28.04.2004
Síðasta vetradag bar vel í veiði hjá börnunum á
Barnabóli. Ísak Karl 6 ára og pabbi hans, hann Tryggvi
komu með nokkuð af veiðinni á Arnari HU-1 í
leikskólann til að sýna börnunum.
Fiskarnir voru af mörgum stærðum og gerðum. Þorskur,
skata, skötuselur, gulllax, háfur og pétursskip komu
upp úr pokanum ásamt fleiri furðudýrum. Vinsælastur
var háfurinn, hann var svo stór og skrýtinn, en
skötuselurinn var samt ljóstastur. Eins og myndirnar
bera með sér var þetta vinsæll viðurburður og þökkum
við Ísaki Karli og pabba hans kærlega fyrir hugulsemina.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
21.04.2004
Sumardagurinn fyrsti er á morgun. Víða sjást þess
merki að gróður og umhverfið er að taka
stakkaskiptum. Námskeið í trjáklippingum og umhirðu
garða hófst í gær að frumkvæði Skagastrendings.
Hópur áhugasamra garðeigenda mætti til að sækja sér
fróðleik og þekkingu í ræktun og umhirðu garða og
gróðurs undir leiðsögn umhverfisstjóra. Bæði var farið
yfir grunnatriðin og einnig heimsóttir nokkrir garðar þar
sem gróður var skoðaður og snyrtur. Tími vorverka og
hækkandi sól eru merki sumarsins sem kemur óðfluga
þessa daganna. Höfðahreppur óskar öllum gleðilegs
sumars.
20.04.2004
Kæru Skagstrendingar.
Ég er mætt aftur til starfa eftir veikindafrí og hvet ykkur til að nýta
ykkur þjónustu Námsstofunnar, nú sem fyrr. Um leið vek ég athygli
á nýjum viðverutíma mínum á Námsstofunni og vona að þessi
breyting sé til hagsbóta fyrir alla þá fjölmörgu sem nýta sér
þjónustuna. Kveðjur, Fríða.
Nýr viðverutími kennara á Námsstofu:
mánudaga kl. 19:30 - 20:30
þriðjudaga kl. 15:00 - 17:00
fimmtudaga kl. 09:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00
16.04.2004
Hið árlega páskamót í innanhússbolta fór fram í
íþróttahúsinu laugardaginn 10. apríl. Mótið var tvískipt
annars vegar yngri flokkur (4.-8. bekkur) og hins vegar
fullorðinslið. Í yngri flokki kepptu þrjú lið og í eldri flokki
voru alls átta lið. Heildarfjöldi keppenda var um 70 og
fjöldi áhorfenda var 50-70 manns.
15.04.2004
Myndlistarsýning nemenda í Leikskólanum Barnabóli
sem staðið hefur yfir í Landsbanka Íslands síðan 13.
apríl var sett upp á Dvalarheimiliinu Sæborg á
Skagaströnd rétt fyrir páskana, en Pétur Eggertsson
forstöðumaður Sæborgar hafði óskað eftir að fá
sýninguna næst.
Leikskólabörnin sáu sjálf um að flytja listaverkin og
hengja upp á veggi í
matssalnum hjá vistmönnum Sæborgar.
Það stefnir greinilega í að þetta verði að farandsýningu,
svo allir bíða spenntir eftir því hvert hún fer næst!
Listamennirnir eru að vonum ánægðir með þessar góðu
móttökur og vona að verk þeirra gleði augu
Sæborgarbúa.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri
13.04.2004
Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir hugmyndum
um rekstur og starfsemi í Gamla skólanum,
Bjarmanesi. Húsið sem var byggt 1913 verður allt gert
upp og stílfært til þess tíma sem það var byggt.
Skipulag hússins verður þannig að efri hæðin er að
mestu einn salur með anddyri, salerni og
eldunaraðstöðu neðri hæð verður minna frágengin og
líklegt að það nýtist helst sem geymslurými. Reiknað
er með að Námsstofa verði til húsa í Bjarmanesi yfir
vetrarmánuðina en óskað eftir hugmyndum um rekstur
og nýtingu yfir sumarmánuðina. Jafnframt er óskað eftir
að þeir sem hafa góðar hugmyndir séu annað tveggja
tilbúnir að framkvæma þær á eigin spýtur eða geti bent
á leiðir til að hrinda þeim í framkvæmd.
Hugmyndum skal skilað á skrifstofu Höfðahrepps fyrir
16. apríl nk. og þar er einnig hægt að fá teikningar af
fyrirkomulagi hússins.
Hreppsnefnd Höfðahrepps.
07.04.2004
Fiskmarkaður Skagastrandar hefur keypt hluta af
Hafnarlóð 6, sem áður var mjölskemma SR mjöls og
hefur undanfarnar vikur verið unnið að breytingum á
húsnæðinu fyrir markaðinn. Verið er að steypa nýtt
gólf í húsið og var steypunni, um 70 m3, ekið frá
Sauðárkróki. Fiskmarkaðurinn flytur væntanlega inn í
húsið í júní nk. og rýmkast þá mikið um starfssemi
hans. Talsverð aukning hefur verið í veiðum smærri
báta frá Skagaströnd síðustu ár enda er umtalsverð
veiði í Húnaflóa allt árið um kring. Í nýrri stofnmælingu
botnfiska á Íslandsmiðum kemur fram að mest veiddist
af þorski á Húnaflóa og djúpt út af Norðausturlandi.
Uppbygging á þjónustu við útgerðir við Húnaflóann er
því mikilvæg og varð um 6,5% aukning í lönduðum afla
á Skagastrandarhöfn á síðasta ári.
31.03.2004
Björgunarsveitin Strönd færir nemendum 4. bekkjar
námsefni í slysavörnum. Ernst K. Berndsen afhenti
Hallbjörgu Jónsdóttur kennara námsgögnin, nemendur
fengu einnig afhentar stundaskrár frá Landsbjörg.
23.03.2004
Olís hf. færði Íþróttahúsinu og Golfklúbbnum "skólagolf
tösku" sem inniheldur ma. 14 kylfur, 8 grasmottur auk
pútthringja og innanhús golfbolta. Á næstunni verður
haldið námskeið fyrir nemendur skólans í samráði við
Höfðaskóla.
17.03.2004
Að venju var haldið í hefðir bræðranna þriggja, bollu-
sprengi- og öskudags.
Börnin bjuggu til bolluvendi sem þau höfðu með sér
heima til að geta bollað mömmur og pabba með
eldsnemma á bolludagsmorgni. Í leikskólanum fengu
allir bollur með rjóma, sultu og súkkulaði. Í hádegi á
þriðjudegi fengu börnin saltkjöt og baunir, allir urðu að
smakka, sumir hámuðu í sig súpu og kjöt en aðrir létu
sér nægja kjöt og kartöflur.
Öskudagur er síðastur í röðinni, en sá er
skemmtilegastur þeirra bræðra, a.m.k í augum
barnanna.„ Þá fær maður að klæða sig í búning og
koma með sverð í leikskólann“ sagði ungur maður. „
Já, og mála sig í framan“ sagði annar. „Ég ætla að vera
risaeðla“ tilkynnti sá þriðji. Börnin örkuðu um þorpið og
sungu fyrir fólkið, en alltaf er byrjað á því að syngja fyrir
eldri borgarana á Sæborg, sem bíða með eftirvæntingu
eftir börnunum.
Við vorum líka svo heppin með veðrið að þessu sinni en
komið hefur fyrir að öskudagssönginn hefur þurft að slá
af vegna tillitsleysis veðurguðanna.
Helga Bergsdóttir leikskólastjóri