. Jónas Hallgrímsson
7. Á Vindheimamelum í Skagafirði
8. Siv Friðleifsdóttir
9. Halldór Halldórsson
10. Buff
11. Karfa
12. a (og) s
13. Aron Pálmarssona
14. 3,3 %
15. Pétur Jóhann Sigfússon
16. 100
17. Jón Ögmundsson
18. Baggalútur
19. Hvítur. Þessa ályktun er hægt draga þegar efni textans er skoðað vel. Það er aðeins einn staður á jörðinni þar sem Haraldur hefur getað staðið sunnan við björn og svo gengið 100 metra í austur og ennþá staðið fyrir sunnan björninn, en sá staður er Norðurpóllinn. Ef maður rekst á björn á Norðurpólnum er næsta víst að það mun vera ísbjörn og feldur þeirra er hvítur á lit.
20. Fimleikafélaginu Gerplu
21. Pera
22. Guðbjartur Hannesson
23. Baltasar Kormákur
24. 30 mínútur. 10 mínútur með 6 poka, 10 mínútur til baka, 10 mínútur með seinni 6 pokana
25. Helltu blöndunni út í glas af vatni. Saltið leysist upp á augabragði en piparinn flýtur ofaná. Stingdu fingrinum varlega ofan í vatnið og taktu hann varlega upp aftur, þá loðir piparinn við fingurinn.
26. Jóhanna Sigurðardóttir
27. 1584
28. Drangajökull
29. Svenny Helena Hallbjörnsdóttir og Gunnar Sveinn Halldórsson
30. Víti
29.10.2010
Mikil menningarstarfsemi hefur ávallt einkennt Skagaströnd og miðað við það sem unnið er að í bænum verður svo áfram um nánustu framtíð. Í gær afhenti Menningarráð Norðurlands vestra 51 aðila í landshlutanum verkefnastyrki að fjáræð 17,5 milljónir króna.
Sjö aðilar á Skagaströnd fengu styrki og þeir eru:
Menningarfélagið Spákonuarfur hlaut 1,2 milljónir króna.
Félagið hefur á undanförnum árum unnið að því að varðveita minningu Þórdísar spákonu og verða miðstöð spádóma á landinu. Undanfarnar kántrýhátíðir hafa þær boðið upp á spádóma og hefur biðröðin náð langt út á götu.
Nú hefur félaginu áskotnast húsnæði undir framtíðarstarfsemi sína og verið er að breyta því að innanverðu. Jafnframt hefur verið gerður samningur við hönnuði Sögusafnsins í Perlunni, Ágústu og Ernst Backman um að hanna Spákonuhofið og sjá um uppsetningu leikmyndar og sýningar í Þórdísarstofu. Stefnt er að opnun Spádómshofsins í júní á næsta ári.
Kántrýbær hlaut 1,0 milljónir króna.
Kántrýbær þykir er einstakur. Þar er miðstöð kántrýmenningar á Íslandi og þar rekur kántrýkóngurinn kántrýútvarpið sitt. Nú verður í vetur sett upp kántrýsetur með uppsetningu sýningar um sögu og tónlist kántrýkóngsins, um sveitatónlist almennt, íslenska og ameríska.
Gerður hefur verið samningur við Björn Björnsson leikmyndahönnuð um hönnun sýningarinnar og umsjón með uppsetningu og verður Kántrýsetrið opnað í júní á næsta ári.
Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hlaut 500 þúsund krónur.
Aðeins er tæpt ár síðan að Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók til starfa á Skagaströnd en meginhlutverk þess eru rannsóknir og fræðsla á svið sagnfræði.
Einn af meginþáttum fræðasetursins er geymd munnlegrar sögu. Víða á söfnum, t.d. í Héraðsskjalasafninu á Hvammstanga, eru til segulbandsspólur með viðtölum og frásögnum heimamanna sem liggja þar óhreyfðar árum og áratugum saman en þar er geysimikill fróðleikur um fyrri tíma varðveittur.
Fræðasetrið fær styrk til að hefja það verkefni að koma þessum upptökum á varanlegt form, skrá upplýsingarnar sem þar eru og gera þær aðgengilegar almenningi.
Nes listamiðstöðin hlaut 400 þúsund krónur.
Hún tók til starfa í júní 2008 en þetta er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamenn hvaðanæva úr heiminum vinna að list sinni í einn mánuð í senn eða fleiri. Á þessum rúmum tveimur árum hafa á þriðja hundrað listamenn starfað í lengri eða skemmri tíma.
Frá upphafi hefur listamiðstöðin boðið upp á litla dvalar- og verkefnastyrki sem hafa reynst töluvert aðdráttarafl. Í staðinn fyrir styrkinn þarf listamaðurinn að skila einhverju af sér til samfélagsins, s.s. í formi listaverks, sýningar, tónleika, fyrirlestra, heimsókna í skólann o.s.frv.
Sveitarfélagið Skagaströnd hlaut 200 þúsund krónur.
Það fær styrk til að standa fyrir yfirlitssýningu á verkum listmálarans Sveinbjörns H. Blöndals í júní á næsta ári.
Sveinbjörn var ættaður frá Siglufirði en bjó og starfaði lengst af á Skagaströnd. Hann lést í apríl sl. Landslagsmyndir voru eftirlætisverk Sveinbjörns en einnig málaði hann myndir af fuglum, fólki, bátum o.fl. Þá eru til eftir hann fjöldi skopmynda.
Línudansaklúbbur Skagastrandar hlaut 200 þúsund króna styrk.
Hann er fimmtán ára um þessar mundir en félagið hefur staðið fyrir dansæfingum og sýningum öll þessi ár auk þess að taka öðru hvoru þátt bikar- og Íslandsmeistaramótum í línudansi.
Nú ætlar félagið að standa fyrir línudansahátíð í júní næsta sumar í höfuðstað kántrýmenningarinnar á Íslandi og fær hér til þess styrk.
Fjórir aðilar þar á meðal einn frá Skagaströnd fá sameiginlega 100 þúsund króna styrk.
Kór Blönduósskirkju, kór Hólaneskirkju, Samkórinn Björk og Tónlistarskóli A-Hún. ætla að standa fyrir tónleikum á aðventunni á Skagaströnd og Blönduósi.
Á dagskránni verða aðventu- og jólasálmum, jólapopplögum og klassískum ballöðum. Gera má ráð fyrir að allt að 70-80 manns taki þátt í flutningnum.
28.10.2010
Hin vinsæla spurningakeppni Drekktu betur byrjar nú sitt þriðja leik- og skemmtiár. Sem fyrr fer hún fram í í Kántrýbæ og byrjar klukkan hálf tíu á föstudagskvöldið.
Reglurnar eru afar einfaldar. Þetta er spurningakeppni en þó miklu frekar leikur og skemmtun.
Tveir eiga að vera í liði, helst ekki fleiri því þá hallar á önnur lið.
Þrjátíu spurningum er kastað fram, gert hlé eftir fimmtán, svo fólk eigi þess kost á að drekka betur ... vatn, kaffi, te, gos, bjór, léttvín eða annað sem hugurinn girnist. Þar er komið að nafni keppninnar, hún er ókeypis, þátttakendur drekka beinlínis upp í húsaleiguna ...
Vegleg verðlaun eru í boði hússins, sigurvegararnir fá bjórkassa.
Ein af spurningunum er svokölluð bjórspurning. Þeir sem hafa hana rétta fá að launum eitt bjórglas eða álíka á barnum. Hins vegar er ekki gefið upp fyrirfram hver bjórspurningin er.
Það er hefð að spurt er einnar spurningar sem tengist Kántrýbæ, veitingastaðnum, útvarpinu eða Hallbirni. Þessi spurning er ekkert endilega bjórspurningin.
Að þessu sinni verða þau Signý Ósk Richter og Ingibergur Guðmundsson hæstráðendur í fyrstu leik vetrarins.
Saman hafa þau samið spurningarnar, Signý verður spyrill en Ingibergur dómari, tímavörður og passar bjórinn ...
Þau segjast munu miða spurningarnar allar við Ísland, ekki neitt sérstakt, heldur verður tæpt svona almennt á mörgum atriðum. Mestu skiptir, að þeirra mati, að spurningarnar séu léttar og skemmtilegar.
Spurt verður til dæmis úr fréttum vikunnar, tónlist, kvikmyndum, landafræði, sögu, eitthvað um stjórnmál og svo framvegis.
26.10.2010
Konur á Skagaströnd þakka framkvæmdanefnd um Kvennafrídag 2010 fyrir frábæran baráttudag í gær. Í framkvæmdanefndinni voru Eva Gunnarsdóttir, Sigríður Gestsdóttir og Hallbjörg Jónsdóttir.
Kvennafrídagurinn er mikilvægur í hugum okkar kvenna og erum við því afar ánægðar með að hafa fengið tækifæri til að fagna honum saman og þétta raðirnar. Bestu þakkir fyrir framtakssemina nefndarkonur. Áfram stelpur!
Gera má ráð fyrr að um fimmtíu konur hafi gengið um Skagaströnd í gær. Gangan endaði í Bjarmanesi þar sem haldinn var baráttufundur. Þar var boðið upp á kaffi og kökur. Líney Árnadóttir, framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar á Skagaströnd, hélt hvatningaræðu um jafnréttismál. Auður Herdís Sigurðarsdóttir, félagsmálastjóri í Austur-Húnavatnssýslu, flutti erindi um heimilisofbeldi.
Í lok fundarins stóðu konur upp og sungu Áfram stelpur. Meðfylgjandi myndir tók Árný Sesselja Gísladóttir.
25.10.2010
Kvennafrídagurinn er haldinn hátíðlegur í dag og eru konur hvattar til að leggja niður störf klukkan 14.25. Efnt verður til fjöldagöngu og útifunda víða um land í dag í tilefni dagsins - einnig á Skagaströnd
Starfskonur Vinnumálastofnunar ætla að ganga út af vinnustað sínum kl. 14:25 á mánudaginn 25. október og efna til göngu frá Stjórnsýsluhúsi.
Þær bjóða allar konur á Skagaströnd velkomnar í gönguna og hvetja þær til að taka þátt í þessum degi með þeim. Þema dagsins er rauður og hvetja þær allar konur að mæta í einhverju rauðu!
Gengið verður út Strandgötuna og til baka að Bjarmanesi þar sem starfskonur Vinnumálastofnunar bjóða upp á kaffi og meðlæti. Auður Herdís Sigurðardóttir, félagsmálastjóri talar gegn ofbeldi.
Áfram stelpur!
Konur gegn kynferðisofbeldi!
25.10.2010
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, heldur út áhugaverðu bloggi (http://trj.blog.is) og fjallar þar á skiljanlegan hátt um veður af öllum áttum (af öllu tagi). Í dag birti hann pistil með ofangreindri fyrirsögn. Hann er endurbirtur hér, að vísu án leyfis, en vonandi misvirðir Trausti það ekki.
Eins og fram hefur komið hjá mér á þessum vettvangi áður er ég að dunda mér við að taka saman veðuratburðaskrá. Í bili nær hún aftur til 1873 en er og verður auðvitað ansi gloppótt. En hún er þó komin á það stig að hægt er að leita eitthvað í henni, t.d. eftir staðarnöfnum. Ég hef reynt að forðast skipsskaða og aðrar slysfarir sem ekki tengjast veðri. Nú hef ég mér til gamans flett upp á Skagaströnd i þessu sambandi. Hvers vegna Skagaströnd? Það er engin sérstök ástæða fyrir því önnur en sú að í því sem nú er fyrsta lína skrárinnar er einmitt tjón þar.
Um 1870 og fyrr var mikil verslun á Skagaströnd og þar áttu viðdvöl verslunarskip frá útlöndum, komu með varning og tóku við öðrum. En færslan er þessi:
10. september 1873: Möstur brotnuðu á báðum kaupskipunum á Skagaströnd og þau urðu að strandi, fiskhjallur fauk þar með öllu.
Ári síðar varð annað ámóta óhapp:
29. september 1874: Kaupskip eyðilagðist við Skagaströnd, mannbjörg varð, veðrið sagt verra en það sem olli sköðum á Skagaströnd árið áður. Spákonufellskirkja hnikaðist um breidd sína. Miklir skaðar urðu víðar í þessu norðaustanveðri.
13. desember 1877. Skip skemmdust á Skagaströnd. Hér er dagsetningin ekki alveg viss. Fleiri skaðaveður gerði nefnilega þessum mánuði með talsverðu tjóni.
Snemma í nóvember 1879 fórust skip frá Skagaströnd og víðar, ekki veit ég hvar.
2. eða 3. janúar 1887. Fimm skip fórust á Skagaströnd, 24 menn fórust.
18. eða 19. september 1893: Fiskibátur fauk yfir hús á Skagaströnd, lenti þar á manni sem slapp lítið meiddur.
27. apríl 1906: Fiskiskip strandaði við Skagaströnd, einn maður fórst. Þetta veður olli stórfelldu tjóni víða um land.
22. mars 1907: Maður varð úti 22. nærri Skagaströnd.
9. eða 12. janúar 1913: Fokskemmdir urðu á Skagaströnd og í grennd.
21. desember 1929: Varðskipið Þór strandaði við Skagaströnd, mannbjörg varð.
8. til 9. janúar 1935: Þak fauk af íbúðarhúsi á Skagaströnd.
26. nóvember 1935: Tveir menn meiddust við björgunarstörf í illviðri á Blönduósi og á Skagaströnd. Ekki er getið um hverju þeir voru að bjarga.
16. september 1936: Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa. Þetta veður olli gríðarlegu tjóni á landinu.
18. eða 19. desember 1945: Sex smábátar fuku á Skagaströnd. Íbúðarhús þar laskaðist svo mikið að það varð ekki íbúðarhæft, hafnarhúsið skemmdist og matarskúr fauk, fleiri hús löskuðust.
1. febrúar 1956: Krapahlaup drap 4 kindur á Efri-Mýrum á Skagaströnd.
2. febrúar 1956. Tjón varð talsvert á Skagaströnd og þar í grennd fauk þak af íbúðarhúsi á Syðra-Hóli og braut það fjósið, hlaða féll að nokkru á Brandaskarði, á Miðgili tók þak af íbúðarhús svo fólk þurfti að flýja bæinn. Vörubíll fauk af vegi í nágrenni Skagastrandar.
23. nóvember 1961: Vélbátur frá Skagaströnd fórst og með honum tveir menn.
13. janúar 1962: Skúr fauk á rafmagnslínur á Skagaströnd og braut staura.
12. til 15. janúar 1975: Rúður brotnuðu í nokkrum húsum á Skagaströnd í miklu hvassviðri.
31. janúar 1985: Bátur sökk í höfninni á Skagaströnd í ísingarveðri.
2. til 4. janúar 1991: Plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd. Þetta veður er þekktast fyrir gríðarlegar ísingarskemmdir á raflínum á Norðurlandi.
16. janúar 1995: Kyrrstæð vöruflutningabifreið fauk útaf nærri Skagaströnd. Þetta veður er kennt við snjóflóðin í Súðavík.
24. til 26. október 1995: Verulegar skemmdir urðu á Skagaströnd, þak fauk þar af nýbyggðu parhúsi, þak af gömlu íbúðarhúsi fauk og húsið skekktist, skúrar fuku og fleira lauslegt. Þetta veður er kennt við snjóflóðið á Flateyri.
5. nóvember 2006: Skip slitnuðu upp í hvassviðri á Skagaströnd.
Ég sé nú sitthvað sameiginlegt með þessum veðrum, en þarf að athuga málið nánar til að ég átti mig nákvæmlega á því. Mér sýnist þó að ákveðin tegund veðra af vindátt á bilinu 50 til 70 gráður komi mjög við sögu, auk fáeinna úr öðrum áttum. Lýkur hér pistli um skaðaveður á Skagaströnd. Þau eru sjálfsagt fleiri en getið er um hér.
Tvær athugasemdir hafa verið gerðar við bloggið og eru þær þessar:
1. Takk fyrir þessa fróðlegur upptalningu. N-Austan áttin er skæðust átta á Skagaströnd. Axel Jóhann Hallgrímsson.
2. Kærar þakkir fyrir þetta og allan annan fróðleik í þessum pistlum. Merkilegt hvað ýmis afbrigði af NA-átt eru miklu hvassari á Skagaströnd en hinumegin á Skaganum. Þorkell Guðbrands
22.10.2010
Þriðjudaginn 26.október 2010 halda þingmenn Norðvesturkjördæmis árlegan fund með fulltrúum sveitarstjórna í Félagsheimilinu á Blönduósi. Við ætlum að nota tækifærið og mæta þar sem flest milli kl. 12:30 og 13:00 í friðsamlega mótmælastöðu vegna þess harkalega niðurskurðar sem boðaður er á fjárlögum til heilbrigðisþjónustu í Austur Húnavatnssýslu. Við skorum á Húnvetninga að standa saman og leggja sitt að mörkum til að verja þessa grunnþjónustu. Þótt við, starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, skipuleggjum mótmælin skiptir miklu máli að allir sem láta sig varða öryggi skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar komi og taki þátt.
Við vitum að þingmenn kjördæmisins standa almennt með okkur en þeir þurfa líka að vita að við munum eftir hlutverki þeirra á Alþingi.
Ekki er verra að koma með mótmælaspjöld.
Starfshópur á HSB
22.10.2010
Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd minnir á gospeltónleikanna í Hólaneskirkju á morgun kl. 17. Stjórnandi kórsins er góðvinur Skagastrandar, Óskar Einarsson, sem hingað kemur ásamt hljómsveit og gestasöngvurum.
Tónleikarnir verða haldnir á þessum stöðum um helgina:
Hólaneskirkju Skagaströnd, laugardaginn 23. október kl: 17:00
Miðgarði Skagafirði sunnudaginn 24. október kl: 15:00
Hvammstangakirkju sunnudaginn 24. október kl: 20:00
Í hljómsveitinni eru Brynjólfur Snorrason og Jóhann Ásmundsson og kynnir er sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrrverandi sóknarprestur á Skagaströnd.
Miðaverðið er 1.500 kr fyrir fullorðna og 500kr fyrir börn á grunnskólaaldri (ath. ekki er posi á staðnum).
Styrktaraðilar tónleikanna eru Menningarráð Norðurlands vestra og Minningarsjóður um hjónin frá Vindhæli og Garði