Endurvinnslutunnan

Sorphreinsun VH losaði endurvinnslutunnurnar á Skagaströnd í fyrsta skipti í gær, miðvikudaginn 16. des. Þar sem um breytingu á meðferðs sorps var að ræða hefur verið nokkur eftirvænting að vita hvernig fólk hefði tekið þeim nýju siðum að flokka og greina ruslið. Endurvinnslutunnurnar eru búnar að vera í notkun í 4 vikur og á þeim tíma hafði safnast 1.200 kg í þær 200 tunnur sem fóru út. Þetta telst mjög góður árangur og greinilegt að fólk hefur tekið þeirri nýbreytni vel að taka þátt í flokkun og er meðvitað um mikilvægi þess að beina sorpinu í betri farveg en að setja það allt til urðunar. Áætla má að sorpmagnið sem fer til urðunar hafi minnkað um allt að 10% strax á fyrsta mánuði. Ef þessi árangur helst verður sorp sem fer til endurvinnslu frá íbúum á Skagaströnd tæp 15 tonn á ári og góðar líkur á að enn betir árangur náist í framtíðinni miðað við þær jákvæðu viðtökur sem Endurvinnslutunnan hefur fengið.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 15. desember 2009 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Fjárhagsáætlun 2010 a) Forsendur fjárhagsáætlunar 2010 b) Útsvarsálagning c) Álagning fasteignagjalda 2. Minnisblað um hitaveitu 3. Fjallskilamál 4. Viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um þjónustu við fatlaða 5. Ársreikningur Tónlistarskóla Austur Húnvetninga 2008 6. Bréf: a) Textílseturs Íslands, dags. í nóv. 2009 b) Umhverfisstofnunar, dags. 5. nóv. 2009 c) Farskóla Nl. vestra, dags. 6. nóv. 2009 d) Völundarverk – Reykjavík, dags. 10. nóv. 2009 e) Heilbrigðiseftirlits Nl. vestra, dags. 16. nóv. 2009 f)UMFÍ, dags. 10. nóv. 2009 g) Stígamóta, dags. í nóv. 2009 h) Heimilisiðnaðarsafnsins, dags. 17. nóv. 2009 7. Fundargerðir: a) Hafnarnefndarfundur, 16.11.2009 b) Stjórnar Norðurár bs. 6.09.2009 c) Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 20.10.2009 d) Stjórnar SSNV, 10.11.2009 e) Stjórnar Sambands ísl. sveitafélaga, 27.11.2009 8. Önnur mál Sveitarstjóri

Jólastund í Árnesi á hverjum degi fram að jólum.

Á hverjum degi kl. 17:00, til 23. des. býður Menningarfélagið Spákonuarfur upp á sögustund og jólastemmingu í Árnesi. Lagt er upp úr að hafa jólastemmingu eins og í gamla daga. Kvæði og sögur um jólasveinana og er einn jólasveinn tekinn fyrir á hverjum dagi. Börn á öllum aldri velkomin(líka pabbar,mömmur,afar og ömmur. Engin aðgangseyrir,bara að koma með jólaskapið og gleðina. Menningarf.Spákonuarfur

Höfðaskóli 70 ára

Höfðaskóli efnir til samkeppni um skólasöng (lag og texti) og merki skólans. Lagið þarf að vera í þægilegri söngtóntegund og textinn þarf að einhverjum hluta að passa einkennisorðum skólans. Merki skólans verður notað sem táknmynd hans á opinberum vettvangi. Einkennisorð skólans eru styrkur, vinsemd, virðing. Þátttakendur skila hugmyndum sínum til skólastjóra fyrir 1. febrúar 2010. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans www.hofdaskoli.skagastrond.is .

Ástrali spyr í Drekktu betur

Di Ball er listamaður í Nes listamiðstöð og hún verður spyrill, dómari og alvaldur Drekktu betur í Kántrýbæ í kvöld, föstudaginn 11. desember kl. 21:30. Margir Skagstrendingar þekkja Di. Hún er afskaplega hress og kát. Þótti stórmerkilegt að sjá snjóinn, norðurljósin og ekki síður Skagstrendinga. Hún ætlar að spyrja um hitt og þetta. Auðvitað verða ýmsar spurningar um Ástralíu, einnig ætlar hún að spyrja um Skagaströnd og svo almennt um lífið og tilveruna. Ólafía Lárusdóttir mun þýða spurningarnar svo ekkert fari framhjá þátttakendum. Að spurningakeppninni lokinn mun Di kannski taka lagið en hún er bráðsnjöll kántrýsöngkona og var í hljómsveitum hér áður fyrr í heimalandi sínu.

Ókeypis á tónleika Gunnars Þórðarsonar

Gunnar Þórðarson verður með tónleika í Kántrýbæ fimmtudagskvöldið 10.desember kl. 21.   Allir þekkja Gunnar, hann hefur í langan tíma verið einn af vinsælustu tónlistamönnum þjóðarinnar. Nú kemur hann til Skagastrandar og sest með gítarinn á sviðið í Kántrýbæ og spilar og syngur mörg af sínum bestu lögum. Gunnar verður einn á ferð og því er þetta einstakt tækifæri til að kynnast manninum, tónskáldinu og skemmtikraftinum. Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli. Aðgangur er ókeypis.  

Góður árangur Skagstrendinga á Silfurmóti ÍR

Skagstrendingurinn Róbert Björn Ingvarsson sigraði í 800 m hlaupi í hinu árlega Silfurmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem haldið var 21. nóvember í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Hann keppti í flokki stráka 12 ára. Mótið er ætlað börnum og unglingum á aldrinum 8-16 ára og mættu til leiks 571 keppandi víðsvegar af landinu. Róbert Björn varð einnig í 6. sæti í 60.m hlaupi. Stefán Velemir varð í 3. sæti í kúluvarpi sveina 15-16 ára. Valgerður G. Ingvarsdóttir keppti í þremur greinum, langstökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi í flokki hnáta 9 til 10 ára. Hún náði 11. sæti í báðum hlaupunum. Sannarlega glæsilegur árangur Skagstrendingana.

Hætt við jólahlaðborð í Kántrýbæ

Vegna veikinda hefur því miður reynst nauðsynlegt að taka þá ákvörðun að hætta við jólahlaðborðið í Kántrýbæ að þessu sinni. Jólahlaðborðið var á dagskránni 4. og 5. desember og hefur verið hætt við þau báða dagana. Kántrýbær verður lokaður helgina 4. til 6. desember.

Multi Musica í Kántríbæ föstudagskvöldið

MULTI MUSICA hópurinn frumflutti tónleikadagskrá sína í Miðgarði þann fyrsta vetrardag við frábærar undirtektir áheyrenda.  
 Nú verða tónleikarnir endurteknir í Kántríbæ þann föstudaginn 27.nóvember næstkomandi kl. 21.00.
Farið er með áhorfendur í einskonar heimsreisu en flutt verða 14 lög frá 12 löndum.
Löndin sem um ræðir eru Spánn, Ísrael, Rúmenía, Kúba, Mexíkó, Chile, Argentína, Brasilía, Indland,Grikkland, Suður-Afríka og Kenía.  Um afar fjölbreytta tónlist er að ræða, þjóðlög, tangó og salsa svo eitthvað sé nefnt og fá áheyrendur að upplifa hlýlega og seiðandi tónlist í byrjun vetrar í alþjóðlegri stemningu. Multi Musica eru: 
Ásdís Guðmundsdóttir, söngur og ásláttur
Sorin Lazar, gítar 
Jóhann Friðriksson, trommur
Rögnvaldur Valbergsson, hljómborð,gítar og harmonikka
Sigurður Björnsson, bassi
Sveinn Sigurbjörnsson, bongó og trompet
Íris Baldvinsdóttir, bakraddir og ásláttur
Jóhanna Marín Óskarsdóttir, bakraddir, strengir og ásláttur
Ólöf Ólafsdóttir, bakraddir og ásláttur
Þórunn Rögnvaldsdóttir, bakraddir og ásláttur Kynnir á tónleikunum verður Íris Baldvinsdóttir.  Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og er aðgangseyrir kr.1.500.  Ekki missa af þessum frábæru tónleikum! Tónleikarnir eru styrktir af minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Opið hús hjá Nes listamiðstöð

Listamenn hjá Nes listamiðstöð opna vinnustofur sínar í lok hvers mánaðar þar sem þeir sýna þau verk sem þeir hafa verið að vinna að frá komu sinni. Í kvöld þriðjudaginn 24. nóvember viljum við bjóða öllum sem áhuga hafa að koma í heimsókn, skoða listaverk í vinnslu og spjalla við listamennina um verkin og dvölina á Skagatrönd.  Þessa stundina dvelja sjö listamenn frá þremur heimsálfum í Listamiðstöðinni á Skagaströnd.