01.03.2013
Stórkostleg skemmtun með Siggu Klingenberg sem hefur slegið í gegn um allt land.
Sigga Kling verður í Félagsheimilinu á Blönduósi. Skemmtunin hefst klukkan 19:00.
Boðið verður upp á matarmikla Gúllassúpu og vínkynningu frá Ölgerðinni.
Þetta er skemmtunar og fræðslukvöld sem hefur slegið í gegn um allt land!
Ekki missa af Siggu Klingenberg í þetta eina sinn á Blönduósi. Bæði fyrir konur og karla!
Verð aðeins 2.900 kr.
Viltu hlægja, læra og láta þér líða vel? þá skaltu mæta á þetta kvöld.
Hristu af þér slenið og skundaðu á skemmtun og fræðslukvöld í Félagsheimilinu á Blönduósi þann 6. Mars!
28.02.2013
Hvaladráp 1918
Veturinn 1918 var einn hinn kaldasti sem kom á síðustu öld. Hafís þakti Húnaflóa þannig að ekki var hægt að sækja sér björg úr sjónum.
Fólk frá Skagaströnd gat gengið á ísnum a.m.k. inn að Laxá í Refasveit án þess að óttast mikið að detta í vök á milli jaka. Í þessu ástandi var það því mikið fagnaðarefni þegar uppgötvaðist að fimm hvalir voru fastir í vök fram af Ytri-Ey.
Þeir voru fastir þar því þeir gátu hvergi annarsstaðar komið upp til að anda. Hvalirnir voru allir drepnir í vökinni og dregnir upp á ísinn þar sem gert var að þeim og fólk gerði sér mat úr þeim. Fólk kom víða að framan úr sveitum til að fá kjötbita og fleira sem hægt var að nýta úr hvölunum. Beinunum og öðru sem ekki var notað var síðan velt ofan í vökina aftur.
Á þessari einstöku mynd er fjöldi manns að vinna við að drepa og gera að einum hvalnum úr vökinni. Ein regla var sett á Skagaströnd fyrir þá sem gengu inn að vökinni en hún var sú að menn máttu ekki vera einir á ferð því þrátt fyrir allt gat alltaf komið fyrir að menn færu niður úr ísnum.
Það var einmitt það sem kom fyrir mann sem var samferða þeim Steingrími Jónssyni frá Höfðakoti og Ernst Berdsen frá Karlsskála. Nafn mannsins er ekki þekkt en hann datt sem sagt í sjóinn gegnum hema yfir smá vök þegar þeir þremenningarnir voru komnir u.þ.b. hálfa leið frá Skagaströnd inn að Eyjarey.
Ernst og Steingrímur drógu manninn upp og fylgdu honum til baka. Stóð það á endum að hann komst heim því þá voru fötin hans orðin svo stokkfreðin að hann var hættur að geta hreyft sig. Þegar heim kom voru fötin dregin af manninum og hann háttaður í rúmið og heitt vatn í flöskum sett undir sængina hjá honum. Ekki varð manninum meint af slysinu og var kominn á hvalskurðinn daginn eftir (skráð eftir munnlegri frásögn Steingíms Jónssonar) .
27.02.2013
Þann 6. mars n.k. verður boðið til kynningar- og íbúafundar vegna fyrirhugaðs framhaldsnáms (dreifnáms) í heimahéraði.
Almennur borgarafundur um dreifnámið verður haldinn kl. 20:00 í Fellsborg Skagaströnd 6. mars og eru allir íbúar hjartanlega velkomnir en foreldrar elstu nemenda grunnskólans eru sérstaklega hvattir til að mæta til að kynna sér þessa leið við byrjun framhaldsnáms.
Á fundunum mun Þorkell Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fara ítarlega yfir starfsemi deildarinnar. Rakel Runólfsdóttir umsjónarmaður dreifnáms FNV á Hvammstanga og nemendur þaðan kynna hvernig til hefur tekist með uppbyggingu dreifnámsins á Hvammstanga. Fulltrúar sveitarfélaga í A-Hún. munu skýra frá undirbúningi heima í héraði. Auk kynninganna verður tekið við fyrirspurnum frá fundargestum.
Með von um góða mætingu!
Undirbúningsnefnd
27.02.2013
Ég mun opna ljósmyndasýninguna "Veðurmyndir –veðurlýsingar" í anddyri Fellsborgar fimmtudaginn 28. febrúar kl: 15 – 17. Sýningin er hluti af verkefni sem ég hef unnið að í Listamiðstöðinni Nesi nú í febrúar. Verkefnið var að taka myndir af veðri og fylgja þeim stuttar lýsingar og stök orð úr lýsingum nokkurra heimamanna á veðrinu. á myndunum. Sýningin mun standa til 17. mars.
Allir velkomnir.
Brynja Jóhannsdóttir
27.02.2013
Byggingarfulltrúi lagði fram í skipulags og byggingarnefnd 25. febrúar sl. samantekt um hönnunarkröfur fyrir þau hús þar sem sett verða upp ný hitakerfi vegna hitaveituvæðingar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Þar sem annar hitunarbúnaður en vatnshitakerfi hefur verið fyrir í eign þarf að leggja nýtt hitakerfi til að taka inn hitaveitu og fá byggingarleyfi fyrir því. Með hitakerfi er átt við nýja vatnsofna og lagnir að þeim, gólfhitakerfi eða sambland af ofna- og gólfhitakerfi.
Í hönnunarkröfunum kemur m.a. fram að reikna skuli varmatap húsa út frá núverandi einangrun þeirra skv. ÍST 30. en taka megi tillit til þess ef fyrirhugað er að endurbæta einangrun einhverra húshluta. Við hönnun skuli gera ofnatöflu þar sem skilgreind er mesta stærð ofns/ofna í hverju upphituðu rými, hver afköst þeirra eiga að vera, staðsetning tengistúta og gerð ofnkrana. Tilgreina skuli mismun á meðalhita ofna og herbergishita í húsinu sem er 25°C fyrir Skagaströnd. Nýtt hitakerfi skuli teikna inn á grunnmynd af hæð/hæðum húss svo og lagnaleiðir í aðalatriðum. Einnig skuli skilgreina röragerð og þvermál röra. Hönnun hitakerfis megi hins vegar skila á skönnuðum grunnmyndum ef fyrir liggja teikningar af húsinu. Ef fyrirhugað er að setja gólfhitakerfi skuli teikna upp hverja slaufu á grunnmynd húss og skilgreina röraþvermál, lengd og millibil milli röra. Einnig skuli tengigrind teiknuð fyrir gólfhitalagnirnar og stýrikerfi þess. Hönnunarkröfurnar má finna í heild sinni hér.
27.02.2013
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti á fundi sínum 26. febrúar sl. að styrkja eigendur íbúðarhúsa á Skagaströnd sem taka inn hitaveitu og þurfa að gera breytingar á húseignum sínum vegna þess. Í stuðningnum felst að einstaklingar sem eru eigendur íbúðarhúsa og þurfa að endurnýja ofna í húsum sínum geta fengið allt að 75% af kostnaði við ofnakaup í hús sitt sem styrk hjá sveitarfélaginu. Fjárhæð styrksins nær til ofnakaupa og/eða efnis í pípukerfi í gólfhitabúnað eingöngu en ekki til stýribúnaðar, ofnloka eða lagnakerfis að ofnum.
Sömuleiðis geta eigendur íbúðarhúsa sem þurfa að skila inn nýjum teikningum af lagnakerfi eigna sinna vegna nýs hitakerfis geta fengið allt að 25 þús. kr. styrk frá sveitarfélaginu vegna hönnunarkostnaðar.
Hámark styrkgreiðslna til eigenda hverrar íbúðar vegna þessara tveggja kostnaðarþátta er 250 þús. kr. Samþykktina í heild má finna hér.
25.02.2013
Hið víðfræga Troskvöld Lionsklúbbs Skagastrandar verður haldið í Fellsborg n.k.laugardag 2. mars. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval gómsætra og framandi sjávarrétta.
Ræðumaður kvöldsins verður Sigurður Sigfússon bóndi frá Vík í Skagafirði.
Veislustjóri og skemmtikraftur verður Gunnar Rögnvaldsson frá Hrauni á Skaga.
Húsið opnar kl 20:00 en borðhald hefst um kl 20:30.
Miðaverð kr. 4.000 kr.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Tekið er á móti miðpöntunum hjá Hjalta Reynissyni í síma 859-9645
Undirbúningsnefndin.
25.02.2013
Aðalfundur Rauða krossins á Skagaströnd verður haldinn þriðjudaginn 5. mars 2013, kl. 20:30 í húsnæði deildarinnar að Vallarbraut 4.
Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
Stjórnin
24.02.2013
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 26. febrúar 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Undirbúningur hitaveituvæðingar
a. Minnisblað um samstarfsfund með RARIK
b. Samþykkt um stuðning
c. Samantekt um hönnunarkröfur
d. Samningur við Mílu
e. Framkvæmdir í eignum sveitarfélagsins
2. Framkvæmdir í Fellsborg
3. Gjaldskrár
4. Ráðningarbréf endurskoðanda
5. Dagskrá Skotlandsferðar á vegum SSNV
6. Íbúaþing
7. Bréf:
a. Växjö kommun, dags. 11. febrúar 2013
b. Velferðarráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2013
c. Símans dags.6. febrúar 2013
d. Eyðibýli á Íslandi, áhugamannafélags, dags. 15. febrúar 2013
e. Sambands Íslenskra sveitarfélaga, dags. 14. febrúar 2013
f. Forvarnarbókarinnar, dags. 8. febrúar 2013
g. UMFÍ, um landsmót 50+ árið 2015, dags. 7. febrúar 2013
h. UMFÍ, um 19. Unglingalandsmót árið 2016, dags. 7. febrúar 2013
i. UMFÍ, um landsmót UMFÍ árin 2017 og 2021, dags. 7. febrúar 2013
8. Fundargerðir:
a. Skipulags- og byggingarnefndar, 25.02.2013
b. Hafnarnefndar, 25.02.2013
c. Stjórnar Félags og skólaþjónustu A-Hún, 7.02.2013
d. Stjórnar SSNV, 29.01.2013
e. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, 16.01.2013
f. Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25.01.2013
g. Stjórnar Hafnasambands Íslands, 18.01.2013
9. Önnur mál
Sveitarstjóri
22.02.2013
Spilakvöld.
Kvenfélagið Eining stendur fyrir félagsvist sem verður næstu þrjú mánudagskvöld í Fellsborg,
25.febrúar , 4. mars og 11. mars og hefst kl. 20:00 öll kvöldin
Ef keypt eru spjöld fyrir öll þrjú kvöldin kostar
spjaldið 800 kr. stakt spjald kostar 1000.