Hlaupanámskeið

Ef næg þátttaka fæst ætlar hann Torfi H. Leifsson hjá hlaup.is að koma og vera með hlaupanámskeið á Blönduósi sunnudaginn 9. Júní 2013. Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl og þeir sem hafa tekið þátt verið mjög ánægðir. Áætlað er að byrja um kl 9:30 að morgni og enda um kl 18:30. Námskeiðið er að mestu byggt upp á fyrirlestrum en verklegar æfingar verða í lok dags. Farið í ýmis praktísk atriði eins og útbúnað, mataræði, styrktaræfingar, teygjur og fleira. Hægt að lesa nánar um námskeiði á vefnum hlaup.is. Námskeiðið er ætlað bæði byrjendum og þeim sem hafa verið að hlaupa en vilja fá ráðleggingar. Skráning í síðasta lagi mánudaginn 3. júní hjá Ásdísi Arinbjarnardóttur í síma 6903243 eða á facebook . Síðan heitir Nafnlausi skokkhópurinn. Vonandi vilja sem flestir vera með svo við getum gert úr þessu skemmtilegan og fræðandi dag.

Umsjónarmaður dreifnáms í A-Hún óskast

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki óskar eftir að ráða umsjónarmann dreifnáms á Austur-Húnavatnssýslu sem staðsett verður á Blönduósi. Ekki þarf að sækja um á sérstöku umsóknareyðublaði en umsókn þarf að fylgja afrit af prófskírteini og yfirlit um fyrri störf. Umsókn skal senda til skólameistara (ingileif@fnv.is). Helstu verkefni og ábyrgð Í starfinu felst m.a. dagleg umsjón með nemendum og líðan þeirra í námsveri á Blönduósi, eftirlit með skólasókn, aðstoð við nemendur, samskipti við kennara FNV, seta í kennslustundum í námsveri og í námslotum á Sauðárkróki, agastjórnun og dagleg umsjón með námsveri og tækjabúnaði námsvers. Hæfnikröfur Við leitum að fjölhæfum umsækjandasem á gott með að umgangast ungt fólk og er tilbúinn til að taka þátt í mótun á fyrirkomulagi dreifnáms í A-Hún.Æskilegt er að umsækjandi hafi háskólapróf á uppeldissviði.. Frekari upplýsingar um starfið Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags. Starfshlutfall er 100% og ráðið er í starfið til eins árs til að byrja með. Umsóknarfrestur er til og með 14. júní.2013 Nánari upplýsingar veita Ingileif Oddsdóttir–ingileif@fnv.is–455-8000 Þorkell V. Þorsteinsson–keli@fnv.is–455-8000 Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra v. Sæmundarhlíð 550 Sauðárkróki

Mynd vikunnar

Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar Guðmundur Jóhannesson til vinstri og Birgir Árnason (d. 2.2.2005) til hægri vinna í járnadeild stöðvarinnar 1970 - 1971. Í stöðinni voru smíðaðir allmargir bátar úr eik og seinna úr trefjaplasti. Fjöldi manna hafði atvinnu af skipasmíðunum og nokkrir ungir menn lærðu skipsmíðaiðnina í stöðinni. Annar af fyrstu bátunum tveimur sem smíðaðir voru í stöðinni er á Skagaströnd og gerður þar út. Þetta er Dagrún HU 121 í eigu Lýðs Hallbertssonar.

Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd laugardaginn 1. júní 2013

10:30 Skrúðganga frá höfninni að Hólaneskirkju Fjölmennum á skrúðgönguna til að viðhalda þessari skemmtilegu hefð. 11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju Kór sjómanna syngur við athöfnina. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki drukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra. 13:15 Skemmtisigling Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín. 14:00 Skemmtun á Hafnarhúsplani Skemmtun hefst á fallbyssuskoti. Kappróður og leikir á plani. 15:30 Kaffisala í Fellsborg Rjúkandi heitt á könnunni og fjölbreytt bakkelsi. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg Siggi Hlö sér um að allir skemmti sér í trylltum dansi. Allir að mæta og skemmta sér nú duglega. Góða Skemmtun Björgunarsveitin Strönd

Umferð á göngustígum og reiðvegum.

Þegar vorar og meiri umferð verður af gangandi fólki og þeim sem nýta sér reiðleiðir til útreiðartúra eða annarrar útivistar er sérstök ástæða til að minna á að merktar reiðleiðir og göngustígar eru ekki ætlaðir vélknúnum ökutækjum og umferð þeirra, eftir umræddum stígum, stranglega bönnuð. Sérstaklega er minnt á að reiðvegur um Hólaflóa er merkt reiðleið og akstur vélknúinna ökutækja bannaður.

Innritun í Tónlistarskólann

Innritun fyrir skólaárið 2013 – 2014 fer fram sem hér segir: Húnabraut 26 Blönduósi: Þriðjudaginn 28. maí kl 16 – 17 Bogabraut 10 Skagaströnd: Þriðjudaginn 28. maí kl. 16 – 17. Húnavellir: Á skólaslitum skólans, sem eru 29. maí n.k. Skólastjóri

Dreifnám

Framhaldsdeild í Austur Húnavatnssýslu á vegum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í samstarfi við heimamenn tekur til starfa næsta haust. Næsta skólaár verður dreifnámsdeildin til húsa á efri hæðinni að Húnabraut 4 á Blönduósi. Eftirtaldar námsgreinar verða í boði á fyrstu önn: enska 102, danska 102, félagsfræði 103, íslenska 102, íþróttir 101, lífsleikni 102, náttúrufræði 103 og stærðfræði 102. Þá verður hugað að fornámi í stærðfræði og fleiri kjarnagreinum, ef næg þátttaka fæst. Kennt verður í gegnum fjarfundabúnað frá Sauðárkróki og gert er ráð fyrir námslotum þar í tvær til þrjár vikur á hvorri önn. Auk nemenda úr 10. bekk er námið í framhaldsdeildinni opið öllum sem sækja vilja nám í heimabyggð. Hér er kærkomið tækifæri fyrir þá sem vilja taka þráðinn upp að nýju eftir hlé frá námi. Umsóknarfrestur er til 10. júní. Nánari upplýsingar veita Ágúst Þór Bragason, formaður framkvæmdahóps um dreifnám í A-Hún í síma 455-4700, Guðjón E. Ólafsson fræðslustjóri í síma 895-5796 ogÞorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari í síma 455-8000. Þá er einnig hægt að panta viðtalstíma hjá Margréti Helgu Hallsdóttur, námsráðgjafa við FNV í síma 455-8000.

Opið hús fimmtudag og föstudag

Kynning á leikskólanum og leikskólastarfinu í Barnabóli verður á „OPNU HÚSI“ frá kl. 8-16 fimmtudaginn 23. og föstudaginn 24. maí. Ykkur er boðið að koma í heimsókn og ganga um leikskólann og kynnast daglegu leikskólastarfi, skoða verkefni nemenda. Það verður molasopi og ávaxtadrykkur á báðum deildum. Verið velkomin í heimsókn. Kv. þb

Mynd vikunnar

Eldri borgara á ferðalagi Eldri borgara frá Skagaströnd á ferðalagi. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en sennilega hefur það verið kringum 1970. Ekki er heldur vitað hvar þessi mynd var tekin. Allir sem þekktir eru á myndinni eru látnir í dag. Fólkið á myndinni er, talið frá vinstri: Soffía Lárusdóttir, Laufey Jónsdóttir, Hafsteinn Sigurbjarnarson, Halldór Pétursdóttir, óþekktur, óþekktur, Teitný Guðmundsdóttir, Baldvin Jóhannesson, óþekkt, óþekkt, Sigurður Guðmonsson,Guðmundur Pétursson, Guðlaugur Guðlaugsson, Þórunn Samsonardóttir, Páll Jónsson, óþekkt, óþekktur, óþekktur, óþekkt, Margrét Sigurðardóttir, Hallbjörg Jónsdóttir, Gunnlaugur Björnsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir, óþekktur drengur, óþekktur, Pétur Þ. Ingjaldsson, Guðbjörg Guðjónsdóttir, Lárus Guðmundsson, óþekktur drengur, Dómhildur Jónsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Jón Ólafsson, Ingvar Jónsson, Björgvin Jónsson, óþekkt, Valdimar Valdimarsson, Ástmar Ingvarsson, Guðný Hjartardóttir, Steingrímur Jónsson og Kristinn Jóhannsson. Ef þú þekkir einhvern óþekktan á myndinni, eða veist hvar myndin var tekin, vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Samningur um ljósleiðara á Skagaströnd

Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu um Skagaströnd verður lagður ljósleiðari í öll hús sem tengjast hitaveitunni. Samningur um lagningu og reksturs ljósleiðara á Skagaströnd var undirritaður milli Mílu og Sveitarfélagsins Skagaströnd í elsta húsi bæjarins, Árnesi 10. maí síðastliðinn. Með samningnum og lagningu ljósleiðarans eru viss tímamót framundan í fjarskiptamálum á Skagaströnd þar sem ljósleiðarinn mun bjóða upp á betri margmiðlunarsamskipti. Samningurinn byggir á ákvæði í samning við RARIK um að leggja hitaveitulagnir í öll hús í þéttbýli á Skagaströnd og innifalið í þeim samningi er að RARIK muni láta leggja ljósleiðarakerfi í lagnaskurði hitaveitulagna fyrir sveitarfélagið. Með samninginum framselur sveitarfélagið þann rétt til Mílu sem mun leggja til hönnun og efni í ljósleiðarakerfi í skurðina. Míla mun síðan eiga og reka kerfið sem opið aðgangsnet. Í samningnum kemur fram að aðgangur að ljósleiðaraheimtaugum Mílu verður opinn öllum þjónustuveitendum sem uppfylla almenn skilyrði gildandi laga um fjarskiptaleyfi á sömu kjörum og almennt gilda. Áætlað er að fyrstu húsin í bænum verði síðan tengd ljósleiðaranum í byrjun næsta árs. Það voru þeir Ingvar Hjaltalín Jóhannesson forstöðumaður hjá Mílu og Adolf H. Berndsen oddviti á Skagaströnd sem undirrituðu samninginn fyrir hönd umbjóðenda sinna.