Vatnslaust frá kl. 14 á föstudaginn

Vatnslaust verður á Skagaströnd föstudaginn 25. september 2009. Ástæðan er viðgerð á vatnslögn bæjarins. Ekki er hægt að segja til um hversu lengi viðgerðin mun standa en vonir standa til að það verði ekki lengi.

Árdís og Ólafía sigruðu í Gettu betur

Þátttakendur í spurningakeppninni Gettu betur síðsta föstudagskvöld létu spyrilinn, Steindór R. Haraldsson, vel finna fyrir sér. Samkvæmt reglum keppninna má draga þekkingu og hæfni spyrilsins í efa og var nýttu menn sér það svikalaust. Fyrir vikið varð þetta ein skemmtilegasta spurningakeppnin frá upphafi enda Steindór með orðheppnari mönnum og leyfði engum að eiga neitt inni hjá sér. Taka verður fram að spyrillinn er einnig dómari og alvaldur og því átti Steindór alls kostar við óeirðaseggi í hópi þátttakenda. Þó verður að segjast eins og er að spurningar Steindórs voru í erfiðari kantinum. Yfirleitt hefur þurft 20 til 24 rétt svör til að sigra en sigurvegararnir, Árdís Indriðadóttir og Ólafía Lárusdóttir, náðu aðeins 16 stigum. Segir það sína sögu um spurningarnar. Um þrjátíu manns tóku þátt að þessu sinni. Ár er nú liðið frá því að Kántrýbær tók að bjóða upp á þessa nýbreytni í bæjarlífinu og væntanlega verða þau enn fleiri. Framvegis verða spurningar og svör úr síðustu keppni birtar hér á vef sveitarfélagsins. Það er gert til að sýna þeim sem ekki mæta hversu skemmtilega keppnin í raun og veru er. Eins geta þeir sem taka að sér hlutverk spyrils séð hvernig semja má spurningar. Spurningar vegna Gettu betur 18. september 2009 1. Hvert var upphaflegt nafn Páls postula?  Svar: Sál. 2. Hvers sonur var Halldór Laxnes og hvað hét hann að miðnafni.  Svar: Guðjónsson, Kiljan  3. Hvað er Vítabikar?  a. Bikar sem vinnst í fótbolta með vítaspyrnu  b. Bikar sem piltar í Lærða skólanum urðu að drekka úr vegna inngöngu í skólann. c. Bikar með götum í efri hluta, mjög vandasamt er að drekka úr honum án þess að hella niður.  d. Getnaðarvörn.        Svar: C  4. Eftir hvern er sagan Leggur og skel?  Svar: Jónas Hallgrímsson. 5. Landnáma er safnrit um landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur. Hvað voru landnámsmennirnir margir?  a. 430 b. 97 c. 748 d. 2130 Svar: 430 6. Hver var biskup yfir Íslandi þegar Jóhannes Páll II páfi kom hingað í heimsókn. Svar: Hr. Pétur Sigurgeirsson. 7. Hvað er Sólselja?  Svar: Dill. 8. Linda Eastman McCartney átti eitt barn þegar hún kynntist Paul McCartney en hvað áttu þau mörg börn saman?  Svar: Þrjú 9. “Vér mótmælum allir” er vinsæl setning um þessar mundir. Hvaða ár var þetta sagt og við hvaða tækifæri  Svar: Þjóðfundurinn 1851. 10. Hvað heitir hæsta fjall Afríku.  Svar: Kilimanjaro. 11. Hver er efnaformúla vatns?  Svar: H2O. 12. Hvar og hvenær verða næstu Ólympíuleikar haldnir?  Svar: London 2012. 13. Hvernig er þakið á Vindhæli á lit?  Svar: Ómálað. 14. Hversu mörg ár hefur Magnús B. Jónsson verið sveitarstjóri á Skagaströnd?  Svar: 19 ár. 15. Hvernig stóð á því að Edison betrum bætti ljósaperuna?  Svar: Hann kveikti á perunni. 16. Botnið málsháttinn: “Sú er ástin heitust sem ...“  Svar: Sú er ástin heitust sem bundin er meinum. 17. Skáldsagan “Gamli maðurinn og hafið” var skrifuð á Kúbu 1951. Hver er höfundurinn?  Svar: Ernest Hemingway. 18. Hvað heitir Japan á japönsku?  Svar: Nippon. 19. Hvað heitir Sýslumaður Húnvetninga?  Svar: Bjarni Stefánsson 20. Deildu í 30 með 1/3 og bættu 10 við. Hver er niðurstaðan?  Svar: 100, (30  deilt með 1/3 = 90) 90+10=100. 21. Hver er fituprósenta nýmjólkur í bláu fernunum?  Svar: 3,9%  22. Það eru ekki margir sem vinna Óskarsverðlaun tvö ár í röð fyrir aðalhlutverk, það gerði þó góður leikari 1993 og 1994. Önnur myndin er borgarnafn í BNA, hin minnir viðinn í þessu húsi. Hverjar eru þessar myndir og hver er leikarinn?  Svar: Philadelfia og Forrest Gump. Tom Hanks 23. Hvað er síminn hjá lögreglunni á Blönduósi?  Svar:  455 2666 24. Hvað hét fyrsta verslunin sem Hallbjörn Hjartarson stofnaði á Skagaströnd og hvers konar verslun var það?   Svar: Verslunin Vík. Nýlenduvöruverslun 25. Hvernig er unnt að sjóða egg í fimmtán mínútur ef það eina sem hægt er að mæla tímann með eru tvö stundaglös, annað tæmist á sjö mínútum og hitt á ellefu mínútum?  Svar: Eggið er sett í sjóðandi vatn og bæði stundaglösin eru sett af stað. Eftir 7 mínútur er minna stundaglasinu snúið við og síðan aftur þegar stærra glasið tæmist. (Þá eru 11 mínútur liðnar og minna glasið búið að mæla fjórar mínútur). Þegar minna glasið tæmist eru komnar 15 mínútur. 26. Á 4 árum eru 20 mánuðir með 31 dag hver. Hversu margir mánuðir á þessum 4 árum hafa 28 daga?  Svar 48, hlýtur að vera. 27. Hversu margar skepnur af hvoru kyni tók Móses með sér um borð í örkina?  Svar: Móses var ekki í þessum buisness, Það var Nói! 28. Hve mörg 2.(tveggja) krónu frímerki eru í tylft?  Svar: 12, það eru tólf í tylft.   29. Er löglegt á Íslandi að giftast systur ekkju sinnar?   Svar:  Nei, látnir mega ekki giftast!   30. Hvað er skoffín?  Svar: Afkvæmi tófu og kattar og er kötturinn móðir.

Auglýsing um skráningu katta

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samþykkt reglugerð um kattahald sem Umhverfisráðuneytið hefur staðfest. Í reglugerðinni segir m.a.: Sveitarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í sveitarfélaginu leyfi til kattahalds með ákveðnum skilyrðum. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang viðkomandi og er ekki framseljanlegt. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem það er gefið út fyrir. 
 Allir heimiliskettir á Skagaströnd skulu skráðir á skrifstofu sveitarfélagsins gegn greiðslu skráningargjalds og þar fá eigendur heimiliskatta afhenta númeraða plötu með skráningarnúmeri kattarins, sem alltaf skal vera í ól um háls dýrsins. 
 Óheimilt er að láta kött, eldri en 3ja mánaða, dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir hann. Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en þrjá ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimilinu. Umsókn um leyfi til kattahalds skal skila inn á skrifstofu sveitarfélagsins á þar til gerðum eyðublöðum. Með undirritun umsóknar skuldbindur umsækjandi sig til að hlíta í einu og öllu fyrirmælum samþykktar um kattahald. Sveitarstjóri eða fulltrúi hans synjar eða gefur út umbeðið leyfi.“ Gjaldskrá fyrir kattahald hefur sömuleiðis verið ákveðin og er árlegt leyfi til kattahalds 1.500 kr. en aukagjald fyrir týnt merki 1.000 kr. Framangreind ákvæði um kattahald hafa þegar tekið gildi og því er skorað á kattaeigendur að skrá ketti sína hið fyrsta og merkja þá með sérstökum merkjum sem afhent eru við skráningu. Sömuleiðis eru hundaeigendur áminntir um skráningu séu hundar þeirra ekki þegar á skrá. Reglulega þarf að ganga í að eyða villiköttum. Til að tryggja að heimiliskettir séu ekki teknir í misgripum þarf að merkja þá að öðrum kosti gætu þeir verið álitnir villikettir og meðhöndlaðir sem slíkir. Skagaströnd 16. september 2009 Fyrir hönd sveitarstjórnar Sveitarstjóri

Lokað fyrir vatnið á Fellsbraut

Lokað verður fyrir vatnið á Fellsbraut og nágrenni vegna bilunar núna síðdegis, fimmtudaginn 17. september. Gert er ráð fyrir að viðgerðin taki um það bil hálftíma og verði væntanlega komið aftur á um klukkan 17.  

Drama- og grínóperur í Miðgarði á laugardaginn

Tvær óperur verða sýndar í Miðgarði laugardaginn 19. september kl. 20:30. Þær heita „The Telephone“, bresk grínópera eftir Gian Carlo Menotti og „Biðin“, dramatísk rússnesk ópera eftir Mikael Tariverdiev. Jón Hlöðver Áskelsson tónlistargagrýnandi Morgunblaðsins gaf sýningunni fjórar stjörnur.  Miðaverð er kr. 1500, kr. 1000 fyrir eldri borgara. Upplýsingar um óperurnar og þá sem að að þeim koma eru hér fyrir neðan.  www.flickr.com/dreamvoices - ljósmyndasíða. www.dreamvoices.is – heimasíða, frekari upplýsingar um Alexöndru og hennar verkefni. http://www.youtube.com/alexandrachernyshova - myndbandasíða - þar er hægt að sjá brot úr báðum óperunum.

Spurningakeppnin Drekktu betur á föstudagskvöldið

Loksins byrjar spurningakeppnin DREKKTU BETUR aftur eftir sumarfrí. Nú er nákvæmlega ár síðan þessi vinsæla keppni byrjaði í Kántrýbæ. DREKKTU BETUR er aðeins leikur. Hann er einfaldur og er aðeins ætlað að vera til skemmtunar.  Einn stjórnandi er hverju sinni og eru völd hans algjör, hann semur spurningar og er dómari. Ákvörðun hans er endanleg þó svo að hann hafi sannarlega rangt fyrir sér. Hins vegar mega þátttakendur gangrýna hann eins og þeir vilja. Tveir keppendur geta verið í hverju liði og þeir skrifa svörin niður á sérstakt svarblað. Þegar búið er að spyrja allra spurninga er svörunum safnað saman og þeim síðan dreift aftur um salinn og þess gætt að enginn fari yfir eigið svarblað. Stjórnandi fer síðan yfir svarblað þess sem sigrar og gætir að því að rétt sé að málum staðið. Ein spurning er nefnd „bjórspurningin“ og fyrir rétt svar fæst ókeypis bjór á barnum. Ekki er sagt frá því hver spurningin er fyrr en við yfirferð svara. Nafn spurningakeppninnar kemur til að því að ókeypis er inn í Kántrýbæ en þátttakendur eru hvattir til að drekka nóg upp í húsaleiguna og er margt í boði, kaffi, gos, bjór og vín. Það gengi auðvitað ekki að nafn keppninnar væri Éttu betur en í sjálfu sér kemur það á sama stað niður. Föstudagskvöldið 18 sept. Steindór R. Haraldsson verður spyrill, dómari og alvaldur í spurningakeppninni DREKKTU á föstudagskvöldið. Hann getur verið dálítið ólíkindatól, er jafnvel vís með að spyrja eingöngu spurninga um sig sjálfan eða störf sín. Sjálfur segist hann verða með svona „kommon sens“ spurningar og líklega á hann við að svörin byggist á almennri skynsemi. Svo bætir hann því við að auðvitað muni hann spyrja um örfá atriði í fréttum undanfarinna vikna og nefnir í framhjáhlaupi að gott sé að vita eitthvað um bankahrunið! Þeir sem þekkja Steindór vita að hann gæti átt það til að spyrja afar einfaldra spurninga eins og hvernig er vanilla á bragðið. Vefst þá flestum tunga um höfuð. En Steindór hlær bara og segist ekkert ætla að vera neitt fræðilegur enda er spurningakeppnin eintóm skemmtun.

Gangnaseðill 2009

GANGNASEÐILL 2009 Það tilkynnist hér með að haustgöngur fara fram laugardaginn 19. september sé fært leitarveður, ella þá næsta leitarfæran dag. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottósson. Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir og hrossarétt Rögnvaldur Ottósson. 1. Göngur: Gangnamenn smali svæðið frá Urriðalæk vestur yfir flárnar og Grasás yfir Ytri-Botnalæk í veg fyrir gangnamenn úr Skagabyggð. Heiðina vestan sýslumarka eftir venju til réttar, einnig Borgina utan skógræktargirðingar. Gert er ráð fyrir að gangnamenn úr Skagabyggð smali svæðið norðan Brandaskarðsgils milli Stallabrúna og Hrafnár til norðurs. Í heiðargöngur leggi eftirtaldir til menn: Rögnvaldur Ottósson 3 menn Jón Heiðar Jónsson 1 mann Eðvarð Ingvason 1 mann Þorlákur Sveinsson 2 menn Í Borgina leggi eftirtaldir til menn: Þorlákur Sveinsson 1 mann Rúnar Jósefsson 2 menn Fé og hross úr heiðinni og Borginni og úr heimahögum sé rekið að Spákonufellsrétt laugardaginn 13. september og réttað samdægurs. Bæði fjárrétt og hrossarétt verður þann dag. Ber eigendum að vera þar til staðar og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði lokið fyrr en dimmt er orðið. 2. Eftirleit fer fram laugardaginn 26. september verði bjart veður ella næsta leitarfæran dag. Þær annast Ásgeir Axelsson 3. Fjárskil verða mánudaginn 5. október í Kjalarlandsrétt. 4. Útréttir: Í fyrri Fossárrétt hirðir Rúnar Jósefsson Í seinni Fossárrétt hirðir Búi Birgisson Í fyrri Kjalarlandsrétt hirðir Rúnar Jósefsson Í seinni Kjalarlandsrétt hirðir Eðvarð Ingvason 5. Smölun heimalanda: Fjáreigendur eru hvattir til að hreinsa vel landspildur sínar af öðru búfé en þeirra eigin fyrir göngur sem og eftirleit, svo að göngur og réttir geti orðið árangursríkar. Að öðru leyti en hér er tekið fram eru skyldur og réttindi manna samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Austur - Húnavatnssýslu. Greiðslur til og frá fjallskilasjóði fara fram hjá sveitarstjóra. Skagaströnd 16. september 2009 _________________________________ Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.

1100 tonn af brotajárni í skip

Hringrás er nú að flytja um 1100 tonn af brotajárni um borð í flutningaskip sem liggur í Skagastrandarhöfn. Þetta er einungis hluti af því sem safnast hefur saman á undanförnum misserum og búast má við því að járnið gangi nú í endurnýjaða lífdaga og birtist hugsanlega aftur á Íslandi sem ísskápur, steypustyrktarjárn eða eitthvað annað. Annar og stærri haugur bíður útflutnings en það eru bílflök sem hafa verið pressuð saman. Ástæðan fyrir því að þau fara ekki með þessu skipi er að vinnsluaðferðirnar eru ólíkar. Bílflökin eru tætt í sundur og síðan flokkuð og brædd en járnið fer beint í bræðslu. Að sögn forráðamanna Hringrásar er ekki hægt að segja til um hvenær bílflökin fara en væntanlega er skammt í það. Flutningaskipið Wilson Gijon fer næst til Akureyrar sem og starfsmenn og bílafloti Hringrásar og útflutningurinn heldur áfram.

Ásgarður í viðgerð

Viðgerðir á Ásgarði, einni af bryggjunum á Skagaströnd, stendur nú yfir. Rekin eru niður stór járnrör við hliðina á tréstaurunum sem bera uppi bryggjukantinn. Heimamenn starfa að verkinu undir stjórn Lárusar Einarssonar.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur  foreldrafélags Höfðaskóla verður haldinn fimmtudaginn 17. september 2009 klukkan 20:00 í Höfðaskóla. Dagskrá fundarins Skýrsla formanns. Reikningar lagðir fram. Kosning nýrrar stjórnar. Kosning í skóla- og fræðsluráð. Önnur mál. Myndataka Gjöf foreldrafélags til Höfðaskóla Ofþyngd barna í Höfðaskóla Allir foreldrar barna í Höfðaskóla eru hvattir til þess að mæta. Stjórnin