28.10.2004
Síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag dvöldu hér góðir
gestir frá Ringerike. Þetta voru aðstoðarskólastjóri Hov
Ungdomsskole í Hönefoss (Ringerike), mæður tveggja
nemenda í 10. bekk og tveir myndatökumenn.
Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa
nemendasamskipti Hov Ungdomsskole og Höfðaskóla
næsta vor og kynnast aðstæðum hér á landi en einnig
eru Norðmennirnir að vinna að gerð myndbands um
allan undirbúning og framkvæmd
nemendasamskiptanna.
Nemendur 9. og 10. bekkjar Höfðaskóla hafa
undanfarið ár verið í samskiptum við nemendur 10.
bekkjar í Hov Ungdomsskole í Hönefoss, vinabæ
Skagastrandar í Noregi. Ástæða samskiptanna er
væntanleg utanlandsferð þessara nemenda Höfðaskóla
til Hönefoss í maí á næsta ári og heimsókn 10. bekkjar
frá Hönefoss í byrjun júní sama ár.
Þrátt fyrir að kennaraverkfall hindraði eðlilegt skólastarf
þá hittu Norðmennirnir nemendur 9. og 10. bekkjar utan
skólans, kynntust félagslífi og áhugamálum þeirra
ásamt því að skoða atvinnulífið í staðnum. Þá gistu þeir
á heimilum foreldra nemenda í 9. og 10. bekk.
13.10.2004
Nýtt björgunarskip
Björgunarsveitin Strönd og Björgunarbátasjóður
Húnaflóa eru nú komin með samkomulag við
Landsbjörgu um kaup á björgunarskipi frá Bretlandi.
Með góðum stuðning sveitarfélaga við Húnaflóa,
fyrirtækja og einstaklinga hefur tekist að fjármagna
skipið með þeim hætti að ljóst er að það mun koma til
landsins innan fárra vikna. Um er að ræða öflugt skip af
sömu gerð og sýnt var í Skagastrandarhöfn um síðustu
páska.
Starfsmaður óskast
Björgunarbátasjóður auglýsir eftir starfsmanni í 50%
starf til og hafa umsjón með björgunarskipinu, viðhaldi
þess og búnaði. Hann hafi einnig það hlutverk að
annast eftirlit með skipinu í höfn og bera ábyrgð á
leiðbeiningum og æfingum áhafnar skipsins.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Reynir Lýðs.
Umsóknarfrestur er til 25. október 2004.
Nafn á skipið
Björgunarbátasjóður leitar jafnframt eftir nafni á hið nýja
björgunarskip. Hugmyndakassi verður settur upp í
söluskálanum og björgunarsveitarmenn taka einnig við
hugmyndum.
Nýr björgunarsveitarbíll
Björgunarsveitin hefur fest kaup á nýrri Toyota Land
Cruiser 90 bifreið. Bíllinn er í breytingu fyrir 38” dekk og
jafnframt verður settur í hann allur sá búnaður sem
björgunarsveitir gera kröfur um í bíla sína. Sveitin mun
fá hann afhentan í byrjun nóvember. Við það tækifæri
verður bíllinn til sýnis og jafnframt mun Toyota hafa
bílasýningu á Skagaströnd.
Þökkum góðan stuðning við starf okkar,
stjórn Björgunarsveitarinnar Strandar.
09.10.2004
Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps
þriðjudaginn 12. október 2004 á skrifstofu hreppsins kl
16.00.
Dagskrá:
1. Tillögur sameiningarnefndar um breytingar á
sveitarfélagaskipan.
2. Erindi hreppsnefndar til fjárlaganefndar.
3. Námsstofa – tenging FS nets.
4. Byggðakvóti – umsókn um byggðakvóta
5. Starfsleyfi fyrir sorpurðun Höfðahrepps í
landi Neðri Harrastaða
6. Gjaldskrá fyrir hundahald
7. Bréf
a) Lánasjóðs sveitarfélaga,
dags. 28. sept. 2004.
b) SSNV um aukaársþing,
dags. 24. sept. 2004.
c) Sambands íslenskra sveitarfélaga um
fjármálaráðstefnu, dags. 3. sept. 2004.
d) Sambands íslenskra sveitarfélaga um
landsþing, dags. 21. september
e) Stéttarfélagsins Samstöðu,
dags. í september 2004.
f) Norræna félagsins í Ringerike,
dags. 13. sept. 2004.
g) Svavars Sigurðssonar, dags. 3. sept. 2004.
h) Undirbúningshóps um stofnun textílseturs,
dags. 20. sept. 2004.
8. Fundargerðir:
a) Byggingarnefndar, 20. ágúst 2004.
b) Leikskólanefndar, 15. sept. 2004.
c) Skólanefndar, 16. sept. 2004.
d) Stjórnar SSNV, 27. ágúst 2004.
e) Stjórnar SSNV, 1. sept. 2004.
f) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag,
24. ágúst 2004.
g) Heilbrigðisnefndar Nl.v. 28. sept. 2004.
h) Launanefndar sveitarfélaga, 15. sept. 2004.
9. Önnur mál.
10.09.2004
Ævintýrið Skrapatungurétt
Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu
Dagana 18. og 19. september verður mikið fjör í Austur
Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í
Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för
með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa
alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta leigt hesta
hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta.
Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 18.
september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í
Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um
Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Þeir reiðmenn sem
koma með hesta sína á föstudegi í Strjúgsstaði eru
beðnir að hafa samband við landeigenda í síma 846
0411. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal, hvíla hestar og
menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar
verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað
kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í
Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt
landsins. Þátttakendur eru beðnir að virða það, að ekki
er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni.
Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu
stóðinu sem telur hundruð. Í ár hefur verið búið til nýtt
embætti í kringum þennan viðburð,
ferðamannafjallkóngur. Fyrstur til að bera þann titil er
Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss.
Ferðamannafjallkóngurinn, sem er heimavanur á
þessum slóðum, mun sjá um fararstjórn og leiðsögn
ferðamanna í stóðsmöluninni.
Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með
gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að
Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá
Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími
um 40 mín.
Á laugardagskvöldinu kl 20 verður haldið til grillveislu í
reiðhöllinni við Blönduós. Þeir sem vilja snæða í
grillveislunni er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn
17.september í síma 452 7171 eða 896 6011.
Partýstemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um
kvöldið í Félagsheimili Blönduóss. Á
Réttardansleiknum leikur hljómsveitin Sixties fyrir
dansi.
Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í
Skrapatungurétt um kl. 10. Bændur ganga í sundur
hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft
finna menn og konur sinn draumagæðing í
smalamennskunni eða í réttunum. Mikið úrval
söluhrossa verður á boðstólnum í Skrapatungurétt og
hægt að gera góð kaup.
Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna
og ferðafólks þar sem er spilað sungið og skemmt sér
að sið Íslendinga.
Allir eru gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari
upplýsingar og bókanir í stóðsmölun, í síma 891 7863
eða í netfangi haukur@anv.is
04.09.2004
Togarinn Örvar HU 2 sem fara átti í slipp í Póllandi á
næstu dögum fer ekki fyrr en í byrjun janúar á næsta
ári. Ástæður þessarar seinkunar er að
skipasmíðastöðin sem átti að taka hann upp hefur
mikið af verkefnum og seinkaði því slipptökunni.
Togarinn kom inn til löndunar fyrir mánaðarmótin og
landaði rúmum 250 tonnum af unnum afurðum. Afli
skipsins í síðustu veiðiferð mun því hafa verið nærri 350
tonn upp úr sjó, aðallega grálúða. Aflaverðmæti var um
65 milljónir króna eftir 38 úthaldsdaga. Örvar mun halda
til veiða í næstu viku á þriðjudag - miðvikudag.
03.09.2004
Slysavarnaskóli sjómanna kom til Skagastrandar
dagana 2.-3. september sl. með skólaskipið Sæbjörgu
vegna endurmenntunarnámskeiðs sjómanna.
Námskeiðið sóttu um 30 sjómenn. Námskeiðið var
hnitmiðað og vel að því staðið frá hend
Sæbjargarmanna, þar var farið yfir helstu atriði sem
geta komið fyrir út á rúmsjó. Má þar m.a. nefna:
eldvarnir, meðferð slökkvubúnaðar, björgun manna á
sjó með ýmsum búnaði og meðferð
gúmmibjörgunarbáta. Björgunarsveitin Strönd á
Skagaströnd og Björgunarsveitin Blanda á Blönduósi
komu fyrir fluglínutækjum frá fjöru út í grjótgarð þar sem
björgunarsveitirnar sýndu meðferð þeirra og menn
dregnir á milli í björgunarstól. Þegar upp var staðið voru
menn virkilega ánægðir með komu Sæbjargar og telja
þetta nauðsynlegan þátt í fræðslu sjómanna. Í lokin
fengu þátttakendur skirteini um þátttökuna (maritime
safety and survival training centre).
Unglingadeild björgunarsveitarinnar Strandar fékk
kynningu í meðferð slöngubáta, bæði bóklega og
verklega kennslu. Unglingarnir fengu að nota
slöngubátana á rúmsjó og tóku þátt í æfingum í björgun
fólks úr sjó. Og fengu kynningu á notkun
neyðarbúnaðar skipa bæði gúmmíbjörgunarbáta og
búnaði sem í þeim er. Unglingadeildin tók virkan þátt í
undirbúningi námskeiðsins og hjálpuð til við að koma
fluglínubúnaði fyrir. Alls tóku 12 unglingar þátt í
æfingunni.
23.08.2004
Opna KB banka golfmótið á Skagaströnd var haldið í
frábæru veðri í laugardaginn 21. ágúst. Mót þetta sem
jafnframt er minningarmót um Karl Berndsen tókst í alla
staði vel. Keppendur voru 34 frá 10 golfklúbbum.
Sigurvegari í kvennaflokki án forgjafar varð Árný L.
Árnadóttir GSS á 86 höggum. Hún sigraði einnig með
forgjöf og lék á 77 höggum. Í karlaflokki án forgjafar
sigraði Jóhann Ö. Bjarkason GSS eftir bráðabana við
Pál Valgeirsson GOS, léku þeir á 83 höggum. Með
forgjöf sigraði Guðjón H. Sigurbjörnsson GSK á 66
höggum.
20.08.2004
Vinnuskólinn hófst í sumar þann 8. júní og lauk þann
17. ágúst. Í sumar var mikil gróska og mikið fjör og
tóku nýir flokkstjórar við krökkunum og báru þær báðar
sama nafnið “Heiða” eða Heiðurnar eins og krakkarnir
kölluðu þær. Í vinnuskólanum voru á bilinu 25- 30
unglingar sem sinntu bæði stórum og smáum verkum.
Áhersla var lögð á að bærinn okkar væri sem
fallegastur, en minna var um slátt þetta sumar vegna
lítilla rigninar og vöxtur í grasi var því ekki mikill.
Vinnuskólinn sá einng um að tína rusl, sópa götur
bæarins og plokka íllgresi úr sprungum í gangstéttum.
Sérstakir arfa og íllgresis leiðangrar voru farnir um allan
bæinn þar sem njólinn var lagður í einelti og höggvinn
hvar sem til hans sást. Vinnskólinn sá að mestu um að
tjaldstæðið í bænum liti vel út í sumar.
Vinnskólastarfinu lauk með ferð sem var hreint ótrúleg,
því farið var í RAFTING þar sem róið og flotið var niður
vestari Jökulsá í Skagafirði. Eins og gefur að skilja með
kraftmikinn unglingahóp var mikið fjör í þeirri ferð.
Auðvitað lentu margir í ánni. Allir komu þó heilir heim
en misjafnlega blautir. Eftir slark í Jökulsá var haldið á
Ólafshús á Sauðárkróki í dýrindis pizzu hlaðborð að
hætti Óla og svo að lokum var haldið heim á Ströndina
Að lokum viljum við Heiðurnar þakka öllum þeim sem
voru í vinnuskólanum fyrir frábært sumar
Takk fyrir okkur.
Heiðurnar
19.08.2004
Þriðjudaginn 17. ágúst var líflegt að líta yfir
hafnarsvæðið. Verið var að landa úr Arnari HU og Örvar
HU kom inn til að taka olíu. Auk þess var talsvert
landað úr hraðfiskibátum sem hafa aflað bærilega að
undanförnu.
Togarinn Örvar heldur síðan á veiðar á ný og kemur
aftur inn til löndunar um mánaðarmótin en þá verður
skipið búið að vera á veiðum í um 38 daga. Afliabrögð
togaranna hafa gengið misjafnlega Örvar hefur einkum
verið á grálúðuveiðum og þar hefur þokkalegt verð á
afurðum bætt upp fremur dræma veiði. Í undirbúningi er
að Örvar fari í slipp í haust þar sem hann verður
hreinsaður og málaður og skut hans slegið út til að
bæta sjóhæfni skipsins.
Arnar var í fyrri hluta síðasta túr á karfaveiðum en þegar
botninn datt úr þeim fór hann í aðrar tegundir aðallega
þorsk, ýsu og ufsa. Veiðarnar gengu ágætlega og
landar hann nú um 365 tonnum af unnum afurðum sem
eru að aflaverðmæti um 68 milljónir. Umreiknað í afla
upp úr sjó er veiðin um 650 tonn og þar af úthafskarfi
um 1/3 aflans. Arnar mun síðan halda til veiða í
Barentshafi og fara til veiða í rússneskri lögsögu.
Veiðiheimildir þar eru um 750 tonn og reiknað með að
kvótinn verði tekin í einni veiðiferð.
29.07.2004
Höfðaskóli sem verið hefur bleikur frá 1995 mun hljóta
nýjan svip og nýjan lit á næstu vikum. Samið hefur
verið við Trésmiðju Helga Gunnarssonar að endurmála
skólahúsið. Þegar undibúningur hófst að því verki kom í
ljós að gamla málningin var orðin svo þykk á elsta hluta
hússins að ákveðið var að hreinsa hana af því ella myni
hún springa og flagna af. Sprunguviðgerðir munu einnig
fara fram áður en yfirmálun verður framkvæmd. Litur
hússins hefur verið skemmtilega til umræðu undanfarin
ár. Margir hafa látíð í ljósi efasemdir um hinn bleika lit
en aðrir hafa látið sér vel líka. Flestir hafa haft skoðun á
litnum og orðaskipti um hann oft verið skemmtileg. Nú
mun væntanlega kveða við annan tón í litavalinu en
ráðamenn skóla og sveitarfélags hafa sett um
véfréttasvip þegar spurt hefur verið um litinn. Hvað sem
því líður þá er skólinn nú í tveimur litum, gamla gula
litnum sem upphaflega var á húsinu og bleika litnum
sem einkennt hefur húsið undanfarin ár. Reiknað er
með að verkinu verði lokið í septembermánuði.