31.12.2012
Vegna ófærðar og slæms veðurútlits er áramótabrennu og blysför á Skagaströnd frestað fram á nýárið. Einngi er frestað flugeldasýningu sem vera átti í tengslum við brennuna.
Sala flugelda er opin til kl 16.00 í dag gamlársdag.
Óskum Skagstrendingum öllum gleðilegs nýárs og vonumst til að nýárið verði stilltara í veðurfari en síðustu mánuðir og dagar þess sem er að kveðja.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2012
Norðanóveður og stórhríð á morgun
Viðvörun fyrir laugardaginn 29. desember
28.12.2012
Dagsetning: 28. desember 2012 kl. 11:30
Veðurstofan varar við óveðri á Vestfjörðum síðdegis og í nótt og á morgun norðan- og vestanlands. Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu.
Spáin er eftirfarandi: NA 20-25 m/s og snjókoma á Vestfjörðum strax síðdegis í dag en N og NA 18-33 m/s (stormur og sums staðar fárviðri) um vestanvert landið í nótt og á morgun, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Mikið hægari vindur A- og SA-lands og á Suðurlandi. Talsverð eða mikil snjókoma á N-verðu landinu en rigning eða slydda S- og A-lands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu vestantil annað kvöld, en hvessir þá A-lands í um 15-20 m/s.
Snjóflóðahætta: Víða hefur snjóað í fjalllendi undanfarna daga og snjóflóðahætta getur skapast hratt þegar hvessir. Þeim tilmælum er beint til skíðafólks, vélsleðamanna og annara, sem eru á ferð, að halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð, þar sem snjóflóð geta fallið. Einnig er fólki bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum, þar sem hætta gæti verið á snjóflóðum.
Sjávarflóðahætta: Stórstreymt er þessa dagana samfara óvenju lágum loftþrýstingi, mikilli veðurhæð, ölduhæð og áhlaðanda. Sjómönnum er bent á að huga vel að bátum og skipum í höfnum áveðurs.
Fólki er bent á að ganga frá lausum munum, að það verður ekkert ferðaveður um N- og V-vert landið og að fylgjast náið með upplýsingum um veður og færð.
Vakthafandi veðurfræðingar: Björn Sævar Einarsson, Elín Björk Jónasdóttir og Árni Sigurðsson. Vakthafandi snjóflóðasérfræðingur: Sveinn Brynjólfsson.
28.12.2012
Flugeldasala björgunarsveitarinnar Strandar og UMF. Fram verður að Skagavegi 2 (við hliðina á þar sem Bílaskálinn var einu sinni).
Opnunartímar verða sem hér segir:
Föstudaginn 28.des. kl. 18-22
Laugardaginn 29.des. kl. 14-22
Sunnudaginn 30.des. kl. 14-22
Mánudaginn 31.des. kl. 10-16
Flugeldasalan er ein aðal fjáröflunarleið björgunarsveitarinnar Strandar og U.M.F. Fram.
Skagstrendingar og nærsveitamenn, verslum í heimabyggð það er allra hagur.
A.T.H að börn og unglingar 16 ára og yngri fá ekki að versla flugelda nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum og munið ábyrgðin er ykkar.
ÁRAMÓTABRENNA – BLYSFÖR - FLUGELDASÝNING
Ágætu Skagstrendingar nú fjölmennum við í blysför,
kveðjum árið 2012, kveikjum upp í brennu og horfum saman á glæsilega flugeldasýningu.
Blysförin mun leggja af stað kl 20:30 og kveikt verður í brennunni
kl 20:45. Þegar kominn er góður eldur í bálköstinn mun fara fram flugeldasýning sem styrkt hefur verið af fyrirtækjum bæjarins.
Með von um góða þátttöku
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2012
Vegna þess hve veðurhorfur eru slæmar fyrir laugardaginn 29. og sunnudaginn 30. desember er ekki gert ráð fyrir snjómokstri þessa daga nema neyðartilfelli komi upp.
Veðurspá gerir ráð fyrir miklu norðaustan og síðan norðan hvassviðri með snjókomu sem táknar stórhríð þessa daga. Útlit er fyrir að veðrið skelli á með fullum þunga aðfaranótt laugardags og því er fólki bent á að koma bifreiðum sínum á staði þar sem þeir lenda ekki inni í snjósköflum og/eða geta orðið fyrir skemmdum þegar snjóruðningur hefst.
Útlit er fyrir að veður lægi seinnipart sunnudags og aðfaranótt mánudagsins og gert ráð fyrir að snjómokstur hefjist snemma á mánudagsmorgni 31. desember.
Símanúmer verkstjóra er 861 4267 og ef kalla þarf út björgunarsveit skal hringt í 112
Sveitarstjóri
27.12.2012
Flugeldasala björgunarsveitarinnar Strandar og UMF. Fram verður að Skagavegi 2
Opnunartímar verða sem hér segir:
Föstudaginn 28.des. kl. 18-22
Laugardaginn 29.des. kl. 14-22
Sunnudaginn 30.des. kl. 14-22
Mánudaginn 31.des. kl. 10-16
Selt verður í Skagabyggð Föstudaginn 28.des
Flugeldasalan er ein aðal fjáröflunarleið björgunarsveitarinnar Strandar og U.M.F. Fram.
Skagstrendingar og nærsveitamenn, verslum í heimabyggð það er allra hagur.
A.T.H að börn og unglingar 16 ára og yngri fá ekki að versla flugelda nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum og munið ábyrgðin er ykkar.
19.12.2012
Jólatréskemmtun
Árleg jólatréskemmtun Lionsklúbbs Skagastrandar verður haldin í Fellsborg miðvikudaginn 26. desember (annan í jólum). Skemmtunin hefst kl 15:00. Fjölskyldur eru hvattar til að fjölmenna og eiga notalega stund með börnunum.
Enginn aðgangseyrir.
Blóðsykursmælingar
Lionsklúbbur Skagastrandar hefur ákveðið að bjóða upp á ókeypis blóðsykursmælingar í tengslum við skötuveislu í Fellsborg á Þorláksmessu. Mælingar á blóðsykri er tiltölulega einföld mæling sem getur gefið til kynna hvort fólk sé með sykursýki eða ekki. Verkefnið er unnið í samstarfi við Heilsugæsluna á Skagaströnd. Fólk er hvatt til þess að nýta sér þessa þjónustu.
Með jólakveðju Lionsklúbbur Skagastrandar
14.12.2012
Þriðjudagskvöldið 18. desember n.k. kl. 20:00 verður Sigga Beinteins með jólatónleika í Hólaneskirkju.
Þar flytur hún að stórum hluta dagskrána sem hún var með á tónleikum í Háskólabíó fyrir nokkrum dögum.
Með henni í för verða Friðrik Karlsson gítarleikari og Grétar Örvarsson hljómborðsleikari.
Þetta verður ljúf og notaleg skemmtun hjá glæsilegri söngkonu. Njótum aðventunar á góðu kvöldi.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli
14.12.2012
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. ákvæðum reglugerðar nr. 628/2012 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013.
Sandgerði
Seyðisfjörður
Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum, sbr. reglugerð nr. 1015/2012 í Stjórnartíðindum.
Árneshreppur
Sveitarfélagið Skagafjörður (Sauðárkrókur og Hofsós)
Langanesbyggð (Bakkafjörður og Þórshöfn)
Samkvæmt ákvörðun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, endurauglýsir Fiskistofa eftir umsóknum um byggðakvóta fyrir neðanskráð byggðarlög, skv. ofnanskráðum sérreglum.
Áður innsendar umsóknir gilda.
Snæfellsbær (Arnarstapi, Hellissandur, Rif og Ólafsvík)
Sveitarfélagið Skagaströnd
Sveitarfélagið Hornafjörður
Hér er síða með nánari leiðbeiningum og krækjur í umsóknareyðublaðið og samningseyðublaðið sem nota á.
Vakin er athygli á því að umsóknin telst ekki gild nema samningur um vinnslu fylgi.
Umsóknarfrestur er til og með 14. desember 2012.
06.12.2012
Fréttatilkynning
Hvatningarverðlaun SSNV - atvinnuþróunar árið 2012 til sjávarlíftæknisetursins BioPolá Skagaströnd
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) veitir árlega hvatningarverðlaun til fyrirtækis á starfssvæði samtakanna. Hvatningarverðlaun SSNV – atvinnuþróunar hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.
Að þessu sinni er það sjávarlíftæknisetrið BioPolá Skagaströnd sem hlýtur verðlaunin vegna þess dugnaðar og framsýni sem stjórnendur hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins.
Sjávarlíftæknisetrið BioPol
Fyrirtækið var stofnað árið 2007 af Sveitarfélaginu Skagaströnd. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að koma á fót þekkingarsetri þar sem rannsóknir á lífríki hafsins og hagnýting staðbundinna auðlinda úr Húnaflóa væru í forgrunni. Fyrirtækið hefur nú þegar skapað sér nokkra sérstöðu með rannsóknarverkefnum, m.a á útbreiðslu grásleppu hér við land, hagnýtingu svifþörunga til eldsneytisframleiðslu, kortlagningu og lífríkisrannsóknum á ræktunarstöðum fyrir krækling og nýtingu ígulkera til manneldis, svo eitthvað sé nefnt.
Stefna fyrirtækisins er að BioPol muni á næstu árum ná að byggja upp nauðsynlega færni til þessað fyrirtæki og sjóðir telji fýsilegt að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og þróun á sviði sjávarlíftækni. Þess er vænst að rannsóknarniðurstöður fyrirtækisins „leiti út á markað“ sem í framhaldinu leiði til stofnunar sprotafyrirtæki sem hefji framleiðslu á vörum til neytenda eða til áframhaldandi vinnslu. Þá er þess vænst að setrið stuðli að eflingu samkeppnishæfni Íslands varðandi nýtingu verðmæta úr sjó og sjávarfangi.
Árið 2010 tók fyrirtækið í notkun nýja og vel útbúna rannsóknastofu þar sem hægt er að vinna flestar þær rannsóknir sem í gangi eru. Hjá fyrirtækinu starfa nú níumanns, flestir háskólamenntaðir, í margvíslegum sjávarrannsóknum.
Verðlaunagripurinn.
Hefð er fyrir því að verðlaunagripurinn fyrir hvatningaverðlaunin sé unninn af listamanni á svæðinu. Að þessu sinni er það Erlendur F. Magnússon, listamaður á Blönduósi, sem hannar og smíðar gripinn. Erlendur er lærður húsasmiður en var einnig við nám í Handíða- og myndlistaskóla Íslands og hefur tekið þátt í nokkrum sýningum. Hann sinnti kennslu um árabil og var frumkvöðull að skákkennslu í grunnskólum.
Frá árinu 1984 hefur Erlendur unnið við fjölbreytt hönnunar-, útskurðar- og sérsmíðaverkefni á eigin verkstæði og við hönnun og byggingu húsa víða um land. Helstu verkefni hans eru: Safnahús, hótel og fl. við Geysi í Haukadal, Fjörukráin í Hafnarfirði, Eden í Hveragerði, Ásgarður við Hvolsvöll og Ingólfsskáli í Ölfusi. Þá hefur hann unnið við endurbætur gamalla húsa og fundið þeim nýtt hlutverk til framtíðar.
Hvatningarverðlaun SSNV hafa áður verið veitt eftirtöldum aðilum:
Árið 2011 – Hlíðarkaup á Sauðárkróki.
Árið 2010 – Ferðaþjónustan á Brekkulæk í Miðfirði
Árið 2009 – Léttitækni ehf á Blönduósi.
Árið 2008 – Sjávarleður hf á Sauðárkróki.
Árið 2007 - Siglufjarðar Seigur – bátasmiðja.
Árið 2006 - Forsvar ehf á Hvammstanga.
Árið 2004 - Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.
Árið 2003 - Háskólinn á Hólum.
Árið 2002 - Síldarminjasafnið á Siglufirði.
Árið 2001 - Hestamiðstöðin Gauksmýri.
Árið 2000 - Vesturfarasetrið á Hofsósi.
Árið 1999 - Kántrýbær á Skagaströnd.
Nánari upplýsingar veitir Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri SSNV í síma 4552510
04.12.2012
Verða sem hér segir:
Skagaströnd í Hólaneskirkju
þriðjudaginn 11. des. kl: 1700.
Blönduósi í Blönduóskirkju
fimmtudaginn 13. des. kl: 1700.
Húnavöllum föstudaginn 14. des. kl: 1500.
Allir velkomnir.
Skólastjóri