Mynd vikunnar.

Kvenfélagskonur Þessi mynd var tekin í Fellsborg, líklega einhverntíma á áttunda áratugnum, af prúðbúnum kvenfélagskonum í kvenfélaginu Einingin á Skagaströnd. Efri röð frá vinstri: Jóna Vilhjálmsdóttir, óþekkt, Guðbjörg Guðmundsdóttir, Birna Jónsdóttir Blöndal, Elísabet Árnadóttir í Réttarholti, María Konráðsdóttir úr Sænska húsinu, Anna Halldórsdóttir Aspar úr Stórholti, Guðmunda Sigurbrandsdóttir, Hjördís Sigurðardóttir og Friðbjörg Oddsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Soffía Lárusdóttir, Margrét Konráðsdóttir kaupkona í versluninni Borg, Guðrún Helgadóttir Karlsskála, Karla Helgadóttir Ásbyrgi, Guðrún Teitsdóttir ljósmóðir í Árnesi, Soffía Sigurðardóttir frá Njálsstöðum, Halldóra Pétursdóttir úr Höfðakoti og Helga Berdsen Karlsskála. Ef þú þekkir konuna sem er önnur frá vinstri í efri röðinni vinsamlegast sendu okkur þá athugasemd á myndasafn@skagastrond.is

Fréttir frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd

Ólafur Bernódusson var ráðinn í 50% starf hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd 1.september sl. Að ráðningu hans stóðu sameiginlega Rannsóknarsetur HÍ, Sveitarfélagið Skagaströnd og Farskóli Norðurlands vestra. Starfssviðið hans er að sjá um ljósmyndasafn Skagastrandar, flokka það og gera aðgengilegt á netinu, stuðla að aukinni starfsemi Farskólans á Skagaströnd auk þess að vera til taks sem náms- og starfsráðgjafi fyrir fólk á starfsvæði Farskólans. Einnig á Ólafur að vinna ýmis tilfallandi störf fyrir Rannsóknarsetrið. Ljósmyndasafnið Ljósmyndasafn Skagastrandar er allmikið að vöxtum eða kringum 12000 myndir. Um er að ræða ljósmyndir á pappír bæði litmyndir og svart/hvítar myndir, mikið safn af filmum af mörgum gerðum og slidesmyndir. Safnið vex hratt því velunnarar þess utan úr bæ færa því gjarnan myndir, annað hvort til eignar eða til afnota með leyfi til að setja þær á ljósmyndavef Skagastrandar. Allmargir hafa líka komið í heimsókn og/eða sent inn athugasemdir og leiðréttingar um myndir sem komnar eru á netið. Eru þeim öllum færðar þakkir fyrir þeirra framlag, sem er safninu ómetanlegt. Vinnan við safnið felst í því að skanna myndir inn í tölvu og setja þær síðan inn á vef ljósmyndasafnsins með réttum upplýsingum um hverja mynd. Einnig í flokkun myndanna og varðveislu þeirra til frambúðar. Þá er það líka í verkahring starfsmannsins að reyna að stækka safnið með útvegun eldri mynda frá Skagaströnd, hvar sem hægt er að ná í þær. Þess vegna hvetjum við fólk til að koma með myndirnar sínar á safnið ef það vill leyfa að eitthvað af þeim birtist á ljósmyndavef Skagastrandar. Farskólinn Farskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki þjónar símenntun á svæðinu frá Hrútafirði og austur í Fljót í Skagafirði. Farskólinn stendur fyrir margs konar styttri námskeiðum auk námskeiða sem taka allt að tveimur vetrum. Þess utan býður Farskólinn upp á ýmis konar þjónustu við fólk sem er í námi í öðrum skólum eða hefur hug á að hefja nám. Farskólinn vinnur í samstarfi við samtök atvinnulífsins enda er markhópur skólans fyrst og fremst fólk sem er komið út á vinnumarkaðinn. Allmörg ár eru síðan námskeið á vegum Farskólans hefur verið haldið á Skagaströnd þó einstaklingar frá Skagaströnd hafi á því tímabili stöku sinnum sótt námskeið skólans sem haldin hafa verið annars staðar á svæðinu. Nýlega lauk þó 40 stunda spænskunámskeiði á Skagaströnd þannig að nú eru átta Skagstrendingar búnir að taka fyrstu skref til að verða sjálfbjarga á þessu gríðarlega útbreidda tungumáli. Byrjendanámskeið í tölvum fyrir eldri borgara með 13 þátttakendum hefur staðið yfir nú í janúar. Bókasafn Rannsóknarsetursins Rausnarleg bókagjöf erfingja Ögmundar Helgasonar barst Rannsóknarsetrinu í lok nóvember, merkt og flokkað af starfsmönnum Landsbókasafnsins. Bókasafnið er allmikið að vöxtum og er nú búið að koma því fyrir í hillum á réttan hátt og er óhætt að segja að með þessari viðbót við fyrra safn Rannsóknarsetursins, frá erfingjum Halldórs Bjarnasonar, sé safnið orðið mjög gott sérstaklega hvað varðar sagnfræðilegt efni. Allir velkomnir Rannsóknarsetrið er opið alla virka daga fyrir hádegi, milli klukkan 8:00 til 12:00. Á þeim tíma eru allir meira en velkomnir til dæmis til að skoða ljósmyndir og aðstoða Ólaf við að þekkja fólk og annað sem á þeim er. Þá er líka velkomið að koma til að setjast niður og kíkja í bók eða tímarit af safninu, eða bara til að spjalla og skoða aðstöðuna sem Rannsóknarsetrið og Námsstofan bjóða upp á.

ÁNÆGJUVOGIN -STYRKUR ÍÞRÓTTA

niðurstöður rannsókna og hugleiðingar um skipulagt íþróttastarf fyrir börn og ungmenni Ánægjuvogin er könnun sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í sameiningu á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda, stöðu áfengis og tóbaksnotkunar og fleira meðal sambandsaðila í 8.-10.bekk. Miðvikudaginn 30.janúar munu UMFÍ og ÍSÍ standa í sameiningu fyrir fundi á Blönduósi í sal Stéttarfélagsins Samstöðu Þverbraut 1 og hefst fundurinn klukkan 20:00. Þar mun Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, m.a. ræða um hvort að íþróttahreyfingin sé að standast áskoranir nútímasamfélags eða eingöngu að þjálfa til árangurs. Viðar mun styðjast við niðurstöður rannsóknarinnar Ánægjuvogin sem Rannsókn og greining gerði fyrir UMFÍ og ÍSÍ. Þátttaka er ókeypis og öllum heimil.

Skemmtilegt skáldakvöld

Það voru góðir gestir sem létu ljós sitt skína á Skáldakvöldi Gleðibankans, sl. miðvikudagskvöld, í Rannsóknasetri HÍ á Skagaströnd. Rithöfundarnir, Gerður Kristný og Aðalsteinn Ásberg, lásu þar upp úr verkum sínum og sögðu frá tilurð þeirra. Gerður Kristný las nokkur ljóð upp úr nýútkominni ljóðabók sinni, Strandir, sem kom út á síðasta ári en með nafni bókarinnar vísar hún til átthaga ömmu sinnar er þar átti heima. Þá las hún einnig upp úr ljóðabókinni Blóðhófni en fyrir hana fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin. Aðalsteinn Ásberg flutti nokkrar þýðingar sínar á ljóðum skálda frá Hjaltlandseyjum en þar dvaldi hann um tíma fyrir nokkrum árum. Einnig las hann m.a. upp úr ljóðabókinni Sjálfsmyndir sem hann sendi frá sér á síðastliðnu hausti. Ennfremur söng hann eigin lög og annarra við eigin texta. Einnig ræddu rithöfundarnir við áheyrendur, bæði í kaffihléi og eftir að dagskránni lauk. Að lokinni dagskrá klöppuðu þakklátir áheyrendur flytjendum lof í lófa og héldu heim á leið með bros á vör og aukna innistæðu í Gleðibankanum. Skáldakvöldið var styrkt af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Ruslatunnur enn að fjúka!!

Enn eitt hvassviðrið er nú að ganga yfir Norðurland og nú um hádegi mánudaginn 28. janúar var vindur um 24-25 m/sek. og hviður um 34-35 m/sek. Spáð er hvössum vindi næstu tvo daga og virðist sem ekki muni draga verulega úr fyrr en á fimmtudag. Nokkuð ber á því enn að sorptunnur fjúki í hvassviðri. Þrátt fyrir að hver stormurinn hafi rekið annan undanfarna tvo mánuði eru tunnurnar enn illa frágengnar á nokkrum stöðum og hafa verið að fjúka. Húseigendur er eindregið hvattir til að gæta að sorpílátum og ganga þannig frá þeim að hvorki þau fjúki eða það sem í þeim er fari af stað. Sama gildir auðvitað um aðra lausa hluti utan dyra. Skaðinn af sem því hlýst að lausamunir fjúki eru ekki eingöngu hinn fokni hlutur heldur allt sem hann kann að skemma á leið sinni á „vængjum vindsins“ að ekki sé minnst á þá hættu sem fólk kann að vera í af sorpílátum og öðru sem er á slíku ferðalagi. Sveitarstjóri

Starf hjá Greiðslustofu á Skagaströnd

Vinnumálastofnun leitar eftir kraftmiklum og jákvæðum starfskrafti í liðsheild sína hjá Greiðslustofu á Skagaströnd. Um er að ræða tímabundið starf fulltrúa í símaveri. Starfs- og ábyrgðarsvið Símsvörun, almenn skrifstofustörf Upplýsingagjöf Önnur tilfallandi verkefni Menntunar- og hæfniskröfur fulltrúa Stúdentspróf er æskilegt Góð reynsla af skrifstofustörfum Góð tölvukunnátta Góð íslensku- og enskukunnátta Þekking á vinnumarkaði, stjórnsýslulögum og atvinnuleysistryggingarkerfinu er kostur Samskiptahæfni og rík þjónustulund ásamt skipulagshæfileikum, sjálfstæði og metnaði til að skila góðu starfi Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2013. Öllum umsóknum verður svarað. Greiðslustofa á Skagastönd er staðsett á Túnbraut 1-3 og er hlutverk hennar að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Þar starfa nú á þriðja tug starfsmanna. Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Vinnumálastofnunar á heimasíðu hennar http://www.vinnumalastofnun.is/. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Líneyjar Árnadóttur, forstöðumanns Greiðslustofu á netfangið liney.arnadottir@vmst.is, en hún veitir einnig frekari upplýsingar í síma 582-4900.

Námsstyrkir

Sveitarfélagið Skagastönd veitir styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2012-2013 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 25. febrúar 2013. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar.

Ljósmyndasafn Skagastrandar á um 11.000 myndir. Um það bil 2500 þeirra eru komnar á netið þar sem hægt er að skoða þær og senda inn athugasemdir um viðkomandi mynd ef einhverjar eru. Til gamans mun verða sett ein mynd á viku hér á heimasíðu sveitarfélagsins og er fólk beðið um að vera safninu innan handar með þær upplýsingar sem óskað er eftir um þær myndir. Netfang ljósmyndasfnsins er: myndasafn@skagastrond.is en einnig má senda upplýsingar á netfangið: olibenna@hi.is eða hafa bara beint samband við Óla Benna í síma 451 2210 sem sér um ljósmyndasafnið nú um stundir. Með von um gott samstarf, Ólafur Bernódusson Um mynd vikunnar: Á myndinni er Ole Aamundsen athafnamaður á Skagaströnd ásamt konu sinni og fósturdóttur. Ole, sem var norskur að uppruna, var lengi umboðsmaður á Skagaströnd fyrir Shell olíufélagið og rak líka lýsisbræðslu og útgerð um tíma. Ef þú veist hvað konan og stúlkan á myndinni heitir vinsamlegast sendu þá ljósmyndasafninu þær upplýsingar á netfangið myndasafn@skagastrond.is

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 23. janúar 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Samþykktir sveitarstjórnar (fyrri umræða) 2. Íbúaþing 3. Dreifnám 4. Menningarverkefni 5. Gjaldskrár 6. Undirbúningur hitaveituvæðingar 7. Bréf: a. Mílu hf. dags. 9. janúar 2013 b. Lögfræðings Sambands ísl. sveitarfélaga, dags.20. des. 2012 c. Framkvæmdastjóra Bs. um menningu og atvinnum., dags. 20. des. 2012 d. Skógræktarfélags Íslands, dags. 30. nóv. 2012 e. Landsbyggðin lifi, dags. 2. nóv. 2012 f. Snorraverkefnisins, dags. 8. nóv. 2012 g. Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, dags. 26. okt. 2012 8. Fundargerðir: a. Hafnarnefndar, 10.01.2013 b. Fræðslunefndar, 17.12.2012 c. Byggðasamlags um menningu og atvinnumál, 19.12.2013 d. Menningarráðs Norðurlands vestra, 6.12.2012 e. Menningarráðs Norðurlands vestra, 18.12.2012 f. Stórnar Norðurár bs. 29.11.2012 g. Almannavarnanefndar Húnavatnssýslna, 28.11.2012 h. Skólanefndar FNV, 12.12.2012 i. Stjórnar Byggðasamlags um málefni fatlaðra, 4.12.2012 j. Stjórnar Byggðasamlags um málefni fatlaðra, 27.12.2012 k. Stjórnar SSNV, 19.12.2012 l. Stjórnar SSNV, 4.12.2012 m. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, 11.12.2012 n. Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 23.11.2012 9. Önnur mál Sveitarstjóri

S k á l d a k v ö l d á miðvikudag kl 20

S k á l d a k v ö l d verður í bókasafni Rannsóknaseturs HÍ (Gamla kaupfélaginu) á Skagaströnd miðvikudagskvöldið 23. janúar, kl. 20.00. Ljóðskáldin Gerður Kristný og Aðalsteinn Ásberg koma fram á skáldakvöldi, lesa upp og segja frá verkum sínum. Aðgangur ókeypis. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er fæddur 1955 og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, frumsaminna og þýddra, auka barnabóka og annars bókmenntaefnis. Hann er ennfremur þekktur fyrir söngljóð sín og vísnatónlist sem er að finna á fjölmörgum geisladiskum og hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Á liðnu hausti sendi hann frá sér ljóðabókina Sjálfsmyndir, en auk hennar kom frá hans hendi Hjaltlandsljóð, safn þýðinga á nútímaskáldskap frá Hjaltlandseyjum. Gerður Kristný er fædd árið 1970 og hefur gefið út um það bil 20 bækur fyrir bæði börn og fullorðna. Ljóðabókin Blóðhófnir færði henni Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 og í fyrra kom út eftir hana ljóðabókin Strandir. Hún hefur m.a. hlotið Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, Ljóðstaf Jóns úr Vör og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Skáldakvöldið er styrkt af Minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli