Vinnuskóla-dól.

Landsbankinn á Skagaströnd bauð öllum unglingum og flokkstjórum í morgunkaffi 09.07.2004 Þetta boð var í tengslum við svokallað Vinnuskóla-dól, sem er kynningar herferð á námsmanna þjónustu L.Í. NÁMUNNI. Þau mættu auðvita hress og kát eins og meðfylgjandi myndir bera með sér og þáðu Fanta, kleinuhringi og súkkulaðikex. Þá fengu þau sem ekki eru Námufélagar lítil vasa- útvörp, Námufélagar höfðu áður fengið þau send. Með útvarpinu fylgdi texti með hinu bráðskemmtilega lagi Hrífandi líf, sem byrjar svona: HRIFANDI LÍF, RÍFANDI ARFA Á HNJÁNUM, STRÍÐANDI STUÐ, NAGANDI BÖRKINN AF TRJÁNUM.

Vinabæjamót á Skagaströnd

Dagbók vinabæjamóts á Skagaströnd Dagana 24. – 27. júní 2004 var haldið norrænt vinabæjamót á Skagaströnd. Auk Höfðahrepps eru í vinabæjakeðjunni: Lohja í Finnlandi, Växjö í Svíþjóð, Ringerike í Noregi og Aabenraa í Danmörku. Til vinabæjamótsins hafði verið boðið þremur fulltrúum sveitarfélaga hvers vinabæjar, auk maka og einum fulltrúa norræna félags hvers bæjar, auk maka. Alls voru gestir 33. Fimmtudagur, 24. júní 2004. Fulltrúar vinabæjanna komu allir með sömu flugvél frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur og lentu þar um hádegisbil. Þar beið þeirra rúta sem flutti þá beint norður á Skagaströnd og voru þeir komnir á staðinn um 17.30. Flestallir gestir voru í gistingu í heimahúsum. Gestgjafar tóku á móti sínu fólki og buðu heim. Um kvöldið var formleg móttaka í Viðvíkurkaffi sem er nýtt kaffihús í svokölluðum Gamla skóla sem hefur verið gerður allur upp. Adolf H. Berndsen oddviti setti vinabæjamótið. Eftir það var tónlistatriði þar sem Nína Hallgrímsdóttir og Arnheiður Óskarsdóttir léku nokkur lög á þverflautur undir stjórn Skarphéðins Einarssonar. Þar var einnig veitt kaffi og meðlæti og fólk sat og spjallaði fram eftir kvöldi en flestir höfðu átt langan dag og fóru snemma í háttinn. Föstudagur, 25. júní 2004. Dagskrá hófst með því að allur hópurinn mætti í Hólaneskirkju þar sem Steindór Haraldsson meðhjálpari kynnti kirkjuna, kirkjustarfið og stiklaði á sögu kristninnar. Kór kirkjunnar söng létt lög og gospelsálma við feiknagóðar undirtektir gestanna. Stjórnandi kórsins var Anna Eftir heimsókn í kirkjuna var farin kynnisferð um Skagaströnd þar sem gestum var greint frá því helsta sem staðinn varðaði. Eftir það var ekið sem leið liggur fram í Blönduvirkjun og niður í stöðina þar sem gestir skoðuðu túrbínur og einnig skemmtilega sýningu Jóns Eiríkssonar um kýr. Eftir að hafa þegið góðan málsverð hjá Landsvirkjunarfólki var farið í heimsókn í Hitaveitu Blönduóss að Reykjum. Þar kynntu Jóhanna Jónasdóttir og Kjartan Ólafsson starfsemina. Í Flóðvangi í Vatnsdal hafði Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum kynningu á mikilvægi laxveiða fyrir héraðið og bauð síðan upp á skemmtilega sýningu á “landsmótshestum” á hlaðinu á Sveinsstöðum. Þótti gestum mikið til koma glæsileika íslenska hestsins. Þingeyrakirkja var síðan skoðuð undir leiðsögn Gígju Hólmgeirsdóttur. Í kirkjunni söng Hugrún Sif Hallgrímsdóttir vísur Vatnsenda-Rósu við undirleik Sólveigar Einarsdóttur. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi var að lokum skoðað undir leiðsögn Elínar Sigurðardóttur. Um kvöldið var vinabæjagestum boðið í grill í Kántrýbæ og óskað eftir kántrý-stíl í klæðaburði. Allir fengu hatt á höfuðið og nutu kvöldsins hið besta við dynjandi kántrýtónlist þar sem danshópurinn Hófarnir sýndu bikarmeistaratakta í línudansinum. Laugardagur, 26. júní 2004. Formleg dagskrá hófst með fundi fulltrúa vinabæjanna þar sem hver sagði frá sínum bæ, helstu málum, stefnumiðum, veikleikum og styrkleikum. Varð sú umræða bæði gagnleg og fræðandi. Þar kom m.a. fram að í Ringerike er nú unnið að verkefninu “Veien til Island” þar sem nemendur ákveðins skóla vinna að því með foreldrum sínum og kennurum að safna fyrir og undirbúa heimsókn til Skagastrandar á næsta ári. Að fundi loknum var gestum boðið að smakka hákarl og brennivín í aðstöðu Toppnets og síðan var farið í heimsókn til björgunarsveitarinnar Strandar þar sem starfsemi hennar var kynnt. Eftir að hafa skoðað saltfiskvinnslu Skagstrendings og smakkað á saltfiskréttum fór hópurinn á 12 breyttum jeppum upp í Skagaheiði. Var ferðin í umsjón Björgunarsveitarinnar Strandar. Í heiðinni var reynt við silung í Langavatni en einungis 2 fiskar létu glepjast af maðki og spún. Jeppaferðin var erlendum gestum talsvert ævintýri þar öslað var á 35-44 tommu breyttum jeppum með fjörum Langavatns. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í hefðbundnum stíl vinabæjamóta. Honum var að vísu frestað um nærri klukkustund til að sænsku fulltrúarnir gætu horft á fótboltaleik í Evrópukeppninni milli Svía og Hollendinga. Auk fulltrúa vinabæjanna var boðið til kvöldverðarins Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlandanna, gestgjöfum og þeim sem höfðu lagt vinabæjamótinu sérstaklega til svo og fyrrverandi hreppsnefndarmönnum á Skagaströnd. Ráðherrann ávarpaði samkomuna á norsku og fléttaði skemmtilega saman gamni og alvöru. Alda Ingibergsdóttir söng léttar aríur og heillaði áheyrendur með góðum flutningi og leikrænum töktum. Á kvöldverðinum færðu vinabæir gjafir og fluttu þakkarávörp fyrir mótið og móttökurnar. Sunnudagur, 27. júní 2004. Brottför frá Skagaströnd um kl 10.00 og stefnt suður Kjöl. Veðurútlit hafði verið afleitt fyrir þessa daga vinabæjamótsins en ótrúlega vel hafði ræst úr, bjart veður og fremur milt alla dagana og var sunnudagurinn þar engin undantekning. Ferðin suður hálendið var því með góðri fjallasýn og jöklarnir, skart íslenskra öræfa, nutu sín vel. Á Hveravöllum skrapp meirihluti hópsins í heitu laugina og í Kerlingafjöllum var stansað til að fá súpu og salat. Þegar kom suður af Kjalvegi lá beint við að heimsækja Gullfoss og Geysi en vinabæjamótinu lauk síðan formlega á Þingvöllum þar sem Adolf H. Berndsen, oddviti sleit því á palli lögréttu. Það var því þreyttur en alsæll hópur sem kvaddist í Reykjavík með áheitum um að hittast eftir tvö ár í Aabenraa í Danmörku.

Viðvíkurkaffi

Miðvkudaginn 23. júní sl. var opnað í Gamla skólanum á Skagaströnd kaffihúsið Viðvíkurkaffi. Kaffihúsið er hugsað sem menningarkaffihús og að þar verði til staðar upplýsingar bæði um menningu, sögu og umhverfi staðarins. Fyrir rekstri Viðvíkurkaffis standa þær Dagný Sigmarsdóttir, Kristín Kristmundsdóttir og Sigrún Lárusdóttir. Opnunartími kaffihússins er eftirfarandi: mánudaga - fimmtudaga kl. 14.00 - 22.30 föstudaga kl. 14.00 - 23.30 laugardaga kl. 11.00 - 23.30 sunnudaga kl. 11.00 - 22.30 Í kaffihúsinu er uppi sýning á gömlum ljósmyndum frá Skagaströnd úr safni Guðmundar Kr. Guðnasonar.

Gamli skólinn var vígður 19. júní 2004.

Gamli skólinn, Bjarmanes var vígður eftir gagngerar endurbætur laugardaginn 19. júní sl. Húsið er allt nýuppgert, utan sem innan. Fjöldi manns mætti við vígsluna í blíðskaparveðri og þáðu léttar veitinga um leið og húsið var skoðað. Við vígsluna var einnig opnuð sýning á ljósmyndum Guðmundar Kr. Guðnasonar. Lárus Ægir Guðmundsson, formaður byggingarnefndar hússins afhenti Adolf H. Bendsen, oddvita húsið með táknrænum hætti. Í máli hans kom fram að húsið var byggt 1912 sem verslunarhús og hafi þjónað því hlutverki til ársins 1921. Ári síðar hófst skólahald í húsinu sem stóð allt fram til ársins 1958. Samhliða var húsið notað til ýmissa þarfa. Þar voru íbúðir og vistarverur einstaklinga en jafnframt var húsið samkomuhús og fundarstaður. Eftir að skólahaldi lauk var húsið gert að íbúðarhúsi en varð seinna notað sem afgreiðsla sýslumanns og aðstaða lögreglu auk þess að þar voru varðveittir gripir Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar. Við vígslu hússins kom fram að það er eigandi hússins Höfðahreppur sem stóð fyrir endurbyggingu þess en fékk myndarlegan stuðning úr Húsafriðunarsjóði. Einnig kom fram að Jon Nordsteien arkitekt hafi annast allar teikningar og hönnun, Flosi Ólafsson, Línuhönnun hafi séð um verkfræðilega þætti en Helgi Gunnarsson, trésmíðameistari haft yfirumsjón með framkvæmdum. Endurbygging hússins þykir hafa tekist sérstaklega vel og húsið er nú allt hið glæsilegasta.

Fréttatilkynning frá Heimilisiðnarsafninu á Blönduósi

"Samtal við fortíð" Guðrún Gunnarsdóttir opnar sína 17 einkasýningu í Heimilisiðnaðarsafninu á Blöndósi fimmtudaginn 27.maí 2004 kl. 17:00. Á sýningunni leitast Guðrún við að tengja saman fortíð og nútíð út frá hugmyndum hins gamla handverks sem er að finna í Heimilisiðnaðarsafninu auk annara safna á Íslandi. Ekki er verið að vinna með handverkið sem slíkt aðeins verið nota fornar hefðir sem kveikju að nýrri nálgun. Í stað gamalla ljósadúka, prjónless og útsaums eru verkin þrívíddar veggskúlptúrar, úr fíngerðum vír og silkiþræði. Líkt og áður fyrr í útsaumsverkum tengjast verkin hinu smæsta og fíngerðasta úr náttúrunni, en eru þó meira eins og þrívíddarteikniningar á vegg. Guðrún hefur hlotið starfslaun myndlistarmanna, styrki, kennt og sýnt víða hér á landi sem erlendis og er hinn helmingurinn af TÓ-TÓ sem er einn af aðstandendum Kirsuberjatrésins, Vesturgötu í Reykjavík. Þeir sem eiga leið um á fimmtudaginn þá endilega lítið inn. Sýningin verður síðan opin á opnunartíma safnsins alla daga kl. 10-17 frá 1. júní til 31. ágúst.

Skagaströnd fær úthlutað sparkvelli.

KSÍ ákvað 17. maí að úthluta 60 sparkvöllum víðs vegar um landið eftir að hafa fengið tilboð í gervigras á vellina, en það verður hlutverk KSÍ að leggja og útvega fyrsta flokks gervigras á vellina sveitarfélögunum að kostnaðarlausu. Miðað er við vellir þessir verði helst staðsettir á skólalóðum viðkomandi sveitarfélaga. Alls bárust umsóknir um 105 velli frá 59 sveitarfélögum. Höfðahreppur sótti um völl og fékk úthlutun. Vellir þessir eru ca. 18x33 m. af stærð, þeir eru upplýstir og með gervigrasi eins og áður segir. Verkefni þetta er samstarfsverkefni KSÍ, Knattspyrnusambands Evrópu, stjórnvalda og síðan sveitarfélaganna. Sambærilegur sparkvöllur kom á Sauðárkrókur fyrir nokkru og hefur notið mikilla vinsælda. Hreppsnefnd Höfðahrepps mun á næstunni ræða við forráðamenn KSÍ um málið í framhaldi af því verða frekari ákvarðanir teknar. Verði af þessari framkvæmd er ljóst að hún mun kosta sveitarfélagið fjármuni en ekki liggur fyrir á þessu stigi hvaða upphæðir er um að ræða.

Styrkir til leikskóla- og grunnskólakennaranáms!

Á fundi Hreppsnefndar Höfðahrepps, 17. maí sl., var samþykkt að veita 2 námsstyrki, að upphæð 250 þúsund kr. hvorn á ári, til einstaklinga sem hyggjast stunda kennara- eða leikskólakennaranám. Styrkirnir eru veittir með því skilyrði að viðkomandi einstaklingur starfi, að loknu námi, jafn mörg ár við grunnskólann eða leikskólann á Skagaströnd og styrktíma nemur. Hér með er auglýst eftir umsóknum um þessa styrki. Umsóknarfrestur er til 10. júní nk. Umsóknum skal skilað á skrifstofu Höfðahrepps. Allar nánari upplýsingar veita Birna Sveinsdóttir, Ingibergur Guðmundsson og Magnús B. Jónsson.

10. bekkur - Að loknum samræmdum prófum

Að loknum samræmdum prófum 10. bekkinga, nánar tiltekið síðastliðinn þriðjudag var haldið af stað í skólaferðlag. Birkir Sigurhjartarson umsjónarkennari og foreldrarnir; Guðjón Guðjónsson og Helga Bergsdóttir voru með í för. Farið var yfir Þverárfjall með rútu, en fyrsti áningarstaður var Fjölbrautaskóli Norðurlands- vestra á Sauðárkróki. Skoðaðar voru verk- og bóknámsdeildir og heimavist, undir leiðsögn heimamanna en heimsókninni lauk með veitingum í mötuneyti skólans. Áfram var haldið til Akureyrar, en þar skelltu allir sér á skauta. Kvöldmaturinn, flatbaka mikil, var tekinn nánast á svellinu, en skautað var stíft í tvo tíma. Þá lá fyrir að finna náttstað, en hafði sá verið pantaður með fyrirvara. Um kvöldið var farið í bíó en að því loknu var sest við spjall og spil. Flestir voru sofnaðir um þrjúleitið en einhverjir höfðu með sér vökustaura og sváfu lítið fyrir vikið. Allir voru samt vaknaðir upp úr níu og flestir stungu sér í sundlaug þeirra Akureyringa sem mun vera ögn lengri en flestir Skagstrendingar eiga að venjast. En ekki dugar að næra andann, maginn vill fá sitt og var því sest við hamborgaraát á Glerártorgi. Nú, þá var komið að Verkmenntaskólanum, þar var arkað um langa ganga og verknámsdeildir skoðaðar. Vélfræði, rafiðn, listabrautir margskonar, kokka- og sjúkraliðarbrautir svo nokkuð sé nefnt. Þar sem margir voru farnir að verða þreytulegir eftir andvökunótt var ákveðið að labba út í Menntaskóla til að safna orku fyrir næsta þátt. Þegar þangað kom hittum við þar fyrir Húnavallaskóla nemendur í sömu erindagjörðum. Þar voru aftur gengnir gangar, arkað út og suður um gömul hús og ný. Mestur áhugi virtist þó vera á Fjósinu en svo er leikfimisalur þeirra Menntskælinga kallaður enda upprunalega smíðað sem fjós. Í einni skólastofunni í Gamla skólanum var öllum boðið upp á veitingar sem féllu í góðan jarðveg. Að lokum var hlaupið upp á nýju nemendagarðana í heimsókn til Skagstrendinganna sem þar hafa búið í vetur. Eftir Brynjuís var haldið af stað heim og rennt var upp að Höfðaskóla um kvöldmatarleytið á miðvikudegi. Þetta var fínt ferðalag, þar sem allir stóðu við sitt enda fengu krakkarni hrós frá bílstjóranum fyrir prúðmennsku. Helga Bergsdóttir

Hreppsnefnd vill sædýrasafn

Á fundi hreppnefndar Höfðahrepps sem haldinn var 17. maí 2004 var samþykkt að óska eftir viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um samstarf við ríkisvaldið um uppbyggingu og rekstur sædýrasafns á Skagaströnd. Sjá fundargerð hreppsnefndar dags. 17.maí 2004

Frá tónlistarskólanum

Tónlistarskóli A-Hún, Skagastrandardeild, hélt árlega vortónleika sína í Hólaneskirkju miðvikudaginn 5. maí sl, þar sem fram komu allflestir af þeim 33 nemendum sem stundað hafa nám við skólann í vetur.