Arnar HU 1 kominn úr slipp

Frystitogarinn Arnar HU 1 hélt til veiða í gær eftir að hafa verið í slipp á Akureyri síðan um mánaðarmót. Arnar er því að hefja veiðar á nýju kvótaári en á síðasta kvótaári sem lauk 31. ágúst sl. veiddi skipið fyrir um 1.000 milljónir króna. Í slippnum var fyrst og fremst verið að sinna almennu viðhaldi og m.a. var skipið málað og fékk nýjan lit þar sem það var málað í einkennislitum skipa Fisk seafood. (ljósm: ÁGI)

Áhugaverð námskeið

Samvil ehf - símenntun býður upp á áhugaverð námskeið í fjarnámi. Sjá nánar www.simnet.is/samvil eða www.fjarkennsla.com. Skráning á námskeið er á vefnum www.simnet.is/samvil, í tölvupósti samvil@simnet.is eða í síma 5537768 eða 8987824. Námskeið sem boðið er upp á í október og nóvember eru: 9.okt.- 6.nóv. Vefsíðugerð í FrontPage. Námskeið í gerð heimasíðu skóla/bekkja. 4 vikur. Staðbundin lota haldin 14.okt., kl. 10.00-15.00. Verð 30.000,-kr. Umsjón: Kristín Helga Guðmundsdóttir, M.Ed. í kennslufræði og upplýsingatækni. 11.okt.-6.des. Heildstætt bókhalds- og tölvubókhaldsnámskeið, 8 vikur. Verð 48.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 16.okt.-13.nóv. Bókhald II (Framhaldsnámskeið í hefðbundnu bókhaldi), 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 6.nóv.-4.des. Skattskil fyrirtækja, 4 vikur. Verð 25.000,-kr. 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur 20.nóv.-18.des.Tölvubókhald. Breytt/endurhannað, 4 vikur. Verð 25.000,-kr. Umsjón: Viðskiptafræðingur ------------------------------------- F.h. SamVil ehf. Kristín Helga Guðmundsdóttir, http://www.simnet.is/samvil http://www.fjarkennsla.com http://www.konur.is samvil@simnet.is konur@konur.is gsm 898 7824 s. 553 7768 -------------------------------------

Fiskmarkaður Örva hefur selt 4000 tonn

Alls hefur Fiskmarkaðurinn Örvi selt 4000 tonn af fiski á þessu ári sem er 800 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Af þessum 4000 tonnum hefur 3500 tonnum verið landað á Skagaströnd. Aflinn kemur fyrst og fremst af hraðfiskibátum af stærðinni 6-15 tonn en 20 - 30 bátar hafa stundað veiðarnar að jafnaði í sumar á Skagaströnd og eru flestir þeirra á línu. Einnig hafa nokkrir dragnótabátar landað afla sínum hér. Sala fiskmarkaðarins hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti. Þá hefur hlutfall ýsu í sölunni vaxið mjög frá árinu 2002 og það sem af er þessu ári er sala á ýsu orðin meiri en á þorski. Aðalveiðitíminn hefur lengst jafnt og þétt þó toppurinn hafi alltaf verið í ágúst en síðastliðinn ágústmánuður var söluhæsti mánuðurinn frá upphafi.

Ævintýrið Skrapatungurétt

Fréttatilkynning Dags. 7. september 2006 Ævintýrið Skrapatungurétt Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu Dagana 16. og 17. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 16. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að ekki er aðstaða til að geyma hross yfir nótt á Strjúgsstöðum að þessu sinni. Aðstaða verður til að geyma bíla og taka niður hross við sandnámu við Strjúgsstaði (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrra verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Honum til halds og trausts að þessu sinni verður Ferðamannafjalldrottningin Jóna Fanney Friðriksdóttir bæjarstjóri á Blönduósi. Þau eru bæði heimavön á þessum slóðum og munu sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður grillað við reiðhöllina á Blönduósi. Þeir sem vilja vera með í grillpartýinu er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 15.september í síma 898 5695 eða 891 7863. Að sjálfsögðu verður spilað á gítar og sungið að hestamannasið. Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið í Félagsheimilinu Blönduósi. Þar leikur fyrir dansi stuðhljómsveitin Signýja. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum. Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um gistimöguleika eða aðra þjónustu og bókanir í stóðsmölun, hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála á Blönduósi: ferdamal@simnet.is , sími 452 4520 og í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is.