Vinabæjamót á Skagaströnd

Dagbók vinabæjamóts á Skagaströnd Dagana 24. – 27. júní 2004 var haldið norrænt vinabæjamót á Skagaströnd. Auk Höfðahrepps eru í vinabæjakeðjunni: Lohja í Finnlandi, Växjö í Svíþjóð, Ringerike í Noregi og Aabenraa í Danmörku. Til vinabæjamótsins hafði verið boðið þremur fulltrúum sveitarfélaga hvers vinabæjar, auk maka og einum fulltrúa norræna félags hvers bæjar, auk maka. Alls voru gestir 33. Fimmtudagur, 24. júní 2004. Fulltrúar vinabæjanna komu allir með sömu flugvél frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur og lentu þar um hádegisbil. Þar beið þeirra rúta sem flutti þá beint norður á Skagaströnd og voru þeir komnir á staðinn um 17.30. Flestallir gestir voru í gistingu í heimahúsum. Gestgjafar tóku á móti sínu fólki og buðu heim. Um kvöldið var formleg móttaka í Viðvíkurkaffi sem er nýtt kaffihús í svokölluðum Gamla skóla sem hefur verið gerður allur upp. Adolf H. Berndsen oddviti setti vinabæjamótið. Eftir það var tónlistatriði þar sem Nína Hallgrímsdóttir og Arnheiður Óskarsdóttir léku nokkur lög á þverflautur undir stjórn Skarphéðins Einarssonar. Þar var einnig veitt kaffi og meðlæti og fólk sat og spjallaði fram eftir kvöldi en flestir höfðu átt langan dag og fóru snemma í háttinn. Föstudagur, 25. júní 2004. Dagskrá hófst með því að allur hópurinn mætti í Hólaneskirkju þar sem Steindór Haraldsson meðhjálpari kynnti kirkjuna, kirkjustarfið og stiklaði á sögu kristninnar. Kór kirkjunnar söng létt lög og gospelsálma við feiknagóðar undirtektir gestanna. Stjórnandi kórsins var Anna Eftir heimsókn í kirkjuna var farin kynnisferð um Skagaströnd þar sem gestum var greint frá því helsta sem staðinn varðaði. Eftir það var ekið sem leið liggur fram í Blönduvirkjun og niður í stöðina þar sem gestir skoðuðu túrbínur og einnig skemmtilega sýningu Jóns Eiríkssonar um kýr. Eftir að hafa þegið góðan málsverð hjá Landsvirkjunarfólki var farið í heimsókn í Hitaveitu Blönduóss að Reykjum. Þar kynntu Jóhanna Jónasdóttir og Kjartan Ólafsson starfsemina. Í Flóðvangi í Vatnsdal hafði Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum kynningu á mikilvægi laxveiða fyrir héraðið og bauð síðan upp á skemmtilega sýningu á “landsmótshestum” á hlaðinu á Sveinsstöðum. Þótti gestum mikið til koma glæsileika íslenska hestsins. Þingeyrakirkja var síðan skoðuð undir leiðsögn Gígju Hólmgeirsdóttur. Í kirkjunni söng Hugrún Sif Hallgrímsdóttir vísur Vatnsenda-Rósu við undirleik Sólveigar Einarsdóttur. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi var að lokum skoðað undir leiðsögn Elínar Sigurðardóttur. Um kvöldið var vinabæjagestum boðið í grill í Kántrýbæ og óskað eftir kántrý-stíl í klæðaburði. Allir fengu hatt á höfuðið og nutu kvöldsins hið besta við dynjandi kántrýtónlist þar sem danshópurinn Hófarnir sýndu bikarmeistaratakta í línudansinum. Laugardagur, 26. júní 2004. Formleg dagskrá hófst með fundi fulltrúa vinabæjanna þar sem hver sagði frá sínum bæ, helstu málum, stefnumiðum, veikleikum og styrkleikum. Varð sú umræða bæði gagnleg og fræðandi. Þar kom m.a. fram að í Ringerike er nú unnið að verkefninu “Veien til Island” þar sem nemendur ákveðins skóla vinna að því með foreldrum sínum og kennurum að safna fyrir og undirbúa heimsókn til Skagastrandar á næsta ári. Að fundi loknum var gestum boðið að smakka hákarl og brennivín í aðstöðu Toppnets og síðan var farið í heimsókn til björgunarsveitarinnar Strandar þar sem starfsemi hennar var kynnt. Eftir að hafa skoðað saltfiskvinnslu Skagstrendings og smakkað á saltfiskréttum fór hópurinn á 12 breyttum jeppum upp í Skagaheiði. Var ferðin í umsjón Björgunarsveitarinnar Strandar. Í heiðinni var reynt við silung í Langavatni en einungis 2 fiskar létu glepjast af maðki og spún. Jeppaferðin var erlendum gestum talsvert ævintýri þar öslað var á 35-44 tommu breyttum jeppum með fjörum Langavatns. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í hefðbundnum stíl vinabæjamóta. Honum var að vísu frestað um nærri klukkustund til að sænsku fulltrúarnir gætu horft á fótboltaleik í Evrópukeppninni milli Svía og Hollendinga. Auk fulltrúa vinabæjanna var boðið til kvöldverðarins Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlandanna, gestgjöfum og þeim sem höfðu lagt vinabæjamótinu sérstaklega til svo og fyrrverandi hreppsnefndarmönnum á Skagaströnd. Ráðherrann ávarpaði samkomuna á norsku og fléttaði skemmtilega saman gamni og alvöru. Alda Ingibergsdóttir söng léttar aríur og heillaði áheyrendur með góðum flutningi og leikrænum töktum. Á kvöldverðinum færðu vinabæir gjafir og fluttu þakkarávörp fyrir mótið og móttökurnar. Sunnudagur, 27. júní 2004. Brottför frá Skagaströnd um kl 10.00 og stefnt suður Kjöl. Veðurútlit hafði verið afleitt fyrir þessa daga vinabæjamótsins en ótrúlega vel hafði ræst úr, bjart veður og fremur milt alla dagana og var sunnudagurinn þar engin undantekning. Ferðin suður hálendið var því með góðri fjallasýn og jöklarnir, skart íslenskra öræfa, nutu sín vel. Á Hveravöllum skrapp meirihluti hópsins í heitu laugina og í Kerlingafjöllum var stansað til að fá súpu og salat. Þegar kom suður af Kjalvegi lá beint við að heimsækja Gullfoss og Geysi en vinabæjamótinu lauk síðan formlega á Þingvöllum þar sem Adolf H. Berndsen, oddviti sleit því á palli lögréttu. Það var því þreyttur en alsæll hópur sem kvaddist í Reykjavík með áheitum um að hittast eftir tvö ár í Aabenraa í Danmörku.

Viðvíkurkaffi

Miðvkudaginn 23. júní sl. var opnað í Gamla skólanum á Skagaströnd kaffihúsið Viðvíkurkaffi. Kaffihúsið er hugsað sem menningarkaffihús og að þar verði til staðar upplýsingar bæði um menningu, sögu og umhverfi staðarins. Fyrir rekstri Viðvíkurkaffis standa þær Dagný Sigmarsdóttir, Kristín Kristmundsdóttir og Sigrún Lárusdóttir. Opnunartími kaffihússins er eftirfarandi: mánudaga - fimmtudaga kl. 14.00 - 22.30 föstudaga kl. 14.00 - 23.30 laugardaga kl. 11.00 - 23.30 sunnudaga kl. 11.00 - 22.30 Í kaffihúsinu er uppi sýning á gömlum ljósmyndum frá Skagaströnd úr safni Guðmundar Kr. Guðnasonar.

Gamli skólinn var vígður 19. júní 2004.

Gamli skólinn, Bjarmanes var vígður eftir gagngerar endurbætur laugardaginn 19. júní sl. Húsið er allt nýuppgert, utan sem innan. Fjöldi manns mætti við vígsluna í blíðskaparveðri og þáðu léttar veitinga um leið og húsið var skoðað. Við vígsluna var einnig opnuð sýning á ljósmyndum Guðmundar Kr. Guðnasonar. Lárus Ægir Guðmundsson, formaður byggingarnefndar hússins afhenti Adolf H. Bendsen, oddvita húsið með táknrænum hætti. Í máli hans kom fram að húsið var byggt 1912 sem verslunarhús og hafi þjónað því hlutverki til ársins 1921. Ári síðar hófst skólahald í húsinu sem stóð allt fram til ársins 1958. Samhliða var húsið notað til ýmissa þarfa. Þar voru íbúðir og vistarverur einstaklinga en jafnframt var húsið samkomuhús og fundarstaður. Eftir að skólahaldi lauk var húsið gert að íbúðarhúsi en varð seinna notað sem afgreiðsla sýslumanns og aðstaða lögreglu auk þess að þar voru varðveittir gripir Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar. Við vígslu hússins kom fram að það er eigandi hússins Höfðahreppur sem stóð fyrir endurbyggingu þess en fékk myndarlegan stuðning úr Húsafriðunarsjóði. Einnig kom fram að Jon Nordsteien arkitekt hafi annast allar teikningar og hönnun, Flosi Ólafsson, Línuhönnun hafi séð um verkfræðilega þætti en Helgi Gunnarsson, trésmíðameistari haft yfirumsjón með framkvæmdum. Endurbygging hússins þykir hafa tekist sérstaklega vel og húsið er nú allt hið glæsilegasta.