24.09.2008
Listamennirnir í Nes-listamiðstöðinni verða með opið hús á laugardaginn frá kl. 14 til 18. Ben Kingsley frá Bandaríkjunum ætlar að vera með margmiðlunarverkefni og filma fjölda manns sem hrópar hina amerísku upphrópun „Yee-Haw“. Það útleggst á voru ástkæra og ylhýra sem „Jí-ha“. Merkingin er dularfull en án efa fjölbreytt enda er þetta notað í alls kyns kringumstæðum, meðal annars hefur það oft heyrst í kábojmyndum. Ekki eru gerðar neinar sérstakar kröfur um klæðnað í tilefni dagsins.
Klukkan 18 mun rússneski rithöfundurinn Ivetta Gerasimchuk lesa upp úr verkum sínum á ensku í Kántrýbæ. Mðal annars mun hún lesa það sem hún hefur skrifað á Skagaströnd, þar á meðal „Óðinn til Skagastrandar“ í máli, myndum og tónlist.
Átæða er til að hvetja fólk til að hitta septemberfólkið í Nes- listamiðstöðinni en þau eru kát og hress og líkar greinilega lífið hér á Skagatrönd. Þess ber auðvitað að geta að listamennirnir eru margir nokkuð þekktir í heimalöndum sínum.
24.09.2008
Fimmtudaginn 25. september n.k. leggur línudanshópur Skagastrandar land undir fót og flýgur út til Glasgow. Er stefnan tekin á Linedance festival in Bute 26-29 sept 2008.
Festivalið er haldið í lítilli eyju rétt utan við Glasgow sem nefnist Rothesay the ISLAND of Bute. Festivalið hefur verið haldið um árabil og þangað koma margir víða að til að nema þá skemmtilegu danslist sem línudansinn er. Toppkennarar eru fengnir til að kenna ásamt góðum kántrý hljómsveitum.
Þeim sem langar að fræðast um festivalið geta farið inn á heimasíðu þess sem er : http://www.butelinedance.co.uk/
Ákveðið var þann 10 september 2007 að fara á línudansfestivalið í september 2008 og hefur því biðin verið löng en er nú komið að fardögum og ríkir að sjálfsögðu mikil eftirvænting í hópnum.
Gaman er að segja frá því að meðlimir hópsins koma nú úr 3 sveitarfélögum af 4 í sýslunni en æfingar fara fram 1 sinni í viku á Skagaströnd að sjálfsögðu.
Heimasíða hópsins er : http://hofarnir.blogcentral.is/
Fyrirhugað er að halda byrjendanámskeið í október til að efla hópinn enn frekar og hvet ég alla til að skrá sig sem áhuga hafa á dansi, bæði karla sem konur þegar það verður auglýst.
16.09.2008
Nú byrjar þessi skemmtilega spurningakeppni í Kántrýbæ föstudagskvöldið 26. september næstkomandi, og verður framvegis hálfsmánaðarlega ef áhugi er fyrir hendi. Tilgangurinn er fyrst og fremst að skemmta sér, spurningarnar eiga ekki að vera erfiðar, heldur fjölbreyttar og draga fram almenna þekkingu, síður sérhæfða.
Keppnin hefur verið haldin vikulega í mörg ár á skemmtistaðnum Grand Rokk í Reykjavík, á Langa Manga á Ísafirði, Café Riis á Hólmavík, Sjallanum á Akureyri og víðar.
Tveggja manna lið
Leikurinn fer þannig fram að keppt er í liðum og eru tveir í hverju liði. Að loknum spurningum er farið yfir svör og má óska eftir að spyrill lesi einstaka spurningar aftur. Liðin fara ekki yfir eigin svarblöð heldur er svarblöðunum safnað saman og þeim svo dreift aftur af handahófi.
Spyrillinn er dómari
Í leiknum er aldrei sami spyrillinn tvisvar í röð. Spyrillinn semur spurningarnar og er dómari og raunar alvaldur.
Hafi tvö eða fleiri lið jafnmörg rétt svör eftir 30 spurningar skal gripið til bráðabana. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja 3 spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir það, skal spyrill spyrja spurninga, einnar og einnar í einu þar til úrslit fást.
Bjórspurning
Í hverri keppni er „bjórspurning“. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun þarf sigurliðið að vera með 15 svör eða fleiri rétt.
Keppnisgjöld eru engin, en mælst til að keppendur kaupi á bjór á barnum, kaffi eða gosdrykki - þess vegna heitir keppnin „Drekktu betur“.
Spyrill í fyrsta skiptið verður Sigurður Sigurðarson, markaðsráðgjafi Sveitarfélagsins Skagastrandar. Ekki hefur verið ákveðið hver verður næsti spyrill en auðvitað eru allar tillögur vel þegnar.
16.09.2008
Listin að lesa úr innmat.
Nú þegar sumri er tekið að halla og septembermánuður heilsar með fallandi laufum og næturfrosti, er rétt að huga að haustverkum á öllum betri heimilum. Á það ekki einungis við um sultugerð og kartöflutínslu því haustinu fylgir líka sláturtíð með viðeigandi verkum og því rétt að láta hendur standa fram úr ermum. En þegar staðið er yfir sláturpottunum eða keppir saumaðir á síðkvöldum leitar hugurinn að komandi vetri og þeirri tíð sem í vændum er. Verða jólin hvít eða rauð? Þarf að grafa upp síðbrækurnar í október? Verður hægt að spila golf fram að aðventu? Íslendingar hafa löngum notast við þjóðlegar aðferðir til þess að segja fyrir um veður komandi vetrar og er rétt að rifja þær upp nú í upphafi sláturtíðar og eyða um leið þeirri óvissu sem óljós vetrartíð hefur í för með sér.
Ekki þarf að leita langt yfir skammt í þessum efnum því reynslan sýnir að finna má svör við flestum okkar veðurspurningum í innmat hinna ýmsu dýra. Þannig er tilvalið að skoða garnir fyrstu sauðkindarinnar sem slátrað er á haustin og gæta vel að innihaldinu, enda getur það gefið óbryggðula vísbendingu um veðurfarið. Þar sem garnirnar eru fullar af gor er góðrar tíðar að vænta en tómu kaflarnir vita á harðindi og snjó. Svo er hægur vandi að reikna út dagsetningar eftir því hvort gorinn liggur framarlega eða aftarlega í görnunum.
Óvíst er að allir komist auðveldlega yfir kindagarnir en þá má benda á nautgripamilta sem þjónað getur sama tilgangi. Nokkrar aðferðir eru þekktar við að spá í milta en sú sem er hvað einföldust byggist á því að skera eða höggva miltað í þrjá hluta, helst blindandi. Veðurspáin er svo lesin frá hægri til vinstri, því stærri sem bitarnir eru, því verri tíð. Jafnir bitar vita hinsvegar á góðan vetur. Ráðlegt er að hafa sjúkrakassann við höndina þegar slíkur spágjörningur er framinn, þar sem óvanir gætu hoggið eitthvað annað en ætlunin var – sér í lagi með bundið fyrir augun.
Þó langtímaspár séu ágætar getur einnig verið gott að hafa við höndina tæki sem spáir fyrir um nánustu veðurframtíð. Það á sérstaklega við ef fólk hefur misst trúna á veðurfræðinga sjónvarpsins og vill taka málin í eigin hendur. Í slíkum tilfellum má notast við kýrblöðru sem blásin er upp og kallast þá veðurspámaður. Þegar blaðran er lin er von á stilltu veðri en stormi ef veðurspámaðurinn er harður. Með þessu móti ætti veðrið aldrei að koma á óvart, svo ekki sé minnst á hversu vel uppblásin kýrblaðra fer í stofu.
Af þessu má ráða að það er hægur vandi hverjum þeim sem áhuga hefur að gerast veðurfræðingur, svo framarlega sem hann hefur aðgang að nægum innmat og iðrum.
Spákonuarfur, Skagaströnd
15.09.2008
Skagstrendingar geta eins og aðrir á Norðurlandi vestra búist við að veðrið verði bara aldeilis gott fram í desember. Þetta fullyrðir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á bloggi sínu, http://esv.blog.is. Hann segir að hlýrra verði hér en meðaltal og lítið um rigningu.
Einar segir þetta:
a. Frekar hýtt á landinu. 1-2°C yfir meðalagi, einkum norðvestantil og norðanlands. 50-70% líkur að það verði í hlýjasta lagi (80% eða í efsta fimmtungi) b. Fremur úrkomusamt verður um vestanvert landið miðað við meðaltal, en úrkoma í meðaltali eða þaðan af minna austan- og suðaustanlands.
Meira um tilkomulítil, en rakaþrungin lægðardrög.
c. Hærri þrýstingur yfir hafsvæðunum suðaustur af landinu og Skandinavíu. Lægðagangur hér við land minni og ómerkilegri heilt yfir en annars hér á haustin.
d. Ríkjandi vindar verða frekar S og SV á kostnað A- og NA-átta.
Reikningar IRI við Colombia háskólann í New Yorkgefa svipaðar niðurstöðu, þ.e. að á Íslandi séu verulegar líkur á meðalhita þessa mánuði í efsta þriðjungi. Breska Veðurstofan gerir ráð fyrir nokkuð stöðugu veðri á Bretlandseyjum með minni úrkomu en í venjulegu árferði, í samræmi við háþrýsting að jafnaði þar og norður á okkar slóðir.
Horfur um veður í sumar gengu ótrúlega vel eftir. Við sjáum hins vegar til með haustið.
11.09.2008
Göngur og réttir verða á Skagaströnd á laugardaginn. Samstímis verður smalað í Skagabyggð og réttað í Fossárrétt og Kjalarlandsrétt.
Fé og hross af heiðinni, Spákonufellsborg og heimahögum verður rekið að Spákonufellsrétt og verður þar bæði fjárrétt og hrossarétt. Eigendum ber að vera til staðar við réttina og hirða búfé sitt svo að réttarstörfum verði nú lokið fyrir myrkur.
Af reynslu fyrri ára má gera ráð fyrir því að réttir hefjist einhvern tímann á bilinu 13 til 15 á laugardaginn.
09.09.2008
Þeir eru margir sem sækja sjóinn frá Skagaströnd. Hún Katy Hertell, myndlistarmaður frá Finnlandi, fer hins vegar í sjóinn á Skagaströnd.
Og hvað í ósköpunum fær fólk til að baða sig í köldum sjó? Það vita varla aðrir en þeir sem hafa reynt það og þeir eru fjölmargir, jafnvel nokkrir á Skagaströnd.
Sjóböð ku vera svo óskaplega holl og góð. Fyrir utan þá vellíðan sem færist í kroppinn eftir stutt bað í köldum sjó er leitun að betra meðali gegn kvefi og raunar flestum öðrum kvillum. Sjá nánar bloggsíðu Sjósundmanna Íslands, http://sjosund.blogspot.com/.
Margir hafa séð meðfylgjandi mynd af Magnúsi B. Jónssyni sveitarstjóra kvótalausan á fiskiríi fyrir utan Skagaströnd (skyldi Sjávarútvegsráðuneytið vita af þessu ...?).
Annars væri ekki vitlaus hugmynd að stofna til sjóbaðfélags.
Áhugasamir geta hafa samband við Sigurð á skrifstofu sveitarstjórnar.
08.09.2008
Þriggja daga leirlistanámskeið verður haldið í kjallaranum á Café Bjarmanesi og hefst það miðvikudaginn 10. september.
Það er Steinunn Ósk Óskarsdóttir, sem stendur fyrir námskeiðinu en hún hafði í sumar umsjón með veitingastaðnum í Bjarmanesi.
Námskeiðið hefst klukkan 20 og stendur í tvær klukkustundir hvert kvöld.
Steinunn Ósk veitir allar upplýsingar í síma 6929283.
05.09.2008
Dagana 13. og 14. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur leigja hesta hjá heimamönnum eða mæta með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 13. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að aðstaða til að geyma hross nóttina fyrir smölunardag er við sandnámu við Strjúgsstaði (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrra verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Hann er heimavanur á þessum slóðum og mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni.
Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín.
Á laugardagskvöldinu verður auk hefðbundins matseðils sérstök stóðréttarmáltið í boði á Pottinum og Pönnunni Blönduósi.Opið verður á veitingahúsinu við Árbakkann þar sem í boði verður hefðbundinn matseðill.
Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum.
Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga.
Að þessu sinni slæst með í för kvikmyndatökulið. Unnið er að gerð heimildamyndar um viðburðinn.
Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um þjónustu má fá í síma: 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is.
02.09.2008
Í nýbyrjuðum september koma fjöldi listamanna til Skagastrandar og dvelja hjá Nes-listamiðstöð. Þeir heita:
Ivetta Gerasimchuk, rithöfundur, Rússland,
Jessica Langley, myndlistarmaður/málari, Bandaríkin
Ben Kinsley, myndlistarmaður/skúlptúristi, Bandaríkin
Kate Dambach, myndlistarmaður/málari, Bandaríkin
Katy Hertell, myndlistarmaður/málari, Finnland
Albane Hupin, myndlistarmaður/blönduð tækni, Frakkland
Julien Toulze, myndlistarmaður/blönduð tækni, Frakkland
Aglae Bassens, myndlistarmaður/málari,
Belgíu Bryndís Bragadóttir, leikkona, Ísland