Skagstrendingar kátir með Músíktilraunir

Hljómsveitin Bróðir Svartúlfs sigraði í Músíktilraunum í ár. Í hljómsveitinni er góð blanda af Skagfirðingum og Húnvetningum þar sem bassaleikarinn Jón Atli er frá Skagaströnd, trymbillinn Andri frá Blönduósi, hljómborðsleikarinn Helgi Sæmundur, gítarleikarinn Sigfús og síðast en ekki síst söngvarinn og textahöfundurinn Arnar Freyr eru frá Sauðárkróki. Segja má að Bróðri Svartúlfs hafi komið séð og sigrað í mörgum skilningi því Arnar Freyr var einnig útnefndur textahöfundur Músiktilrauna fyrir hnittna og vel samda íslenska texta og Jón Atli var valinn bassaleikari Músíktilrauna. Hlutdeild Skagastrandar var góð í úrslitum Músiktilrauna í ár því auk þessa var Almar Freyr Fannarsson valinn efnilegasti söngvarinn. Hljómsveit frá Norðurlandi hefur ekki unnið Músiktilraunir síðan hljómsveitin Jójó frá Skagaströnd náði þeim árangri 1988. Til gamans má geta þess að það var talsverð tenging við þá sem náðu árangri í ár því Viggó bassaleikari Jójó er bróðir Jóns Atla og Fannar sem lék á gítar í Jójó er faðir Almars Freys. Allir eru þeir afkomendur Viggós Brynjólfssonar sem m.a. hefur komið fram sem sérstakur harmonikkuleikari vinnuvélamanna við Kárahnjúkavirkjun ... Bræðurnir Jón Atli og Viggó Magnússynir hafa sem bassaleikarar báðir unnið Músíktilraunir, reyndar með 21 árs millibili en það er spurning hvort slíkt er ekki einsdæmi í sögu Músíktilrauna.

Miðar á tónleika Eivörar

Eivör Pálsdóttir syngur í Hólaneskirkju á Skagaströnd sunnudagskvöldið 5. apríl kl. 20:30. Enn er hægt að fá miða á tónleikana með því að hringja í síma 864 7444 og panta. Aðgangseyrir 1.000 kr. sem rennur óskiptur til kirkjunnar. Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli

Metaðsókn í opið hús Nes listamðistöðvarinnar

Meira en 150 manns komu á listsýningar Nes listamiðstöðvar á Skagaströnd um síðustu helgi. Sjaldan áður hafa jafnmargir komið til að hitta listamennina og skoða verk þeirra. Það voru listamenn marsmánaðar sem opnuðu hús sín. Gestir komu víða að, fjölmargir frá Blönduósi og jafnvel Sauðárkróki. Meðfylgjandi myndir tók Signý Richter.

Auglýsing um störf

Störf flokksstjóra   Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir laus til umsóknar störf flokksstjóra í vinnuskóla sumarið 2009. Gert er ráð fyrir að flokksstjórar hefja störf í maí og vinni til seinni hluta ágústmánaðar. Við leitum að hressum, duglegum og samviskusömum einstaklingum sem hafa verkreynslu og áhuga á að starfa með unglingum í skemmtilegri útivinnu. Umsóknum skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins eigi síðar en 17. apríl næstkomandi. Umsóknareyðublöð fást á skrifstofunni og á www.skagastrond.is . Launakjör eru skv. kjarasamningi við viðkomandi stéttarfélag. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar.   Sveitarstjóri

Apríllistamenn Nes listamiðstsöðvar

Maður kemur í manns stað. Nú halda nokkrir listamenn Nes listamiðstöðvar á braut en aðrir bætast við. Edward F. Master frá Bandaríkjunum, edwardfmaster@gmail.com Nadege Druzkowski frá Frakklandi, nadege@ndart.fr Nicola Stead frá Bretlandi, nicolastead@cheerful.com Roshni Robert frá Bandaríkjunum, wovenfingers@gmail.com Kate Dambach frá Bandaríkjunum, kdambach@gmail.com Þórunn Sigr. Þorgrímsdóttir, visionis@internet.is Öll eru þau málarar nema Þórunn sem er rithöfundur. 

Afmælisganga Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra fagnar því nú að 2 ár eru liðin frá því að Greiðslustofa tók til starfa á Skagaströnd. Í tilefni af afmælinu þann 1. apríl ætlum við starfsmenn Vinnumálastofnunar að skella okkur í hressandi göngutúr. Við ætlum að ganga frá Túnbrautinni klukkan 15:15, upp á Höfða og aftur til baka. Hressir bæjarbúar og gestir eru velkomnir í gönguna okkar, því fleiri því betra. Við leyfum okkur að vona að við getum boðið upp á þokkalegt gönguveður. Vinnumálastofnun Skagaströnd

Sjónvarps- og útvarpsútsendingar á Skagaströnd

Þessa viku verða beinar útvarps- og sjónvarpsútsendingar á kaplinum. Það eru nemendur á fjórðu önn í fjölmiðlatækni við Flensborgarskálann undir stjórn Halldórs Árna Sveinssonar, kennara og listamanns.   Tilgangurinn er að safna ábendingum um efni. Markmiðið er að gera sem flestu skil í mannlífi og menningu Skagstrendinga og í því skyni er meðal annars ætlunin að heimsækja vinnustaði og fá áhugavert fólk í viðtöl. Í kvöld, mánudaginn 30. mars kl. 20:30, verður kynningafundur í Félagsheimilinu Fellsborg. Þar mun Halldór og nemendur hans skýra út hvað þeir ætla að gera og fá tillögur frá heimamönnum. Þar af leiðir að allir eru hjartanlega velkomnir og boðið verður upp á kaffi. Flesnsborgarskóli kemur hingað í samvinnu við Sveitarfélagið, Útvarp Kántrýbæ, Höfðaskóla, Sjónvarpsfélagið og ýmsa einstaklinga. Ætlunin er að standa fyrir útvarpsútsendingum í Kántrýbæ frá þriðjudegi til föstudags kl. 14 til 16. Sjónvarps útsendingar verða á kapalkerfinu frá klukkan 18 til 18:30. Halldór er síður en svo ókunnur á Skagaströnd. Hann dvaldi í fyrra í Nes listamiðstöðinni og málaði myndir af miklum móð.  Honum leið vel hér og tók miklu ástfóstri við bæinn og bauð þess vegna upp á námskeið í listmálum sem meira en tuttugu manns tóku þátt í. Halldór er núna að ganga frá heimildarmynd um Skagaströnd sem hann tók í fyrra og væntanlega verður hún tilbúin síðar á árinu. Áhugasamir geta náð sambandi við Halldór í síma 856 5857.

Námskeið í prjóntækni og prjónhönnun

Prjóntækni og prjónahönnun í Kvennaskólanum Blönduósi Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, textílhönnuður og fyrrv. ritstjóri Lopa og bands. (sjá myndirnar af sýnishornum af hennar hönnun) Þetta er mjög skemmtilegt námskeið hentar vel bæði byrjendum og þeim sem eru vanar að prjóna. Linda hefur mörgu að miðla svo allir geta nýtt sér reynslu hennar og þekkingu. -Kenndar verða ýmsar aðferðir við uppfit, stroff, útaukningar og -affellingar. -Kennt verður að reikna út prjónfestu og reikna út stærðir. Kynnt verður myndprjón (Kaffe Fasset prjón) og rósaleppaprjón. -Leiðbeiningar við litaval og litameðferð. Hvernig er hugmynd færð yfir í flík – prjónahönnun kynnt með myndum og sýnishornum. Ef þú átt flík sem þú hefur ekki getað klárað og vantar leiðbeiningar, er tilvalið að nýta sér þetta námskeið. Föstud. og laugardag 3. og 4. apríl. (föstud. kl. 13 - 19, laug. kl. 9.30 - 16.30, 18 kennslust.) Síðdegiskaffi föstudag og hádegisverður laugardag innifalinn. Efni innifalið. Verð 19.800-. Textílsetur Íslands Árbraut 31 540 Blönduós s.452-4300 894-9030 textilsetur@simnet.is www.textilsetur.is

Opið hús í Nes-listamiðstöð á föstudaginn

Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni á Skagaströnd verða með opið hús föstudaginn 27. mars frá kl. 17 til 19. Listamennirnir hafa flestir dvalið og starfað á Skagaströnd í einn mánuð í senn og nú í lok mars hlakka þeir til að fá Skagstrendinga, Blönduósinga og aðra áhugasama í heimsókn og sýna þeim verk sín. Vinnustofurnar eru að Fjörubraut 8 á Skagaströnd. Listamenn mánaðarins eru: Lucy McKenna, myndlistarkona frá Írlandi Nadege Druzkowski, listmálari frá Frakklandi Lucas Gervilla, videolistamaður frá Brasilíu Julieta do Vale, ljósmyndari frá Portúgal Noemi Romao, textíllistakona og hönnuður frá Ítalíu Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, skúlptúrlistakona Mie Olise Kjærgård, listmálari frá Danmörku Marie Brett & Nick Piper , myndlistarmenn frá Írlandi Einnig verður opnuð sýning kl. 18:00 í gamla frystihúsinu við Einbúastíg. Listamennirnir sem þar sýna eru Írarnir Marie Brett og Nick Piper. Um er að ræða listræna innsetningu þar sem efniviðurinn er sandur og fyrirmyndin sótt í völundarhús af ýmsu tagi. Þessi fallega mynd er eftir Mie Olise Kjærgård. Myndin hangir uppi ásamt fleirum í Nes-listamiðstöð. Auk hennar er fjöldi áhugaverðra verka. Kántrýbær Þegar búið er að njóta sýninganna er áreiðanlega komið að kvöldmat. Þá er tilvalið að koma við í Kántrýbæ en þar er m.a. þetta tilboð: Hamborgari, franskar og ½ lítri kók á aðeins 790 kr. Hamborgaratilboð fyrir fjóra: 2.690 kr

Stöndum saman og gefum öll í söfnunina hundraðkall á haus.

Nú er síðasti dagur sameiginlega söfnunarátaks Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar. Einkunnarorð söfnunarinnar eru Stöndum saman og rennur söfnunarféð óskert til verkefna innanlands til að sinna brýnni þörf á erfiðum tímum. Um er að ræða símasöfnun þar sem hringt er í eitt númer 90 15 100 og þá dragast 100 krónur frá næsta símreikning. Samtökin leggja áherslu á að hafa upphæðina þetta lága til að allir geti lagt sitt að mörkum og lagt átakinu lið burtséð frá efnum og aðstæðum hvers og eins. Stöndum saman og gefum öll í söfnunina hundraðkall á haus. Skagastrandardeild RKÍ