FÉLAGSVIST - FÉLAGSVIST

Kvenfélagið Eining verður með þriggja kvölda félagsvist í félagsheimilinu Fellsborg. Spilað verður mánudagskvöldin 21., 28. október og 4. nóvember. Byrjað verður að spila stundvíslega klukkan 20:00 Aðgangseyrir 1.000 kr. hvert kvöld en ef keypt er á öll þrjú kvöldin kosta öll kvöldin 2.400 kr. Kaffiveitingar eru innifaldar í verði. Vinningar eru í boði fyrir hvert kvöld, hæsti karl og Hæsta kona og svo að sjálfsögðu skammarverðlaunin. Tekin verður heildarsumma allra kvölda og sá stigahæsti fær veglegan vinning síðasta kvöldið. Vonumst til að sjá sem flesta. Kvenfélagið Eining

Mynd vikunnar

Samkoma í Höfðaskóla Myndin var tekin á einhverri samkomu í Höfðaskóla kringum 1985. Tilefnið er óþekkt en á henni má þekkja marga þáverandi nemendur skólans ásamt foreldrum nokkurra þeirra. Stúlkurnar þrjár á fremsta bekk eru óþekktar. Á öðrum bekk eru, talið frá vinstri: Hugrún Pálsdóttir, Bryndís Ingimarsdóttir, María Rós Karlsdóttir og Gígja Óskarsdóttir. Á þriðja bekk er Björk Axelsdóttir kennari lengst til vinstri þá kemur óþekkt stúlka en sú með gleraugun er Særún Níelsdóttir. Næst er óþekkt stúlka sem situr með barn en stelpan í lopapeysunni er annar hvor tvíburanna, Vilborg eða Áslaug Jóhannsdóttir. Á næsta bekk situr Árný Helgadóttir á endanum til vinstri en næst, á þeim bekk, má svo þekkja Ásu Ásgeirsdóttur, Hólmfríði Önnu Ólafsdóttur (Díu Önnu), Þorstein Jónsson, Viggó Magnússon og Ægi Jónsson. Við enda næstu raðar stendur Elínborg Jónsdóttir (d. 7.1.2007) kennari til vinstri og sjá má Þórunni Bernódusdóttur yfir höfuð Bjarkar. Við hlið Þórunnar situr Soffía Jónasdóttir, óþekktur, Gunnlaugur Sigmarsson (með skegg) og Steinunn Friðriksdóttir kona hans. Lárus Ægir Guðmundsson sést yfir höfuð Ægis en Lárus er að tala við Adolf J. Berndsen. Í næstu röð fyrir aftan Elínborgu og Þórunni er Áslaug Gunnarsdóttir lengst til vinstri, þá Þorbjörg Eðvarðsdóttir, og óþekktir en svo sést hálft höfuð Rafns Sigurbjörnssonar frá Hlíð og Sigurbjörn Fanndal Þorvaldsson (d. 13.8.2000). Fyrir aftan Gunnlaug situr Margrét Haraldsdóttir (d. 24.6.2000) og við hlið hennar Bjarney Valdimarsdóttir með dóttur sína Erlu Maríu Lárusdóttur í fanginu. Við hlið Bjarneyjar er svo Halldóra Þorláksdóttir. Upp við bakvegginn eru, frá vinstri: tveir óþekktir, Rúnar Loftsson, Karl Lúðvíksson íþróttakennari, tvær óþekktar konur, Skúli Tómas Hjartarson, Halldór Gunnar Ólafsson, Rafn Ingi Rafnsson, tveir óþekktir, Óli Hjörvar Kristmundsson, Þráinn Bessi Gunnarsson og Ingvi Sveinn Eðvarðsson. Fyrir framan þá Bessa og Ingva situr Friðrik Gunnlaugsson. Ef þú þekkir fleiri á myndinni vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 16. október 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Forsendur fjárhagsáætlunar 2. Ársþing SSNV, 17. – 19. október 2013 3. Skólamál a. 2. fundur nefndar um skólamál b. Bréf Námsmatsstofnunar c. Fundargerð fræðslunefndar 1. júlí 2013, liður 2. – d. Aldursmörk í dvöl 4. Skipulags- og umferðamál: a. Óveruleg breyting á Aðalskipulagi b. Umferðamál 5. Hitaveita 6. Bréf: a. Velferðarráðuneytisins, dags. 25. september 2013 b. Fiskistofu, dags. 13. september 2013 c. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 11. september 2013 d. Sveitarstjóra, dags. 17. september 2013 7. Fundargerðir: a. Skólanefndar FNV, 27.09.2013 b. Stjórnar Byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún, 24.09.2013 c. Stjórn Félags og skólaþjónustu, 15.10.2013 d. Menningarráðs Norðurlands vestra, 24.09.2013 e. Stjórnar SSNV, 8. maí 2013 f. Stjórnar SSNV, 27.08.2013 g. Stjórnar SSNV, 16.09.2013 h. Stjórnar Byggðasamlags um málefni fatlaðra, 27.08.2013 i. Aðalfundar Norðurár bs. 6.09.2013 j. Stjórnar Hafnasambands Íslands, 3.09.2013 k. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 13.09.2013 l. Stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 2.07.2013 8. Önnur mál Sveitarstjóri

Tónleikar í Hólaneskirkju.

Tónleikar verða haldnir í Hólaneskirkju föstudagskvöldið 18. október 2013 og hefjast þeir klukkan 20:30. Tónleikarnir bera nafnið Laxnes og ljúflingslög og eru flytjendur listafólkið Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari, Íris Dögg Gísladóttir, fiðluleikari, Gunnhildur Davíðsdóttir söngkona og Særún Harðardóttir sópransöngkona. Fyrri hluti tónleikanna er helgaður nóbelskáldinu Halldóri Laxnes. Arnhildur og Særún flytja lög við texta skáldsins úr bókinni Heimsljós og tengja ljóðin við bókina með upplestri milli laga. Í síðari hluta tónleikanna verða flutt létt og leikandi lög sem allir þekkja. Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli

Mynd vikunnar

Hressir félagar Þessir prúðbúnu og hressu félagar frá Skagaströnd staupa sig á Íslensku brennivíni undir húsvegg. Frá vinstri: Hallgrímur Kristmundsson (d. 9.10.1998), Guðmundur Jóhannesson og Snorri Gíslason (d. 29.5.1994). Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en hún var tekin að húsabaki á Blönduósi, bak við Snorrahús. Til vinstri er Pétursborg og stóra húsið er gamla Samkomuhúsið með sparisjóð A-Hún á neðri hæðinni.

Nýir orkumælar á Skagaströnd

Til íbúa á Skagaströnd: Á næstu vikum mun RARIK hefja uppsetningu sölumæla fyrir nýja hitaveitu á Skagaströnd. Jafnframt því mun RARIK skipta út raforkumælum og er þetta gert til að nýta samskiptabúnað mælanna til gagnasöfnunar og í leiðinni að taka upp mánaðarlegan rafrænan álestur. Því munu leggjast af árlegar heimsóknir álesara á vegum RARIK. Ástæða þess að mælaskiptin fara fram samtímis er sú að nýr raforkumælir er notaður sem endurvarpi fyrir merki frá hitaveitumælinum. Með tilkomu nýrra orkumæla verða sendir út mánaðarlegir raunreikningar bæði fyrir heitt vatn og rafmagn í stað núverandi áætlunarreikninga og uppgjörsreiknings einu sinni á ári. Nokkuð er um það á Skagaströnd að notaðir eru tveir raforkumælar, einn fyrir hita og annar fyrir almenna notkun. Þær mælingar sameinast nú í nýjum mæli. Til þess að koma í veg fyrir að viðskiptavinir verði af niðurgreiðslum og lægra VSK þrepi við einmælingu, verður orkumælingu skipt þannig að 85% telst hiti en 15% almenn notkun og verður sú skipting í gildi þar til upphitun með hitaveitu hefst í viðkomandi húsi. Skiptingin er ákveðin af Orkustofnun. Á næstunni munu starfsmenn RARIK hafa samband við viðskiptavini með það fyrir augum að finna hentugan tíma fyrir mælaskipti. Bestu kveðjur RARIK

Mynd vikunnar

Guðmundur Guðnason (f. 11.3.1923 - d. 21.11.1988) frá Ægissíðu með harmónikuna sína fyrir utan einhver skepnuhús að Syðri Reykjum 24. nóvember 1943. Guðmundur, sem var alinn upp á nokkrum bæjum í Laxárdal, var bæjarpóstur á Skagaströnd í áratugi og áhugaljósmyndari sem tók ógrynni af ljósmyndum. Var hann gjarnan fenginn inn á heimili til að taka fjölskyldumyndir því ekki var um neina ljósmyndastofu að ræða. Í þessum tilgangi ferðaðist Mundi póstur, eins og hann var oftast kallaður, fram um allar sveitir því hann var vinsæll og vinamargur. Mundi var kirkjurækinn svo af bar og söng í kirkjukór Hólaneskirkju þangað til hann dó. Hann var líka organisti í einhverjum kirkjum í nágrenni Skagastrandar og hélt skrá yfir útvarpsmessur um árabil. Þar skráði Mundi hvaða sálmar voru sungnir í hverri messu, hver predikaði og eitthvað fleira sem honum fannst skipta máli. Þegar Mundi varð fimmtugur hélt kirkjukór Hólaneskirkju honum fjölmennt kaffisamsæti. Þá orti bróðir hans, Rósberg G. Snædal, eftirfarandi vísu um hann, sem er frábær mannlýsing á þessu vinsæla góðmenni: Lágur og þrekinn þrammar bæja milli, þambar kaffi, nýtur margra hylli. Í hálfa öld þú hefur þolað gjóstinn, með harmóniku, myndavél og póstinn.

Fatamarkaður á laugardag 5. október

Silfur Hlaðan og Anna Gallerý Verða í félagsheimilinu Fellsborg Skagaströnd laugardaginn 5. október OPIÐ frá kl 12 - 16 Fatnaður fyrir stelpur, konur og dömur á öllum aldri. Flottar haustvörur nýkomnar frá London. Glæsilegar og einstakar glervörur tilvaldar til tækifæris og jólagjafa. Tökum á móti ykkur með brös á vör. Kveðja Erna Rós

Flóamarkaður verður 19. október

Djásn og dúllerí verður með Flóamarkað laugardaginn 19. október frá kl. 14.00 – 18.00. Að þessu sinni verður líka húsgagnahorn á flóamarkaðinum fyrir þá sem vilja selja stóla, innskotsborð, hillur, standlampa o.s.frv. Það er sjálfsagt að koma með myndir af stærri húsgögnum. Þátttökugjald er frá kr. 2.000.- Söluborð eru á staðnum. Hægt er að panta pláss í síma 866 8102 og á Facebook síðunni okkar. Ath. að möguleiki verður að setja myndir af húsgögnum /söluvarningi, sem á að selja á flóamarkaðinum, á Facebooksíðuna okkar. Þeir sem hafa áhuga sendi póst á netfangið: signy.richter@simnet.is

Á Skagaströnd er aldeilis líf og fjör nú á haustdögum.

Í byrjun september hófust námskeið í Zumba Fitness fyrir allt niður í 5 ára börn og upp í 100 ára. En alls eru rúmlega 60 börn og fullorðnir sem stunda þessa skemmtilegu og fjörugu tíma í Zumba einu sinni eða tvisvar í viku. Svo eru Zumbapartý öðru hvoru á laugardögum kl:11:00 fyrir 9 ára og upp úr. Það er Linda Björk Ævarsdóttir alþjóðlegur Zumbakennari sem sér um að halda öllum hópunum í þjálfun og er óhætt að segja að það sé mikið fjör og mikið gaman í Fellsborg á mánudögum og miðvikudögum. Þrír aldurshópar eru í tímunum, 5-8 ára. 9-13 ára og svo 14 ára og upp úr. Í Zumba Fitness er leitast við að hafa fjöruga tónlist sem framkallar mikla hreyfingu, stuð og stemmingu en um leið er líkaminn er styrktur. Sporin eru einföld, stuðið og fjörið mikið og tónlistin af suðrænum slóðum. Sannkölluð gleðisprengja sem kemur öllum í betra form og betra skap á sama tíma. Þrír aldurshópar eru í tímunum, 5-8 ára. 9-13 ára og svo 14 ára og upp úr.