Framhaldsdeild (dreifnám) er möguleiki í Austur Húnavatnssýslu

Á dögunum fóru fulltrúar sveitarfélaganna í Austur Húnavatnssýslu á fund mennta- og menningarmálaráðherra til að fylgja eftir ósk um stuðning við að starfrækja dreifnám í samstarfi við FNV í heimahéraði. Rökin fyrir beiðninni eru m.a. eftirfarandi: Að gefa nemendum í A-Hún. kost á að stunda framhaldsnám í heimabyggð með stofnun framhaldsdeildar á Blönduósi. Gert er ráð fyrir að núverandi skólaakstur sveitarfélaganna verði nýttur til að gera nemendum úr Húnavatnshreppi og Skagaströnd mögulegt að nýta dreifnám ásamt ungmennum á Blönduósi. Kennslan fer fram í gegnum fjarbúnað, með aðstoð kennara á kennslustað í fjarnámsstofu. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir fjölskyldur í A-Hún. Ólíkt því sem blasir við nemendum í þéttbýli, eftir að grunnskóla lýkur, verða nemendur í A-Hún. að sætta sig við brottflutning að heiman um 16 ára aldur til þess að geta stundað framhaldsnám. Þetta hefur augljóslega aukinn kostnað í för með sér fyrir forráðamenn sem þurfa að standa staum af kostnaði við dvöl á heimavist og í sumum tilfellum að halda úti tveimur heimilum á meðan á námi stendur. Vonir eru bundnar við að uppbygging dreifnáms komi til með að minnka stórlega brottfall nemenda úr framhaldsskóla. Mörg dæmi eru um að nemendur sem treysta sér illa til að búa fjarri fjölskyldu flosni upp úr námi sökum öryggis- og stuðningsleysis. Ungmenni á aldrinum 16-18 ára eru ákaflega mikilvæg þeim samfélögum sem þau tilheyra. Því er mikilvægt að þau fái tækifæri til þess að dvelja á heimilum sínum eins lengi og kostur er og vera virkir þátttakendur í menningar- félags- og íþróttalífi sinna samfélaga. Annar markhópur dreifnáms eru fullorðnir eintaklingar, eða ungmenni sem flosnað hafa úr námi, sem gætu nýtt sér þennan möguleika til þess að hefja nám eða halda áfram námi sem annars hefði ekki orðið. Sannfæring er fyrir því að slíkt fyrirkomulag hefði víðtæk og mikilvæg áhrif á allt samfélag í Austur Húnavatnssýslu og óskuðu því sveitarfélögin eftir stuðningi við verkefnið. Á fundinum með ráðherra og aðstoðarmönnum hennar komu fulltrúar sveitarfélaganna öllum helstu rökum vel til skila. Fundurinn var jákvæður og árangursríkur og lítur nú út fyrir að ekki sé lengur spurning um hvort, heldur hvenær, dreifnám verði starfrækt í sýslunni.

Vinadagur í Höfðaskóla 8. nóvember 2012

Þann 8. nóvember er í annað sinn, að frumkvæði verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti, haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti hér á landi. Í tengslum við verkefnið ætlum við að hafa Vinadag í Höfðaskóla þar sem hefðbundin kennsla verður lögð til hliðar fram að hádegi og unnið að ýmsum verkefnum tengd vináttu. Kl. 11:15 ætlum við síðan í skrúðgöngu um bæinn og stoppa við fyrirtæki og jafnvel syngja. Lögreglan stefnir að því að vera í broddi fylkingar. Við hvetjum foreldra, afa ömmur, alla bæjarbúa og nærsveitarmenn til að koma og taka þátt í skrúðgöngunni með okkur og sýna samstöðu gegn einelti. Kl. 13:00 mun skólabjallan hringja stanslaust í 7 mínútur og hvetjum við aðra til að hringja bjöllum, flautum, klukkum á sama tíma Þá er þjóðin hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu og skólar, samtök og vinnustaðir eru hvattir til að beina sjónum að jákvæðum samskiptum, jákvæðum skólabrag og starfsanda. Er fólk um allan heim hvatt til að sýna samstöðu í baráttunni gegn einelti og kynbundnu ofbeldi með því að hringja alls konar bjöllum kl. 13.00 að staðartíma hvers lands þann 8. nóvember samfellt í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar. Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á heimasíðunni www.gegneinelti.is Mörg verkefni sem tengjast baráttudeginum eiga sér langan aðdraganda, eru ólík en eiga það öll sammerkt að vera liður í að efla jákvæð samskipti í samfélaginu. Markmiðið með baráttudeginum er því ekki það að efna til sérstakrar flugeldasýningar á þessum tiltekna degi, dagurinn er fremur tilefni til þess að gefa gaum og benda á margt það sem vel er gert í þessum efnum. Baráttudagurinn er því ekki síður dagur til þessa að líta yfir farin veg, þétta raðirnar, ákveða næstu skerf og bretta upp ermarnar hver í sínum mikilvæga ranni.