04.07.2008
Nýjir gestir eru komnir til Skagastrandar á vegum Nes-listamiðstöðvar.
Listamennirnir koma hinga víða að og verða allan júlímánuð hér og sinna listiðkun sinni.
· Marian Bijlenga er textíllistakona og kemur ásamt maka sínum frá Hollandi.
· Wendy Crockett er ljósmyndari frá Kaliforníu.
· Jade Boyd er vídeólistamaður og kemur alla leið frá Ástralíu.
· Ger Glancy er írskur skúlptúrlistamaður
· Jon Mertz er frá Sviss og er skúlptúrlistamaður og kona hans er Katya og er rússnesk.
· Halldór Á. Sveinsson er málari og myndlistakennari.
· Guðrún Benónýsdóttir er er myndlistakona
Fólkið býr á Mánabraut 1 og 11 og Túnbraut 5 og hefur vinnuaðstöðu í gamla fiskvinnsluhúsinu við Fjörubraut.
04.07.2008
Fimmtudaginn 10. júlí nk. verða KK og Maggi Eiríks með tónleika í Kántýbæ. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00. Tónleikarnir verða kynntir nánar síðar.
Allir velkomnir
03.07.2008
Dregið hefur verið úr réttum svörum í ratleiknum sem efnt var til er gönguleiðirnar á Spákonufellshöfða voru formlega opnaðar. Tvær ungar dömur skrifuðu sig á sama svarblaðið. Þær heita Ásdís Birta Árnadóttir og Aldís Embla Björnsdóttir, báðar eru þær 11 ára.
Þær fá í verðlaun bókina „Íslenskur fuglavísir“ eftir Jóhann Óla Hilmarsson, fuglafræðing. Höfundurinn tók allar myndirnar sem eru á
fugla- og gróðurskiltunum á Höfðanum og samdi auk þess textann. Bókin hefur verið mjög vinsæl en er nú hins vegar orðin afar fágæt.
Vonandi verður bókin til þess að hinir ungu vinningshafar fái áhuga á fuglum landsins og hún verði þeim til gleði og ánægju um ókomna tíð.
Þátttaka í ratleiknum var mjög góð og bárust fimmtíu og sjö svarblöð.
Sveitarfélagið Skagaströnd þakkar öllum fyrir þátttökuna.
03.07.2008
Mynd af lúpínu í kvöldsól á Spákonufellshöfða hefur verið valin besta myndin í ljósmyndasamkeppni sem efnt var til í tilefni formlegrar opnunar á gönguleiðum um Höfðann. Ljósmyndarinn er Ólafur Bernódusson.
Önnur verðlaunin er mynd af geldingahnappi í fjörugrjóti sem vex út úr sprungu á steini í fjörunni milli Reiðingsflatar og Sauðskers í Geldinganesi. Ljósmyndarinn er Marian Bijelenga, myndlistamaður frá Hollandi, sem dvelur hér á vegum Nes-listamiðstöðvar.
Dómnefndin telur mynd Ólafs vera einstaklega vel heppnaða.
Ljósmyndarinn nýtti sér stund og stað, miðnætursólina sem var að því komin að setjast og staðurinn var við lúpínu. Kvöldsólargeislarnir gylla neðri hluta lúpínunnar en á efri hluta hennar verða til margvíslegir mildir litatónar á blómi plöntunnar, allt frá dökkbláum út í ljósbláa og fölrauða. Frá myndinni geislar kvöldstemming og hughrif sem verða til um miðnæturbil í Spákonufellshöfða.
Í fyrstu verðlaun var myndavél af gerðinni Pentax Optio E35.
Mynd Marian er vel tekin. Hún leggur megináherslu á sjálfan geldingahnappinn og harðúðugt umhverfið. Ótrúlegt að nokkur plnata geti þrifist á þessum slóðum þar sem brimið svarrar og virðist engu eira. Lífið kviknar þó á ólíklegustu stöðum eins og myndin sannar.
Önnur verðlaun var bókin „Íslenskur fuglavísir“ eftir Jóhann Óla Hilmarsson, fuglafræðing. Höfundurinn tók allar myndirnar sem eru á fugla- og gróðurskiltunum á Höfðanum og samdi auk þess textann.
Bókin hefur verið mjög vinsæl en er hins vegar afar fágæt.
Fjölmargar myndir bárust í samkeppninna og eru öllum þeim sem þátt tóku færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt. Dómnefndin átti í raun afar erfitt með eð gera upp á milli fjölda góðra mynda.
01.07.2008
Spákonuarfur, menningarfélag á Skagaströnd, stendur fyrir gönguferð á Spákonufell á laugardaginn 5. júlí. Lagt verður af stað klukkan 11 frá Golfvellinum og er gangan er til minningar um Þórdísi spákonu sem bjó á 10. öld á bænum Felli og nefnist Þórdísarganga.
Fararstjóri í ferðinni er Ólafur Bernódusson, en hann þekki Spákonufell afar vel og ekki síður sögur af Þórdísi. Ólafur hefur um árabil stundað rannsóknir á fjallinu og er sagt að hann geti nú staðfært ýmsa atburði sem gerðust í lífi Þórdísar, bæði sannar og lognar. Hann hefur til dæmis fundið bjargið sem kerlingin henti ofan af Borginni og drap rolluskjátuna sem gert hafði henni gramt í geði í langan tíma. Sagan segir ennfremur frá því að Þórdís hafi gengið daglega upp í Spákonufell og greitt þar lokka sína. Mun Ólafur hafi fundið hárgreiðslustaðinn og gott ef ekki líka einhverja lokka kerlingar. Síðast en ekki síst er hugsanlegt að Ólafur hafi fundið þann stað er Þórdís fól kistuna sem full er af gersemum.
Gönguleiðin á fjallið var nýlega stikuð. Gengið er fyrst í stað upp aflíðandi brekkur fyrst í stað en síðan verða þær aðeins brattari.
Hverig er leiðin snarbrött. Uppi er stórkostlegt útsýni, sér yfir í Skagafjörð allt í Fljótin. Gangan tekur 3-4 tíma og ekki spillir fyrir að spáð er fínu veðri á laugardaginn.
Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm helst með stífum sóla. Börn og unglingar geta þó verið í strigaskóm. Munum að oftast er nokkru kaldara uppi á fjalli en niðri á láglendi. Mikilvægt er að hafa með sér nesti.
Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar í golfskálanum. Allir sem ganga á fjallið fá viðurkenningu.
Þátttökugjald er 1000 kr. Ókeypis er fyrir yngri en 16 ára.
Nauðsynlegt er að fólk skrái sig í gönguna og er skráningarsíminn 861 5089.