01.07.2010
Íbúar við Suðurveg eru afar kátir þessa dagana enda er vaskur malbikunarflokkur að störfum í götunni. Ryk, sandur og möl heyrir nú til tíðinda á öllu svæðinu sem oft er nefnd Mýrin.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag við „teppalagninguna“ og má sjá hversu gríðarleg viðbrigðin eru.
Svart malbikið leggst slétt og fellt um götuna, hvergi sést nokkur arða. Íbúarnir halda sig innan dyra þangað til verkinu er lokið. Má ekki búast við að haldið verði upp á umskiptin með hressilegu götupartíi?
01.07.2010
Þegar runninn er upp síðasti dagur ljósmyndasamkeppni Skagastrandar hafa borist nákvæmlega 154 ljósmyndir.
Eftir að lauslega skoðun á innsendum myndum má segja að flestar sýni Skagaströnd í nýju ljósi eins og áskilið er í keppnisreglum. Allar eru þær mjög áhugverðar og sumar jafnvle einstaklega skemmtilega teknar. Dómnefndin mun áreiðanlega eiga í miklu erfiðleikum með að velja myndir sem sýndar verða á Hnappstaðatúni í sumar.
Í raun er það ekki fjöldi myndanna sem vekur athygli heldur hversu breiður sá hópur er sem sendir inn myndir. Borist hafa myndir frá konum og körlum, ungm sem öldnum og jafnvel börnum, sumir eru vanir ljósmyndarar aðrir eru skemmra ég veg komnir með myndavélina sína.
Margir hafa tekið myndir sérsaklega fyrir keppnina, stillt upp fyrirsætum og smellt af einstaklega fallegum myndum. Aðrir hafa látið stundina ráða, tekið myndir sínar þegar augnablikið kallaði og þær myndir eru ekki síðri.
Minnt er á að skilafrestur í keppnina rennur út núna á miðnætti, fimmtudaginn 1. júlí. Senda skal inn myndir á netfangið radgjafi@skagastrond.is eða skila á skrifstofu sveitarfélagsins Skagastrandar á minnislykli eða tölvudiski.
Meðfylgjandi mynd er ekki í ljósmyndasamkeppninni.
01.07.2010
Gæsluvöllur verður starfræktur á leikvelli Barnabóls 5. til 30. júlí 2010.Hann verður opinn virka daga kl 13 - 16.
Börn á aldrinum tveggja til sex ára geta sótt völlinn gegn 300 kr greiðslu fyrir hvert skipti.
Í leikskólanum verður opin salernisaðstaða fyrir börnin en að öðru leyti verður fyrst og fremst um gæslu utandyra að ræða.
Æskilegt er að börnin taki með sér nesti og sérstaklega bent á að öll leikföng sem þau kunna að taka með sér eru á eigin ábyrgð.
Þrátt fyrir áætlaðan opnunartíma er allur réttur áskilinn til að fella þetta tilboð niður verði aðsókn að gæsluvellinum lítil eða engin.
Sveitarstjóri
01.07.2010
Golfklúbbur Skagastrandar býður upp á golfkennslu sunnudaginn 4. júlí. Kennari er
Heiðar Davíð Bragason, fyrrverandi Íslandsmeistari og atvinnumaður í golfi.
Kennslan verður samkvæmt eftirfarandi tímatöflu:
Kl. 12.00-13.30 - 8-10 ára, ókeypis
Kl. 14.00-15.30 - 11-13 ára, ókeypis
Kl. 16.00-17.30 - 14-16 ára, ókeypis
Frá kl. 18 eru í boði 30 mínútna einkatíma fyrir 17 ára og eldri. Verðið er 2.500 kr.
Skráning í alla aldursflokka í síma 892 5089 (Adolf) og 861 5089 (Dagný) í síðasta lagi á föstudagskvöld.