06.02.2004
Hafin er undirbúningur að opnun skíðasvæðisins í
Spákonufelli og standa vonir til þess að hægt verði að
opna lyftuna á næstu dögum komi ekki neitt óvænt upp
á. Nægur snjór er á svæðinu eins og þessar myndir
bera með sér. Verið var að losa vírinn þegar myndirnar
voru teknar en eftir er að færa til snjó, yfirfara lyftuna og
hreinsa snjó í kringum Skíðaskálann.
05.02.2004
Þorrablót Kvenfélagsins Einingar á Skagaströnd verður
haldið laugardaginn 14. febrúar nk. og fer forsala miða
fram 8. febrúar milli kl. 12.00 og 13.00 í
Félagsheimilinu Fellsborg. Miðaverð er 4.100 kr. en
eldriborgarar og unglingar fæddir 1988 greiða 2.500 kr.
Skemmtiatriði verða í höndum valinkunnra úrvalsaðila
og hljómsveitin Von frá Sauðárkróki spilar fram eftir
nóttu.
03.02.2004
Grænlenski togarinn Arctic Wolf frá Ilulssat hefur verið
við tilraunaveiðar á krabba undan farnar vikur á nokkrum
stöðum við landið. Hafa þeir m.a. reynt fyrir sér við
Breiðafjörðinn. Skipið er í höfn á Skagaströnd þessa
dagana en búið er að leggja krabbagildur í Húnaflóa og
beðið er eftir heppilegu veðri til að vitja um aflann.
Skipið var leigt til veiða fyrir E. Ólafsson, íslenska
útgerð en áhöfnin mun vera að hluta til erlend. Arctic
Wolf hefur verið við krabbaveiðar við Grænland á liðnum
árum og náð góðum árangri með þær veiðar.
28.01.2004
Loksins kom ærlegur snjór, já en... alltof mikið í einu,
sagði einhver. Hvernig er þetta með þennan meðalveg
sem allir eru að tala um. Hafa veðurguðirnar aldrei
heyrt um hann. Hann er með mátulega miklum snjó,
góðum brekkum, 3-4 stiga frosti og sólskini.
Við auglýsum hér með eftir honum en meðfylgjandi eru
nokkrar myndir af börnunun á Barnabóli að leik
í „ofursnjósköflum“ á Skagaströnd.
Leikskólastjóri.
23.01.2004
Hreppsnefnd Höfðahrepps þakkar Björgunarsveitinni
Strönd fyrir ómetanlega aðstoð við íbúa og atvinnulíf
þegar óveður gekk yfir Skagaströnd dagana 12. – 16.
janúar 2004.
Hreppsnefndin metur mikils hið fórnfúsa starf
björgunarsveitarmanna og annarra sjálfboðaliða sem
unnið hafa við björgun verðmæta og aðstoð við íbúa. Sá
samhugur sem birtist í störfum þessa fólks er til
fyrirmyndar og styrkir samfélagið á erfiðum tímum.
Skagaströnd, 22. janúar 2004.
Hreppsnefnd Höfðahrepps
22.01.2004
Gangur lífsins er nú sem óðast að taka á sig eðlilegt
horf eftir óveðurskaflann sem gekk yfir í síðustu viku.
Snjómokstri af götum er að mestu lokið og orðið vel
fært um allan bæinn. Hlákan sem kom í kjölfar
óveðursins hefur hjálpað mikið til við að breyta öllu útliti
byggðarinnar. Bátarnir sem sukku í höfninni eru allir
komnir á þurrt og hafa ýmist verið teknir til viðgerðar
eða settir í biðstöðu þar til ákveðið verður um framtíð
þeirra. Hreinsun á niðurbrotnu þaki Vélsmiðju Karls
Berndsen stendur yfir og hönnun viðgerða er hafin. Ekki
er fyrirséð hvernig verður leyst úr því máli.
08.01.2004
Frá og með janúar 2004 verður viðvera umsjónarmanns Námsstofu
sem hér segir:
- Á þriðjudögum kl. 19:30 - 21:30
- Á miðvikudögum kl. 17:00 - 19:00
- Á fimmtudögum kl. 10:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00