Mynd vikunnar

Fótboltalið Umf. FRAM Ungir knattspyrnumenn ásamt þjálfara og liðsstjóra frá umf. FRAM á Skagaströnd til í að mæta hvaða andstæðingi sem er. Aðal styrktaraðili liðsins var Marska á Skagaströnd. Myndin var tekin á Hvammstanga sennilega á árunum 1985 - 1987 af Vigdísi Þorsteinsdóttur. Standandi frá vinstri: Vilhelm Jónsson, Jón Heiðar Jónsson, Friðrik Gunnlaugsson, Björn Sigurðsson, Vilhjálmur Jónsson, Atli Þórsson, Baldur Magnússon, Einar Guðjónsson, Róbert Freyr Gunnarsson og Ingvar Jónsson. Krjúpandi frá vinstri: Jósef Ægir Stefánsson, Þröstur Árnason, Guðmundur Henry Stefánsson, Brynjar Pétursson, Börkur Árnason, Gunnar Halldór Hallbjörnsson, Viktor Pétursson, Leifur Guðjónsson (frá Grindavík) Svanur Árnason og Jónas Þorvaldsson

Reiðskóli á Skagaströnd

Við ætlum að vera með reiðskólan okkar á Skagaströnd í sumar :) frá 25-29 maí og 1-5 júní. Hægt er að velja að vera frá 9-12 eða 13-16. Verð: 15.000 hálfur dagur. Skipt er í hópa eftir getu hvers og eins. Skráning fer fram á Facebook. eða í síma 867 1180. Kveðja Halla og Maggi

Aðalfundur Hestamannafélagsins Snarfara

Aðalfundur Hestamannafélagsins Snarfara verður haldinn í húsi félagsins miðvikudaginn 13.maí 2015 kl.20:00 Venjuleg aðalfundarstörf Stjórnin

Mynd vikunnar

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps er 90 ára nú á Sumardaginn fyrsta 2015 sem þýðir að hann var stofnaður þann dag árið 1925. Ekki er vitað hvenær þessi mynd var tekin af kórfélögum en það hefur sennilega verið einhverntíma á sjöunda áratugnum. Ljósmyndasafn Skagastrandar óskar kórnum til hamingju með langa starfsævi. Á myndinni eru: Fremsta röð frá vinstri : Guðmundur Sigurjónsson Rútsstöðum, Björn Jónsson (d.18.2.1991) Gili, Guðmundur Sigfússon (d. 27.3.1993) Eiríksstöðum, Elsa Óskarsdóttir Fagranesi, Gerður Aðalbjörnsdóttir (d. 12.6.2007) Hólabæ, Guðrún Jakobsdóttir (d. 5.1. 2005) Grund, Jón Tryggvason (d. 7.3.2007) Ártúnum, Árni Jónsson Víðimel og sr.Birgir Snæbjörnsson (d. 17.7.2008) Æsustöðum. Önnur röð frá vinstri: Árni Sigurjónsson Rútsstöðum , Pétur Sigurðsson (d. 11.5.2000) Skeggstöðum, Sigvaldi Sigurjónsson Rútsstöðum, Sigurjón Ólafsson (d. 13.1.1971) Brandsstöðum, Pétur Pétursson (d. 7.5.1977) Höllustöðum, Guðmundur Tryggvason Finnstungu, Jónas Tryggvason (d. 17.8.1983) Ártúnum, Guðmundur Jósafatsson Austurhlíð og Runólfur Aðalbjörnsson Hvammi. Þriðja röð frá vinstri: Jón Guðmundsson Eiríksstöðum, Sigurjón Stefánsson Steiná, Bjarni Sigurðsson Barkarstöðum, Ingvar Þorleifsson Sólheimum, Guðmundur Halldórsson (d. 13.6.1991) Bergsstöðum, Aðalsteinn Sigurðsson(d.21.8.2005) Leifsstöðum, Sigurgeir Hannesson (d. 8.2.2005) Stekkjardal, Ingólfur Bjarnason (d. 22.5.2000) Bollastöðum og Grímur Eiríksson (d. 22.5.1993) Ljótshólum. Fjórða röð frá vinstri: Sigmar Ólafsson (d. 30.10.1991) Brandsstöðum, Þórður Þorsteinsson (d. 8.8.2000) Grund, Haraldur Karlsson (d.30.10.2007) Litladal, Auðunn Guðmundsson Austurhlíð, Pétur Guðmundsson Eiríksstöðum, Sigurður Sigurðsson (d. 5.7.1984) Leifsstöðum, Hannes Guðmundsson (d. 10.9.2008) Auðkúlu, Halldór Eyþórsson (d. 21.9.2007) Syðri-Löngumýri, Jósef Sigfússon Torfustöðum, Friðrik Björnsson (d. 3.1.2007) Gili og Georg Sigurvaldason (d. 13.3.1990)Eldjárnsstöðum.

Aksturstyrkur vegna dreifnáms

Nemendur sem hafa stundað dreifnám FNV á Blönduósi eru minntir á að frestur er til 1. maí 2015 til að sækja um sérstakan stuðning vegna dreifnáms fyrir vorönn 2015. Í reglunum segir m.a.: Eingöngu nemendur sem stunda reglubundið nám við dreifnám FNV á Blönduósi og eiga lögheimili á Skagaströnd geta sótt um stuðning þann sem tilgreindur er í reglunum. Nemandi telst stunda reglubundið nám til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi dreifnámi FNV á Blönduósi sem skólinn staðfesti með ástundunarvottorði. Ef námi er ekki lokið vegna veikinda skal skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði. Umsóknafestur um kostnaðarþátttöku samkv. reglugerð þessari skal vera til 1. desember vegna haustannar og til 1. maí vegna vorannar. Greiðslur vegna haustannar verða framkvæmdar fyrir 15. desember vegna haustannar og fyrir 15. maí vegna vorannar. Enda liggi fullnægjandi gögn fyrir. Sveitarstjóri

Bókasafnið lokað sumardaginn fyrsta

Athugið að bókasafnið verður lokað sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl. nk. Kveðja Sigþrúður

Elín Ósk sigraði Stærðfræðikeppnina 2015

Elín Ósk Björnsdóttir hreppti fyrsta sætið í Stærðfræðikeppninnar 2015. Úlfar Hörður Sveinsson var í 2. sæti. Þriðja sætinu deildu þau Ágústa Eyjólfsdóttir og Aron Ingi Ingþórsson. Ljósm./mtr.is Elín Ósk Björnsdóttir, í Höfðaskóla á Skagaströnd, varð í fyrsta sæti í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Menntaskólans á Tröllaskaga fyrir 9. bekki grunnskóla á Norðurlandi vestra, í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Í öðru sæti var Úlfar Hörður Sveinsson í Ársskóla á Sauðárkróki og þriðja sætinu deildu þau Ágústa Eyjólfsdóttir, Ársskóla og Aron Ingi Ingþórsson, Húnavallaskóla. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Menntaskólans á Tröllaskaga. Undankeppnin fór fram í mars sl. og tóku nemendur í 9. bekk af Norðurlandi vestra, úr Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 15 nemendur í úrslit. „Það var glæsilegur hópur sem mætt einbeittur til leiks í morgun. Keppendur stóðu sig allir með afbrigðum vel og voru snöggir að svara prófinu,“ segir í frétt á vef MTR. Frétt af vef Feykis

Tónlistarskóli A-Hún

Hinir árlegu vortónleikar skólans verða sem hér segir: Húnavöllum miðvikudaginn 22.apríl kl. 14.30 Blönduósi miðvikudaginn 6.maí kl. 17 í Blönduósskirkju Skagaströnd fimmtudaginn 7.maí kl. 17 í Hólaneskirkju Allir velkomnir. Skólastjóri

Mynd vikunnar

Ólafur Guðmundsson Ólafur Guðmundsson skipasmiður lést þriðjudaginn 7. apríl síðast liðinn, rúmlega 80 ára gamall. Ólafur, eða Óli skip eins og hann var gjarnan kallaður, flutti til Skagastrandar með fjölskyldu sína árið 1970 frá Stykkishólmi til að starfa í Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf, sem stofnuð var það ár. Óli var verkstjóri í stöðinni og segja má að framgangur fyrirtækisins hafi byggst á hans kunnáttu og hæfni. Eftir að Skipasmíðastöðin lagði upp laupana starfaði Óli hjá Mánvör hf og sá síðan um slippinn í nokkur ár meðfram því að stunda almenna smíðavinnu. Óli var afar duglegur og leit aldrei á vandamál sem slík heldur bara verkefni sem þyrfti að leysa. Þess vegna þótti mörgum gott að leita til Óla eftir ráðum sem snertu byggingar og aðrar verklegar framkvæmdir. Óli var giftur Guðmundu Sigurbrandsdóttur, sem lifir mann sinn, og saman áttu þau fjögur börn. Er Guðmundu og fjölskyldunni vottuð samúð á erfiðum tímum. Á myndinni er Óli á kunnuglegum slóðum við vinnu sína í trébát í slippnum á Skagaströnd.

Starfsfólk í sumarafleysingu hjá VMST

Starfsfólk í sumarafleysingu Við leitum eftir sumarafleysingafólki í liðsheild okkar hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Í boði eru fjölbreytt verkefni með jákvæðum og uppbyggilegum samstarfshópi. Ef þú hefur áhuga á að starfa hjá Greiðslustofu í sumar ekki hika við að hafa samband. Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi stofnunarinnar á heimasíðu hennar www.vinnumalastofnun.is. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Jensínu Lýðsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar Norðurlandi vestra - Greiðslustofu , Túnbraut 1-3, 545 Skagaströnd eða á netfangið jensina.lydsdottir@vmst.is fyrir 30. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar fást einnig hjá Jensínu í síma 582 4900.