01.07.2010
Íbúar við Suðurveg eru afar kátir þessa dagana enda er vaskur malbikunarflokkur að störfum í götunni. Ryk, sandur og möl heyrir nú til tíðinda á öllu svæðinu sem oft er nefnd Mýrin.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag við „teppalagninguna“ og má sjá hversu gríðarleg viðbrigðin eru.
Svart malbikið leggst slétt og fellt um götuna, hvergi sést nokkur arða. Íbúarnir halda sig innan dyra þangað til verkinu er lokið. Má ekki búast við að haldið verði upp á umskiptin með hressilegu götupartíi?
01.07.2010
Þegar runninn er upp síðasti dagur ljósmyndasamkeppni Skagastrandar hafa borist nákvæmlega 154 ljósmyndir.
Eftir að lauslega skoðun á innsendum myndum má segja að flestar sýni Skagaströnd í nýju ljósi eins og áskilið er í keppnisreglum. Allar eru þær mjög áhugverðar og sumar jafnvle einstaklega skemmtilega teknar. Dómnefndin mun áreiðanlega eiga í miklu erfiðleikum með að velja myndir sem sýndar verða á Hnappstaðatúni í sumar.
Í raun er það ekki fjöldi myndanna sem vekur athygli heldur hversu breiður sá hópur er sem sendir inn myndir. Borist hafa myndir frá konum og körlum, ungm sem öldnum og jafnvel börnum, sumir eru vanir ljósmyndarar aðrir eru skemmra ég veg komnir með myndavélina sína.
Margir hafa tekið myndir sérsaklega fyrir keppnina, stillt upp fyrirsætum og smellt af einstaklega fallegum myndum. Aðrir hafa látið stundina ráða, tekið myndir sínar þegar augnablikið kallaði og þær myndir eru ekki síðri.
Minnt er á að skilafrestur í keppnina rennur út núna á miðnætti, fimmtudaginn 1. júlí. Senda skal inn myndir á netfangið radgjafi@skagastrond.is eða skila á skrifstofu sveitarfélagsins Skagastrandar á minnislykli eða tölvudiski.
Meðfylgjandi mynd er ekki í ljósmyndasamkeppninni.
01.07.2010
Gæsluvöllur verður starfræktur á leikvelli Barnabóls 5. til 30. júlí 2010.Hann verður opinn virka daga kl 13 - 16.
Börn á aldrinum tveggja til sex ára geta sótt völlinn gegn 300 kr greiðslu fyrir hvert skipti.
Í leikskólanum verður opin salernisaðstaða fyrir börnin en að öðru leyti verður fyrst og fremst um gæslu utandyra að ræða.
Æskilegt er að börnin taki með sér nesti og sérstaklega bent á að öll leikföng sem þau kunna að taka með sér eru á eigin ábyrgð.
Þrátt fyrir áætlaðan opnunartíma er allur réttur áskilinn til að fella þetta tilboð niður verði aðsókn að gæsluvellinum lítil eða engin.
Sveitarstjóri
01.07.2010
Golfklúbbur Skagastrandar býður upp á golfkennslu sunnudaginn 4. júlí. Kennari er
Heiðar Davíð Bragason, fyrrverandi Íslandsmeistari og atvinnumaður í golfi.
Kennslan verður samkvæmt eftirfarandi tímatöflu:
Kl. 12.00-13.30 - 8-10 ára, ókeypis
Kl. 14.00-15.30 - 11-13 ára, ókeypis
Kl. 16.00-17.30 - 14-16 ára, ókeypis
Frá kl. 18 eru í boði 30 mínútna einkatíma fyrir 17 ára og eldri. Verðið er 2.500 kr.
Skráning í alla aldursflokka í síma 892 5089 (Adolf) og 861 5089 (Dagný) í síðasta lagi á föstudagskvöld.
30.06.2010
Framtíðin gekk undir leiðsögn um götur Skagstrandar, söng og skemmti sér eins og hennar er vandi.
Meðfylgjandi myndir voru teknar af þessum fríða og skemmtilega hóp er hann staldraði eitt augnablik við á Túnbraut 1-3.
Þetta voru auðvitað börnin í Leikskólanum Barnabóli ásamt fóstrum sínum. Þau höfðu málað sig og klæðst furðubúningum enda dagurinn bjartur og fallegur rétt eins og allir aðrir dagar á Skagaströnd.
30.06.2010
Nú þegar hafa nákvæmlega 99 myndir borist í ljósmyndasamkeppni Sveitarfélagsins Skagastrandar en leitað er eftir myndum sem birtar verða í stóru formati á Hnappstaðatúni í miðbænum.
Allt eru þetta myndir sem uppfylla skilyrðið sem gefið var í upphafi og fjallar um að sýna „Skagaströnd í nýju ljósi“.
Margar myndanna sem borist hafa eru afar skemmtilega teknar. Fjölmargir hafa lagt sig í líma við að finna áhugaverða hliðar á bænum og umnverfi hans. til eru þeir sem hafa beinlínis lagt land undir fót, tekið myndir sérstaklega fyrir samkeppnina. Aðrir hafa leitað í myndasöfnum sínum og valið skárstu myndirnar. Mörgum er Spákonufellið hugstætt, aðrir líta á veðrabrigðin og svo hafa borist myndir af sólarlagi við Húnaflóa.
Ekki eru allir þátttakendur búsettir á Skagaströnd. Fréttir af samkeppninni hafa flogið víða. Síðast í morgun bárust til dæmis myndir frá Íslendingi búsettum í Danmörku.
Minnt er á að skilafrestur mynda er fyrir miðnætti miðvikudaginn 1. júlí. Senda ber myndirnar á netfangið radgjafi@skagastrond.is. Einnig má koma með myndir brenndar á disk eða á minnislykli og skila á skrifstofu sveitarfélagsins.
28.06.2010
Skagstrendingar ætla í gönguferð um í júlí. Það er Labbitúrafélag Skagstrandar sem stendur fyrir ferðinni og er öllum heimil þátttaka, jafnt heimamönnum sem öðrum.
Síðasti dagur skráningar í Hornstrandaferðina er í dag, 28. júní 2010.
Hvenær?
Mæting miðvikudaginn 21. júlí kl. 9:30 í Norðurfirði á Ströndum. Komið verður til baka mánudaginn 26. júlí.
Hvert?
Sigl verður í Hornvík, gist þar í tvær nætur. Síðan er siglt í Reykjarfjörð og gist þar í þrjár nætur. Alltaf er gist í tjöldum.
Hvað?
Gönguferð og sigling um marga af tilkomumestu og fegurstu stöðum Íslands. Siglt er meðfram svipmiklu landslagi, gengið um Hornbjarg, yfir í Hælavík litið á Hælavíkurbjarg, gengið á Geirhólma, um Þaralátursnes og jafnvel á Drangajökul. Í Reykjarfirði er sundlaug og sturtur.
Hvernig?
Alltaf er gengið með dagpoka, þ.e. með nesti fyrir daginn og góðan skjólfatnað. Hægt er að sleppa einstaka gönguferðum, slappa þá af í stórkostlegri náttúru. Á kvöldin verður vonandi haldin kvöldvaka. Stefnt er að því að vera með samkomutjald í ferðinni svo hægt sé að halda kvöldvökur þó veðrið verði ekki kannski upp á það besta.
Hverjir?
Nánari upplýsingar og skráningu í ferðina er hjá Lárusi Ægi Guðmundssyni, í síma 864 7444, og Sigurði Sigurðarsyni í síma 864 9010, en hann verður fararstjóri og þekkir vel til á Hornströndum.
Meðfylgjandi myndir eru teknar á Hornströndum:
Efsta myndin er af Núpnum, fremst á Hornbjargi
Næsta mynd er af Hælavík
Þriðja myndin er frá tjaldsvæðinu í Hornvík
Kortið er af siglingaleiðinni milli Norðurfjaðar og Hornvíkur
28.06.2010
Sem betur fer er afar lítið um óhöpp á Spákonufelli. Sænski maðurinn sem þyrlan sótti þangað á sunnudaginn hafði farið upp til að fljúga svokölluðum „paraglider“ en það er vængur sem líkist fallhlíf og hefur mikinn svifkraft. Flug á slíkum vængjum nýtur mikilla vinsælda út um allan heim og jafnvel hér á landi. Vandinn er hins vegar sá að sviftivindar eiga það til að trufla slíkt flug hér á landi.
Maðurinn hafði gengið upp á Borgarhaus og ekki litist þar á aðstæður enda frekar hvasst uppi. Í gróinni hlíðinni fyrir ofan Leynidal fannst honum aðstæður allar betri og ákvað því að reyna að fljúga.
Þá vildi svo óheppilega til að vindurinn feykti honum svo að segja samstundis yfir að skarðinu við Molduxa og þar brotlenti hann.
Svíinn er vanur ferðamaður og gat bundið um opið fótbrot sem hann fékk við fallið. Hann kom sér vel fyrir, setti fætur upp í hlíðina til að draga úr blæðingunni og vafði álpoka utanum sig.
Þessu næst hringdi hann í Gunnar Halldórsson, veitingamann í Kántrýbæ, en þeir höfðu rætt saman kvöldið áður og lofaði Gunnar að vera honum innan handar ef hann þyrfti á aðstoð að halda. Gunnar hringdi samstundis í Björn Inga Óskarsson hjá Björgunarsveitinni Strönd og síðan í neyðarlínuna. Björn sendi útkall á félaga í Strönd og Björgunarsveitina Blöndu á Blönduósi. Á þeirri stundu var gert ráð fyrir að bera þyrfti manninn niður í sjúkrabörum.
Eins og þeir vita sem upp á Spákonufell hafa komið þá er þar brattara en svo að hægt sé að senda bíl á slysstaðinn og var því ákveðið að þyrla færi frá Reykjavík og sækti manninn.
Um það bil fimmtán mínútum áður en þyrlan lenti höfðu fyrstu björgunarsveitarmenn komið á slysstað og þeirra á meðal var Gunnar í Kántrýbæ. Þeir hlyntu vel að Svíanum og biðu svo komu þyrlunnar. Því er haldið fram í fullri alvöru á Skagströnd halda því fram að Gunnar hafi komið með mat fyrir Svíann, Kántrýborgara með frönskum og hráu salati og það hafi bjargað lífi mannsins. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest en þó er ljóst að Kántrýborgarinn er mjög eftirsóttur.
Þyrlan lenti á sléttum bletti sem er á milli Molduxa og einstigisins upp á Borgarahaus. Maðurinn var svo fluttur til Reykjavíkur þar sem hann fór í aðgerð. Honum heilsast þokkalega og ætti að ná sér vel.
Meðfylgjandi mynd er fengin af myndasíðu Björgunarsveitarinnar Strandar, www.123.is/strond.
25.06.2010
Síðasti skiladagurinn í ljósmyndasýningu Skagastrandar er 1. júlí. Því er nú ástæða fyrir fólk að taka myndavél sér í hönd og halda út í yndisfagurt sumarið og taka myndir af Skagaströnd í nýju ljósi.
Munum að tilgangurinn með samkeppninni er að safna saman 20 myndum sem síðan verða stækkaðar í 2x1,2 m og settar upp utan dyra á Hnappstaðatúni sem er í miðjum bænum.
Tilgangurinn með er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem og náttúruminjum í sveitarfélaginu.
Myndirnar skulu teknar innan Sveitarfélagsins Skagastrandar, utan eða innan bæjar. Sjónarhornið er byggðin, mannlífið eða náttúran. Leitað er eftir fallegum myndum eða sérkennilegum og áhugaverðum myndefnum eða sjónarhornum.
Ekki er þó um hefðbundna ljósmyndasamkeppi að ræða enda engin verðlaun veitt önnur en þau að fá mynd sína birta í stóru formati og að ljósmyndarinn fær að eiga myndina að sýningu lokinni.
Í dómnefndinni eiga þessir sæti: Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari. Henni til aðstoðar er Sigurður Sigurðarson, starfsmaður Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Reglur samkeppninnar eru þessar:
Einungis myndir eftir áhugaljósmyndara verða birtar á ljósmyndasýningunni „Skagaströnd í nýju ljósi“ sem haldin verður á Hnappstaðatúni sumarið 2010. Þátttaka er öllum heimili, Íslendingum sem og öðrum.
Myndefnið skal vera frá Skagaströnd, utan eða innan þéttbýlisins, og vera af byggð, mannlífi eða náttúru. Því ber að vera áhugavert eða sérkennilegt af einhverju tagi.
Myndirnar mega vera í lit eða svarthvítar, en skilyrði að þær séu í góðri upplausn og á jpg formi. Leyfilegt er að skanna inn framkallaðar myndir eða filmur og senda í keppnina.
Engin verðlaun verða veitt fyrir þær myndir sem valdar eru, en viðkomandi ljósmyndari fær stækkaða mynd sína til eignar að sýningu lokinni.
Skilafrestur á myndum er til og með 1. júlí 2010.
Hver þátttakandi má senda inn allt að 10 myndir sem hann hefur tekið sjálfur. Aldur myndanna skiptir engu máli.
Myndum skal skila í tölvupósti á radgjafi@skagastrond.is eða á diski eða minnislykli ásamt grunnupplýsingum um ljósmyndarann á skrifstofu sveitarfélagsins.
Ljósmyndir eru valdar eftir tillögum dómnefndar og leitast við að hafa sem breiðast úrval myndefnis og ljósmyndara.
Myndir á sýningunni verða með myndatexta sem unninn er í samráði við eiganda og nafn hans verður einnig prentað á myndina.
Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir ljósmyndasýningunni í samstarfi við Menningarráð Norðurlands vestra.
24.06.2010
„Á sýningunni verð ég með 14 stór málverk sem ég gerði á meðan ég dvaldi í Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd í fyrra. Til viðbóar taka sautján íslenskir listamenn þátt í sýningunni, þeirra á meðal Anna Sigríður sem var samtímis mér á Skagaströnd.“
Þetta segir listamaðurinn Nadage Druzkowski, góð vinkona Skagastrandar, sem dvaldi í bænum í fjóra mánuði á síðasta ári. Hún eignaðist marga góða vini hér sem hafa haldið sambandi við hana og hún hefur verið dugleg að láta vita af sér enda stefnir hún að því að koma aftur sem fyrst.
Nedage tekur eins og fram kom þátt í sýningunni „Arts et traditions L’Islande Autrement ...” sem hefst í byrjun næsta mánaðar í Strasbourg í Frakklandi og standa mun út júlí.
Heiti sýningarinnar má til dæmis þýða „Ísland af öðru sjónarhorni“. Á sýningunni verður mikill fjöldi listaverka af öllu tagi, málverk, ljósmyndir, hreyfimyndir og fleira. Nadage segist muni halda þrjá fyrirlestra um Ísland og íslenska menningu.
Sýningin verður á tveimur stöðum Salle de l’Aubette (Place Kléber) og Sofitel- hótelinu. Hún verður opnuð þann 2. júlí og verður margt gáfumanna viðstatt meðal annarra sendiherra Íslands í Frakklandi, Þórir Ibsen.
Í tölvupósti sínum til Signýjar Ó. Richter á Skagströnd, segir Nadage að hún muni einnig taka þátt í sýningu sem haldin verður í London og nefnist Florence Trust Summer Exhibition. Hún er í tilefni þess að Nadage hefur nú lokið eins árs dvöl í listamiðstöðinni Florence Art í London, þar sem hún hefur verið frá því hún fór frá Skagaströnd.
Í tölvupósti sínum til Signýjar segir Nadage:
„Þú mátt nefna það að þessi listamiðstöð í London er mjög vandfýsin á listamenn. Ég hef hins vegar fengið mjög góða dóma fyrir þessi verk sem ég mun sýna en þau vann ég ... á Skagaströnd.“
Meðfylgjandi er mynd af verki sem Nadage vann á Skagaströnd og er af Vaðlaheiði. Einnig fylgir mynd af boðskortinu á sýninguna í Frakklandi. Óhætt er að prenta það út og kemst þá viðkomandi á sýninguna ...