Umsóknir um námsstyrki

Námsstyrkir Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2013-2014 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins og er áður auglýstur umsóknarfrestur framlengdur til 1. apríl 2014. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Aksturstyrkur vegna dreifnáms Jafnframt er framlengdur til frestur til 1. apríl 2014 til að sækja um sérstakan stuðning vegna dreifnáms veturinn 2013-2014. Upplýsingar eru veittir á skrifstofu sveitarfélagsins. Sveitarstjóri

HÁSKÓLADAGURINN

Viltu koma á Háskóladaginn á Akureyri? Háskóladagurinn verður haldinn á Akureyri miðvikudaginn 12. mars kl.11:00-13:30 Þar mæta allir háskólar landsins og kynna námsframboð sitt. Fjölmargar ólíkar námsleiðir eru í boði! Þekkingarsetur á Blönduósi stendur fyrir sætaferðum á Háskóladaginn (verð á mann kr. 1000). Nánari upplýsingar og skráning í tölvupósti á netfangið tsb@tsb.is eigi síðar en 10. mars.

Mynd vikunnar

Síldarlöndun úr Húna HU-1 - Síldarlöndun á Skagaströnd úr Húna HU-1. Þessi mynd var líklega tekin rétt fyrir 1960 og sýnir Húna með fullfermi við löndunar- bryggjuna á Skagaströnd. Utan á Húna er svo nótabáturinn með síldarnótinni um borð. Á þessum árum var síldarnótin lögð úr nótabátnum og síðan fóru karlarnir um borð í hann og drógu hana inn í bátinn með handafli. Hluti nótarinnar var fastur við Húna og þegar karlarnir í nótabátnum voru búnir að draga nógu mikið af henni inn þá hafði síldin í nótinni safnast saman í þétta torfu við hlið bátsins. Þá var háfnum, sem sést fremst á dekkinu á Húna bakborðsmegin, sökkt í torfuna og síldin þannig háfuð um borð. Eftir að lestin var orðin full var háfað í stíur á dekkinu og gjarnan voru síldarbátar á þessum árum með "merar" á lunningunum. Það voru trégrindur sem settar voru ofan á lunningarnar til að hægt væri að koma meiri síld um borð. Eftir í land var komið og síldin var nógu góð til að salta hana tók við mikill þrældómur hjá sjómönnunum við að landa henni. Við það verk voru notaðir handháfar og mokað með þeim í velti - tunnu eins og sést á myndinni. Tunnan var svo hífð í land og sturtað úr henni í handvagn eins og er á bryggjunni. Vagninum var síðan ekið með handafli að síldakössunum þar sem síldarstúlkurnar biðu óþolinmóðar eftir síldinni. Trégöngubrautin sem sést ofan á síldinni var lögð ofan á síldina og milligerðin í stíunum til að síldin merðist síður þegar gengið var um skipið. Húni HU-1 var smíðaður í Austur Þýskalandi 1957 og var 75 brl. og kom nýr til Skagastrandar í október það ár. Hann var síðan seldur frá Skagaströnd 1965 og fórst 2. mars 1976 með átta manna áhöfn en hét þá Hafrún ÁR. (Heimild: Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010 eftir Lárus Ægi Guðmundsson)

Uppskeruhátíð tónlistardaga kórs Hólaneskirkju

Uppskeruhátíð tónlistardaga kórs Hólaneskirkju í máli og tónum í Hólaneskirkju sunnudaginn 9. mars 2014, kl. 14.00 Um helgina tekur kórinn þátt í raddþjálfunarnámskeiði undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur organista og Önnu Sigríðar Helgadóttur messó sópran. Vissulega verður Hugrún okkar Sif einnig virkur leiðbeinandi á námskeiðinu. Nýja sálmabókin Sálmar 2013 skipar stóran sess á tónlistardögum kórsins. Aðalheiður er ein þeirra sem séð hafa um að útbúa bókina. Hún starfar sem píanóleikar, organisti, útsetjari, kennari og tölvusetur nótnabækur ásamt því að syngja með ýmsum kórum. Anna Sigga eins og hún er jafnan kölluð syngur með fjölda kóra og tekur þátt í margskonar tólistarflutningi og hefur starfað sem kórstjóri. Það verður yndislegt að njóta uppskeru helgarinnar hjá kórnum okkar. Við eigum í vændum tónlistarhátíð með fjölbreyttri tónlist og helgiathöfn. Minningarsjóður um hjónin frá Garði og Vindhæli styrkir verkefnið.