Fréttatilkynning

Ævintýrið Skrapatungurétt Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu Dagana 18. og 19. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 18. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Þeir reiðmenn sem koma með hesta sína á föstudegi í Strjúgsstaði eru beðnir að hafa samband við landeigenda í síma 846 0411. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal, hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Þátttakendur eru beðnir að virða það, að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu sem telur hundruð. Í ár hefur verið búið til nýtt embætti í kringum þennan viðburð, ferðamannafjallkóngur. Fyrstur til að bera þann titil er Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Ferðamannafjallkóngurinn, sem er heimavanur á þessum slóðum, mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður haldið til grillveislu í reiðhöllinni við Blönduós. Þeir sem vilja snæða í grillveislunni er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 17.september í síma 452 7171 eða 896 6011. Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið í Félagsheimili Blönduóss. Á Réttardansleiknum leikur hljómsveitin Sixties fyrir dansi. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 10. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna menn og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum. Mikið úrval söluhrossa verður á boðstólnum í Skrapatungurétt og hægt að gera góð kaup. Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Allir eru gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar og bókanir í stóðsmölun, í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@anv.is

Togarinn Örvar fer ekki slipp

Togarinn Örvar HU 2 sem fara átti í slipp í Póllandi á næstu dögum fer ekki fyrr en í byrjun janúar á næsta ári. Ástæður þessarar seinkunar er að skipasmíðastöðin sem átti að taka hann upp hefur mikið af verkefnum og seinkaði því slipptökunni. Togarinn kom inn til löndunar fyrir mánaðarmótin og landaði rúmum 250 tonnum af unnum afurðum. Afli skipsins í síðustu veiðiferð mun því hafa verið nærri 350 tonn upp úr sjó, aðallega grálúða. Aflaverðmæti var um 65 milljónir króna eftir 38 úthaldsdaga. Örvar mun halda til veiða í næstu viku á þriðjudag - miðvikudag.

Slysavarnaskóli sjómanna á Skagaströnd

Slysavarnaskóli sjómanna kom til Skagastrandar dagana 2.-3. september sl. með skólaskipið Sæbjörgu vegna endurmenntunarnámskeiðs sjómanna. Námskeiðið sóttu um 30 sjómenn. Námskeiðið var hnitmiðað og vel að því staðið frá hend Sæbjargarmanna, þar var farið yfir helstu atriði sem geta komið fyrir út á rúmsjó. Má þar m.a. nefna: eldvarnir, meðferð slökkvubúnaðar, björgun manna á sjó með ýmsum búnaði og meðferð gúmmibjörgunarbáta. Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd og Björgunarsveitin Blanda á Blönduósi komu fyrir fluglínutækjum frá fjöru út í grjótgarð þar sem björgunarsveitirnar sýndu meðferð þeirra og menn dregnir á milli í björgunarstól. Þegar upp var staðið voru menn virkilega ánægðir með komu Sæbjargar og telja þetta nauðsynlegan þátt í fræðslu sjómanna. Í lokin fengu þátttakendur skirteini um þátttökuna (maritime safety and survival training centre). Unglingadeild björgunarsveitarinnar Strandar fékk kynningu í meðferð slöngubáta, bæði bóklega og verklega kennslu. Unglingarnir fengu að nota slöngubátana á rúmsjó og tóku þátt í æfingum í björgun fólks úr sjó. Og fengu kynningu á notkun neyðarbúnaðar skipa bæði gúmmíbjörgunarbáta og búnaði sem í þeim er. Unglingadeildin tók virkan þátt í undirbúningi námskeiðsins og hjálpuð til við að koma fluglínubúnaði fyrir. Alls tóku 12 unglingar þátt í æfingunni.