Deiliskipulag Hólanessvæðisins á Skagaströnd

Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti á fundi sínum 25. maí 2011 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Hólanessvæðisins á Skagaströnd samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsuppdráttur, greinargerð og skráning húsa á Hólanessvæðinu munu vera til sýnis á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3 frá 27. júlí til 16. september 2011 Ennfremur er tillagan til sýnis á heimasíðu sveitarfélagsins, http://www.skagastrond.is/skipulagsmal.asp. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Athugasemdum skal skila til skrifstofu Skagastrandar fyrir 16. september 2011 og skulu þær vera skriflegar.  Magnús B. Jónsson sveitarstjóri

Fjölmenni við opnum málverkasýningar

Yfirlitssýning á verkum Sveinbjörns H. Blöndal var opnuð í íþróttahúsinu á Skagaströnd síðasta laugardag. Fjöldi gesta var við opnunina og þar á meðal Birna Blöndal, ekkja Sveinbjörns, og börn þeirra. Sýningin er einstaklega glæsileg. Hún þykir gefa gott yfirit yfir þróun og þroska listamannsins. Hann hóf feril sinn á því að tekna skopmyndir í dagblöð og teikningar voru honum alltaf hugstæðar. Á sýningunni má meðal annars sjá margvíslegar skopmyndir, einfaldar og flóknar. Þar eru einnig vatnslitamyndir, akrýl- og oliumálverk, alls fimmtíu og fjögur verk. Sýningin verður opin daglega frá 13-17 fram til loka Kántrýdaga, 14. ágúst. Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnun sýningarinnar.

Yfirlitssýning Sveinbjörns Blöndal opnuð á laugardaginn

Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir yfirlitssýningu á verkum Sveinbjörns H. Blöndal í íþróttahúsinu á Skagaströnd frá 23. júlí til 14. ágúst 2011. Þar má sjá hluta af verkum Sveinbjörns sem málara, en hann bjó stóran hluta ævi sinnar á Skagaströnd. Sýndar eru teikningar, vatnslitamyndir, akríl- og olíumálverk. Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. júlí kl. 14 og verður opið til kl. 17 þann dag.  Sýningin mun standa til 14. ágúst 2011, opin alla daga frá kl. 13 til 17 og eru allir velkomnir. Á sýningunni eru fimmtíu og fjögur málverk auk nokkurra teikninga. Myndirnar eru valdar með það að markmiði að sýna þróun hans sem listamanns og mismunandi litanotkun og efnistök. Sýningin er sett upp í samstarfi við fjölskyldu Sveinbjörns. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hafa lánað myndir á sýninguna.  Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Norðurlands vestra. Sveinbjörn Helgi Blöndal Sveinbjörn fæddist á Akureyri 11. október 1932. Foreldrar hans voru Magnús Blöndal framkvæmdastjóri á Siglufirði og kona hans Elsa María Schiöth. Hann ólst upp á Siglufirði. Rétt innan við tvítugt hélt hann suður yfir heiðar til náms og starfa. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og brautskráðist af listmálunardeild. Ungur að aldri hóf hann feril sinn með því að teikna skopmyndir í dagblöð. Frístundir notaði Sveinbjörn til að mála og teikna en hélt lengi vel verkum sínum lítt á lofti þótt þeir sem þekktu hann best fengju að sjá og njóta málverka og skopmynda.  Fyrirmyndir í málverkin voru oftast sóttar í íslenska náttúru þar sem fagurkerinn beitti litatækni sinni til að kalla fram tilbrigði náttúrunnar, birtuna og formin. Hann var gagnrýninn á eigin verk og fannst þau seint fullkomnuð. Sveinbjörn hélt nokkrar einkasýningar og tók einnig þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis.  Sveinbjörn kvæntist, 18. júní 1955 Birnu Ingibjörgu Jónsdóttur og eignuðust þau fjögur börn. Þau fluttust sama ár til Skagastrandar og bjuggu þar nær öll sín búskaparár. Sveinbjörn var rúmlega meðalmaður á hæð, svipmikill og fasmikill, hafði mikið og strítt hár. Undir miklum augabrúnum leiftruðu athugul augu sem námu af listrænni næmni það sem fyrir bar, hvort heldur voru litbrigði himins eða fjölbreytileiki þess fólks sem hann umgekkst.  Sveinbjörn var skarpgreindur, víðlesinn og fylgdist grannt með því sem gerðist, bæði í nærumhverfi sínu sem og á heimsvísu. Hann var mikill húmoristi og flugbeittar athugasemdir hans um menn og málefni voru oft þannig að þær gleymdust ekki þeim sem til heyrðu. Hin síðari ár glímdi Sveinbjörn við erfiðan sjúkdóm og m.a. þess vegna fluttu þau Birna til Hafnarfjarðar árið 2001. Veikindin höfðu þau áhrif að hann gat ekki haldið áfram listsköpun sinni. Sveinbjörn H. Blöndal lést 7. apríl 2010. 

Tónleikar í Bjarmanesi

Tónleikar verða í kaffihúsinu Barmanesi laugardaginn 23. júlí kl. 21:00. Karl Hallgrímsson syngur á eigin lög og texta sem meðal annars er að finna á nýútkominni plötu hans sem nefnist „Héðan í frá“. Karl hefur fengið frábæra dóma fyrir plötu sína. í Fréttablaðinu sagði gagnrýnandi: Þetta er gæðagripur í sígildum íslenskum poppstíl. Heðan í frá verður að gera ráð fyrir Karli Hallgrímssyni [...] Niðurstaða: Blús- og þjóðlagaskotið íslenskt popp frá hæfileikaríkum nýliða. Á Rás2 segir dr. Gunni: Karl syngur vel með sinni viðkunnalegu röddu. Og þess má að auki geta að „Héðan í frá“ var valin íslenksa plata vikunnar á Rás2 í lok maí.

Mæðginin Dagný og Sverrir meistarar í golfi

Meistaramót GSK var leikið á Háagerðisvelli í blíðskapar veðri daganna 11. til 13. júlí. Leiknar voru 36 holur.  Klúbbmeistar urðu: Kvennaflokkur:  Dagný Marín Sigmarsdóttir Karlar meistaraflokkur:  Sverrir Brynjar Berndsen Karlar 1. flokkur: Sigurður Sigurðarson. Meðfylgjandi mynd var tekin á meðan á mótinu stóð. Þarna á hlöðnum garði á 5. braut stendur slyngur sláttumaður. Kúlan hafði staðnæmst ofan á garðinum og með lagni tókst honum að ná góðu höggi nærri því inn á flöt. Hægt er að stækka myndina með því að tvísmella á hana. Þá má kenna manninn.

Tré gróðursett víða um Skagaströnd

Þegar Pétur Eggertsson, íbúi á Skagaströnd, var að grisja trjágróður í garði sínum datt honum í hug að gefa sveitarfélaginu 20 viðjuplöntur. Þær voru þegnar með þökkum og gróðursettar á milli Suðurvegs og Suðurvegs B. Skógræktarfélag Skagastrandar fékk fyrir stuttu gefins um 300 birkiplöntur og aspir, hvort tveggja um 40 til 50 cm háar og hefur gróðursett þær víðs vegar um bæinn. Skógræktarfélagið hefur einnig keypt um 40 aspir af kvæmi sem nefnist keisari. Það er tegund sem á að henta vel fyrir norðlægar slóðir og hafa reynst einstaklega vel. Þessar pöntur hafa verið gróðursettar við íþróttahúsið og neðst á Fellsbraut til móts við kirkjuna. Einnig hefur Skógræktarfélagið ákveð að setja niður bakkaplöntur, reynivið og sitkagreni, í skógræktarsvæði fyrir ofan tjaldsvæðið. Þar voru í fyrra gróðursetttar um 1200 birkiplöntur. Fyrirhugað er að plönturnar verði gróðursettar næsta mánudagskvöld, þann 18. júlí kl. 20. Allir sem áhuga hafa eru endilega hvattir til að koma, njóta útiverunnar og jafnvel gætu sumir lært eitthvað hagnýtt um gróðursetningu.

Kaffi Bjarmanes - húsið við hafið

Café Bjarmanes er í stóru húsi sem byggt var árið 1912 og hefur í gegnum tíðina verið notað sem samkomuhús, lögreglustöð, danssalur og heimili. Árið 2004 var húsið opnað á ný eftir að hafa verið gert upp og nú er þar kaffihús. Café Bjarmanes er rekið af Steinunni Ósk Óskarsdóttur. "Þetta er fallegasta kaffihús á landinu, og ég hef heimsótt þau mörg" segir hún við blaðamann Tímans í viðtali sem birtist á timinn.is Fréttin öll: Hér

Sumaropnun

Í júlí og ágúst verður skrifstofa Sveitarfélagsins Skagastrandar opin frá 10:00 til 14:00 vegna sumarfría starfsfólks. Sveitarstjóri

Veðrið á Skagaströnd í júní

Meðalhitinn á Skagaströnd í júní var 5,9 gráður en á sama tíma var 9,2 gráðu meðalhiti í Reykjavík og 6,2 gráður á Akureyri. Skýringin er eflaust sú að köld norðan- og norðaustanáttin á sér auðveldar uppdráttar á Skagströnd en á hinum tveimur stöðunum. Raunar var norðaustanáttin ráðandi í mánuðinum og því létu bæði vor og sumar á sér standa - í bili. Engu að síður er júní hlýjasti mánuðurinn ársins hingað til en litlu munar á honum og maí.   Hitafar Sé litið á meðalhita hvers sólarhrings í maí var kaldast frá 7. til 9. júní fór þá hitinn niður í 4,7 gráður, síðan upp í 4,1 og aftur niður í 3,1. Eftir það hlýnaði og fór hitinn ekki aftur niður fyrir 4,6 gráður í mánuðinum.  Meðalhitinn seguir þó ekki allt. Um nóttina þann 7. júní var ansans ári kalt. Fór þá hitinn kl. 3:20  niður fyurir frostamark og rokkaði þar allt niður í -0,8 gráður á næsta klukkutímanum en síðan hefur hitatigið haldið sig réttu megin við núllið. Vindgangur Meðalvindhraði í júní var 6,4 metrar á sekúndu (m/s) en hviðurnar voru 9,7 m/s. Þetta er í raun afar svipað og í maí og auðvitað miklu betra en í öllum liðnum mánuðum ársins Þó var lygnara í nóvember á síðasta ári en þá mældist meðalvindhraðinn 5,7 m/s. Með sanni má segja að aldrei hafi verið verulega hvasst í júní. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi línuriti. Rauða línan nær þar sárasjaldan upp í tíu metrana og hvíðurnar voru slappar. Í orðsins fyllstu merkinu má fullyrða um vindganginn að ekki sé hægt að gera neitt veður út af honum. Vindáttir Kuldinn í júní er auðvitað ekki af mannlegum völdum þó svo mann gruni nú ríkisstjórnina um græsku. Þá má sjá á meðfylgjandi vindrós að vindurinn lá að langmestu leyti í norðri, norðaustri eða austri. Það þýðir að 80% tímans blés’ann úr þessum áttum, samviskulaus og hundleiðinlegur.  Hver? Hver, hvað? Nú hver blés? Það veit ég ekkert um. Kannski Kári, kannski vindurinn … Mér kemur það ekkert við, ég túlka bara veðurupplýsingar og svona tekur maður til orða. Þú ert ekki nógu skýr í framsetningu … Æi, farðu út og leiktu þér  - það er ef hundi er út sigandi. Hundi, hvað? …

Opnun Spákonuhofs

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði í gær Spákonuhof sitt sem hefur verið í uppbyggingu frá því á síðasta ári. Fjölmenni var við opnunina og var gerður góður rómur að glæsilegri aðstöðu og sýningunni sem þar hefur verið sett upp.  Spákonuhofið hýsir sýningu sem tileinkuð er Þórdísi spákonu en hún var fyrsti nafngreindi landnámsmaðurinn á Skagaströnd. Hennar er minnst m.a. með afsteypu af sögupersónunni sem stendur við hús sitt, refli sem segir sögu Þórdísar auk annara leikmuna sem tengjast sögu hennar. Með leikmunum og texta er einnig reynt að varpa ljósi á ýmsar spáaðferðir. Börn geta átt góðar stundir með sögupúsluspilum og fleiru.  Á tjaldi má m.a. sjá upptöku af leiksýningunni Þórdís spákona sem Spákonuarfur setti á svið árið 2008. Síðast en ekki síst eru fjórir spáklefar sem hver og einn er innréttaður á sinn hátt. Þar má fá spár,hvort sem um er að ræða hefðbundna spilaspá, tarrotspilaspá, bollaspá, lófalestur eða að láta kasta rúnum fyrir sig. Í fremra rýminu er sögu hússins sýndur sómi m.a. með gömlum ljósmyndum en húsið var samkomuhús bæjarbúa á árunum 1946-1969. Þar er einnig  sölusýning á teikningum Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar sem allar tengjast sögu Þórdísar spákonu. Margs konar handverk er einnig  til sölu. Spákonuhofið er opið alla daga nema mánudag frá kl. 11-17.