Líkami og sál – nýtt námskeið að hefjast..........

Í næstu viku hefst nýtt þriggja mánaða námskeið á vegum Líkama og Sálar. Kynningarfundur vegna námskeiðsins var haldinn í Kántrýbæ miðvikudagskvöldið 27. ágúst og að venju fjölmenntu konur á Skagaströnd á fundinn. Nú þegar eru á milli 30 – 40 konur búnar að skrá sig. Þetta er fjórða námskeiðið sem Líkami og Sál stendur fyrir. Eins og áður verður lögð áhersla á efla líkamlega og andlega líðan kvenna. Eða eins og segir í kynningarbréfi námskeiðsins “við ætlum að hittast, hreyfa okkur, hlæja saman og keppast við að halda okkur í góðu formi, líkamlega og andlega” Meðal þess sem boðið er upp á að þessu sinni er: leikfimi þrisvar í viku, námskeið í magadansi, jólagleði og margt fleira skemmtilegt. Sjúkraþjálfari mælir styrk og metur líkamlegt ástand allra þátttakenda og gefur góð ráð í byrjun námskeiðs, um miðbik þess og við lok. Þeir sem ekki komu á fundinn en langar að vera með þá er enn hægt að skrá sig. Bara að taka upp tólið og hafa samband við Bryndísi í síma: 8997919, Fríðu í síma: 8916070 eða Sólrúnu í síma:8629207 fyrir mánudaginn 1. september næstkomandi.

Brúðuleikhús í blíðunni

Brúðubíllinn var á ferðinni á Skagaströnd í gær og kom sér fyrir á Hnappstaðatúni eftir hádegið í blíðskaparveðri. Margir sóttu sýninguna sem var í boði Höfðahrepps. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skín áhugi og einbeiting úr hverju andliti og vissara að vera við öllu búin þegar Blárefurinn ógnvænlegi fer á kreik.

Kántrýtónleikar og gospelmessa

Kántrýtónleikarnir á laugardagskvöldið tókust einstaklega vel. Þeir hófust með því að hljómsveitin The Hefners sté á svið og lék létta diskósmelli. Hljómsveitarmeðlimir voru uppábúnir í stíl fyrri tíma, með hárkollur og lituð andlit. Þeir voru hressir og skemmtilegir og tónlist þeirra lífleg. Næstir á svið voru KK og Magnús Eiríks sem léku m.a. lög af metsöludiski sínum 22 ferðalög. Áhorfendur sem voru á bilinu 1000-1500 kunnu vel að meta skemmtilegan flutning þeirra félaga og tóku undir sönginn, fullum hálsi. Hljómsveitin BSG sem skipuð er þeim Björgvin Halldórssyni, Sigríði Beinteinsdóttur, Grétari Örvarssyni og Kristjáni Grétarssyni tók næstu syrpu þar voru á ferð atvinnumenn sem kunnu sitt fag og enn magnaðist frábær stemming við kraftmikinn tónlistarflutning þeirra. Næstur á pall var kántrýkóngurinn sjálfur Hallbjörn Hjartarson. Hann brást ekki aðdáendum sínum fremur enn fyrri daginn og renndi sér í gegnum sína þekktu kántrýslagara við undirleik BSG manna. Hljómsveitin Brimkló tók svo lokahnykk á tónleikana og óhætt að segja að það hafi verið hnykkur sem um munaði. Tónlist þeirra félaga var hreint út sagt frábær. Hafi einhver komið með hálfum hug yfir því að þarna yrðu einungis fluttar útjaskaðar dægurflugur af hálfryðguðum poppurum, þá fékk sá hinn sami heldur betur aðra afgreiðslu. Gömlu góðu dægurflugurnar voru keyrða út af rafmögnuðum krafti og greinilegt að þeir sem að því stóðu voru hvergi ryðgaðir í fræðunum. Hljómsveitin sem núna er skipuð þeim Björgvin Halldórssyni, Arnari Sigurbjörnssyni, Haraldi Þorsteinssyni, Guðmundi Benediktssyni, Magnúsi Einarssyni, Þóri Baldurssyni og Ragnari Sigurjónssyni var gífurlega þétt og skemmtileg. Áhorfendur skemmtu sér hið besta og bæði sungu og tóku línudansaspor á túninu fyrir framan sviðið. Þótt margir ágætir listamenn hafi komið fram á kántrýhátiðum á Skagaströnd undanfarin ár er ekki á neinn hallað þótt fullyrt sé að þessir tónleikar hafi í heild verið besta dagskráratriði sem setti hafi verið á svið á þeim hátíðunum. Á sunnudeginum var hin hefðbundna gospelmessa. Séra Magnús Magnússon messaði og kór Hólaneskirkju söng gospellög undir stjórn og undirleik Óskars Einarssonar. Einsögnvarar í messunni voru: Björgvin Halldórsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Fannar Viggósson og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir. Messan var að vanda létt og skemmtileg og tónlistarflutnigur allur eins og best verður á kosið.

Kántrý

Uppsetning tækja og búnaðar vegna Kántrýtónleika er á lokastigi. Leiktæki frá Hopp og skopp verða sett upp á svæðinu og nokkur söluborð. Helsta nýmæli í búnaði fyrir helgina er myndaspjald sem Kjartan Keen hefur málað. Þar er um að ræða stóra málaða mynd af kúreka á hesti. Myndin hefur þann ágæta eiginleika að hægt er að stinga andlitinu út í gegnum gat á myndinni og ljá kúrekanum sitt eigið andlit.