08.12.2014
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
þriðjudaginn 9. desember 2014 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins.
Dagskrá:
Samningur við Hjallastefnu
Byggðasamlag um menningu og atvinnumál
Fundur stjórnar 19.11.2014
Fundur stjórnar 3.12.2014
Fjárhagsáætlun byggðasamlagsins 2015
Félags- og skólaþjónusta A-Hún
Fundur stjórnar 18.11.2014
Fundur stjórnar 26.11.2014
Fjárhagsáætlun Félags- og skólaþjónustu 2015
Viðaukar við fjárhagsáætlun 2014
Fjárhagsáætlun 2015 -2018 (seinni umræða)
Stjórnsýslukæra R.O.
Bréf:
Växjö kommun, dags. 26. nóvember 2014
Snorraverkefnisins dags. 17. nóvember 2014
Fundargerðir:
Menningarráð Nl.vestra, 10.11.2014
Skólanefndar FNV, 18.11.2014
Stjórnar Samb. ísl. sv.félaga, 31.10.2014
Önnur mál
Sveitarstjóri
05.12.2014
Á síldveiðum
Þessi mynd var tekin um borð í Auðbjörgu HU 6 - þeirri fyrstu
með því nafni á Skagaströnd - á síldveiðum á Húnaflóa.
Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en þessi Auðbjörg var gerð
út frá Skagaströnd árin 1947 - 1959 þannig að myndin hefur
verið tekin einhverntíma á þessu árabili.
Líklega er Auðbjörgin á reknetaveiðum og myndin er lýsandi
fyrir af hverju síldin er kölluð "silfur hafsins" því karlarnir og allt
skipið eru þakin silfurlitu hreistri síldarinnar.
04.12.2014
Á árinu 2014 eru 75 ár frá skiptingu Vindhælishrepps hins forna í þrjú sveitarfélög 1939 og upphaf Höfðahrepps sem í dag heitir Sveitarfélagið Skagaströnd. Í tilefni af þessum tímamótum bauð sveitarfélagið til afmælisveislu í Fellsborg 1. desember sl. Um 180 manns komu og neyttu veislufanga sem kvenfélagið Eining sá um að framreiða.
Þótt sveitarfélagið sé hálfáttrætt er þéttbýlið á Skagaströnd auðvitað töluvert eldra og má í því sambandi rifja upp að íbúar á Skagaströnd voru um 60 um aldamótin 1900 og þá voru 15 hús á staðnum. Verslunarstaðurinn Skagaströnd er enn eldri því elstu heimildir benda til þess að verslun hafi verið hafin hér fyrir setningu einokunarverslunar 1602 því Skagaströnd varð einmitt einn af þessum illa þokkuðu einokunarverslunarstöðum danskra kaupmanna í þau 185 ár sem hún stóð fram til 1787.
Vindhælishreppur hinn forni náði allt frá Skagatá og fram að Kirkjuskarði á Laxárdal. Það tók því að bera á því strax árið 1872, þegar farið var að skipa hreppsnefndir að það þótt langt að sækja fundi fyrir þá sem bjuggu næst endum hreppsins. Hugmyndir um að skipta gamla Vindhælishreppi ná þó enn lengra aftur og hægt að rekja heimildir um þær hugmyndir aftur til ársins 1806. Þá var aðallega talað um að skipta hreppnum í tvo hluta og nefna þá eftir kirkjusóknum Höskuldstaðahrepp og Hofshrepp.
Þorpið á Skagaströnd fór svo að vaxa, einkum á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Þá voru komnar vélar í bátana, búið að steypa fyrstu bryggjuna og raunverulegar hafnarframkvæmdir að hefjast þegar gerður var garður úr landi og út í Spákonufellsey, en vinna við það hófst 1935.
Þegar þarna var komið sögu voru góðbændur í sveitarfélaginu sem voru helstu útsvarsgreiðendur orðnir mjög áhyggjufullir vegna vaxandi íbúafjölda í þorpinu sem þeir sáu ekki fram á að gætu framfleytt sér. Þá var einnig skollin á heimskreppa og ágreiningur milli sveita og þorps fóru vaxandi.
Í hreppsnefndarkosningum 1937 náðu þorpsbúar svo meirihluta í hreppsnefndinni og þá virðist flestum verða ljóst að nauðsynlegt væri að skipta hreppnum upp og eingöngu talað um þrjá hreppa.
Eftir allnokkur fundahöld í öllum nýju hreppshlutunum og störf skiptanefndar þar sem helst var tekist á um hve mikið land ætti að fylgja þorpinu og svo var auðvitað tekist á um ómagaframfærslu og var niðurstaðan að hafa hana sameiginlega í sjö ár eftir skiptingu. Auðvitað voru mörg fleiri úrlausnarmál en þeim var öllum fundinn nýr farvegur. Nýju sveitafélögin áttu að heita Vindhælishreppur , Höfðahreppur og Skagahreppur.
Skipting hreppsins í þrjá hreppa var rædd á fundi hreppsnefndar á þorláksmessu 1938 og þá var ákveðið að aðskilnaður hreppanna tæki gildi 1. janúar 1939 kosning nýrra hreppsnefnda skyldi fara fram 15. janúar 1939
Í þeirri ágætu bók Byggðin undir Borginni segir svo í niðurlagi umfjöllunar um hreppaskiptinguna.
„Ekki munu allir íbúar hreppsins hafa fagnað þessari niðurstöðu; um það vitnar til dæmis vísa Vilhálms Benediktssonar frá Brandaskarði:
Ekki prísa ég ykkar mennt
sem að því verki stóðu
að sundur flísa og saga í þrennt
sveitina mína góðu.
Um áramót 1938-1939 gengur kauptúnsbúar til hvílu í Vindhælishreppi vitandi að þeir myndu vakna upp í nýju sveitarfélagi að morgni án þess að hreyfast úr stað. Er ekki að efa að með ýmsum hafa tilfinningar verið blendnar; hvernig myndi þessu fámenna og fátæka sveitarfélagi farnast? Framhjá því varð ekki litið að margir innbúar hins nýja Höfðahrepps lágu við sveit. En ýmis teikn voru á lofti um betri tíð. Skammt undan voru fengsæl fiskimið og silfur hafsins, síldin, óð á hverju sumri inn allan Húnaflóa.“
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri
Skagaströnd um aldamótin;
04.12.2014
Verða sem hér segir:
Húnavöllum mánudaginn 15. des.að loknum skóla
Skagaströnd í Hólaneskirkju þriðjudaginn 16. des. kl: 1700.
Blönduósi í Blönduóskirkju miðvikudaginn 17. des. kl: 1700.
Allir velkomnir.
Skólastjóri
Minni einnig á heimasíðu skólans en vefslóðin er:
www.tonhun.is
03.12.2014
Spákonuhofið verður opið á miðvikudagskvöldum nú í desember frá kl: 20:00-22:00 ( 3. 10. og 17.des.) Kaffi, kakó og smákökur, sögulestur hefst kl:20:30, smásögur fyrir alla sem hafa gaman af sögum.
Í litla söluhorninu okkar er ýmislegt skemmtilegt til sölu. Handverk úr heimabyggð
Við erum komnar í jólaskap :)
Sigrún og Dadda
03.12.2014
Kósýkvöld í Samkaup Skagaströnd
Fimmtudaginn 4. desember verðum við
með opið til 22:00
12% afsláttur af matvöru
30% afsláttur af sérvöru
Lifandi tónlist klukkan 20:00
Smakk eftir klukkan 18:00 á:
Bayonnskinku
Hangilæri
Malti og appelsíni
Jólaostaköku frá MS
Hlökkum til að sjá ykkur í jólastemningu
Starfsfólk Samkaup Úrval Skagaströnd
02.12.2014
Kveikt á jólatré
Nú lítur út fyrir ágætt veður
fimmtudaginn 4. desember
og þá munum við kveikja á jólatrénu á Hnappstaðatúni kl. 17.00
Heyrst hefur að einhverjir jólasveinar séu sloppnir til
byggða og muni líta við. Sveitarfélagið Skagaströnd
01.12.2014
Vegna veðurs munum við fresta því að kveikja á jólatrénu á Hnappstaðatúni sem fyrirhugað var að gera 1. desember.
Þar sem sveitarfélagið varð 75 ára 2014 viljum við hinsvegar bjóða í kaffi í félagsheimilinu Fellsborg í dag 1. desember kl 17.00.
Sveitarfélagið Skagaströnd