Fréttatilkynning
06.05.2013
Fyrirlestur um Guðmund Björnsson landlækni (1906 -1931) og umbætur í geðheilbrigðismálum á fyrstu árum 20. aldar verður haldinn á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Skagaströnd og Þekkingarsetursins á Blönduósi, laugardaginn 11. maí klukkan 14:00 í Kvennaskólanum á Blönduósi.
Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn.
Það er Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, sem flytur fyrirlesturinn. Sigurgeir var alinn upp á Akureyri, útskrifaðist af málabraut MA 1985, lauk mastersgráðu í sagnfræði 1996 og kennslufræði frá HA 1999.
Hann vinnur nú að doktorsritgerð sinni sem mun fjalla um sögu geðsjúkra á Íslandi með áherslu á tímablið 1834 til 1910. Sigurgeir hefur víða haldið fyrirlestra um efni sem tengjast rannsóknum hans og nú loksins geta
Rannsóknasetrið og Þekkingarsetrið boðið upp á spennandi fyrirlestur Sigurgeirs um þetta áhugaverða efni.
Guðmundur Björnsson landlæknir var Húnvetningur, fæddur í Gröf í Víðidal 1864. Hann var alþingismaður, landlæknir, héraðslæknir í Reykjavík, kennari við læknaskólann og seinna prófessor í læknisfræði. Hann hafði því mikil og margvísleg áhrif á uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á landinu á fyrstu áratugum 20. aldar m.a. í geðheilbrigðismálum.
Fyrirlesturinn um þennan mæta Húnvetning er samstarfsverkefni Rannsóknasetursins og Þekkingarsetursins og er vonast til að sem flestir taki frá tíma laugardaginn 11. maí til að koma í Kvennaskólann, fá sér kaffibolla og fræðast örlítið um fortíðina.