02.06.2011
Sjónvarpsstöðin N4 var á ferðinni á Skagaströnd í lok maí og tók viðtal við Dagnýju Sigmarsdóttur og Ernst J Backman um uppbyggingu Spákonuhofs í gamla samkomuhúsbragganum. Viðtalið má finna á http://www.n4.is/tube/file/view/1816/
01.06.2011
Matjurtagarðarnir á Tótutúni hafa verið tættir og eru tilbúnir til notkunar.
Þeir sem hyggjast nýta sér plássið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Árna Geir í síma 861 4267.
01.06.2011
Fimmtudaginn 2. júní, kl. 16.00, verður Richard Hughes golfkennari með golfsýningu (golf tricks) á Háagerðisvelli.
Ýmis kennslutilboð í golfi verða kynnt á staðnum, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.
Þeir sem hafa áhuga á kennslu hafi samband við Richard í síma 847 0875 eða Ingiberg í síma 892 3080.
Munið að það er opið fyrir skráningu í golfskólann fyrir börn og unglinga.
Allir velkomnir
01.06.2011
Nákvæmlega þrjú ár eru nú frá því að fyrstu listmennirnir komu til dvalar hjá Nesi listamiðstöð ehf. Meðal þeirra fyrstu voru rithöfundarnir Bjarni Bjarnason og Þorgrímur Þráinsson. Þeir lásu upp úr verkum sínum í kaffihúsinu Bjarmanesi. Húsfyllir var og skemmtu allir sér vel, rithöfundarnir sem og áheyrendur.
Fyrirmyndin er þekkt víða um heim og raunar einnig hér á Íslandi. Listamönnum er einfaldlega boðið að sækja um aðstöðu gegn gjaldi. Dvalartíminn hefur verið að lágmarki í einn mánuður en fjölmargir hafa verið lengur og dæmi eru um að listmenn hafi verið hér í sex mánuði. Rétt um 285 listmenn hafa dvalið þennan tíma á Skagaströnd. Meðaldvalartíminn er um einn og hálfur mánuður.
Þess má líka geta að sumir hafa komið með fjölskyldur sínar og jafnvel eru dæmi um að barn listamanna hafi stundað nám sitt í Höfðaskóla á Skagaströnd. Makar og börn eru ekki með í ofangreindri tölu.
Dvöl listamanna á Skagaströnd hefur þegar reynst mikil lyftistöng fyrir samfélagið enda vilja listamennirnir fúslega leggja sitt af mörkum til að efla menningarlífið. Nefna má viðburði eins og listsýningar, örnámskeið, fyrirlestrahald og samstarf við skóla og stofnanir bæjarins.
Fjölmargt má nefna: Mánaðarlega hefur verið efnt til svokallaðra opinna húsa og bæjarbúum þá gefin kostur á að heimsækja listamiðstöðina. Þeir hafa tekið á móti fólki og kynntu þeim list sína og fluttu fyrirlestra eða tóku fólk tali í smærri hópum og svöruðu spurningum.
Aðsóknin hefur verið mismunandi eða allt frá 20 til um 160 manns. Listmennirnir hafa verið einkar duglegir og áhugasamir um að bjóða upp á vinnusmiðjur fyrir krakkana í bænum. Nefna má að í vor var öllum krökkum í 3. til 8. bekk boðið að koma á hverjum mánudegi til að vinna lítil verkefni með listamönnunum. Einnig voru haldin námskeið fyrir krakka í grímugerð, listmálun, skúlptúrgerð, gerð „stop motion“ myndbanda og vatnslitamálun svo eitthvað sé nefnt.
Einnig hefur listamiðstöðin „lánað“ listamenn „yfir fjallið“. T.d. tóku þrír listamenn þátt í að kenna bókband, ljósmyndun og dans á þemadögum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra síðastliðið vor.
Atvinnudansari sem dvaldi hjá Nesi síðastliðið vor tók þátt í kántrýdönsum með Kántrýdansahópnum Sylgjunum. Það varð svo til þess að hún samdi dans fyrir hópinn og þegar hann tók þátt í keppni í Reykjavík í maí 2010 var hann hluti af dagskránni.
Listamenn hafa verið duglegir að standa fyrir gjörningum þar má nefna, „Bláa útgáfan“ gjörningur með ljósi og lyfturum eftir Anna Grunemann „drawing a straight line“ gjörningur í samvinnu nemendur grunnskólans eftir Aimée Xenou og „Survey of sound“ hljóðgjörningur í Hólaneskirkju eftir Tim Bruniges og Sarah Mosca.
Haldnar voru nokkrar sýningar á síðasta ári. Fyrst ber að nefna „After works“ í kjallaranum á Bjarmanesi á Kántrýdögum, þar sýndu þeir Jude Griebel og Jared Betts málverk sín.
Í fyrra var efnt til sýningarinnar „Inspired by Iceland“ í Frystinum Gallerí á Kántrýdögum. Listamiðstöðin hafði biðlað til þeirra listamanna sem höfðu dvalið á Skagatrönd og fengið marga þeirra til að senda að senda listaverk á sýninguna. Fjölmörg verk bárust og gáfu flestir listamennirnir Sveitafélaginu Skagaströnd verkin. Aimée Xenou setti svo nú í febrúar mánuði upp skemmtilega sýningu í kjallaranum á Bjarmanes undir heitinu „Það er“.
Á haustdögum dvöldu hjá Nesi tvær þýskar listakonur sem komu í gegnum samvinnuverkefni við Künstlerhaus Lukas í Þýskalandi. Þær stóðu fyrir „Swap shop“, eins konar skiptimarkaði og bauðst heimamönnum að koma og skipta við þær á einhverju heimagerðu og listaverki eftir þær. Vakti þetta mikinn áhuga bæjarbúa.
Í desember kom listakona frá Bandaríkjunum til þess eins að kenna námskeið í hefðbundinni japanskri pappírsgerð. Pappírgerðarnámskeiðið var einn af fjölmörgu viðburðum sem listakonan Aimée Xenou stóð fyrir á meðan dvöl hennar stóð. Bróðir hennar kom sérstaklega til að spila á orgelið í kirkjunni meðan á gjörningi stóð en í honum tóku einnig þátt stúlkur sem hafa verið að læra dans hjá heimamanninum Andreu Kasper hér í vetur. Foreldrar Aimée komu einnig og tóku þátt í seinni hluta gjörningsins „Innflutningur á fjölskyldu“ þar sem lesin voru brot úr bréfum frá móður Aimée. Mesta athygli vöktu þó kökurnar, en þær mæðgur bökuðu eina smáköku fyrir hvern og einn bæjarbúa og þær voru í ofanálag merktar íbúanum. Íbúar þurftu svo að hafa fyrir því að finna kökuna á kökuborði í listamiðstöðinni.
Eitt af markmiðum Ness listamiðstöðvar er að færa listina nær fólkinu og eins og má sjá á upptalningunni hér að ofan hefur margt skemmtilegt verið gert sem vakið hefur áhuga og athygli bæjarbúa og íbúa á Norðurlandi vestra.
Níu listamenn eru nú komnir til Skagastrandar og munu dvelja hér í júní. Hér eru nöfn þeirra:
Emily Browne Bandaríkjunum
Karen Voltz Bandaríkjunum
Naomi Falk Bandaríkjunum
Evelin Rupschus Þýskalandi
Shane Finan Írlandi
Dieter Wagner Þýskalandi
Adrian Hatfield Bandaríkjunum
Candice Chu Bandaríkjunum
MinHae Lee Suður Kóreu
Jill Connell Kanada
Ellie Brown Bandaríkjunum
Ástæða er til að hvetja fólk til að skoða heimasíðu Nes listmiðstöðar, www.neslist.is og fésbókarsíðuna.
01.06.2011
Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins 2011
Yfirlitssýning á verkum Guðrúnar J. Vigfúsdóttur veflistakonu frá Ísafirði, verður opnuð laugardaginn 4. júní n.k. kl. 14.00.
Eyrún Ísfold Gísladóttir, dóttir listakonunnar, ræðir við gesti og opnar sýninguna.
Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson stíga á stokk með ljúfan tónlistarflutning.
Að vanda verður boðið uppá kaffi og kleinur, mjólk/kókómjólk fyrir börnin.
Aðgangur er ókeypis á opnunina og allir hjartanlega velkomnir.
Heimilisiðnaðarsafnið verður opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 10.00 - 17.00