22.08.2007
Sunnudaginn 19. ágúst 2007 voru dregin út nöfn vinningshafa í ævintýraeyjuleik Söluskálans á Skagaströnd.
Eftirfarandi hlutu GSM síma:
Agnar Logi Eiríksson, Melabraut 23, 540 Blönduós
Agnes B.Albertsdóttir, Neðra - Holti, 541 Blönduós
Bjarki Gunnarsson, Bankastræti 7, 545 Skagaströnd
Kristinn Daníel Guðmundsson, Laufhaga 6, 800 Selfoss
Eftirfarandi hlutu aukavinninga:
Rögnvaldur Ottósson, Réttarholti, 545 Skagaströnd
Ari Jón Þórsson, Bogabraut 24, 545 Skagaströnd
Helgi Þór Kristjánsson, Norðurbraut 13, 530 Hvammstanga
17.08.2007
Nú eru Kántrýdagarnir að renna upp og íbúar á Skagaströnd að komast í hátíðarskap. Í gærkvöldi (fimmtudag) var mikið um að vera. Íbúar við hverja götu komu saman og útbjuggu og settu upp alls kyns skraut og skreytingar. Eiginlega var hálfgerð karnivalstemming því um leið og skreytingar komu upp í einni götu hófst rúntur eða göngutúrar um hana til að skoða og sjá hvernig þetta væri nú gert. Kannski svolítil samkeppni en allt á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Eiginlega minnti þetta svolítið á þegar jólaskreytingarnar eru að koma upp á aðventunni. Stemningin ekkert ólík enda Kántrýdagar að mörgu leyti líkir jólunum í eðli sínu. Dagar til að gleðjast, skreyta og fagna, hafa gaman.
Dagskráin hefst svo í dag kl 18.00 með því að krakkarnir bjóða heim í kofabyggðina og halda uppskeruhátíð á garðræktinni. Svo er kántrýsúpan kl 19.00 og þá fara hoppukastalarnir í gang. Kántrýsöngvarinn Gis Jóhannsson og Guðmundur Jónsson sjá svo um tónlistina í hátíðartjaldinu en Haldapokarnir trekkja stemninguna í Kaffi Bjarmanesi. Í Kántrýbæ sér hljómsveitin Sólon um stuðið fram á nótt.
17.08.2007
Miðvikudaginn 15. Ágúst s.l. tóku allir kennarar grunnskóla Húnaþings þátt í dags námskeiði, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, um vandaðan upplestur og framsögn.
Kennarar voru: Baldur Sigurðsson, dósent og Þórður Helgason, dósent.
Á námskeiðinu var m.a. fjallað um grundvallaratriði í kennslu munnlegrar tjáningar, líkamsstöðu, öndun, upplit og framsögn
Unnið var með ljóð og laust mál og dæmi gefin um mismunandi kennsluaðferðir.
Þátttakendur fengu einnig tækifæri til að slípa eigin frammistöðu og taka þátt í jákvæðri og uppbyggjandi gagnrýni.
Auk þess var fjallað um þýðingu raddbeitingar með tilliti til aga og stjórnunar.
Mynd: Þátttakendur og leiðbeinendur að störfum.
Frekari upplýsingar veitir undirritaður
*************************************************
Guðjón E Ólafsson, sérkennslufræðingur
Fræðslustjóri A- Húnvetninga
símar: 4554305 og 8955796
tölvupóstur, gol@mi.is
17.08.2007
Þann 14. ágúst s.l. var haldið, á vegum Fræðsluskrifstofunnar, námskeið um notkun námsefnisins Geisli og Eining í stærðfræði. Tuttugu og fimm kennarar grunnskólanna í Húnavatnssýslum mættu til að læra um notkun námsefnisins. Þátttakendur fengu Ítarlega kynning á námsefninu og hugmyndum að baki þess.
Kynntar voru skipulagsaðferðir sem auðvelda kennurum að skipuleggja kennslu stærðfræðinnar.
Leiðbeinandi á námskeiðinu var Jónína Marteinsdóttir, kennari. Námskeiðið var haldin í Grunnskóla Húnaþings vestra.
Mynd: Þátttakendur og Leiðbeinandi.
09.08.2007
Er ekkert pláss fyrir bílinn í bílskúrnum ? Er geymslan yfirfull ? Ertu að kafna í drasli ? Er þá ekki upplagt að gera eitthvað í því ?
Fyrirhugað er að halda flóamarkað á Kántrýdögum, laugardaginn 18. ágúst ef næg þátttaka er fyrir hendi.
Þeir sem hafa áhuga og vilja vera með sölubás og selja gamallt dót, allt frá fingurbjörgum til sláttuvéla vinsamlegast hafið samband við okkur sem allra fyrst. Í síðasta lagi þriðjudaginn 14. ágúst. n.k.
Við veitum allar nánari upplýsingar.
Björk Sveins, Súsý Magg, Dadda Sigmars.
452 2909 452 2827 861 5089
09.08.2007
Undirbúningur fyrir Kántrýdaga stendur nú sem hæst og er dagskráin sem óðast að taka á sig mynd. Kántrýdagarnir verða með mjög svipuðu sniði og í fyrra enda feikna vel heppnaðir þá.
Á föstudeginum 17. ágúst er gert ráð fyrir að yngsta kynslóðin byrji með því að bjóða heim í Smábæ á Kofavöllum og kynni húsakynni og bæjarbrag í kofabyggðinni. Eftir það verður boðið til Kántrýsúpu að hætti Sibba í hátíðartjaldi. Þá munu Gummi Jóns og einhverjir fleiri vera með tónlistardagskrá í tjaldinu. Í Kaffi Bjarmanesi verður tónlist að hætti Haldapokanna fram yfir miðnætti. Hljómsveitin Sólon leikur svo fyrir gesti og dansara í Kántrýbæ fram til kl. 03.
Laugardagurinn 18. ágúst byrjar á dorgveiðikeppni á höfninn kl. 11.00. Flóamarkaður verður opnaður í gamla vinnsluhúsinu á Hólanesi (Fjörubraut 8). Þar verður lagt upp með að fólk finni einmitt það sem það vantar hjá þeim sem þurfa einmitt að losna við sömu nytjagripi. Hoppukastalar verða svo settir upp á hátíðarsvæðinu kl 13.00 en barna- og fjölskyldudagskrá hefst kl 15.00. Þar verður margt gott til skemmtunar fyrir börn á öllum aldri. Í Kaffi Bjarmanesi verður kaffihlaðborð kl 15-18. Þegar líður á daginn þyngist takturinn og kl 17.00 verður rokkað í hátíðartjaldi þar sem ungar hljómsveitir taka nokkrar syrpur. Á hótel Dagsbrún verður skjávarpasýning á myndum af fólki og fyrirbærum á Skagaströnd. Barinn á hótelinu verður opinn fyrir þá sem eiga erfitt með að horfast í augu við gömlu myndirnar af sér. Stóru grillin verða svo hituð upp og höfð til staðar fyrir sameiginlegu grillveisluna þar sem hver kemur með sinn búnað og grillmeti. Hugmyndir eru uppi um að veita verðlaun fyrir frumlegasta picnik búnaðinn. Skemmtidagskrá á palli hefst svo kl 20.30 þar sem verður Afró danssýning og Hara systur, Gis Jóhannsson, Lúgubandið, Angela og Hans Birgir og fleiri skemmta. Í Kántrýbæ verður svo dansað fram á nótt við undirleik Kántrýsöngvarans Gis og félaga.
Sunnudaginn 19. ágúst verður hin hefðbundna ómissandi gospellmessa í hátíðartjaldi og hefst kl 13.30. Þar mun séra Fjölnir Ásbjörnsson stýra messuhaldi en Óskar Einarsson stjórna gospellkórnum.
Íbúar eru hvattir til að skreyta hús, garða, götur, bíla, sjálfa sig og hvern annan. Í fyrra var áberandi að íbúar í ákveðnum götum stóðu sérlega vel að skreytingum og eru væntingar til að fleiri sýni góða takta í þessum efnum.
Stöndum saman og skemmtum okkur saman
Tómstunda- og menningarmálanefnd
02.08.2007
Dagana 10.-12.ágúst 2007 verður haldin hátíð sem á sér nú 15 ára langa sögu en það er Handverkshátíð á Hrafnagili. Fáir viðburður eiga sér jafnlangan feril. Hátíðarsvæðið er staðsett 10 km frá Akureyri svo mikill fjöldi fólks hefur gjarnan sótt hátíðina. Setning hátíðar er 10.ágúst klukkan 10. Opnunartími er 10-19 föstudag, laugardag og sunnudag.
Í fyrra tók sýningin sem þá hét “Uppskera og handverk 2006” heilmiklum breytingum og vakti það mjög jákvæða athygli. Hún varð að skemmtilegri blöndu handverks- og fjölskylduhátíðar þar sem allir fundu eitthvað við sitt hæfi. Sýningarsvæðið tvöfaldaðist og dæmi voru um að gestir komu alla daga hátíðarinnar því eitthvað nýtt var að gerast dag hvern. Aðgöngumiðinn kostar 1.000.- og gildir alla helgina, það er frítt fyrir börn. Mjög gott samstarf var haft við Fiskidaginn mikla sem er einmitt haldinn sömu helgi ár hvert. Nú verður gengið skrefinu lengra og ýmsar nýjungar þróaðar enn frekar.
Nýjungar :
· Svokallað verksvæði vakti gífurlega athygli í fyrra og mikið af verkum voru unnin á hátíðinni. Meðal annars var 500 kílóa risi í smíðum, rafmagnsgítar í stærðinni 4 metrar, rennismiðir að störfum, vinnsla á hornum, hnífasmíði og fleira og fleira. Verksvæðið verður ekki minna fjölbreytt í ár. Stór verk í smíðum og fjölbreytt vinna með alls kyns hráefni. Að minnsta kosti eitt stórt verk er í burðarliðnum en það er mótorhjól í fullri stærð skorið í tré. Bæði innlendir og erlendir aðilar mun taka þátt í verksvæðinu.
· Tískusýningar á skinniklæddum palli vöktu mikla athygli í fyrra og því hefur verið leitast við að fá hönnuði inn sem munu sýna verulega flotta hönnun og nýtingu á hráefni. Það kemur ein frá Noregi, Bine Melby sjá meðfylgjandi myndir, en hún er að vinna magnaðar flíkur úr kúaskinnum. Þessi kona mun halda fyrirlestur klukkan 15 á laugardeginum um vinnu sína við að varðveita menningarsögulega bústofna í Noregi og nýtingu á kúaskinnum. Hún mun taka þátt í tískusýningum og vera með sýningu á hönnun sinni.
· Krambúð verður rekin af hálfu sýningarinnar og fjöldi listamanna hafa sent muni sína í þessa listmunabúð. Umsjónaraðili að þessu sinni er Sigríður Örvarsdóttir textílhönnuður og sér hún um uppsetningu og val á munum inn í Krambúð.
· Dimmuborgarjólasveinar munu líta við á leið sinni í Jólagarðinn þar sem þeir ætla að hitta fyrir Grýlu. www.snowmagic.is verkefnið verður á svæðinu og kynnir sig og það sem þau eru að gera. Loðinlumpa Grýlu verður einnig frumsýnd í tengslum við hátíðina, sjá meðfylgjandi mynd.
· Handverksmaður ársins var valinn í fyrsta skipti á hátíðinni 2006. Ragnhildur Magnúsdóttir í Gýgjarhólskoti eða Ranka í Kotinu var valin handverksmaður ársins 2006. Spennandi verður að sjá hver verður fyrir valinu fyrir árið 2007. Sölubás ársins var valinn á hátíðinni 2006. Himneskir herskarar sköruðu framúr við valið í fyrra og hlaut titilinn sölubás ársins 2006. Verðlaunaafhendingar verða á laugardagskvöldinu ásamt því að tónleikar verða með Ljótu hálfvitunum í Tónlistarhúsinu Laugarborg klukkan 21:30.
· Vélasýning var frábær viðbót á síðasta ári því að uppskeruhlutinn verður ekki fullbúinn nema vélar og tæki séu til sýnis á svæðinu. Þetta kryddaði hátíðina verulega og mikil ánægja var meðal gesta með þessa nýjung. Nú verður leitast við að sýna vélar í anda kornræktar á Íslandi, gamli tíminn mun mæta nýja tímanum á sýningarsvæðinu.
· Dýrasýning vakti mikla athygli svo það verður endurtekið, ásamt því að Félag landnámshænsna mun koma með sýningu. Í fyrra voru 65 fuglar sem kepptust um titilinn hæna ársins og hani ársins. Gestir völdu fallegustu fuglana.
· Nýjung á hátíðinni þetta árið er myndlistarsýning undir berum himni.
Gallerí Víðátta 601 hefur það að markmiði að standa fyrir myndlistarsýningum utan hefðbundinna sýningarsala hérlendis og erlendis. Í Gallerí Víðáttu 601 verður Grálist með samsýningu en Grálist er samsýningahópur ungra myndlistamanna sem öll útskrifuðust frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2006 og 2007. Grálistahópurinn er óháður og hæfileikaríkur myndlistahópur sem sýnir list sína ýmist saman í heild, í smærri hópum eða sem einstaklingar undir nafni Grálistar.
Hópurinn vinnur í ýmsa miðla myndlistar á frjálslegan, frjóan og skapandi hátt. Gallerí Víðátta 601 verður staðsett á útisvæði hátíðarinnar og verður með afar frumlega útstillingu.
Námskeið – í tengslum við hátíðina verða eftirfarandi námskeið á dagskrá : Leðursaumur með Önnu Gunnarsdóttur, Þæfing með Valborg Mortensen, Hálmfléttingar með Doris Karlsson og Eldsmíði með Beate Stormo.
Frekari upplýsingar á www.handverkshatid.is
Allar nánari upplýsingar gefur Dóróthea Jónsdóttir í síma 864-3633