Fjöruhreinsunarátak Höfðaskóla

Nemendur fimm elstu bekkja Höfðaskóla fóru út úr skólanum þriðjudaginn 29. maí og eyddu skóladeginum í að tína rusl í fjörunum í nágrenni Skagastrandar, með kennurum og starfsfólki frá BioPol. Tíundu bekkingar fóru þó lengra því þeir hreinsuðu rusl í Kálfhamarsvík og víkinni norðan við hana. Sjötti og sjöundi bekkur byrjuðu sinn leiðangur í Bæjarvíkinni á Finnstaðanesinu og gengu svo alla leið heim að Salthúsinu með pokana sína. Krakkarnir í áttund og níunda bekk gengu síðan leiðina frá Vinhælisstapanum og heim að Bjarmnesi. Á svæðinu við Kálshamarsvík safnaðist um 150 kg af rusli en ca 95% af því var alls konar plastefni. Þar voru áberandi stuttir grænir nælonspottar eins og eru í trollum togara og snurvoðarbáta. Greinilega var um að ræða afskurð sem til fellur þegar verið er að gera við trollið og er hér með farið fram á það við sjómenn að þeir passi betur upp á þessa litlu spotta þannig að þeir fari ekki í sjóinn. Á leiðinni frá Finnstöðum og heim tíndust upp 220 kg af alls kyns rusli meðal annars nokkur gömul dekk og netadræsur auk alls plast- og járnaruslsins. Frá Vinhælisstapanum og heim voru dekk mest áberandi. Krakkarnir tíndu þau saman í stóran haug en síðan voru þau sótt á kerru og með dráttarvél. Giska má á að hér hafi verið um 60 – 70 dekk og dekkjarifrildi. Auk þess var tínt mikið af plasti eins og á hinum stöðunum. Í þessu hreinsunarátaki, sem er hluti af umhverfismennt skólans, var nemendunum uppálagt að skipta sér ekki af spýtum né fuglshræum sem telja má að séu “eðlilegir‘‘ hlutir í fjörum landsins enda eyðast þeir með tímanum öfugt við plastið sem sagt er að endist a.m.k 500 ár í náttúrunni. Nemendur voru sammála um að það kom þeim á óvart hve mikið af plastrusli þau fundu og áttu erfitt með að ímynda sér hve mikið af því væri þá í hafinu við strendur landsins fyrst svo mikið rekur í fjörurnar. Myndirnar tók James Kennedy

Mynd vikunnar

Skemmtisigling á sjómannadegi er ómissandi hluti hátíðahaldanna á Skagaströnd og nýtur alltaf mikilla vinsælda. Hér kemur Ólafur Magnússon Hu 54 úr einni slíkri siglingu í renniblíðu með fullan bát af glöðu fólki. Myndina tók Ingibergur Guðmundsson á sjómannadaginn árið 2000. Senda upplýsingar um myndina

Hetjur hafsins – Sjómannadagurinn á Skagaströnd 2018

Fimmtudagur 31. Maí 2018 Kl. 19-20 Björgunarsveitin Strönd gengur í hús og bíður til sölu sjómannamerkið Kl. 20:00 – 22:00 Æfingar fyrir kappróður Föstudagur 1. Júní 2018 Kl. 18:00-19:00 Sundlaugargleði – tónlist og gleði Kl.20 Hátíðin Hetjur hafsins sett formlega með fallbyssuskoti á hátíðarsvæði Klukkan 20:15 – 21:00 Lokaæfingar fyrir kappróður 20:30 Sigling, útsýnissigling á Húnaflóa 21-22:30 Bjarnabúð: Tækjasýning og tónleikar í Bjarnabúð Á tónleikunum koma eftirfarandi hljómsveitir fram: Skagabandið/Gagnaver/Nýríki Nonni/Janus/Tíglar/Jójó Björgunarsveitin Strönd verður með sjoppu á tónleikunum Kl. 22:30 Friðrik Halldór trúbador spilar í Bjarmanesi Laugardagur 2. Júní 2018 Kl. 10:30 skrúðganga frá hátíðarsvæði til messu Kl. 11:00- 12.00 Messa í Hólaneskirkju, að lokinni messu verður lagður blómsveigur á minnisvarða um drukknaða sjómenn Kl. 13:30 Undirbúningur fyrir karnivalgöngu hefst við Höfðaskóla Kl. 14:00 Karnivalskrúðganga frá Höfðaskóla að hátíðarvæði Kl. 14:30 Skemmtidagskrá á hafnarsvæði – róðrar, leikir, fallbyssuskot, skemmtiatriði. Kl. 15:30 – 17:30 Hringekja og hoppukastali á skólalóð Kl. 16:00 Vigdís Viggósdóttir opnar ljósmyndasýninguna Haf og hagi í Bjarmanesi Sjómannadagsball og hátíðarkvöldverður 2. Júní 2018. Húsið opnar 18:30 borðhald hefist 19:15 Hljómsveitin Trukkarnir spila fyrir dansi Verð 9.900- fyrir mat og ball. Bara matur 6.900- -Áfengissala verður í húsinu til kl 22:00 (Opið er fyrir allan aldur í matinn.) Stakur miði á ball kostar 3.500- Sunnudagur 3. Júní 2018 Kl. 14:00-16:00 Lummukaffi í Árnesi Kl. 14:00-17:00 Húsdýragarður á Holtinu

Vinnuskóli á Skagaströnd

Vinnuskóli Skagastrandar hefst miðvikudaginn 6. júní 2018. Nemendur sem eru skráðir í vinnuskólann mæti við áhaldahús kl 9.00. Skráning í Vinnuskóla Skagastrandar fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins. Störf í vinnuskóla verða einungis fyrir nemendur sem eru að ljúka 8., 9. og 10. bekk. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. Sveitarstjóri

Götusópun

Nú stendur yfir götusópun á Skagaströnd. Bæjarbúar eru vinsamlega beðnir að færa bíla sína frá svo sópurinn komist að og sem bestur árangur náist.

OPIÐ HÚS // SUNN 27 maí // 15.00 - 17.00

Literally, art is bursting out of the walls and spaces! Rock sculpture, fences, video, paintings, words, creativity and dreams...all congregating at Nes .... Come and have a chat with these artists and find out what on earth they are doing!

Mynd vikunnar.

Hvalreki Vorið 1992 fóru þessir þrír krakkar í fjöruferð í fjöruna fyrir neðan rækjuvinnsluna. Þar rákust þau á þennan smáhval - hnýðing - rekinn í fjörunni. Að sjálfsögðu létu þau vita af þessum merka fundi og fengu mynd af sér í Morgunblaðinu að launum. Krakkarnir eru frá vinstri: María Markovic, Eva Dögg Bergþórsdóttir og Sveinþór Ari Arason.

SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 26. maí 2018

AUGLÝSING UM KJÖRFUND Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd vegna kosninga til sveitarstjórnar fer fram 26. maí 2018 í Fellsborg og hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 21.00 Talning atkvæða verður á sama stað og gæti hafist um kl. 21.30 Kjörstjórnin

Rannsóknir á örplasti í Húnaflóa

Frá árinu 2012 hefur Sjávarlíftæknisetrið Biopol ehf, yfir vor og sumarmánuði, fylgst með eðlis- og lífffræðilegum þáttum sjávar fyrir utan Skagaströnd. Í þessum sýnatökum hefur hitastig og selta verið mæld á mismunandi dýpum og fylgst hefur verið með tegundasamsetningu og fjölda svifþörunga. Einnig hafa sérstök sýni verið tekin til þess að fylgjast með stærð og magni kræklingalirfa. Starfsmaður var í upphafi þjálfaður til þess að fara í gegnum lirfusýnin og hefur sami aðili því sinnt þeim talningum frá upphafi. Fljótlega fór þessi samviskusami starfsmaður að veita athygli torkennilegum þráðum í mörgum litum sem sáust undir víðsjánni við lirfutalningarnar. Við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða plastþræði sem ákveðið var að telja ásamt kræklingalirfunum. Í vor var síðan ákveðið að taka þessa talningu á plastþráðum alvarlegri tökum í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem plastmengun í hafinu hefur fengið undanfarið. Í dag eru tekin vikulega sérstök sýni til þess að meta magn örplasts í Húnaflóa. Sýnatakan fer þannig fram að netháfi, sem hefur möskva sem eru 100 míkron (0,1mm) að stærð, er sökkt niður á 20 metra dýpi og síðan dreginn rólega upp á yfirborðið aftur. Við þá aðgerð er áætlað að í gegnum háfinn pressist 1413 lítrar af sjó og allar agnir sem er stærri en 100 míkron sitji eftir í háfnum. Innihaldi háfsins er síðan safnað í ílát og meðhöndlað á rannsóknastofu BioPol þar sem efni eru notuð til þess að leysa upp öll lífræn efni. Það sem eftir situr er í framhaldinu síað í gegnum síupappír og á honum koma því hugsanlegar plastagnir í ljós. Á meðfylgjandi mynd sem tekin er í gegnum víðsjá má sjá það sem finna mátti í einu sýni sem tekið var í síðustu viku. Dæmi hver fyrir sig en okkur finnast þessar myndir frekar óhugnarlegar og varpa ljósi á að pastmengun í hafinu er ekki endilega bara vandamál sem snerta aðrar þjóðir og fjarlæg hafsvæði. Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol