Jólasveinapóstur

Samningar hafa náðst við þá jólasveinabræður og eru þeir væntanlegir til byggða á Þorláksmessu til að bera út pakka og bréf. Þeir sem vilja nýta sér þjónustu þessara pilta geta hitt umboðsmenn/jólaálfa þeirra í Höfðaskóla föstudaginn 19. desember frá kl.18-20. Bréf 50 kr. Pakki 500 kr. (erum ekki með posa á staðnum) Fyrir hönd jólasveinanna, Foreldrafélag Höfðaskóla

Skólatónleikum frestað vegna veðurs

Nemendatónleikum Tónlistarskóla A-Hún sem vera áttu í Hólaneskirkju kl 17 í dag þriðjudaginn 16. desember er frestað vegna veðurs.

Jólatónleikar í Hólaneskirkju 17. desember

Jólatónleikar Kirkjukór Hólaneskirkju heldur jólatónleika í kirkjunni miðvikudaginn 17. desember kl 20:30. Komið og eigið með okkur hugljúfa og notalega kvöldstund og öðlist hinn sanna jólaanda. Aðgangseyrir 1000 kr. sem rennur í ferðasjóð kórsins. Ekki posi á staðnum Tónlistarstjóri: Hugrún Sif Hallgrímsdóttir Hljómsveit: Guðbjartur Vilhjálmsson Guðmundur Egill Erlendsson Jón Ólafur Sigurjónsson Laufey Lind Ingibergsdóttir Skarphéðinn Einarsson Valgerður Guðný Ingvarsdóttir Einsöngvarar: Hugrún Sif Hallgrímsdóttir Hafþór Gylfason Halldór Gunnar Ólafsson Helga Dögg Jónsdóttir Helga Gunnarsdóttir Herdís Þórunn Jakobsdóttir Jenný Lind Sigurjónsdóttir Jón Ólafur Sigurjónsson María Ösp Ómarsdóttir Sigríður Stefánsdóttir Sigrún Rakel Tryggvadóttir Hljóðblöndun: Ævar Baldvinsson Styrktaraðilar: Minningarsjóðurinn um hjónin frá Garði og Vindhæli Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar

Mynd vikunnar

Skagaströnd. Þessi mynd er líklega tekin um 1980. Hálfa húsið lengst til vinstri eru Sólheimar eldri. Gula húsið sömu megin við götuna er Bjarmaland þar sem lengi HrólfurJónsson (d.1.8.1989) og Sigríður Guðlaugsdóttir (d. 25.3. 1996) með dóttur sinni, Áslaugu. Gula húsið með brúna þakinu er Steinholt þar sem bjuggu Lúðvík Kristjánsson (d. 10.2.2001) og Sigríður (d. 5.7.1962) með fjórum börnum sínum. Skálholt er næsta hús við Steinholt, sömu megin götunnar. Þar bjó eitt sinn Jói norski, Jóhann Baldvinsson (d. 9.4.1990) ásamt konu sinni Core Sofie Poulsen (d. 1987) og börnum. Þá kemur Þórshamar þar sem ýmsir hafa búið en fyrst Kristján Sigurðsson (d. 3.11.1966) verslunarmaður og Unnur Björnsdóttir (d. ?) með sínum börnum á efri hæðinni en Baldur Árnason (d. 14.11.2009) og kona hans Esther Olsen (d. 17.4.2003) á neðri hæðinni með sínum börnum. Í hvarfi við Þórshamar er Þórsmörk en litli kofinn með rauða þakinu á miðri mynd eru fjárhús og hlaða sem tilheyrðu Þórsmörk. Í Þórsmörk bjuggu Sigurður Guðmonsson (d. 5.8.1980) og Hallbjörg Jónsdóttir (d. 22.12.1987) með börnum sínum. Héðinshöfði er næstur í göturöðinni. Þar bjuggu lengst af Ástmar Ingvarsson (d. 10.10.1977) bifreiðastjóri og Sigurjónsdóttir (d. 15.12.1990) og börn þeirra í norðurendanum en í suðurendanum voru lengi Kristinn Jóhannsson (d. 9.11.2002) og Guðný Finnsdóttir kona hans með börnum sínum fjórum. Næst okkur á myndinni með grænu þaki er Höfðaberg. Þar hafa ýmsir búið sér heimili, m.a. Júlíus Árnason (d. ?) með konu sinni Steinunni ?? (d. ?). Næst við Höfðaberg kemur Höfðakot með viðbyggðum fjárhúsum og hlöðu. Þar áttu heima Steingrímur Jónsson (d. 15.1.1992)og Halldóra (d 23.12.1987) ásamt bróður Halldóru, Guðmundi Péturssyni (d. 30.6.1987). Steingrímur og Halldóra eignuðust mörg börn og ólu líka upp tvö barnabörn sín. Stórholt ber yfir Höfðakot en í Stórholti var þríbýli. Á helmingi efri hæðarinnar bjuggu Bernódus Ólafsson (d. 18.9.1996) og Anna H. Aspar (d. 1.9.1999) með fjórum börnum sínum. Á neðri hæðinni sunnanverðri bjuggu lengi Gunnar Helgason (d. 19.10.2007) og Elísabet Kristjánsdóttir (d. 21.3.1991) með þremur börnum sínum. Í norðurenda hússins, uppi og niðri, bjuggu Gunnar Albertsson og Hrefna Björnsdóttir með sonum sínum ásamt móður Hrefnu, Steinunni Jónsdóttur (d. 6.4.1982). Græna húsið hægra megin við Stórholt hét Kárastaðir og þar bjuggu lengi bræðurnir, Sigurbjörn Kristjánsson (d. 10.9.1989) og Kári Kristjánsson (d. 11.12.1990) ásamt ráðskonu þeirra, Jónínu Valdimarsdóttur. Rauða langa húsið með græna þakinu voru vinnubúðir sem voru notaðar fyrir menn sem voru að vinna við endurbætur á síldarveksmiðjunni. Búðirnar voru fluttar hingað frá Kröfluvirkjun þar sem þær höfðu þá lokið hlutverki sínu. Örlög þessa húss urðu þau að það brann til kaldra kola eina nóttina og menn sem þar voru inni sluppu naumlega út.

Sorphreinsun frestað til föstudags

Vegna færðar er sorphreinsun sem vera átti í dag fimmtudag er frestað til morguns. Fólk er beiðið að moka snjó frá sorpílátum svo hreinsunin geti gengið greiðlega. Sorpílát sem eru ekki aðgengileg vegna snjóa verða ekki losuð. Rétt er að minna á að allur frágangur sorpíláta er á ábyrgð notenda og þeir þurfa að tryggja að þau fjúki ekki eða skemmist í óveðrum. Sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun 2015-2018 afgreidd

Á fundi sveitarstjórna 9. desember sl. var samþykkt fjárhagsáætlun 2015-2018. Áætlunin er í raun fjögurra ára áætlun þótt sérstök áhersla sé lögð á áætlun næsta árs, 2015. Við gerð áætlunar var gengið út frá eftirfarandi forsendum: Álagning útsvars verði óbreytt frá yfirstandandi ári 14.52%. Álagningarstuðlar fasteignagjalda verði óbreyttir frá fyrra ári. Sorphirðu- og eyðingargjöld hækki um 3,4% skv. verðlagi. Þjónustutekjur hækki almennt um 3,4% milli ára. Við áætlun rekstrarkostnaðar verði almennt gert ráð fyrir 3,4% hækkun verðlags á árinu. Þrátt fyrir að umræða á sveitarstjórnarstiginu hafi snúist um að miða launaáætlun almennt við 7,5% hækkun milli ára var ákveðið að viðhafa sömu aðferð og undanfarin ár að launaliðir hverrar deildar verið teknir og framreiknaðir með þeim breytingum sem þekktar eru á komandi ári. Í rekstraryfirliti áætlunar 2015 kemur fram að heildartekjur samstæðu eru áætlaðar 519.944 þús., þar af eru skatttekjur 354.289 þús. og rekstrartekjur 165.655 þús. Rekstrargjöld eru áætluð 532.098 þús. þar af kostnaður vegna launa áætlaður 236.474 þús. Rekstrarniðurstaða er áætluð jákvæð um 1.707 þús. Í sjóðstreymi áætlunar er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðu verði jákvætt um 47.245 þús. Samanlagðar fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar 57.800 þús. Að teknu tilliti til fjárfestinga og fjármögnunarhreyfinga er áætlað að handbært fé lækki um 20.555 þús. og handbært fé verði í árslok 579.818 þús. Í áætlun áranna 2016-2018 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu öll árin. Í rekstraryfirliti kemur fram að rétt um helmingur rekstrarkostnaðar aðalsjóðs er vegna fræðslumála eða 235 milljónir af 466 milljóna rekstarkostnaði aðalsjóðs. Áætluð niðurstaða aðalsjóðs er jákvæð um 16,9 milljónir en niðurstaða eignasjóðs og þjónustumiðstöðvar er neikvæð um 26 milljónir. Af því leiðir að A-hluti er með áætlaða 9 milljón króna neikvæða niðurstöðu. Í B-hluta er hafnarsjóður, vatnsveita, félagslegar íbúðir, fráveita og félagsheimili. Áætluð niðurstaða B-hluta er jákvæð um 10,7 milljónir. Munar þar mest um hafnarsjóð sem áætlað er að skili 11,5 milljóna jákvæðri niðurstöðu. Sveitarstjóri

Snjómokstur

Vegna veðurs verður snjómokstri hætt kl 17 í dag miðvikudaginn 10. desember. Miðað við veðurhorfur er gert ráð fyrir að einungis verði haldið opnu á morgun án þess að götur verði mokaðar í fulla breidd, nema veður gangi niður. Mokstur hefst kl 6 í fyrramálið og stefnt að því að helstu leiðir verði opnar kl 7.30. Veður mun þó ráða hvort það tekst. Sveitarstjóri

Gellubúðin í félagsmiðstöðinni

Fatamarkaðnum sem átti að vera í dag er frestað vegna veðurs. Fatamarkaðurinn verður á föstudaginn 12. desember frá kl. 16-19 Gellubúðin

Aldís Embla - Ungskáld Akureyrar

Skagstrendingurinn Aldís Embla Björnsdóttir sem stundar nám við MA hlaut útnefninguna Ungskáld Akureyrar fyrir smásögu sína Einræðisherrann. Á vefnum www.akureyri.is birtist neðanrituð frétt um málið: Aldís Embla er Ungskáld Akureyrar Almennt - 04. desember 2014 - Ragnar Hólm - Lestrar 82 Brynhildur Þórarinsdóttir afhendir Aldísi Emblu verðlaunin. Mynd: Ragnar Hólm. Fyrr í dag voru kunngerð úrslit í samkeppni akureyrskra ungskálda um skapandi skrif og varð Aldís Embla Björnsdóttir hlutskörpust. Fyrir smásögu sína „Einræðisherra“ hlaut hún 50.000 krónur í verðlaun. Önnur verðlaun 30.000 kr. hlaut Kristófer Alex Guðmundsson fyrir ljóðabálk sinn „Brútháll“ og þriðju verðlaun 20.000 kr. Birna Pétursdóttir fyrir leikþáttinn „Bóhemíudrottningin“. Öll þrjú fengu þau ritverkið „Jónas Hallgrímsson – Ævimynd“ eftir Böðvar Guðmundsson að gjöf frá Menningarfélagi Hrauns í Öxnadal. Að samkeppninni stóðu Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmenna-Húsið, Háskólinn á Akureyri, MA og VMA með stuðningi Menningarráðs Eyþings. Tilgangurinn með samkeppninni er að hvetja fólk á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa og einnig að skapa vettvang fyrir þau til að koma sér og skrifum sínum á framfæri. Þetta er í annað sinn sem þessi keppni fer fram. Það var Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri, sem afhenti verðlaunin fyrir hönd dómnefndar. Umsagnir dómnefndar um verkin eru svohljóðandi: Einræðisherra eftir Aldísi Emblu Björnsdóttur Einræðisherra er forvitnileg og vel stíluð smásaga - eða örsaga. Sjónarhornið er skemmtilegt og sögumaður óvenjulegur - enda ekki oft sem smábörn á fyrsta ári láta móðann mása. En merkilegt nokk er þessi ungi sögumaður trúverðugur. Það kannast margir við þetta eigingjarna, stjórnsama eða hreinlega freka barn sem þarna fær rödd. Hnyttinn endirinn varpar hins vegar nýju ljósi á krílið - og sýnir að hér er á ferð lunkinn höfundur. Brútháll eftir Kristófer Alex Guðmundsson Ljóðabálkurinn Brútháll er bæði hressandi og athyglisverður. Að efni og formi er þetta fornkvæði enda er sjálfur Óðinn í aðalhlutverki. Í klaufaskap sínum hefur hann týnt lyklunum að Valhöll og auðvitað endar leit hans með sögulegum bardaga. Stíll og málfar eru með fornu lagi en höfundur tekur sig mátulega alvarlega eins og sjá má á hendingum á borð við ,,Lyklarnir þínir liggja á borðstofuborðinu.” Höfundur hefur ágætt vald á tungumálinu og glottir skelmislega til fortíðarinnar. Bóhemíudrottningin eftir Birnu Pétursdóttur Bóhemíudrottningin er stuttur leikþáttur, einræða, ef til vill hluti af stærri heild. Á sviðinu stendur ung, fátækleg stúlka frá Bóhemíu sem gefur okkur innsýn í líf sitt og örlög. Ræða hennar er lipurlega skrifuð og leikræn framsetningin veldur því að hún stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesanda, með svipbrigðum og látbragði. Höfundi tekst að skapa trúverðuga persónu, töffara sem auðvelt er að hafa samkennd með. Verkin verða birt á heimasíðu Amtsbókasafnsins á Akureyri, www.amtsbok.is.