Fjöldi manns í opnu húsi Nes-listar

Fjöldi manns sótti heim Nes-listamiðstöðina á laugardaginn en þá buðu listamenn heimamönnum og raunar öllum Húnvetningum upp á opið hús. Boðið var upp á léttar veitingar og listamennirnir útskýrðu list sína, sögðu frá því sem þeir unnu að og svöruðu fyrirspurnum. Þetta voru þau Timo Rytkönen frá Finnlandi, Kate Dambach frá Bandaríkjunum og Ben Taffinder frá Bretlandi og Carola Luther, rithöfundur frá Suður Afríku sem las ljóð. Dvalartíma þessara listamanna er nú að ljúka og þar sem þau voru svo ánægð með vitina langaði þeim að þakka fyrir sig með opnu húsi. Í „frystinum“ svokallaða var listsýning Hrafnhildar Sigurðardóttur en hún er framkvæmdastjóri Nes-listamiðstöðvar. Þrátt fyrir annríki við reksturinn hefur henni gefist tími til listsköpunnar. Ssýningin nefndist „Allt í plasti“.  Hrafnhildur verður með aðra sýningu í StartArt listamannahúsi Laugarvegi 12b í Reykjavík og hún nefnist „Leikhlé – Time out“. Sú sýning verður opin þriðjudaga til laugardaga kl.  13.00 – 17.00 og lýkur 7. janúar. Síðdegis þennan laugardag bauð svo Sverrir Sveinn Sigurðarson rithöfundur upp á fyrirlestur í Kántrýbæ og fjallaði hann um ferðir Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar í Vesturheimi. Hann bar saman tvær fornsögur, Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða og dró af þeim margvíslegar ályktanir. Til viðbótar hefur Sverrir Sveinn safnað fjölda heimildum um frumbyggja á þessum slóðu, „skrælingja“, eins og þeir eru eru kallaðir í fornritunum. Hann bar síðan þessar upplýsingar saman við það sem fram kemur í áðurnefndum sögum og dró þá ályktun að þrátt fyrir að sögurnar væru mjög ólíkar væru þær í grunnin nokkuð áreiðanlegar. Sverrir Sveinn hefur á Skagaströnd unnið að því að skrifa skáldsögu um ferðir Karlsefnis og Guðríðar og samskipti þeirra við frumbyggja. Meðfylgjandi myndir tók Signý Richter.  

Kreppuráð Láru - frábær fyrirlestur

„Ef mér gengur illa að sofna af áhyggjum segi ég bara gafall, gaffall, gaffall, gaffall í huganum. Gaffall hefur aldrei valdið mér neinum vandamálum. Þannig reyni ég að ýta burtu úr huga mér þunglyndislegum hugsunum sem gera mér ekkert gott,“ segir Lára Ómarsdóttir á afar fróðlegum og ekki síður skemmtilegum fyrirlestri í Bjarmanesi í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn af Vinnumálastofnun og Farskóla Norðurlands vestra. Lára var eini fyrirlesarinn og tilgangurinn var að hún segði frá þeim ráðum sem hún og eignmaður hennar hefðu gripið til þegar erfiðleikar steðjuðu að fjölskyldu hennar. Hið höfum það ágætt núna sagði Lára sem kynntist miklum fjárhagserfiðleikum fyrir nokkrum árum. Hún og maður hennar eiga fimm börn og það var ekkert grín að finna ráð til að fæða og klæða svona stóra fjölskyldu þegar lausafé var naumt og reikningarnir hrúguðust inn. Eflaust hefðu einhverjir látið hugfallast, en ekki Lára. Hún segir að það geti verið erfiðir tímar framundan en finnst ekki ástæða til að kvíða því sérstaklega. Fjölskyldan setti sér ákveðna heimspeki sem byggði á skipulagi í naumum fjárhag og ekki síður að sjá alltaf vonarglætu í tilverunni. „Greiddu fyrst af öllu reikninganna,“ segir Lára ákveðin. Svo bætir hún við: „Þó maður eigi ekki mikla peninga þýðir ekkert að leggjast í þunglyndi. Við höfum bara áhyggjur af fjármálunum þrjá daga í mánuði, síðasta dag mánaðarins og tvo fyrstu dagana. Síðasta dag mánaðarins vorum við oft ansi fátæk og þá var akkúrat tími til að hafa áhyggjur af því hvort maður eigi mat fyrir fjölskylduna. Daginn eftir er útborgunardagur og þá skipulegg ég fjármál mánaðarins.“ Lára segist gera plan til eins árs. Hún ákveður fyrirfram að greiða reikninga á réttum gjalddögum, standa í skilum með allt. Ef hún sér fram á að geta það ekki þá leitar hún til lánardrottna og biður um lagfæringu á láni, því ekki má láta lánin fara í vanskil, það er einfaldlega alltof dýrt. Þegar hún hefur gengið frá greiðslum á lánum þá sér hún hvaða peninga hún á til annarra hluta. „Og þeir hafa oft ekki verið miklir,“ segir Lára. Fjölskyldan sest niður og gerir þá áætlun fyrir heilan mánuð. Býr til töflu og skráir hvað eigi að vera í morgunmat, hádegismat, miðdegiskaffi og kvöldmat. „Oftast er ekkert kvöldkaffi enda bara óhollt að borða fyrir svefninn,“ segir Lára og hlær hlátri sem ekki er ólíkur þeim hrossahlátri sem einkennir karl föður hennar, Ómar Ragnarsson, fréttamann, stjórnmálamann og grínara. Lára deilir síðan handbærum peningum niður á hverja viku og þá kemur í ljós hvað má eyða á hverjum degi. „Kreditkort er verkfæri djöfulsins, það á maður aldrei að nota,“ segir Lára. „Því fylgir bara kostnaður og ofneysla,“ og orðum hennar fylgir mikil sannfæring. Hún segist ekki heldur nota debetkort vegna þess að það hvetur aðeins til meiri eyðslu. “Best er að hafa seðlana í höndunum, nákvæmlega þá fjárhæð sem maður þarf að nota hverju sinni.“ Og það gerir Lára þegar hún verslar í matinn. Hún fer út í Bónus með innkaupalista og kaupir ekkert nema það sem á honum stendur og skrifar verðið hjá sér og reiknar út heildarfjárhæðina áður en hún fer á kassann. „Stundum stemmir ekki hjá mér vegna þess að verslanir eru stundum með annað verð í hillum en á kassa. Þeir sem nota kort þeir taka ekkert eftir þessu og á því græðir verslunin. Hugsið ykkur ef vara er einni krónu dýrari á kassanum, þá græðir verslunin rosalega.“ En lífið er ekki bara fjármál hjá Láru. Hún sagðist hafa lært það í erfiðleikum sínum að ekki væri allt tómt svartnætti. „Alltaf er eitthvað gott, eitthvað til að þakka fyrir,“ segir hún. „Ég hef það fyrir venju að þakka fyrir smá og stór atriði sem gefa lífinu gildi. Ég þakka fyrir að vakna á morgnanna, þakka fyrir að sjá börnin mín, þakka fyrir gott veður. Ég þakka meira segja fyrir þegar einhver heimiliskötturinn strýkst við fótlegginn á mér. Það er svo ákaflega margt sem er gott og ástæða til að þakka fyrir það. Með þessu móti sér maður lífið í öðru ljósi og allt verður skemmilegra.“ Og fjölskyldan naut lífsins þrátt fyrir naum efni. Raunar var það þannig hjá Láru að skipulagið átti vel við börnin: „Þau vilja hafa allt i föstum skorðum. Þegar við höfum hætt að gera svona áætlun þá hafa börnin kvartað. Þau vilja líka halda sig við hana, kvarta ef ekki er réttur matur á borðum. Hins vegar vita þau að lífið er ekkert endilega sanngjarn. Við þurfum ekki öll að borða jafn mikið, og stundum borðar einhver meira en hann mátti. Þannig er það bara.“ Fjölskyldan skemmtir sér og reynir að njóta lífsins. „Við fíflumst að minnsta kosti eitt kvöld í viku,“ segir Lára og fundargestir skilja ekki. Hún skýrir mál sitt: „Til dæmis á föstudagskvöldi tökum við okkur til og klæðum við okkur upp í asnalega búninga og við fíflumst einfaldlega eins og við getum, syngjum og látum eins og við eigum ekki að gera. Þetta eru ákaflega skemmtileg kvöld, við fáum útrás og á eftir líður öllum svo óskaplega vel.“ Hér er ekki pláss til að endursegja allan fyrirlestur Láru. Um tuttugu manns komu og hlýddu á fyrirlesturinn og er óhætt að segja að allir hafi haft bæði gagn og gaman af. Allir hrifust af þessari hugrökku konu sem var svo hreinskilin, sagði frá lífi sínu, mistökum sínum og endurreisn. Nú þegar mikið rætt um kreppu og ýmis konar óáran er tilvalið að taka Láru sér til fyrirmyndar. Lífið heldur áfram og það er kostur að geta sveigt það eftir aðstæðum sem stundum virst geta verið grimmar en þegar nánar er að gáð eru möguleikarnir óteljandi. Allt er það spurning um hugarfar.

Ný prestur valinn á næstu dögum

Þrír sóttu um embætti sóknarprest á Skagastönd. Frestur til að skila inn umsóknum rann út 14. nóvember.  Umækjendur eru  Arndís Ósk Hauksdóttir, Salvar Geir Guðgeirsson og Ursula Árnadóttir.   Valnefnd sóknarnefndar ásamt prófasti Húnavatnsprófastsdæmis hefur undanfarið rætt við þá sem sóttu um. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um nýjan prest verði tekin nú í vikunni og biskup veiti embættið veitt frá 1. desember og gildir ráðningin til fimm ára.

Jólaföndur í Höfðaskóla

Þann 29. nóvember verður árlegur jólaföndurdagur foreldrafélagsins haldinn, þetta hefur hingað til verið frábær dagur þar sem öll fjölskyldan kemur saman og föndrar og hefur gaman af.   Við viljum minna á að jólaföndrið er opið öllum sem vilja koma, svo endilega bjóðið afa og ömmu eða bara hverjum sem er með.   Eins og áður er þetta sama dag og piparkökubaksturinn í leikskólanum.    Fjörið stendur frá kl. 13:00 – 16:00   Foreldrafélagið verður með ýmiskonar jólaföndurvörur til sölu og einnig verður selt kaffi og kökudiskur.   Mjög gott er að hafa í huga að koma með skæri, límstifti, föndurliti, pennsla og nál ef fólk á.   Vonumst til þess að sjá sem flesta í jólaskapi   Stjórn foreldrafélagsins

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 25. nóvember 2008 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2008 2. Gjaldskrár sveitarfélagsins 3. Frumhönnun sundlaugar 4. Viðbygging verknámshúss FNV 5. Fjárhagsáætlun Byggðasamlags um menningar- og atvinnumál 6. Bréf: a) Dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 9. september 2008. b) Óbyggðanefndar, dags. 28. október 2008. c) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 12. september 2008. d) Siglingastofnunar, dags. 9. október 2008. e) Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands, dag. 7. október 2008. f) Heimilisiðnaðarsafnsins, dags. 19. október 2008. g) Menningarráðs Norðurlands vestra, dags. 17. október 2008. h) Knattspyrnusambands Íslands, dags. 24. október 2008. 7. Fundargerðir a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 5.11.2008. b) Menningarráðs Norðurlands vestra, 14.10.2008. c) Menningarráðs Norðurlands vestra, 28.10.2008. d) Samtaka minni sveitarfélaga, 12.11.2008. e) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 7.10.2008. f) Stjórnar SSNV, 30.09.2008. g) Stjórnar SSNV, 15.10.2008. h) Stjórnar SSNV, 4.11.2008. i) Stjórnar Sambands ísl. sv.fél, 10.10.2008. j) Stjórnar Sambands ísl. sv.fél, 31.10.2008. 8. Önnur mál

... án þess að glata gleðinni

Hin landsþekkta fréttakona Lára Ómarsdóttir verður með fyrirlestur í Bjarmanesi 26. nóvember klukkan 20 til 22.  Yfirskrift fræðslufundarins er Hagsýni og hamingja – Hvernig lifa má af litlu án þess að glata gleðinni. Hún er fimm barna móðir sem talar af reynslu og mun kynna góð ráð í kreppunni og á að öllum líkindum erindi við alla á þessum erfiðum tímum.   Lára heldur fleiri fundi og fundarstaðir eru sem hér segir:   Bíókaffi Siglufirði, þriðjudaginn 25. nóv. kl. 16:30 – 18:30. Höfðaborg Hofsósi, þriðjudaginn 25. nóv.kl. 20:00 – 22:00  Ólafshúsi Sauðárkróki, miðvikudaginn 26. nóv. kl. 16: 30 – 18:30  Pottinum og pönnunni Blönduósi, fimmtdaginn 27. nóv. kl. 16:30 – 18:30  Kaffi Síróp Hvammstanga, fimmtudaginn 27. nóv. Kl. 20:00 – 22:00   Fundirnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis. Það er Vinnumálastofnun á Norðurlands vestra og Farskólinn, miðstöð símenntunar sem stendur að fundunum.

Viðburðaríkur laugardagur í Nes-listamiðstöð

    Óhætt er að segja að laugardagurinn verði viðburðaríkur í Nes- listamiðstöðinn á Skagaströnd. Þá verður opið hús hjá listamönnunum sem þar vinna um þessar mundir. Boðið verður upp á ljóðalestur, frásagnir, myndlistarsýningu og fyrirlestur.  Húsið verður opnað kl. 15 á laugardaginn. Listamennirnir Timo Rytkönen frá Finnlandi, Kate Dambach frá Bandaríkjunum og Ben Taffinder frá Bretlandi munu segja frá verkum sínum og Carola Luther rithöfundur frá Suður Afríku les nokkur ljóð. Hrafnhildur Sigurðardóttir mun opna myndlistasýningu sína í Frystinum, sýningarsalnum, en Hrafnhildur er verkefnisstjóri listamiðstöðvarinnar. Rithöfundurinn Sverrir Sveinn Sigurðarson verður með fyrirlestur kl. 17 í Kántríbæ. í honum mun hann fjalla um Þorfinn Karlsefni, Guðríði og skrælingja. Sverrir notar fjölda mynda við flutning sinn, sýnir ferðir norrænna mann til Grænlands og til Vesturheims. Hann hefur safnað gríðarlegum upplýsingum um „skrælingja“ sem bjuggu á þeim slóðum sem talið er að Íslendingar hafi heimsótt. Óhætt er að segja að Sverrir búi yfir einna mestri þekkingu á ferðum Íslendinga á þessum slóðum. Hluta fyrirlestursins hefur hann flutt í Höfðaskóla og einnig heimsótti hann eldri borgara í Sæborg.   Að sjálfsögðu eru allir boðnir velkomnir í Nes-listamiðstöðina en sérstaklega eru Húnvetningar og Skagfirðingar hvattir til að leggja nú land undir fót og sjá hvað er að gerast á Skagaströnd.    

Signý Richter spyr í Drekktu betur á föstudagskvöldið

    Spurningakeppnin Drekktu betur verður haldin á föstudagskvöldið 21. nóvember kl. 21:30. Spyrill kvöldsins verður Signý Richter og lofar hún fjölbreyttum og skemmtilegum spurningum við allra hæfi.   Sú nýbreytni var tekin upp síðast að ekki var gert uppiskátt hver bjórspurningin var fyrr farið var yfir svörin.   Reglur keppninnar eru m.a. þessar: Tveir í hverju liði 30 spurningar, skrifleg svör, skrifa skýrt og greinilega, merkja blöðin Einn spyrill, sem er dómari og alvaldur, ákvörðun hans er endanleg Bjórkassi í verðlaun fyrir þá sem hafa flest svör rétt „Bjórspurningin“; fyrir rétt svar fæst bjórglas á barnum. Ekki látið vita hvaða spurning það er fyrr en við yfirferð á svörum. Spyrill á að kvitta upp á svörin svo bjórinn fáist afgreiddur Hlé eftir 15 spurningar  Hlé eftir 30 spurningar Ókeypis inn en „drekktu betur“, kaffi, kók, bjór, vín og margt fleira í boði Þegar spurt er um nöfn útlendinga þá er fjölskyldunafnið, eftirnafnið, nóg Þegar spurt er um innlend mannsnöfn þá verður skírnarnafn og föðurnafn að koma fram. Ekki eru gerðar kröfur um réttritun, heldur nægir að svarið hljómi eins og rétt ritað svar Spyrill getur brugðið út af reglum ef um sérstakar aðstæður er að ræða Þátttakendur mega í hófi reyna að koma spyrli í vanda og gera grín að honum Þátttakendur verða að hlýða spyrli og mega ekki trufla aðra Ekki má sækja upplýsingar til annarra, hvorki í síma né á annan hátt.  

Námskeið um verðlagningu á vöru

Verðlagning vöru og þjónustu er oft ýmsum vandkvæðum háð og ósjaldan lenda menn í vandræðum með hana. Þann 24. nóvember verður Útflutningsráð með námskeið í áætlanagerð og verðlagningu útflutningsvöru og þjónustu í samvinnu við KPMG og SSNV-atvinnuþróun.   Námskeiðið verður haldið að Mælifelli á Sauðárkróki, mánudaginn 24. nóvember kl. 13-17. Á námskeiðinu verður fjallað um áhrif mismunandi aðferða á áætlaðan rekstrar- og efnahagsreikning.  Þátttakendur fá einnig áætlunarlíkan í Excel til afnota.  Námskeiðið er ætlað fyrirtækjum í útflutningi á vöru og þjónustu þ.á m. ferðaþjónustufyrirtækjum og öllum er velkomið að sækja það. Ekki er krafist greiðslu.  Nánari upplýsingar veitir Katrín María Andrésdóttir hjá SSNV- Atvinnuþróun, sími 455 6119, kata@ssnv.is. Þar er einnig tekið við skráningu á námskeiðið.  Einnig veitir Inga Hlín Pálsdóttir hjá Útflutningsráði nánari upplýsingar, sími 511 4000, inga@utflutningsra

Menningar- og hátíðardagskrá í Fellsborg

Samkvæmt tillögu menntamálaráðherra hefur Dagur íslenskrar tungu verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, frá árinu 1996. Höfðaskóli hefur ætíð síðan gert mikið úr deginumog haldið upp á hann með einhverjum hætti. Í fyrra var ákveðið í Höfðaskóla skyldi dagurinn einnig vera helgaður minningu Elínborgar Jónsdóttur fyrrverandi kennara við skólannn með því að halda menningar- og hátíðardagskrá fyrir bæjarbúa í félagsheimilinu Fellsborg. Nemendur skólans munu syngja, leika, flytja ljóð, sögur ofl. Í ár eru 50 ár liðin frá því eldri hluti skólabyggingar Höfðaskóla var tekinn í notkun og mun dagskrá kvöldsins því að einhverju leyti tengjast sögu skólans. Aðgangur er ókeypis en skólafélagið Rán verður með kaffi á borðum og veitingasölu í hléi og kostar 350 kr fyrir kaffi/svala og kökudisk. Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla vonast eftir að sjá sem flesta bæjarbúa í hátíðarskapi í Fellsborg.