Framhaldsdeild (dreifnám) er möguleiki í Austur Húnavatnssýslu
15.11.2012
Á dögunum fóru fulltrúar sveitarfélaganna í Austur Húnavatnssýslu á fund mennta- og menningarmálaráðherra til að fylgja eftir ósk um stuðning við að starfrækja dreifnám í samstarfi við FNV í heimahéraði.
Rökin fyrir beiðninni eru m.a. eftirfarandi:
Að gefa nemendum í A-Hún. kost á að stunda framhaldsnám í heimabyggð með stofnun framhaldsdeildar á Blönduósi. Gert er ráð fyrir að núverandi skólaakstur sveitarfélaganna verði nýttur til að gera nemendum úr Húnavatnshreppi og Skagaströnd mögulegt að nýta dreifnám ásamt ungmennum á Blönduósi.
Kennslan fer fram í gegnum fjarbúnað, með aðstoð kennara á kennslustað í fjarnámsstofu.
Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir fjölskyldur í A-Hún. Ólíkt því sem blasir við nemendum í þéttbýli, eftir að grunnskóla lýkur, verða nemendur í A-Hún. að sætta sig við brottflutning að heiman um 16 ára aldur til þess að geta stundað framhaldsnám. Þetta hefur augljóslega aukinn kostnað í för með sér fyrir forráðamenn sem þurfa að standa staum af kostnaði við dvöl á heimavist og í sumum tilfellum að halda úti tveimur heimilum á meðan á námi stendur.
Vonir eru bundnar við að uppbygging dreifnáms komi til með að minnka stórlega brottfall nemenda úr framhaldsskóla. Mörg dæmi eru um að nemendur sem treysta sér illa til að búa fjarri fjölskyldu flosni upp úr námi sökum öryggis- og stuðningsleysis.
Ungmenni á aldrinum 16-18 ára eru ákaflega mikilvæg þeim samfélögum sem þau tilheyra. Því er mikilvægt að þau fái tækifæri til þess að dvelja á heimilum sínum eins lengi og kostur er og vera virkir þátttakendur í menningar- félags- og íþróttalífi sinna samfélaga.
Annar markhópur dreifnáms eru fullorðnir eintaklingar, eða ungmenni sem flosnað hafa úr námi, sem gætu nýtt sér þennan möguleika til þess að hefja nám eða halda áfram námi sem annars hefði ekki orðið.
Sannfæring er fyrir því að slíkt fyrirkomulag hefði víðtæk og mikilvæg áhrif á allt samfélag í Austur Húnavatnssýslu og óskuðu því sveitarfélögin eftir stuðningi við verkefnið.
Á fundinum með ráðherra og aðstoðarmönnum hennar komu fulltrúar sveitarfélaganna öllum helstu rökum vel til skila. Fundurinn var jákvæður og árangursríkur og lítur nú út fyrir að ekki sé lengur spurning um hvort, heldur hvenær, dreifnám verði starfrækt í sýslunni.